Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:08:00 (2280)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Það er nú upplýst að tímagæsla heyrir undir umhvrn. og verður að segjast eins og er að þar eru fleiri málaflokkar en við almennt áttum von á. Sjálfsagt er þetta rétt því að tímatalningin byggist á himintunglum, eins og menn vita, og þess vegna um rökrétta niðurröðun verkefna að ræða.
    Ég hygg aftur á móti að hæstv. forseti þingsins komist ekki undan því að viðurkenna þá staðreynd að þar sem þingmenn fá skjöl á sitt borð á misjöfnum tíma fer ekki á milli mála, þegar hann tilkynnir af forsetastóli hvenær skjalinu hefur verið dreift, að þær upplýsingar eru tímasettar og ákaflega erfitt að miða við nokkurn annan tíma. Það getur t.d. verið að það sé byrjað á hæstv. umhvrh. og hann líti á klukkuna og svo sé endað á hæstv. landbrh. og hann líti þá á klukkuna og allt er orðið misvísandi.
    Ég held satt best að segja að sú röksemdafærsla að ætla að halda því fram að skjölum hafi áður verið dreift og mál hafi áður verið tekin til umræðu geti verið hárrétt, að þetta hafi allt saman gerst með þessum hætti. Það breytir þó engu hinum skrifaða texta og bókstafurinn blífur. Ég er ekki búinn að sjá að hæstv. dómsmrh. mundi samþykkja það, ef sú röksemdafærsla yrði tekin upp sem vörn í málum, að þetta hefði áður gerst og ekkert hefði verið gert til þess að rengja það. Í það minnsta vildi ég gjarnan mega nota

þetta ef lögreglan yrði til þess að stöðva mig fyrir of hraðan akstur, eins og þeir gerðu á Kjalarnesinu á seinastliðnu ári, og taldi ég mig vera á sómasamlegri ferð miðað við þann tíma dagsins sem þetta var. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þá sé of mikil löggæsla í landinu ef þeir eru komnir fyrir klukkan tíu upp á Kjalarnes. Ég er ekkert viss um að það dugi og í það minnsta dugði það ekki gagnvart því atriði að ég borgaði mína sekt.
    Ég held að hæstv. ríkisstjórn sitji uppi með það að verða að leita afbrigða. Hins vegar finnst mér óþarflega mikill skjálfti í hennar herbúðum ef hún slær því föstu að svo sé ástand í þinginu að menn styðji ekki afbrigði. Mér finnst það fullmikill skjálfti því að meginreglan hefur náttúrlega verið sú að menn hafa samþykkt afbrigði. Ég hefði talið að menn ættu að halda ró sinni og gera sér grein fyrir því að þingmenn hafa löngum haft þá skoðun að eðlilegt sé að samþykkja afbrigði, nema eitthvað sérstaklega standi á, og ég held þess vegna að glímuskjálftinn út af þessu sé fullmikill í þinginu.