Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 04:52:00 (2295)

     Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með viðbrögð hæstv. utanrrh. Hæstv. ráðherra sagði að í plagginu sem dreift var í dag væru allar upplýsingar um þetta mál. Af hverju er þá ekkert minnst þar á þetta erindi sem hann gat hér um og ég ræddi um sem Kanada beitti sér fyrir? Það segir sína sögu.
    Í öðru lagi: Af hverju töldu fulltrúar Noregs að það væri sterkari leikur að vera aðili að þessu erindi þó að þeir hefðu lýst yfir sínum fyrirvara áður? Af hverju gildir eitthvað annað um Ísland en um Noreg að koma þessum viðhorfum á framfæri? Svo vil ég árétta það sem ég reyndi að segja að þær hugmyndir sem núna eru á blaði eru gerólíkar þeim sem gengið var út frá fyrir ári síðan.