Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:46:00 (2291)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég heyri að hér margir eru á mælendaskrá og það er að sjálfsögðu allt í lagi að halda áfram hér í alla nótt fyrst það eru sextán manns á mælendaskrá og ég heyri að hæstv. forseti ætlar ekki að þiggja þau ráð að gera nú hlé og hafa samráð. Ég var svo sem ekkert bjartsýnn um það. Þessi yfirgangur heldur áfram og ég var alveg steinhissa, satt að segja, þegar ég frétti það að hæstv. forsrh. hefði mætt á einn samráðsfund síðan einhvern tímann í haust hér með forsætisnefnd og formönnum þingflokka. ( Gripið fram í: Þó það.) Hann hefur þó mætt á einn. Þetta er náttúrlega nokkuð sem er algjörlega nýlunda hér í Alþingi. En meðan svo er að stjórnarliðar vilja ekki tala neitt um vinnubrögð hér og framgang mála þá heldur þetta að sjálfsögðu áfram. Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að það er minni hluti hér í þinginu þótt meiri hlutinn vilji helst ekki vita af honum.