Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 04:58:00 (2300)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Herra forseti. Alveg er ljóst að íslenska ríkisstjórnin styður það og það er hennar stefna að magntakmarkanir séu í sambandi við landbúnaðarafurðir. Í tillögum Kanadamanna fólst að magntakmarkanir skyldu vera sérstaklega í þeim vörutegundum sem nú er framleiðslustýring á sem vitaskuld er í samræmi við yfirlýsingu og stefnu ríkisstjórnarinnar sem gefin hefur verið á Alþingi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þess vegna stendur það sem ég sagði að efnislega er ekki ágreiningur milli íslensku ríkisstjórnarinnar og þess að nauðsynlegt sé að leggja áherslu á það í sambandi við GATT-viðræðurnar að þetta náist fram. Það hefur ekki orðið nein breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.