Heilbrigðisþjónusta

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 22:48:00 (2269)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en ég vil taka undir allt það sem hér hefur fram komið og lýsi að sjálfsögðu stuðningi við þetta frv. sem liggur fyrir. Við höfum orðið að grípa til þessa frv. á ári hverju nú sl. a.m.k. 7--8 ár ef ekki lengur vegna þess að Reykjavíkurborg vildi ekki ganga inn í hið almenna heilsugæslukerfi í landinu. Vegna þess að hér var aðeins komið inn á önnur heilbrigðismál í Reykjavík, sem eru sjúkrahúsmálin, þá fannst mér að mér væri skylt að skýra hvers vegna ég lét dreifa í dag miklum bálki sem er niðurstaða ráðgjafarfyrirtækisins Ernst og Young sem fengið var til að gera úttekt á Landspítalanum, þ.e. ríkisspítölunum. Þetta er virt fyrirtæki og, eins og má lesa í skýrslunni, menn með mikla reynslu af að hagræða í heilbrigðiskerfum um allan heim. Þeir unnu sitt verk skjótt og vel en komust að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að í svo litlu samfélagi sem okkar væri auðvitað tómt mál að gera úttekt og ráðleggja hagræðingu í einu sjúkrahúsa svo lítillar borgar og svo lítils lands án þess að taka tillit til annarra sjúkrastofnana sem eru á staðnum. Engum hefði þurft að koma á óvart að þeir komust að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að óeðlilegt væri að tveir stórspítalar, þar af annar háskólaspítali, væru í samkeppni um heilbrigðisþjónustu. Þeir bentu á að á mörgum sviðum væri miklu eðlilegra að þessir stóru spítalar lytu einni stjórn þannig að hátæknistofnun á borð við Landspítalann, og raunar Borgarspítalann líka, væri kennsluspítali boðlegur í hvaða landi sem væri og nytu þannig þeirra krafta sem fyrir hendi eru.

    Hvað gerist svo? Einhverjum --- og ég ætla ekki að fara að rekja það hér, en það er auðvitað fólk sem á hagsmuna að gæta --- þóknast ekki sú niðurstaða og með áhrifum sínum í stjórnmálaflokkunum og þá auðvitað í Sjálfstfl. fær það fram að skýrslunni er einfaldlega stungið undir stól. Þegar hæstv. heilbrrh. tilkynnir fjárln. með þriggja daga fyrirvara að hann ætli að leggja saman Borgarspítala og Landakotsspítala skal nú enginn lá nokkrum nefndarmönnum þó að þeir óskuðu eftir að fá t.d. að sjá skýrslurnar. Nú vildi svo til að ég hafði þær undir höndum en spurði fjárlaganefndarmenn hvort þeir hefðu lesið skýrslurnar. Það höfðu þeir að sjálfsögðu ekki gert enda aldrei fengið þær. Hæstv. ráðherra kom á fund nefndarinnar og ég spurði um hvort hann mundi sjá til þess að alþingismenn fengju skýrslurnar og svarið var að ég gæti séð um það sjálf --- og það gerði ég svo.
    En þetta leiðir auðvitað hugann að því hvers konar aðferðafræði er viðhöfð hér. Hvar eru ákvarðanir teknar? Á fjárln. Alþingis, sem er aðeins ein af nefndum þingsins, að samþykkja og leggja fram tillögu um að tvö af sjúkrahúsum Reykjavíkurborgar verði lögð saman? Að ekki sé nú minnst á að svo vill til að St. Jósefssystur sem stofnuðu spítalann og ráku hann af miklum myndarskap um áratuga skeið og unnu þar ólaunaða vinnu eins og allir vita og þegar þær seldu stofnunina var það skilyrði í sölusamningnum að stofnuninni verði haldið í þeirri mynd sem þær höfðu byggt upp og ekki megi breyta fyrirkomulagi þar án samþykkis þeirra og jafnframt lá fyrir að þær voru á móti því að svo yrði gert. Aðspurður taldi þó hæstv. heilbrrh. að það væri allt í lagi því að þær mundu skipta um skoðun. Hann útskýrði í sjónvarpinu í kvöld hvernig hann ætlaði að fara að því. Hann sker niður framlög til sjúkrahússins þannig að spítalanum er auðvitað gjörsamlega ómögulegt að starfa á sama hátt og hann hefur gert og ráðherra leyfir sér að lýsa því yfir í fjölmiðli að beri systurnar þessa stofnun fyrir brjósti og vilji veg hennar sem mestan eigi þær tvo kosti: Að láta að vilja ráðherrans eða fjármagn verði skorið niður.
    Grínið var ekki búið því þá var rætt við einn af læknaráðsmönnum spítalans sem segir að nefndin, sem ég hef áður nefnt, hafi ekki unnið sitt verk eins og skyldi enda undirritaði Rakel Valdimarsdóttir hjúkrunarforstjóri ekki álitið og skilaði ítarlegu séráliti þar sem hún er á öndverðum meiði. Til þess er síðan gripið þegar ljóst er að mikil óánægja er með þetta meðal starfsfólks Landakotsspítala að nú stendur til að skipa nýja nefnd. Ég er þakklát fyrir það, því að það er þá a.m.k. gálgafrestur á vitleysunni, en eftir stendur að það er búið að skera niður rekstrarfé til sjúkrahússins og gefst tími til að fjalla um það síðar.
    En inntak máls míns er þetta: Aðferðirnar við að breyta veigamiklum þáttum í þjóðfélaginu með einhverjum pennastrikum inni í fjárln., mál sem aðrir hv. þm. sem ekki sitja þar hafa aldrei séð og vita ekki skapaðan hlut um eru afleitar.
    Annað dæmi get ég nefnt, og ég vona að hæstv. forseti fyrirgefi mér þó ég fari kannski út fyrir það efni sem er á dagskrá. Sem nýliði í hv. fjárln. sé ég það þegar menn koma á fund nefndarinnar og kynna að verið sé að gjörbylta fjarskiptakerfinu í landinu og Háskólinn sé að vinna þar umtalsvert verkefni sem hæglega getur orðið hugbúnaður sem seldur verður dýrum dómum um víða veröld þar sem hér er um færustu menn á því sviði að ræða, ekki bara á Íslandi heldur áreiðanlega á heimsmælikvarða. En ég spurði vegna þess að ég hafði af því áhyggjur að ég vissi einfaldlega ekkert um þetta, og þar sem ég þykist fylgjast allvel með málum sem koma fram í þinginu kom þetta mér allnokkuð á óvart, svo ég spurði hvernig þetta mál hefði borið að, hvort þetta hefði verið þingsályktun eða lög, nú bara kæmi ég af fjöllum. Málið hefur aldrei komið hér inn í sal. Það komu menn að máli við hv. fjárln. sem veittu síðan einhverjum milljónum í þetta, sem betur fer. En þetta er auðvitað ekki leiðin til þess að þjóðþrifamál fari af stað, hversu góð sem þau eru. Því að vitaskuld er það þingið sem ákveður hvað skuli gert og síðan er fjárln. til þess að deila fé til þeirra verkefna sem þingið hefur ákveðið ef ég hef ekki illilega misskilið til hvers þjóðþing er.
    Þetta sjúkrahúsamál sem ég hef gert að umræðuefni er auðvitað sams konar hneyksli og annað eins og það má ekki koma fyrir á nýjan leik. Ég á von á að um þetta verði veruleg umræða þegar fjárlagafrv. kemur til 3. umr., ef það gerist yfirleitt þar sem allnokkru verki var ólokið þegar ég yfirgaf þá góðu fjárln. fyrir klukkutíma síðan. Ég held að hv. þm. ættu að hyggja að því, og ekki síst með tilliti til þess að við erum að hefja nýja göngu þingsins samkvæmt nýjum þingskapalögum sem einmitt áttu að efla þingið innan frá, styrkja það gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera það öflugra og lýðræðislegra og þingræðislegra, að við látum það ekki drabbast niður á þann hátt sem átt hefur sér stað síðustu daga. Ég bið menn að huga að þessu og vil taka undir orð hv. 2. þm. Suðurl. sem gerði einmitt þetta að umræðuefni í dag og kannski ekki einkennilegt að þetta sé honum nokkurt áhugaefni þar sem við unnum að þeirri vinnu sameiginlega. En það má auðvitað ekki gerast að framkvæmdarvaldið ausi yfir þingið hverju stórmálinu á fætur öðru og ætlist til þess að þingmenn afgreiði þetta eins og maskínur á einum eða tveimur dögum. Þetta er ekki hið nýja Alþingi sem við ætluðum að búa til, það er langt í frá. Ég bið menn að huga að því að þetta verði stöðvað áður en verra hlýst af.