Samstarfssamningur Norðurlanda

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 15:49:00 (2251)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Sú till. til þál. sem hér er flutt af ríkisstjórninni um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda, Helsinki-samkomulaginu svonefnda, er mál sem hefur verið til umræðu undanfarið ár á vettvangi Norðurlandaráðs. Um það er samstaða á þeim vettvangi að breyta Helsinki-sáttmálanum með þeim hætti sem hér er lagt til. Ísland gerði fyrirvara við þá tilhögun sem tillögur voru um fyrir Norðurlandaráðsþingi í fyrravetur, að ganga frá breytingum á samstarfssamningnum. Ástæðan var sú að íslenska þingmannanefndin í Norðurlandaráði taldi að það væri verið að ganga á hlut Íslands innan Norðurlandaráðs með óeðlilegum hætti og þá m.a. þannig að Íslendingar yrðu sviptir því sem hefur verið viðurkennt nú um langt skeið, að fá eðlilegan hlut í sambandi við störf ráðsins og forustu á vettvangi þess, t.d. í því formi að veita forustu í þingnefndum, í einni af nefndum Norðurlandaráðs.
    Það andóf sem tekið var upp af hálfu fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði leiddi til þess, eins og hér kemur fram ef menn kynna sér þessi málsgögn, að vísu ekki formlega inn í breytingu á Helsinki-sáttmálanum heldur í sambandi við starfsreglur Norðurlandaráðs, að þar verði frá því gengið að hvert land hafi hið minnsta einn fulltrúa sem formann í nefndum ráðsins. Þetta er sjálfsögð sanngirniskrafa af Íslands hálfu og ég saknaði þess að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hér að þetta er í rauninni viss undirstaða undir það að fallist er á það af hálfu Íslands --- ég vænti þess að það sé staðfastur skilningur ríkisstjórnar sem ber málið fram að þessi háttur verði viðhafður og starfsreglum ráðsins breytt með þessum hætti. Þannig að hlutur okkar á þessum mikilvæga vettvangi, sem Norðurlandaráð hefur verið og vonandi verður áfram, verði tryggður.
    Það hefur verið mikil tilhneiging í þá átt innan Norðurlandaráðs, eins og víðar á alþjóðavettvangi þar sem við erum þátttakendur, að rýra hlut þjóðlandanna eins og frá þeim málum var gengið þegar upp var lagt í norrænu samstarfi og gera hlut svokallaðra flokkahópa meiri í störfum Norðurlandaráðs. Þessa þróun þekkja allir þeir þingmenn sem hafa starfað í Norðurlandaráði og menn þekkja það úr störfum annarra alþjóðasamtaka eða samtaka þar sem margar þjóðir koma við sögu. Ég hygg að þetta sé með svipuðum hætti í Evrópuráðinu og jafnvel í Alþjóðaþingmannasambandinu, en þann vettvang þekki ég minna, að það séu flokkahópar eða kannski eru það á þeim vettvangi svæðishópar sem bera saman bækur sínar. En í Norðurlandaráði er þetta mjög áberandi og kemur inn í allar kosningar og skipti á störfum og nánast knýr menn til þátttöku ef þeir ætla að eiga aðild að nefndum og alveg sérstaklega ef þeir ætla að komast þar í trúnaðarstöður að þurfa þá að taka þátt í slíkum flokkahópum, jafnvel þó að menn telji sig ekki endilega vera þar sama sinnis í ýmsum málum, smáum og stórum.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, nefna nú þegar þetta mál kemur hér til 1. umr. en ég tek það fram að ég styð þær breytingar sem hér er verið að gera, með þeim áherslum sem ég vona að tryggt sé að teknar verði upp í samþykktir sem fylgja sáttmálanum eða tengjast með tryggum hætti starfi Norðurlandaráðs. Í ríkisstjórninni eru ráðherrar, fyrir utan samstarfsráðherra Norðurlanda, hæstv. umhvrh., sem eru gjörkunnugir störfum á vettvangi Norðurlandaráðs, eins og hæstv. menntmrh. Hann hefur verið mikill baráttumaður fyrir því

að hlutur landanna væri ekki fyrir borð borinn á þeim vettvangi, og hefur sumum þótt, kannski utan íslensku sendinefndarinnar, meira en hófi gegnir. En ekki ætla ég að lasta hans framgöngu heldur þvert á móti tel ég að hann hafi þar haldið vel á hlut Íslands.
    En hér er verið að gera breytingar sem m.a. opna fyrir fjölgun í stjórnarnefnd Norðurlandaráðs, forsætisnefndinni, að þar verði fjölgað þannig að flokkahópar sem hafa yfir ákveðna tölu þingmanna á bak við sig fái aðild að forsætisnefndinni. Og það er breyting sem ég hef eindregið stutt enda á sá flokkahópur í hlut, eins og málum er núna háttað, sem ég starfa í innan Norðurlandaráðs og mikil þörf á því að sem flestir flokkahópar hafi fulltrúa í stjórnarnefnd Norðurlandaráðs eða ,,praesidium``, eins og starfsháttum ráðsins er háttað. Virðulegur forseti, það er nánast með hliðstæðum hætti, finnst mér, ég leyfi mér að nefna það hér, með hliðstæðum hætti og í forsætisnefnd Alþingis. Þörf er á því, til þess að hlutirnir gangi fyrir sig með eðlilegu samráði og góðum hætti, að þar séu tengsl við þá hópa og flokka sem eru starfandi og ég held að menn mættu einnig af þessu læra hér innan veggja Alþingis að gæta slíkra sjónarmiða.
    Það væri þörf á því, virðulegur forseti, og hefði verið ástæða af tilefni þessa máls, að ræða margt sem snýr að störfum Norðurlandaráðs og hefja umræðu um breytingar á störfum ráðsins og starfsháttum, sem tengjast breytingum í Evrópu og eru eitt aðalumræðuefnið á vettvangi Norðurlandaráðs. Ég minni á það aukaþing sem haldið var á Álandseyjum í nóvembermánuði sl. þar sem þetta var eitt aðalumræðuefnið, þ.e. Norðurlandaráð í breyttri Evrópu, og ég vil nefna það áður en ég lýk máli mínu, sem verður senn, virðulegur forseti, því að ég vil ekki verða til að þetta mál tefjist í meðförum þingsins, að ég vil leggja áherslu á að það er full ástæða til þess fyrir Íslendinga að gefa gaum að þeirri þróun sem þarna er í gangi og hættunni á að norrænt samstarf bíði hnekki. Ekki síst vegna þess hvernig ráðgert hefur verið að standa að málum í sambandi við svonefnt Evrópskt efnahagssvæði og að flytja samstarf sem hefur verið innan vébanda Norðurlandaráðs yfir í samstarf innan hins evrópska efnahagssvæðis, alveg sérstaklega yfir í EFTA, að því er Ísland varðar, sem aðila að hinu evrópska efnahagssvæði. Um þetta geta menn lesið m.a. í fylgiriti með tímaritinu Nordisk Kontakt, sem hefur verið gefið út í sérprentun, þar eru hugmyndir um gjörbreytingu á þessu samstarfi sem alveg ótvírætt yrði til þess að mínu mati, ef þetta yrði niðurstaðan, að veikja með mjög alvarlegum hætti norrænt samstarf.
    Ég vænti þess að það verði ráðrúm í tilefni af þessu máli eða af öðru tilefni að ræða það fyrr en seinna því að á því tel ég vera mikla nauðsyn. Ísland hefur haft mikla hagsmuni, það hefur mikilla hagsmuna að gæta af norrænu samstarfi og notið norræns samstarfs. Ég vil ekkert fara í samjöfnuð við aðrar þjóðir, en við höfum notið þess og við eigum að leggja áherslu á það og við eigum að reyna að haga okkar málum þannig að þetta samstarf sé varðveitt, að það verði frekar treyst heldur en veikt, og vænti að við beitum okkur þannig en því miður er margt sem veldur áhyggjum í þessu efni, virðulegur forseti. --- [Fundarhlé.]