Bókhald

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 15:30:00 (2249)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um bókhald sem er í sjálfu sér alleinfalt frv. Það fjallar um reikningsskilaráð og góða reikningsskilavenju. Við 1. umr. þessa máls varð hér nokkur umræða en ég gagnrýndi fáein atriði í þessu frv., sem gerir ráð fyrir því að ráðherra skipi fimm sérfróða menn til fjögurra ára í senn sem nefnist reikningsskilaráð. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda, annar af viðskiptadeild Háskóla Íslands, sá þriðji af Verslunarráði Íslands, sá fjórði skal vera ríkisendurskoðandi en einn nefndarmaður er skipaður án tilnefningar.
    Ég taldi það vera mjög eðlilegt að reikningsskilaráð yrði skipað en taldi varhugavert að ríkið tæki of mikla ábyrgð á því. Það væri viss hætta á því þegar dæmt er í málum sem varða góðar reikningsskilavenjur, að ef um er að ræða túlkanir sem koma frá slíkri

nefnd og ríkið ber ábyrgð á, að þar geti verið um ábyrgð að ræða.
    Nú er það mikilvægt að þessi mál séu vel skilgreind. Og það er eðlilegt að þau eigi sér einhverja stoð í lögum. Það kemur fram í umsögn frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, en þar segir m.a. að sú hefð hafi skapast hér á landi að grundvöllur að reikningsskilagerð sé sóttur í ákvæði laga. Það er hins vegar staðreynd að skipan mála hefur leitt til þess að fyrirmæli geta stundum stangast á við eðlilegar nýjungar í viðskiptaháttum og það tekur alllangan tíma að fá lögum breytt í samræmi við hina nýju viðskiptahætti. Þar af leiðandi getur löggjöfin sem slík ekki verið nægur grundvöllur til að skapa góða reikningsskilavenju, og oft á tíðum er löggjöfin beinlínis í andstöðu við góða reikningsskilavenju. Þannig kunna ákvæði skattalaga að stangast á við góða og gilda viðskiptahætti og það hefur oft komið fyrir að menn hafi kveðið upp úr um það að skipan skattalaga samrýmist ekki slíkum venjum. Það kann jafnframt að vera eðlilegt þar sem skattalög fjalla um það hvernig á að greiða skatt til ríkisins en ekki hvernig góðum reikningsskilavenjum skuli háttað. Því getur það verið fullkomlega eðlilegt að uppgjör samkvæmt góðum reikningsskilavenjum sé með öðrum hætti en skattauppgjör. Menn segja stundum í því sambandi að menn geri upp með tvennum hætti en það getur verið svo að það sé á allan hátt eðlilegt.
    Auðvitað er þetta bagalegt og mikilvægt að málum sé þannig fyrir komið að sem mest samræmi sé í hlutunum. Það er því á margan hátt mjög gott að koma upp nefnd sem þessari sem hefur stoð í lögum og getur fjallað um ýmis almenn ákvæði í lögum og nýjar hefðir og gefið út úrskurði um það hvernig skilja beri góða reikningsskilavenju. Slík nefnd getur að sjálfsögðu brugðist miklu skjótar við en löggjafinn og það er óheppilegt að þurfa ávallt að breyta lögum með tilliti til þeirrar venju sem skapast. Jafnframt er það ljóst að oft á tíðum leitast menn við að skilgreina hlutina með einum of mikilli nákvæmni í íslenskri löggjöf. Það er löng reynsla fyrir því að menn vilja hafa löggjöf ítarlega og nákvæma þannig að hún segi fyrir í einstökum smáatriðum hvernig hlutir skuli vera. Það kallar á það að þróunin getur verið þannig að löggjöfin sé orðin gjörsamlega úrelt og Alþingi hefur ekki haft við að breyta löggjöf í samræmi við þróunina.
    Hitt er svo annað mál að menn leitast nú mjög við að gera það hér á hv. Alþingi enda má segja að hér sé meira um löggjafarstörf en víða annars staðar í heiminum og má draga þá ályktun að við ætlum okkur oft um of í löggjafarstarfi. Þannig hefur t.d. komið í ljós í sambandi við þá umfjöllun sem nú á sér stað um skattalöggjöf að þar stendur til að taka á hinum ýmsu úrlausnarefnum sem komið hafa upp og leysa þau með breytingu á löggjöf. Hins vegar hefur komið fram í umfjöllun að mörg þessara atriða má rekja til þess að það skorti á að núgildandi löggjöf sé framkvæmd og því þurfi meira að leysa málin með sterkari framkvæmd laga en breytingu á löggjöfinni sjálfri.
    Þetta á sérstaklega við um skattamál en á undanförnum þingum geta menn rakið það hversu algengt það er að breytt hafi verið hinum ýmsu atriðum skattalaga og má nánast halda því fram að stjórnvöld hafi lagt hina mestu áherslu á breytingu á löggjöf í skattamálum en þeim mun minni á rétta og skilvirka framkvæmd laganna.
    Það má því segja að hér sé nokkur nýlunda að því leytinu til að það er viðurkennt að löggjöfin getur ekki ráðið við að fylgja þeirri þróun sem á sér stað á sviði reikningshalds en það sé mikilvægt að þar sé fundinn upp fljótvirkari máti til þess að eiga við málin og hér er því gerð tillaga um það að sérstakt reikningsskilaráð hafi með þessi mál að gera.
    Nefndin ákvað að taka þetta mál til skjótrar umfjöllunar en senda það nokkrum aðilum til umsagnar og það var nokkuð fjallað um það hvort rétt væri að breyta frv. Ég mælti með því að taka út þá skipan mála að ráðherra skipaði í þessa nefnd, það væru eingöngu aðilar sem kæmu að málinu og þá kannski ekki síst aðili frá lántakendum í landinu, þ.e. fjármálastofnunum, því að fjármálastofnanir eru meðal þeirra aðila sem mest nota reikningsskil.
    Það má segja að bankarnir í landinu séu mjög háðir því að reikningsskil gefi glögga mynd af afkomu og stöðu fyrirtækja og því er mikilvægt að sjónarmið bankanna í þessu starfi komi fram. Á þetta var ekki fallist í störfum nefndarinnar og þótti ekki rétt að taka nýja aðila þarna inn eða að taka ráðherraskipaðan mann út. Ég tel það ekki hafa verið rétt ráðið en hitt er svo annað mál að það mun ekki valda því að ég treysti mér ekki til að styðja þetta mál.
    Það kom fram í sambandi við undirbúning málsins --- og vitna ég þar til greinargerðar sem barst nefndinni, dags. 29. nóv. 1991, með leyfi hæstv. forseta, en þar kom fram m.a.:
    ,,Til þess að frv. um reikningsskilaráð nái markmiði sínu þurfa að veljast til setu í ráðinu fulltrúar sem einvörðungu hafa fagleg reikningshaldsleg vinnubrögð að leiðarljósi, eins og fram kemur í athugasemdum með frv. Það er nokkuð algeng skoðun hér á landi að tengja saman reikningsskil og skattamál. Nefndin vill leggja sérstaka áherslu á að það gæti stofnað markmiðum frv. í hættu ef skattaleg sjónarmið eða önnur þröng hagsmunasjónarmið væru ráðandi við mótun góðrar reikningsskilavenju.``
    Af þessum orðum má vera ljóst það sem ég sagði áður að það er ekki rétt að skattaleg sjónarmið verði ráðandi við mótun reikningsskilavenju. Þannig tel ég það vera beinlínis rangt að málum staðið að fulltrúar skattyfirvalda séu aðilar að þessari reikningsskilanefnd. Og ég tel það ekki eðlilegt að ráðherra skipi fulltrúa skattyfirvalda landsins til forustu í nefnd sem þessari. Þar eru önnur sjónarmið sem ráða ríkjum. Það vill nú oft verða svo að skattyfirvöld telja það vera sitt hlutverk að ná sem mestum sköttum af skattþegnunum og koma því til leiðar að uppgjör þeirra séu þannig að sem mestir skattar séu greiddir.
    Það má líka nefna það að oft á tíðum þegar löggjöf er sett hefur hv. Alþingi haft tilhneigingu til þess að túlka mál mjög þröngt, þannig að t.d. sé ekki hægt að afskrifa eignir rekstraraðila með eðlilegum hætti. ( Forseti: Forseti vill aðeins fá að trufla hv. þm. í ræðu og spyrja hvort hann eigi langt mál eftir af sinni ræðu.) Já, virðulegi forseti, ég á alllangt mál eftir. En ég get gert hlé á ræðunni. ( Forseti: Forseta þætti vænt um ef hv. þm. vildi gera hlé á ræðu sinni. Það hefur orðið samkomulag um að taka fyrir 16. dagskrármálið sem er Samstarfssamningur Norðurlanda og forseti hefði gjarnan viljað að það mál yrði þá tekið áður en hv. þm. lýkur ræðu sinni.)