Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 20:42:00 (2255)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Okkur nefndarmönnum í efh.- og viðskn. er nokkur vandi á höndum. Við höfum starfað í nefndinni meira og minna óslitið síðan í morgun fyrir utan þann tíma sem við höfum þurft að verja hér til setu á þingfundum. Við höfum líka starfað í nefndinni á þeim fundi á þeim tíma sem ætlaður var til þingflokksfunda. Nú er það svo að við þurfum jafnframt að skila nefndarálitum. Við höfum lagt í það nokkra vinnu að skila nefndaráliti í því máli sem nú er verið að taka til umfjöllunar. Ég hef verið að vinna að nefndaráliti um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og þarf nokkurn tíma til að ljúka því. En í dag var nefndin að vinna í tekjugrein fjárlaganna og okkur er sagt að fjárln. liggi mjög á að fá álit nefndarinnar um þá grein. Nú hefur mér skilist að meiri hluti nefndarinnar hafi gengið frá sínu áliti. Okkur hefur ekki unnist tími til þess að ganga frá áliti minni hlutans og það er nú svo, hæstv. forseti, að það er engin leið fyrir okkur að vera jafnframt í málum á okkar málasviði hér í umræðu í deildinni og vinna í því að koma fram nefndarálitum. Eitthvað verður því að víkja í þessu sambandi, nema þá að hægt sé að taka fyrir mál hér á Alþingi sem ekki snerta okkar málasvið þannig að við getum notað kvöldið til að ljúka okkar störfum.

    En með því að nú er hugmyndin að taka til umræðu í þetta mál sem verulegur ágreiningur er um þá er alveg ljóst að við getum ekki skilað okkar áliti til fjárln. í sambandi við tekjugrein fjárlaganna. Ég skal hins vegar viðurkenna það að okkur er nokkur vandi á höndum að skila áliti í málinu vegna þess að það er margt enn þá óljóst í tekjufrumvörpum ríkisstjórnarinnar. En við getum a.m.k. skilað áliti um það sem ljóst er í tekjugrein fjárlaganna þó að margt sé enn óljóst, og við höfum hugsað okkur að gera það.