Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:48:00 (2292)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða það mál sem kallast ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er kannski ágætt að minna á það hvaða mál er hér til umræðu eftir þetta hlé sem hér varð. Ég er fulltrúi í efh.- og viðskn. og hef þar af leiðandi verið að vinna í þessu máli. Þessa daga sem við höfum verið að fara í gegnum það hefur mér oft orðið hugsað til þess hvert hlutverk Alþingis sé og hvernig menn fara hér með löggjafarvaldið. Hér uppi á vegg hangir mynd af Jóni Sigurðssyni sem var einn þeirra sem barðist hvað ötullegast fyrir því að Íslendingar fengju löggjafarvald í sínar hendur frá Dönum og menn ætluðu Alþingi stóra hluti. En sá lagaóskapnaður sem hér er til umræðu er þannig að manni blöskrar. Í þessu frv. er blandað saman alls konar óskyldum málum og þar er gengið þvert á þau lög sem Alþingi hefur samþykkt og þetta frv. er með þeim hætti að það er ekki annað hægt en að gera að umtalsefni þessa aðferð sem hér er beitt. Í því nál. sem minni hluti efh.- og viðskn. skilaði er bókun frá fulltrúa Kvennalistans vegna þessa máls en hún er svohljóðandi:
    ,,Lagasetning af því tagi sem hér um ræðir, þar sem blandað er saman alls óskyldum málum og tækifærið notað til að koma í gegnum þingið lagabreytingum sem koma ,,ráðstöfunum í ríkisfjármálum`` ekkert við, er algjör óhæfa og óvirðing við löggjafarhlutverk Alþingis. Þá er tíðkað að gera ,,eyrnamerkta`` lögbundna tekjustofna upptæka að hluta til eða að fullu. Þar með er gengið þvert á fyrri samþykktir Alþingis og komið í veg fyrir að brýn mál nái fram að ganga. Lög á að virða en Alþingi þarf einnig að vanda sig betur og samþykkja ekki lög nema ljóst sé hvaða kostnað þau hafa í för með sér.``
    Ég minntist hér á Jón Sigurðsson og hans baráttu og mig langar til að rifja upp fyrir þingheimi það sem Jón Sigurðsson skrifaði árið 1841 þegar hann þrítugur að aldri gekk um götur Kaupmannahafnar og hugleiddi stöðu Íslands. Hann skrifaði grein sem er hluti af greinarflokki og mig langar að lesa hér, með leyfi forseta, örlítið brot af sjöttu grein, sem heitir ,,Um ætlunarverk alþíngis`` og þessi grein er svohljóðandi:
    ,,Þegar alþíng skal setja, þá ríður einna mest á að gjöra sér ljósa grein fyrir, til hvors það sé ætlað, og hvors af því sé væntanda, því ef menn hafa eigi ljósa hugmynd um það frá upphafi, þá er uggvænt, ef alþíng verður ekki við hugarburði sérhvers eins, að þá muni hverjum þykja lítið í það varið, og fá leiða á því, en þá er en mesta hætta búin að allt ónýtist.
    Eigi er ólíklegt að sumir kunni að ímynda sér, að létta muni sköttum, eða að hverr maður fái meira frelsi enn áður, af því allir sem mæla fram með alþíngi eru að hæla frelsinu; sumir munu aptur verða hræddir við stjórnleysi eður óstjórn, og þykir hvorttveggja nóg einsog nú er, og verða því mótfallnir alþíngi. Hvorugt þetta er rétt skoðað: ef að velmegan jykist í landinu þá mundi enginn kvarta þótt skattarnir yxi að tiltölu, því ekki eru þeir í raun og veru annað, eða eiga að vera, enn styrktargjald frá öllum, sem þess eru megnugir, til þarfa landsins eða þjóðarinnar, og þær eru nú eigi allfáar á Íslandi; en þó einhverr fengi frjálsræði meira enn nú er, það er til nytsemda horfir, þarf ekki að óttast að úr því verði stjórnleysi, þegar embættismenn gæta skyldu sinnar.
    Þegar vér skoðum ætlunarverk alþíngis, þá er það ákveðið í úrskurði konúngs 20. Maí í fyrra, að það skuli vera hið sama og þínganna í Danmörku: það á að vera til þess, að útvega konúngi áreiðanlega vissu um þjóðvilja Íslendínga, um álit hinna skynsömustu manna um sérhvað sem laga þyrfti, og hversu

að því skyldi fara til þess það mætti verða til sem mestrar nytsemdar.``
    Þetta skrifaði Jón Sigurðsson árið 1841 um hlutverk Alþingis. Í framhaldi af því langar mig til þess að vitna í ritverk Ólafs Jóhannessonar prófessors, ,,Stjórnskipun Íslands``, en þar er fjallað um hlutverk Alþingis, ríkisvaldsins, löggjafarvaldsins og þar koma fram hlutir sem koma þessari umræðu við, herra forseti, og ég vil leyfa mér að lesa hér kafla úr Stjórnskipun Íslands til þess að skýra það sem ég er að fjalla um.
    ,,Í 2. gr. stjskr. eru nánari fyrirmæli um megindrætti stjórnskipulagsins. Er hún byggð á kenningunni um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þáttu: löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Kenning þessi um þrígreiningu ríkisvaldsins á einkum rætur að rekja til rits franska stjórnvitringsins Montesquieu, ,,De l'Esprit des lois``, er út kom árið 1748. Montesquieu hafði tæpum 20 árum áður dvalizt um skeið í Englandi og kynnt sér enska stjórnarháttu. En innanlandsátök þau, sem áttu sér stað á Englandi á sautjándu öld leiddu til valdaskiptingar á milli konungs og Parlamentsins, og valdi Parlamentsins var síðan skipt á milli neðri og efri deildar. Montesquieu dáði mjög hina ensku stjórnarháttu. Einn kaflinn í áðurnefndu riti var sérstaklega helgaður ensku stjórnarfyrirkomulagi. Lýsti Montesquieu þar enskum stjórnarháttum, en setti jafnframt fram sjálfstæða kenningu um þrískiptingu ríkisvaldsins. Samkvæmt kenningu Montesquieu skyldi sinn aðili fara með hverja grein ríkisvaldsins. Hver þeirra um sig átti að tempra eða takmarka vald hins. Ef allt ríkisvald er á einni hendi eða í höndum einnar stofnunar er að áliti Montesquieu hætt við ofríki og kúgun. Með skiptingu ríkisvaldsins milli þriggja sjálfstæðra valdhafa á að koma í veg fyrir, að nokkur þeirra verði svo sterkur, að hann geti svipt þegnana frelsi með ofríki og að eigin geðþótta.
    En þessi kenning Montesquieu varð ein af kennisetningum franskra stjórnbyltingarmanna. Þaðan barst hún síðan víða um lönd. Hefur þessi kenning haft mikil áhrif á stjórnskipun frjálsra þjóða. Þó hafa ríki gengið mjög mislangt í þessu efni. Og óvíða hefur valdaskiptingarkenningu Montesquieu verið fylgt út í yztu æsar. Einna róttækust er greiningin í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Sviss og í ýmsum ríkjum í Suður-Ameríku.
    Valdgreiningarinnar gætir mjög í íslenzkri stjórnskipun, þótt hún sé þar enganveginn alger. Í 2. gr. stjskr. er byggt á því, að hið sameinaða þjóðfélagsvald sé þríþætt, þ.e. skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þessi skipting getur staðizt, ef litið er á framkvæmdarvaldið sem einskonar samnefnara þeirra athafna ríkisvaldsins, sem hvorki verða taldar til löggjafarvalds né dómsathafna. Þá verða athafnir ríkisvaldsins jafnan heimfærðar undir eitt af þessu þrennu. En þá ber jafnan að hafa í huga, að athafnir þær, sem taldar eru til framkvæmdarvalds eru mjög margvíslegar. Í stjórnarskránni er hins vegar vikið frá kenningum Montesquieu um þrískiptingu ríkisvaldsins að því leyti, að hverjum aðila hefur ekki verið fenginn sinn þáttur ríkisvaldsins til meðferðar. Það sjónarmið er þó greinilega haft í huga. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskránni og landslögum fara með framkvæmdarvaldið og dómendur fara með dómsvaldið. Alþingið er að vísu aðalaðili löggjafarvaldsins, en það er ekki einkahandhafi þess. Samkvæmt 2. gr. stjskr. á framkvæmdarvaldið að vera í höndum forseta og annarra stjórnarvalda, en af öðrum stjórnarskrárákvæðum og stjórnskipunarvenjum leiðir, að Alþingi hefur mikil skipti af meðferð framkvæmdarvaldsins . . .
    Þó að byggt sé á þrígreiningu ríkisvaldsins í íslenzku stjórnarskránni, er í reyndinni engan veginn jafnræði á milli aðalhandhafa ríkisvaldsins. Alþingi er ótvírætt valdamesta stofnunin. Það byggist auk löggjafarvaldsins á fjárstjórnarvaldi þingsins og þingræðisvenjunni.``
    Herra forseti. Þetta var kafli úr bók Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands sem ég held að veiti ekki af að rifja upp fyrir þingmönnum því að ég fæ ekki betur séð en að hér á Alþingi hafi hlutirnir gjörsamlega snúist við og að það sé framkvæmdarvaldið sem skipi Alþingi fyrir en ekki öfugt. Það er Alþingi sem hefur valdið, það er Alþingi sem á að samþykkja lög og ég vildi óska þess að þingmenn væru meira vakandi fyrir virðingu Alþingis og því valdi sem það hefur í raun og veru.
    Ég ætla þá að snúa mér að því frv., sem hér er til umræðu, hinum svokallaða bandormi eða frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem eins og ég hef nefnt, er algjör lagaóskapnaður. Það kom fram hér í umræðu í gær að hér væri stundað lagasukk, ég bið forseta að afsaka þetta orðaval, það er ekki fagurt, en það er ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi. Þetta er lagasukk og Alþingi til lítillar virðingar að standa svona að málum. En við stöndum frammi fyrir því að verða að taka frv. sem þetta til meðferðar og ég ætla að byrja á því, herra forseti, að fara hér í gegnum það.
    I. kafli frv. fjallar um breytingar á lögum um grunnskóla. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að þessi kafli eigi alls ekki heima í þessum lögum. Hér er fyrst og fremst um að ræða efnisbreytingar. Þetta eru breytingar sem hafa ákaflega lítið að segja fyrir ástand ríkisfjármála. Það hefur verið metið svo að þetta sé kostnaður upp á 20--40 millj. sem auðvitað er sáralítið brot af fjárlögum íslenska ríkisins en hér er um að ræða mikið framfaramál. Síðastliðið vor voru samþykkt ný lög um grunnskóla og inn í þau voru teknar margar breytingar sem höfðu beðið ákaflega lengi, baráttumál foreldra og skólamanna. --- Virðulegi forseti. Ég var þar komin í ræðu minni að nefna það að sl. vor voru samþykkt lög um grunnskóla sem fólu í sér margháttaðar breytingar sem beðið hafði verið eftir mjög lengi. Þar má upp telja atriði eins og samfelldan skóladag, máltíðir í skólum og fleira í þá átt. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að grunnskólinn íslenski, eins og hann er í dag, er því miður afar gamaldags og langt í frá að hann sé í takt við tímann. Við vitum að allur þorri foreldra ungra barna vinnur utan heimilis. Báðir foreldrar vinna utan heimilis og það jafnvel langan vinnudag. Við vitum það líka að hér á Íslandi er hvað hæst slysatíðni á ungum börnum og það á ekki síst rætur að rekja til þess, að þau eru umhyggjulaus hluta úr degi og þurfa m.a. að koma sér til og frá skóla. Þess vegna var kveðið á um það í lögunum að komið skuli upp skólaathvörfum í skólunum til þess að börnin eigi athvarf þann tíma frá því að skóladegi lýkur og þangað til foreldrar hafa lokið sínum vinnudegi. Nú má auðvitað segja að það sé allt of langur tími fyrir lítil börn að vera í skóla eða skólaathvörfum 8, 9 og jafnvel 10 tíma á dag, en því miður er ástandið þannig í okkar þjóðfélagið, að vinnudagur er langur og hvað er mikilvægara en að koma til móts við börnin? Hvað er mikilvægara en að sjá til þess að börn búi við gott atlæti? En í þessu frv. sem hér er til umræðu er m.a. lagt til að þetta ákvæði sé tekið út.
    Ég vil nefna annað dæmi um lagagrein sem verið er að fresta í lögum um grunnskóla, en það snýr að skólaráðgjöf. Það hefur komið í ljós að 20--30% barna og unglinga, jafnvel hærra hlutfall, það er mjög erfitt að meta þetta, en það er allstór hluti skólanemenda í grunnskólum sem á við verulega erfiðleika að stríða, bæði andlega erfiðleika og það sem við getum kallað erfiðleika í námi og það er einmitt hlutverk námsráðgjafa að aðstoða þessa nemendur, reyna að leiða þá áfram.
    Í framhaldsskólunum starfa námsráðgjafar og ég þekki það af eigin reynslu sem kennari að námsráðgjafar geta gegnt mjög mikilvægu hlutverki. Þeir geta hjálpað nemendum yfir erfiðleika, leiðbeint þeim í námi og einnig í persónulegum erfiðleikum. Ég held því miður að þá sé ástandið orðið þannig í okkar þjóðfélagi að það sé veruleg þörf á slíkri ráðgjöf í grunnskólunum. Það er bara staðreynd. Það hefur svo margt breyst og hér ber meira og meira á því sem við getum kallað stórborgareinkenni og þetta er því fyrirbyggjandi aðgerð. Það er fyrirbyggjandi aðgerð að í skólunum starfi fólk sem getur tekið á persónulegum vandamálum nemenda. En --- nei, þessu skal frestað.
    Það er ýmislegt fleira hér á ferð. Í kaflanum um grunnskólana eru atriði sem snerta sveitarfélögin. Það má vel vera að þar skorti á að reglugerð hafi verið samin um framkvæmd. Reyndar er þetta á valdi sveitarfélaganna, t.d. máltíðir í skólum, það er algjörlega á þeirra valdi og hvað er ríkisstjórnin þá að skipta sér af því? Hvað þarf að vera að fresta þessu mikilvæga ákvæði? Það eru sveitarstjórnirnar sem hafa tíma til að aðlagast þessu og það er þeirra að leysa þetta. Það má kannski reyndar segja að þarna sé enn eitt dæmið um það, sem ég nefndi hérna áðan, þar sem Alþingi er að samþykkja lög án þess að taka með í dæmið að verið er að leggja kostnað á sveitarfélögin eða að leggja út í breytingar sem kalla á mikinn kostnað. Það eru sem betur fer nokkrir hugsjónamenn hér á Alþingi sem vilja breyta og bæta en því miður þá gleymist oft að gera ráð fyrir því hvað hlutirnir kosta.
    Annað dæmið um slíkt er auðvitað lögin um framhaldsskóla, sem reyndar koma nú ekki inn í þetta frv. hér, en þar er annað dæmi um samþykktir Alþingis sem kannski mætti fella undir lagasukk, þar sem verið er að samþykkja frv. án þess að framhaldsskólakerfinu sé á nokkurn hátt gert kleift að framfylgja lögunum. Þetta eru auðvitað starfshættir sem eru ekki sæmandi Alþingi.
    Í menntmn. þar sem við fórum rækilega í gegnum þennan kafla var það eitt atriði sem vafðist alveg sérstaklega fyrir okkur. Það er síðasta setningin í 3. gr. frv., sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Menntmrn. setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.`` Í þessu felst að verið er að gefa menntmrn. býsna mikið vald og náttúrlega sér það hver maður að þessi setning kemur ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við. Að vísu ef maður svona vill sýna svolítinn illvilja þá má auðvitað túlka þetta svo, að menntmrn. ætli að taka sér vald til að skera niður kennslustundir í grunnskólum. En ég ætla rétt að vona að engin slík áform séu uppi. Svokölluð viðmiðunarstundarskrá sem menntmrn. hefur samþykkt hefur verið í gangi en hér er menntmrn. að taka sér vald til að setja í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma. Mér finnst að þarna sé um atriði að ræða sem þurfi miklu meiri skoðunar við og raunar furðulegt að setja inn í frv. sem þetta. Það hefur verið boðað að nýtt grunnskólafrv. komi fram í vetur og þar er auðvitað tækifæri til þess að taka upp atriði eins og þetta. En hvers vegna í ósköpunum að vera með slíkt inni í ráðstöfunum í ríkisfjármálum? Að mínum dómi er hér verið að lauma í gegn ýmsum ákvæðum, sem hæstv. menntmrh. er af einhverjum ástæðum í nöp við eða einhverjir hafa þrýst á að tekin yrðu út úr lögunum. Auðvitað þarf að láta á það reyna hvernig þessi lög gagnast og, eins og ég hef áður sagt, þarna er um mikið framfaramál að ræða og ég legg til að þessi kafli verði einfaldlega tekinn út úr frv. því hann á alls ekki heima þar.

    Ég held að ég láti þetta nægja um I. kafla frv. og ætla þá að snúa mér að jarðræktarlögunum. Landbn. sendi frá sér álit varðandi þennan kafla og þar gerðist það að nýr meiri hluti myndaðist í landbn. þar sem í hlut áttu fulltrúar stjórnarandstöðunnar og hv. þm. Egill Jónsson, sem lýsti því yfir að hann skipti ekki lit eins og tófan heldur stæði við það sem hann hefði áður sagt. Nú veit ég ekki hversu vel þessi fullyrðing hans um tófuna stenst en meiningin er skýr.
    Ég vil taka það fram að ég hef aldrei lagt blessun mína yfir svokölluð jarðræktarlög og tel að þau þurfi endurskoðunar við. En hvernig sem á málið er litið þá var gert samkomulag við bændur. Fulltrúar bænda, sem komu á fund efh.- og viðskn. til þess að ræða þennan kafla en fengu því miður lítinn tíma til þess að kynna sín mál, nefndu það einmitt að þarna hefði verið um samkomulag að ræða. Eins og kemur fram í þeim gögnum, sem fylgja áliti landbn. hefur orðið mikill niðurskurður á fé til jarðræktarframkvæmda, þannig að bændur hafa þar verulega dregið saman seglin. Því er auðvitað ekki að leyna að þeir eiga að fá styrk eða að fá greitt fyrir sínar framkvæmdir. Ef menn vilja koma í veg fyrir slíkan straum út úr ríkissjóði verður auðvitað að breyta lögunum en það á ekki að gera með þeim hætti sem hér er gert, einhliða breyting án samráðs við bændur. Það einkennir allt þetta frv. að hér er verið að taka einhliða ákvarðanir sem koma mjög illa við ýmsa hópa þjóðfélagsins og ýmsa starfsemi sem hér fer fram. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að ég tel að margt þurfi að endurskoða í landbúnaði og þróa okkar landbúnaðarkerfi í samræmi við breytta tíma. En standa á við gerða samninga og samkomulag sem menn hafa gert. Ef menn vilja breyta þá á að gera það með samráði.
    Næsti kafli laganna fjallar um stjórn fiskveiða og þar er um það að ræða, herra forseti, að verið er að leggja á sjávarútveginn ákveðin gjöld. Þetta er auðvitað í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um það að atvinnulífið eigi að standa undir rannsóknum, fólk eigi að borga hluta af þeim kostnaði sem fylgir hvers konar þjónustu ef ekki alla þjónustuna. Í sjálfu sér þarf ekki að vera neitt athugavert við svona aðgerðir. En á tímum eins og þessum, þegar við horfum fram á aflasamdrátt og mikla erfiðleika útgerðar í landinu, er þetta auðvitað ekki ásættanlegt. Það er ekki ásættanlegt að leggja á svona gjöld. Þetta tengist því að jafnframt því að ríkisvaldið er að draga saman seglin og samdráttur á sér stað í atvinnulífinu er verið að leggja alls konar gjöld á atvinnulífið sem munu gera því enn erfiðara fyrir og valda enn meiri samdrætti, enn meira atvinnuleysi. Ég vil nefna það hér að ég óttast að sú svarta spá sem Þjóðhagsstofnun hefur birt og sem kann kannski að vera ansi dökk í ýmsum efnum vegna þess að kjarasamningar eru fram undan, ég óttast að ríkisstjórnin sé að setja af stað mikla keðjuverkun samdráttar með sínum aðgerðum. Ég þarf ekki að nefna það hér að ég tel þetta vera kolranga stefnu. Á tímum eins og þessum má ríkisvaldið ekki draga saman seglin í jafnríkum mæli og boðað er í öllum þessum frv. sem við erum að fjalla um þessa dagana.
    Næsti kafli frv. fjallar um kosningar til Alþingis. Brtt. liggur fyrir um þennan kafla frá allshn. sem leggur til að hann verði dreginn til baka. Ég er innilega sammála því að þarna er eitt dæmið um atriði sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við. Þessi kafli er algjörlega óskiljanlegur nema, eins og hér hefur verið bent á, að ríkisstjórnin eigi jafnvel von á kosningum á næsta ári og verði það sem fyrst. En þennan kafla á að fella út.
    Þá kem ég að einu stórmáli þessa frv. sem er ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota. Lagðar eru til allnokkrar breytingar á 9. og 10. gr. enda kom náttúrlega í ljós að eins og þessar greinar voru í frv. voru þær algjörlega ófullnægjandi þannig að setja varð þennan lagabálk algjörlega upp á nýtt. Ég lýsi yfir andstöðu minni við þennan kafla frv. eins og reyndar frv. í heild. Ég þarf varla að taka það fram. Hér er á ferðinni býsna alvarlegt mál sem hefur verið harðlega mótmælt bæði af fulltrúum samtaka launafólks í landinu, atvinnurekendum og sveitarfélögunum. Þessar greinar fela í sér að það á að stofna sérstakan sjóð, ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, og í hann eiga að greiða ríkisvaldið, sveitarfélög og atvinnurekendur. Hann á að standa undir greiðslum til þeirra sem missa vinnu sína vegna gjaldþrota. Það sem gerist er að réttindi sem launafólk nú hefur munu verulega skerðast. Enn og aftur verður að benda á að á þessum samdráttartímum er þetta enn eitt dæmið þar sem verið er að leggja byrðar á atvinnulífið og sveitarfélögin, eitt af mýmörgum dæmum. Hamingjan má vita hversu þung sú byrði verður á endanum, ég hef ekki tekið það saman hvað þetta er í heild. Þessum sjóði hefur verið harðlega mótmælt af verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum. Það er ekki oft sem þessir aðilar sameinast í baráttu en það gerist í þessu tilviki vegna þess að þetta þýðir þrengingar fyrir launafólk og byrðar fyrir atvinnulífið sem hæstv. forsrh. lýsti í stefnuræðu sinni að væri undir áhrifum eiturlyfja, dælt hefði verið eiturlyfjum í atvinnulífið.
    Þá kemur að kaflanum um málefni fatlaðra og um hann er lítið að segja. Þarna er um það að ræða að heimilt verði að verja allt að þriðjungi af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhalds. Ég held að ekki sé mikið við þetta að athuga því að þær stofnanir sem þegar hafa verið byggðar þarfnast auðvitað viðhalds. Það er víst einum of mikið að biðja um að þessi sjóður fái meira en hann nú hefur.
    Þá verða næst fyrir mér breytingarnar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég get einungis endurtekið það sem ég sagði við 1. umr. Hér er verið að leggja ákveðnar álögur á sveitarfélögin. Þau eiga að leggja fram 3,5% óafturkræft framlag við byggingu á félagslegu húsnæði. Fyrir aðeins tveimur árum voru ákvæði um óafturkræft framlag sveitarfélaganna tekin út úr lögunum í því skyni að ýta undir það að sveitarfélögin færu út í byggingu á félagslegu húsnæði. Víða er mikil þörf á félagslegu húsnæði en mörgum sveitarfélögum var einfaldlega ofviða að leggja fram þau 10% af láninu sem þau áttu að leggja fram. Þau áttu að leggja fram 10% af því láni sem veitt var úr Byggingarsjóði verkamanna. Það var ástæðan fyrir því að þetta var afnumið. Hér er aftur byrjað á þessu og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélögin leggi eitthvað á móti ríkinu. Við þær aðstæður sem nú ríkja og allan þann pakka sem verið er að troða yfir á sveitarfélögin er einfaldlega ekki hægt að fallast á þetta.
    Ég vil nefna það hér að minni hluti efh.- og viðskn. og stjórnarandstaðan í ýmsum nefndum Alþingis var að mestu leyti sammála um þau atriði sem er að finna í þessu frv. Spurningunni um það hvort loka ætti algjörlega húsnæðiskerfinu frá 1986 var hins vegar svarað á ýmsan hátt af fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þetta er enn þá svolítið viðkvæmt mál í hugum sumra sem stóðu að því að koma þessu kerfi á fót. Skoðun okkar kvennalistakvenna er sú að það eigi að loka þessu kerfi og hefði átt að vera búið að því fyrir löngu vegna þess að það skapar mikla erfiðleika og er mjög óeðlilegt að vera með mörg kerfi í gangi. 1986-kerfið var einfaldlega komið í þrot og menn verða að horfast í augu við það. Mín skoðun er sú að fyrst og fremst eigi að vinna að endurbótum á húsbréfakerfinu. Ég ætla ekki að fara út í það mál hér, herra forseti. Ástandið í húsbréfakerfinu er stórt og mikið mál, en það á örugglega eftir að koma hér á dagskrá síðar í vetur.
    Næsti kafli fjallar um breytingar á almannatryggingunum. Í ljós kom, þegar málinu hafði verið vísað til heilbr.- og trn. og fólk fór þar að skoða þessi mál, að þarna var brussugangurinn úr heilbr.- og trmrn. lifandi kominn. Það kom í ljós að þessar tillögur voru mjög illa unnar og stóðust engan veginn. Heilbr.- og trn. varð að gjöra svo vel að setjast niður og semja brtt. við þetta frv. sem öll nefndin stendur að og við tökum að sjálfsögðu undir. Þær breytingar varða skólatannlækningar. Þó verður að geta þess, herra forseti, að við í efh.- og viðskn. fengum fulltrúa Tannlæknafélagsins á okkar fund því okkur þótti sjálfsagt að hlusta á þeirra sjónarmið. Ég verð að segja það að mér fannst heldur leiðinlegt að upplifa það hversu sjónarmið voru gjörsamlega ósættanleg. Það myndaðist ákveðin spenna milli nefndarmanna og fulltrúa tannlæknanna. Auðvitað vitum við að þarna er dæmi um hóp sem hefur ákaflega sterka stöðu í þjóðfélaginu en er mjög ósáttur við það sem er verið að gera í þessu frv.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að þar sem ekki er um skólatannlækningar að ræða, sem er víða úti á landi, verði gripið til útboða. Tannlækningar verði hreinlega boðnar út. Eins og við vitum er þetta í miklu uppáhaldi hjá ríkisstjórninni að bjóða út hvers kyns þjónustu. Það er ekki alltaf hægt að sjá að það verði til góðs þó að stundum geti það vissulega skilað árangri. Það kom mjög greinilega fram hjá tannlæknunum að þeir ætla ekki að taka þátt í þessum útboðum. Þeir ætla algjörlega að hunsa þessi útboð. Ef svo fer er það náttúrlega meira og minna ónýtt sem verið er að gera í þessu frv. Með þeim tillögum sem hér er verið að kynna er auðvitað verið að ná niður miklum kostnaði í heilbrigðiskerfinu, kostnaði sem mörgum hefur þótt heldur óeðlilegur og jafnvel vera eins konar sjálftaka. Þarna er um heila stétt að ræða og auðvitað verður að nást einhver samvinna við tannlæknana.
    Minni hluti heilbr.- og trn. er þeirrar skoðunar, og við tökum undir það í efh.- og viðskn., að þær tillögur sem hér eru um tannréttingar gangi heldur langt. Mjög þröng skilyrði eru sett fyrir því að tannréttingar fáist endurgreiddar. Vissulega er hægt að taka undir það að þar hefur verið um mikinn kostnað að ræða fyrir Tryggingastofnun ríkisins, sem sjálfsagt er að taka á, en má auðvitað ekki verða til þess að þau börn og unglingar, sem nauðsynlega þurfa á tannréttingum að halda, gjaldi þess hversu gríðarlega ,,vinsælar`` tannréttingar hafa verið.
    Hér er ákvæði um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um að ráðherra sé heimilt að leita útboða um rekstur heilbrigðisþjónustu, samkvæmt lögum þessum. Þetta er, eins og ég nefndi áðan, hluti af trúarbrögðum ríkisstjórnarinnar og það verður að koma í ljós hvernig gengur. Menn hafa mjög gagnrýnt útboð í heilbrigðisþjónustu og hér hafa verið rakin dæmi um það að þegar átti að reyna útboð á ríkisspítölunum, kom í ljós að sú þjónusta sem þar var fyrir reyndist mun hagkvæmari. Menn þurfa því að skoða þetta verulega vel áður en lagt er út á þessa braut. Það getur falist mikið aðhald í útboðum en þau geta líka leitt menn út í ógöngur.
    Um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni er ekki mikið að segja. Ég get tekið undir þau atriði og sama gildir um skráningu og mat fasteigna. Þar er um að ræða nýja gjaldskrá og þarna finnst mér vera um þjónustu að ræða sem sjálfsagt er að taka gjald fyrir. Ég geri ekki sérstaka athugasemd um það og heldur ekki um Iðnlánasjóð en framlög ríkisins til hans hafa verið felld niður árum saman.
    Þá kem ég að hafnamálunum. Það var eitt þeirra mála sem allt í einu skaut upp kollinum í nefndinni og er ein af þessum ráðstöfunum, sem ríkisstjórnin hefur gripið til, til að reyna að ná í tekjur og vega

upp á móti halla ríkissjóðs og samdrætti í tekjum. Merkilegt var að upplifa viðbrögð sveitarstjórnarmanna, sem komu á fund nefndarinnar. Þeim er best að lýsa þannig að þeir voru einfaldlega rasandi, ekki eingöngu yfir þessu gjaldi og því að þarna væri verið að seilast í tekjustofna sveitarfélaganna, heldur kannski enn frekar vegna þeirrar framkomu sem sveitarfélögunum var sýnd. Þessi ráðstöfun var tilkynnt einhliða án þess að nokkurt samráð hefði verið haft við sveitarfélögin og var náttúrlega hluti af þessum pakka sem boðaður hefur verið og felur í sér álögur á sveitarfélögin upp á meira en milljarð.
    Þessi aðgerð sem gripið er til felur í sér 25% gjald ofan á þau vörugjöld sem innheimt eru í höfnum landsins. Í ljós kom við nánari athugun að menn hafa ekki hugmynd um það hvernig á að framkvæma þetta. En það gefur auga leið að þarna er um kostnað að ræða sem hlýtur að verða velt út í verðlagið sem þýðir þá hækkun á útgjöldum fjölskyldnanna í landinu.
    Þá birtust líka í nefndinni tillögur um eyðingu refa og minka sem maður hefði haldið í fljótu bragði að kæmi ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekki mikið við. Þessar tillögur fela fyrst og fremst í sér tvennt. Það að sveitarstjórnirnar eiga að greiða helming af útlögðum kostnaði við eyðingu refa og minka og hins vegar tekur ríkisvaldið sér það vald að taka ekki þátt í kostnaði við eyðingu refa og minka á ákveðnum svæðum.
    Nú verð ég að lýsa því yfir, herra forseti, að ég er mikill vinur refsins og mér verður sannast að segja alltaf órótt þegar ég sé svona greinar um eyðingu refa. Mér er nú alveg sama um minkinn, hann er leiðindakvikindi, en refurinn er íslenskt dýr. Hann er landnemi á Íslandi og mér finnst að hann eigi sinn rétt. Ég vil hvetja hæstv. umhvrh., sem hér situr, til þess að stuðla að því að refurinn eignist griðland á Íslandi. Ég þykist vita að hann sé mér sammála í þessu efni. Refurinn þarf að eignast griðland á Íslandi. Ég sting upp á því að það verði á Hornströndum þar sem byggð hefur eyðst og refurinn fær nokkurn frið. Mér brá mjög í brún þegar fréttist, gott ef það var ekki í sumar, af mönnum sem voru á skytteríi á Ströndum og voru að eltast þar við refinn. Mér finnst að hann megi vera þar í friði og ég vil að hann fái að vera í friði. En það er nú reyndar annað mál en þetta því að hér er verið að leggja ákveðinn kostnað á sveitarfélögin. Það vill svo til að refurinn, ef ég hugsa um hann, heldur sig gjarnan fjarri mannabyggðum og þá frekar í fámennum sveitarfélögum þó að hann komi svo sem víða við. Þetta gæti komið við ýmsar sveitarstjórnir og leggst við þann stóra reikning sem þær eiga að greiða ríkisstjórninni ef þetta frv. verður samþykkt sem ég vona reyndar að verði ekki.
    Þá er ég komin að hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrirgreinum`` og reyndar á ég eftir tvö stórmál í lokin, vegagerðina og lögregluna. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um hin svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` vegna þess að hér er dæmi um það hvernig farið er með lög sem Alþingi hefur samþykkt. Það hafa verið fundnir ákveðnir tekjustofnar í mörgum tilvikum sem eiga að styðja við ákveðin verkefni, sérstaklega menningarverkefni og ríkið leyfir sér ár eftir ár að taka þessa tekjustofna og nýta þá í eitthvað annað. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta segir mér að það sem kallað er eyrnamerktir tekjustofnar er eitthvað sem virðist ekki ganga í lagasetningu hér á landi. Þetta er ekki virt. Löggjafinn sjálfur virðir ekki þessa lagasetningu. Menn leyfa sér að taka þessa peninga og nota þá í eitthvað allt annað en þeir eiga að fara í. Hér má nefna hverja stofnunina á fætur annarri sem fær að líða fyrir þetta. Þar er fyrst að nefna Ríkisútvarpið. Á þessu ári eru teknar 200 millj. af mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins og þeir peningar látnir renna í ríkissjóð en stofnunin, Ríkisútvarpið, líður fyrir. Það dregst að endurnýja dreifikerfi útvarpsins, sem mjög hefur verið kvartað yfir, og Ríkisútvarpið, útvarpsráð, hefur sent frá sér harðorðar yfirlýsingar vegna þessa. Þetta ætti hæstv. umhvrh. að kannast við sem lengi sat í útvarpsráði og þekkir innviði þeirrar stofnunar mætavel.
    Á Listskreytingarsjóðinn er sett ákveðið þak en eins og þingmönnum mun vera kunnugt er ætlast til þess að ákveðin prósenta af byggingarkostnaði renni til skreytinga á byggingum. Ekki veitir af að fegra umhverfið en í svona liði er verið að krukka í þessari miklu leit ríkisstjórnarinnar að peningum. Hún er alltaf að leita í vitlausum hirslum. Hún leitar ekki þar sem peninga er von.
    Þá kem ég næst að mínu mikla og stóra áhugamáli sem ég gæti talað um til morguns, ef ég kysi svo, en það er Húsafriðunarsjóður. Ég beini því enn og aftur til alþingismanna að breyta þessu ákvæði og hækka framlagið til Húsafriðunarsjóðs. Hann er skorinn niður um 24,5 millj., fær einungis í sinn hlut ef ég man rétt 10,5 millj. sem er allt of lítið ef hann á að geta sinnt sínum verkefnum. Enn og aftur minni ég á það að hér er verið að tala um gömlu torfbæina, elstu húsin á Íslandi, sem við eigum að varðveita og eru hluti af okkar menningararfi en menn óttast mjög að séu að grotna niður. Af því að ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem er þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra, situr hér í salnum vona ég að hann viti að safnvörðurinn sem m.a. hefur Glaumbæ í Skagafirði í sinni umsjá hefur miklar áhyggjur af þeim bæ. Ég ætla ekki að lýsa því hvílíkur skaði það yrði ef sá bær yrði fyrir verulegu tjóni. Þessir gömlu bæir eru þannig gerðir að þeir skekkjast og síga saman og þarfnast stöðugrar endurnýjunar. Þeir þurfa stöðugt viðhald. Fjársvelti, eins og þetta, bitnar illa á þessum verkefnum og þetta er þjóðinni og Alþingi

til skammar. Ég nefni þetta í þeirri von að þingmaðurinn leggi mér lið í þessu máli. ( Gripið fram í: Ég hef gert það.) Þakka þér fyrir.
    Kvikmyndasjóður er skorinn niður að þessu sinni um 21,5 millj. en hann fær þó allþokkalegt framlag miðað við ýmsa aðra. Þetta er ung listgrein hér á landi og þarfnast mikils stuðnings. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um Kvikmyndasjóð því eins og ég nefni fara margir verr út úr þessu frv. en hann þó að ég óski kvikmyndagerð alls góðs.
    Menningarsjóður verður mjög illa úti í þessu frv. Það hefur margoft komið fram í máli stjórnarsinna að þeir ætla sér að breyta lögunum um Menningarsjóð og þar með í rauninni að hunsa hlutverk hans. Af því að ég sé að hér sitja allnokkrir framsóknarmenn í salnum ætti þetta að vera þeim mikið hjartans mál því, ef ég man rétt, er þetta eitt af börnum Jónasar frá Hriflu. ( Gripið fram í: Þeir eru búnir að gleyma honum.) Þeir mega minnast hans og ættu að kynna sér hans verk. Þetta er eitt af hans börnum og nú er íhaldið komið til valda og ætlar að ráðast á barnið. (Gripið fram í.) Þetta er allt á niðurleið, því miður. En Menningarsjóður er ákaflega merkileg stofnun og var ætlað mikið hlutverk á sínum tíma. Hann hefur vissulega gegnt merkilegu hlutverki því hann hefur gefið út ýmsar bækur, sögulegar og fræðilegar bækur og ekki síst eftir alþýðufræðimenn, bækur og þýðingar, þeir hafa gefið út töluvert mikið af þýðingum. Þetta eru bækur sem oft hefur gengið erfiðlega að fá útgefnar og ég óttast því að það þrengi að fræðimönnum ef þessum sjóð verður nánast lokað. En vissulega er rétt, sem komið hefur fram, að sjóðurinn hefur safnað skuldum og situr uppi með töluverðan lager af bókum. Ég held að þeir ættu að taka sig til og halda góða útsölu og sjá hvort þeir geti ekki rétt fjárhaginn svolítið við.
    Þá er ég komin að Þjóðarbókhlöðunni og um hana er ekki mikið að segja sem betur fer að þessu sinni því loksins tók ríkisstjórnin sig til og hækkaði framlagið eða réttara sagt stal ekki eins miklu af framlaginu og oft áður. Það skortir aðeins 30 millj. upp á að Þjóðarbókhlaðan fái allan skattinn í sinn hlut, en þetta er vel ásættanlegt, því að 30 millj. renna til framkvæmda á Bessastöðum. Og eins og ég segi, þetta er vel hægt að sætta sig við.
    Þá kemur að nokkrum atriðum sem snerta bændur. Eins og ég hef áður nefnt verða bændur ansi illa úti í þessu frv. Þetta eru greinar sem snerta Stofnlánadeild landbúnaðarins, forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, flokkun og mat á gærum og ull og síðan framlagi til Framleiðnisjóðs. Þegar við litum á þessar greinar frv. í landbn. fullvissaði formaður nefndarinnar, hv. þm. Egill Jónsson, okkur um að þessi þrjú fyrstu ákvæði væru bændum ekki til mikils skaða því hægt væri að bjarga þessu á annan hátt. Ég ætla að treysta því að formaður landbn. fari þar með rétt mál. Ég veit að hann gætir mjög vel hagsmuna bænda. ( Gripið fram í: Það er engu að treysta í þessu.) Engu að treysta, þannig að við skulum kannski athuga þetta betur í 3. umr. En hins vegar er því ekki að leyna, að sú grein frv. þar sem fjallað er um framlag ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs er verulega alvarlegt mál. Þetta er verulega alvarlegt mál. Framlagið til Framleiðnisjóðs er skorið niður um hvorki meira né minna en 340 millj. sem þýðir að verði Framleiðnisjóður við beiðni ríkisins um framlög til ákveðinna verkefna, sem landbrn. vill að Framleiðnisjóður fjármagni, hefur sjóðurinn aðeins 60 millj. til að sinna lögboðnum verkefnum, 60 millj. til lögboðinna verkefna. Það er alveg ljóst að það er allt of lítið ef einhver veruleg nýsköpun á að eiga sér stað. Ég get rifjað það hér upp að hlutverk Framleiðnisjóðs er ekki síst að styðja við nýsköpun í landbúnaði. Það kom fram þegar fulltrúar Framleiðnisjóðs heimsóttu landbn. í haust að þeim hefur tekist þetta hlutverk allvel því að þeir hafa skapað allmörg störf. Ég þori ekki að fara með töluna svona um miðja nótt.
    Síðan eru hér nokkrir sjóðir sem verið er að skerða verulega eða framlög eru jafnvel skorin algjörlega niður. Ég vil sérstaklega nefna kirkjugarðsgjaldið, sem skorið er niður um 79 millj., en hæstv. dóms- og kirkjumrh. hefur lofað því að þetta verði aldrei aftur gert. En ég tek undir þau orð sem voru sögð í salnum rétt áðan, að það er auðvitað engu að treysta. Þarna er einmitt dæmi um nefskatt sem kirkjunni var ætlaður og hefur komið kirkjunni að miklum notum við uppbyggingu og endurbyggingu. Auðvitað er ekki að spyrja að því þegar eitthvað er farið að ganga vel seilist ríkið í það með sínum klóm.
    Ég vil líka nefna sérstaklega Bjargráðasjóð sem er ætlað það hlutverk að styðja bændur sem verða fyrir einhverjum skakkaföllum. Á fundi í efh.- og viðskn. kom fram að bændur á Suðurlandi hafa orðið fyrir miklum áföllum vegna skemmda á kartöflum vegna kartöflusjúkdóms sem þar herjar, en þá er Bjargráðasjóður nánast tómur. Og hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þessum vanda? Hvernig er hægt að tæma sjóðinn með þessum hætti? Ég veit reyndar að það hefur verið til umræðu að leggja þennan sjóð niður og hér er framlagið skorið niður um 65,6 millj. En þarna er auðvitað verið að skapa nýjan vanda í staðinn.
    Ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni þá sjóði sem hér eru eftir. Nokkrir eru gamlir í hettunni og skipta ekki meginmáli í þessari umræðu en ég vil þó minnast aðeins á Ferðamálasjóð sem verður fyrir verulegri skerðingu enn eitt árið. Hann er skorinn niður um hvorki meira né minna en 116 millj. og þarna er verið að ráðast á vaxtarbrodd í atvinnulífinu. Þarna er verið að skerða möguleika til atvinnusköpunar og

framfara í ferðamálum en þar veitir svo sannarlega ekki af að taka til hendi. Ég harma að þessi sjóður skuli verða fyrir slíkri skerðingu af því að við þurfum að bregðast við því ástandi sem blasir við okkur. Við þurfum að nýta alla þá möguleika sem finnast til atvinnusköpunar og hvað á þá að þýða að ráðast á vaxtarbroddana, að skera niður vaxtarbroddana? Hvers konar pólitík er þetta?
    Herra forseti. Ég á aðeins eftir að nefna tvö atriði í þessari umræðu. Annars vegar þann niðurskurð sem Vegagerðin verður fyrir og hins vegar lögregluskattinn. Meiningin er að skera niður framlög til Vegagerðarinnar og sá ræðumaður sem talaði hér á undan mér fór mjög ítarlega í þetta mál. Ætla ég ekki að flagga mörgum tölum. Að mínum dómi á ríkisvaldið að efna til opinberra framkvæmda á tímum eins og þessum. Það á að reyna að draga úr kreppunni eða dýfunni sem við sjáum fram undan með því að efna til opinberra framkvæmda. Og samgöngur eru verkefni sem kemur allri þjóðinni til góða og eru arðbærar framkvæmdir. Þetta eru arðbærar framkvæmdir. Þess vegna tel ég mjög bagalegt að fé til vegagerðar skuli vera skorið niður með þessum hætti. Ég ítreka enn og aftur þá skoðun mína að ég tel það réttlætanlegt, þrátt fyrir slæma skuldastöðu þjóðarinnar, að taka erlend lán eða nýta það lánsfé sem áætlað var að taka fyrir Landsvirkjun og nýta það til opinberra framkvæmda til þess að reyna að draga úr því atvinnuleysi sem spáð er á næsta ári. Þetta er nú mín skoðun á þessu máli en ég heyri og sé á öllu sem ríkisstjórnin boðar og er að gera að hún er á þveröfugri skoðun. Hún trúir því að markaðurinn muni laga þetta allt saman þó að sú kenning hafi verið rækilega afsönnuð í heimskreppunni miklu.
    Að lokum, herra forseti, ætla ég að fara nokkrum orðum um lögregluskattinn sem að mínum dómi er alveg dæmalaus aðgerð. (Gripið fram í.) Já, en þá verð ég nú að nefna að þó ríkisstjórnin sé mjög hugmyndarík, þá er nú einn af þingmönnum Framsfl. enn hugmyndaríkari. Ég ætla að leyfa mér að koma hugmynd hans hér á framfæri þó hér sé aðeins einn ráðherra og málið heyri ekki undir hann. En þessi ágæti þingmaður furðaði sig á því að ríkisstjórninni skyldi ekki hafa dottið í hug að taka upp innritunargjöld í fangelsunum í samræmi við þá trú ríkisstjórnarinnar að framboð og eftirspurn ráði gangi mála. Og eins og við vitum, þá er meiri eftirspurn eftir plássi í fangelsunum heldur en framboð --- ég bið afsökunar, herra forseti. Ef ríkisstjórnin vill stjórna eftirspurninni, hefur hún þann möguleika að taka upp innritunargjald. En sú hugmynd er nú ekki til umræðu hér heldur lögregluskatturinn. Hann felst í því að leggja á ákveðin gjöld á íbúa sveitarfélaganna eftir stærð þeirra. Þetta þýðir að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 300 eða fleiri skal greiða 2.850 kr. á hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa eiga að greiða 1700 kr. á hvern íbúa. Ég veit að margir þingmenn munu taka þetta upp í umræðunni því að þetta eru býsna þungar greiðslur fyrir lítil sveitarfélög. Og ég sem þingmaður Reykjavíkur hlýt að mótmæla þessu því hér er um að ræða hvorki meira né minna en 270 millj. fyrir Reykjavíkurborg og það munar um minna. Þetta er mikil gjaldtaka af sveitarfélögunum í landinu sem á að renna til löggæslu.
    Auðvitað má skoða það hvernig þessum málum skuli háttað og spurning hvort sveitarfélögin ættu að taka á sig hluta löggæslunnar og skipuleggja hana eins og reyndar ýmis önnur mál sem kannski er eðlilegra að sveitarfélögin annist. En þá verða líka tekjustofnar að koma á móti. (Gripið fram í.) Fangelsisgjaldið? ( Gripið fram í: Já.) Það er spurningin. Þetta hefur ekki verið reiknað út. Við þurfum að setja þetta í athugun. En það yrðu náttúrlega fangarnir sem mundu greiða, þetta er þjónustugjald samkvæmt skilningi ríkisstjórnarinnar.
    Ég ætla nú að fara að stytta mál mitt, herra forseti. Ég mótmæli þessum skatti harðlega og ég mótmæli þeim álögum sem verið er að leggja á sveitarfélögin. Að lokum langar mig til þess að draga aðeins saman það sem við erum að upplifa þessa dagana. Eftir því sem málin komast á dagskrá og fá nánari skoðun, verður efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar æ skýrari. Hún felst í því að við erum að upplifa meiri háttar niðurskurð á ríkisútgjöldum. Við erum að upplifa að verið er að taka upp meiri háttar gjaldtöku af almenningi fyrir veitta þjónustu ríkisins, þjónustu sem hingað til hefur verið greidd af sköttum okkar allra. Nú eiga þeir sem nota þjónustuna að fara að borga. Við erum einmitt að fjalla um sjúklingagjöld í þessu frv., eða hvað við eigum nú að kalla þau gjöld sem fólk þarf að greiða sem leitar til læknis. Á morgun koma skólagjöldin væntanlega til umræðu enn einu sinni, ef fjárlögin komast til 3. umr. Við erum að upplifa stórfelldar álögur á sveitarfélögin í landinu. Við erum að upplifa að lögboðnir tekjustofnar eru teknir traustataki enn einu sinni. Við erum að upplifa skatta sem jafnvel eru taldir vera orðnir ólöglegir eins og jöfnunargjaldið. Við horfum upp á það að barnbætur eru lækkaðar. Þá mætti kannski rifja það upp að þegar matarskatturinn var settur á á sínum tíma voru barnabætur einmitt hækkaðar til mótvægis. Nú er verið að lækka þessar barnabætur en það bólar lítið á lækkun matvæla. Sjómannaafslátturinn er skorinn niður. Eins og komið hefur fram verður hluti sjómanna fyrir þrefaldri kjaraskerðingu með þessum lagabreytingum sem hér eru fram undan. Það á að skera niður laun opinberra starfsmanna. Ýmiss konar gjöld verða lögð á atvinnulífið og gera því erfiðara fyrir. Og ein af forsendum fjárlagafrv. er hið dularfulla ákvæði, sala á ríkiseignum upp á rúmlega milljarð, sem enginn veit hvort skilar nokkrum sköpuðum hlut. Þetta eru býsna ný tíðindi í íslenskum stjórnmálum og hérna er ákveðin stefnubreyting að eiga sér stað sem ég lýsi

mig algerlega andvíga.
    Þessi ríkisstjórn sem nú starfar boðaði í vor að hún ætlaði að koma á hér því sem hún kallaði ,,sáttargjörð um sanngjörn kjör.`` En ég fæ ekki betur séð en að með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið og felast í þeim lagafrv. sem við höfum til meðferðar, sé einfaldlega verið að lýsa yfir styrjöld í landinu. Verið er að segja launafólki og atvinnulífinu stríð á hendur. Ég held að á þeim tímum sem fram undan eru þurfum við á allt öðru að halda en átökum og leiðindum í þjóðfélaginu. Við þurfum á samstöðu og bjartsýni að halda og því að bretta upp ermar og reyna að átta okkur á því hvaða möguleika við höfum til þess að bregðast við þessu samdrætti og vandræðum. En allt sem ríkisstjórnin er að gera boðar ófrið og erfiðleika fyrir fjölskyldurnar í landinu. Og ég segi það enn og aftur, ég mótmæli þessu harðlega og mun greiða atkvæði gegn þessu frv.