Framhald umræðu um skýrslu Byggðastofnunar

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 23:08:00 (2271)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vakti á því athygli þegar hv. 5. þm. Austurl. var í forsetastól að umræðu um skýrslu Byggðastofnunar er ekki lokið og ég var í miðri ræðu þegar þeirri umræðu var

frestað. Ég mæltist til þess við hæstv. forseta að það mál yrði tekið upp í forsætisnefnd þingsins og gefin yrðu svör við því úr forsetastól hver ætlunin væri í þeim efnum. Ég tel mjög óviðeigandi að geyma mál á þennan hátt og enn þá fráleitara að geyma menn í miðjum ræðum um málefni. Ég vitnaði í að það er ætlast til þess með dómara að eftir ákveðinn tíma verði þeir aftur að yfirheyra vitni ef þeir ætla að dæma í máli. Það er talið að umræðan sé þeim ekki nægilega í fersku minni ella og það er mjög óþægilegt að sú regla verði hér upp tekin að menn þurfi að lesa allar umræður upp á nýtt til þess að geta fylgt eftir því sem þeir hafa verið að fjalla um.