Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 05:00:00 (2302)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Hér hafa farið fram nokkrar umræður um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég hafði hugsað mér að taka hér til máls þó fulltrúi Kvennalistans í efh.- og viðskn. hafi talað hér og gert grein fyrir meginsjónarmiðum okkar kvennalistakvenna til þessa máls. Ég ætla að leggja megináherslu á fyrstu þrjár greinar þessa frv. sem eru um breytingar á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla. Ég hafði hugsað mér að beina máli mínu þar af leiðandi fyrst og fremst til hæstv. menntmrh. og vænti ég að hann sé hér í húsinu og vil ég óska eftir því við forseta að honum verði gert viðvart um að ég óski eftir að ræða þennan kafla. Ég hefði gjarnan vilja eiga orðaskipti við hann. ( Forseti: Forseti verður því miður að upplýsa að hæstv. menntmrh. er ekki í húsinu.) Það er mjög sérkennilegt að hér skuli haldinn fundur til að ræða þetta mikilvæga mál, að því er virðist, af hálfu ríkisstjórnarinnar sem við höfum heilmikið um að segja ef fulltrúi menntamála í Stjórnarráðinu getur ekki séð sér fært að vera viðstaddur umræðuna. En ég ætla ekki að beita þvílíkri harðneskju að ætlast til þess að hann verði vakinn upp af sínum væra svefni sem hann hefur þá vonandi getað fengið. En þá er spurning hvort einhverjir fulltrúar meiri hlutans í hv. efh.- og viðskn., sem flytja heilmiklar brtt., séu viðstaddir eða hvort það eru einungis fulltrúar minni hlutans sem hér eru staddir. ( Forseti: Forseti vill kanna það hvaða fulltrúar úr efh.- og viðskn. eru í húsinu ef þingmaðurinn vil gera örstutt hlé á ræðu sinni á meðan.)
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki tefja tímann allt of mikið með því að standa þegjandi. Ég tel því rétt að ég skýri aðeins hvaða áherslur ég ætla að leggja. Eins og ég sagði ætlaði ég að ræða um 1., 2. og 3. gr. til að byrja með. Ég sé mér til mikillar ánægju að a.m.k. einn fulltrúi meiri hlutans í efh.- og viðskn. er mættur. Ég veit ekki hvort fleiri eru hér en ég hef tekið eftir því að þessi fulltrúi skrifar undir nál. meiri hlutans með fyrirvara. Við höfum ekki heyrt í hverju hans fyrirvarar eru fólgnir en við megum kannski hlýða á það hér síðar í nótt eða kvöld eða hvað sem má kalla þetta í dag. Hann hlýtur að vera ágætis fulltrúi en hv. þm. Ingi Björn Albertsson ætlar þá væntanlega að færa meiri hluta hv. efh.- og viðskn. þær ábendingar sem ég vil fram færa.
     Þegar þetta frv. er lesið nákvæmlega kemur mjög á óvart hversu mikið er þar inni sem ekki hefur neitt með ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 að gera að því er virðist í fljótu bragði. Þegar farið var að skoða þetta nánar komu alltaf fleiri og fleiri atriði í ljós sem ekki áttu þar heima að mínu mati. Það var kannski síðasta mgr. í 3. gr. sem kom mér til að fara betur ofan í það sem hér var á ferðinni en sú málsgrein hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Menntmrn. setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.``
    Þetta þótti mér mjög einkennilegt. Hvað hefur þetta með ráðstafanir í ríkisfjármálum að gera? Þetta er stórmál sem þarna er á ferðinni og getur varla fallið undir ráðstafanir í ríkisfjármálum nema menntmrn. eigi að beita þessari heimild eða þessari reglugerð á þann hátt að skorið verði verulega niður í grunnskólum. Það var ekki síst það sem ég hefði viljað beina til menntmrh. og e.t.v. getur hv. þm. Ingi Björn Albertsson, 5. þm. Reykv., upplýst um þetta. Auðvitað hljóta menn í meiri hluta efh.- og viðskn. að hafa farið ofan í þetta, því að minni hlutinn gat ekki upplýst það hvað þarna væri á ferðinni.
    En ef ég sný mér að 1. gr., a-lið, og skoða hverju er verið að breyta, hvað er verið að fella út? Þar segir að 3. mgr. 4. gr. falli út en hún hljómar svo mjög stutt, ein lína, með leyfi forseta:
    ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.``
    Þetta var eitt mikilvægasta málið sem fékkst fram á 113. löggjafarþingi þegar hér voru samþykkt lög um grunnskóla. Ef ég tek um leið d-liðinn sem er 1. og 6. mgr. 46. gr. og skoða hvar þar er á ferðinni þá sér maður e.t.v. tenginguna á milli þessa liðar, þ.e. d-liðar 1. gr. og síðustu málsgreinar 3. gr. sem ég las hér áðan. 46. gr. grunnskólalaganna fjallar um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda í grunnskóla, sem á að vera að lágmarki ákveðinn, sem er síðan talið upp í þessari grein. Síðasta efnisgr. í 51. gr., sem líka á að fella niður, fjallar um skólaathvörf. Hún hljóðar svo:
    ,,Komið skal á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla þar sem þörf er á þar sem nemendur geta dvalist utan kennslutíma. Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.``
    Samkvæmt þessari grein bendi ég á að þarna má taka gjald fyrir. Kannanir sem farið hafa fram í grunnskólum og þá sérstaklega hérna í Reykjavík meðal foreldra grunnskólabarna leiða í ljós að þeir eru mjög fylgjandi því að nemendur geti fengið að vera í skólaathvörfum eftir að skóla lýkur og telja sig flestallir geta staðið undir því að greiða fyrir þessa þjónustu ef kalla má það því nafni. Ég skil því ekki

hvers vegna þetta er talinn vera svo mikill kostnaður að það þurfi að fella þessa grein niður eða hún komi ekki til framkvæmda 1992. Það sem mér þykir miklu alvarlegra er sú grein sem segir að menntmrn. geti ákveðið vikulegan kennslutíma vegna þess að ég get ekki betur séð en þarna verði felld niður ákvæði 46. gr. um hve langur tími hver nemandi á að fá í grunnskóla og að menntmrn. geti skorið þetta niður að geðþótta.
    Ég hef sérstaklega áhyggjur af þessu ákvæði vegna þess að samkvæmt niðurskurðaráformum almennt hefur verið talað um flatan niðurskurð og þá hefur verið rætt um, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið, að það eigi að að taka af grunnskólanum yfir 400 millj., og þá væntanlega með því að fækka störfum. Ég get ekki betur séð en þarna ætli menntmrn. að notfæra sér þessar heimildir til að skera niður vikulegan kennslutíma. Þetta finnst mér það alvarlegt mál að ég get alls ekki sætt mig við að fá ekki svör við því hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta á að setja inn í lögin.
    Ég sé að á brtt. á þskj. 286 frá meiri hluta efh.- og viðskn. hefur verið fallið frá að fresta ákvæðum í 9. og 32. gr. sem fjalla um grunnskólaráð og aðstoðarskólastjóra. Mér þótti mjög einkennilegt að sjá í frv. að fella ætti þetta niður því að ekki var hægt að sjá að þessu fylgdi neinn aukakostnaður. T.d. varðandi aðstoðarskólastjóra þá var einungis um heimild að ræða í lögunum en ekki neina skyldu þannig að menntmrn. var heimilt að ráða aðstoðarskólastjóra en alls ekki skylt að gera það og þess vegna hefur það enga þýðingu að fella þetta ákvæði út úr lögunum og því eðlilegt að komið hafi fram brtt. af hálfu meiri hlutans og það lagt til að þetta verði fellt út úr þessu frv.
    Ég hefði gjarnan viljað fá skýringu á ákvæðum 2. gr. en þar segir, með leyfi forseta: ,,Þar sem að mati sveitarstjórna er nauðsynlegt að ætla sérstakt húsnæði í skóla fyrir heilsugæslu og/eða tannlækningar telst byggingarkostnaður húsnæðis til stofnkostnaðar viðkomandi skóla.``
    Ég velti því fyrir mér hvernig þetta muni koma út. Þarna er gert ráð fyrir að húsnæði fyrir tannlækningar teljist til byggingarkostnaðar og nú er það á forræði sveitarfélaganna að byggja skólahúsnæði og hlýtur þá þessi kostnaður að koma á sveitarfélögin. Ég veit að hér í Reykjavík eru víða tannlæknastofur inni í skólunum en svo er alls ekki úti um land, þannig að ég velti því fyrir mér hvort einmitt þetta atriði tengist á einhvern hátt ákvæðum frv. þar sem fjallað er um breytingar á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, þar sem gert er ráð fyrir að meiri hluti af tannlækningum skólabarna verði hjá skólatannlæknum og hvort þarna sé ríkissjóður að velta einhverjum hluta af skólatannlækningum eða stofnkostnaði yfir á sveitarfélögin. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða sparnaður felst í þessu og hefði gjarnan viljað fá skýringar á þessu ákvæði en það hlýtur að vera markmiðið með þessu frv. að þarna náist fram verulegur sparnaður.
    Ef litið er á 3. gr. frv. þá er þar um verulegar breytingar að ræða á ákvæðum til bráðabirgða sem að mestu leyti á að fella niður í lögunum en ný ákvæði eiga að koma inn, að vísu bara tvö ný. Það ákvæði sem m.a. á að fella niður er þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Ákvæði 46. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemanda komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.``
    Í stað núgildandi ákvæðis á ákvörðunin eingöngu að vera í höndum ráðherra sem ég tel alls ekki viðunandi en bendi þó á, og veit ekki hversu mikið mark maður á að taka á, að í 1. gr. segir að þessi ákvæði laganna eigi ekki að koma til framkvæmda á árinu 1992 en ákvæði 3. gr., þetta með að menntmrn. ákveði vikulegan kennslutíma, hafa engin tímamörk. Þau eiga að gilda áfram. Það er svolítið skrýtið að hugsa sér hvernig eigi að framkvæma þetta.
    Síðan eru ákvæði til bráðabirgða um hámarksfjölda í bekk og að það eigi einungis að miðast við 22 nemendur í 1. og 2. bekk og 29 í 3.--10. bekk. Það vita auðvitað allir sem vilja vita að 29 nemendur í bekk er allt of mikið og mjög erfitt fyrir kennara að komast yfir að kenna svo mörgum nemendum svo viðunandi sé, sérstaklega með tilliti til þess að bekkir eru blandaðir þannig að nemendur hafa mjög mismikla getu og erfitt fyrir þá að fylgjast að og vera allir á sama stað í náminu. Þess vegna var ákveðið á 113. löggjafarþingi að gera breytingar á grunnskólalögunum. Ég hélt að allir flokkar hefðu verið algjörlega sammála um þær breytingar og ég man ekki betur en það hafi náðst samstaða hér á hv. Alþingi um þetta atriði. Enda hafa kennarasamböndin lýst miklum áhyggjum vegna þessa frv. og í ályktun Kennarasambands Íslands frá 3. des. segir, með leyfi forseta, m.a., þegar búið er að lýsa því hvað í þessum breytingum felst og lýsa því hversu mikilvæg menntun þjóðarinnar er o.s.frv.:
    ,,Við slíkt ábyrgðarleysi verður ekki unað. Kennarasamband Íslands mótmælir því harðlega að lagaákvæði, sem samþykkt hafa verið og kynnt foreldrum og kennurum, skuli gerð marklaus á þann hátt sem nú er ráðgert.
    Kennarasamband Íslands heitir á alþingismenn að standa vörð um þær breytingar á grunnskólalögum sem allir þingflokkar voru sammála um á sl. vori og tryggja skólastarfinu fjárveitingar í samræmi við lög um grunnskóla frá 1991.`` --- Bréfið er undirritað af Svanhildi Kaaber og Birnu Sigurjónsdóttur, fyrir hönd Kennarasambandsins. Þannig að kennarar hafa þarna verulegar áhyggjur.

    Þann 13. des. sendi Kennarasambandið líka ályktun, bréf til alþingismanna, þar sem var ályktað um niðurskurð í ríkisfjármálum. Ég ætla einungis að vitna til þess hluta sem fjallar um breytingar á grunnskólalögunum, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Mjög hæpið er að þær tillögur sem fyrir liggja verði til sparnaðar í skólakerfinu þegar á heildina er litið, hættara er við að þær muni kalla á kostnaðarsamar hliðarráðstafanir auk þess sem þær vega gróflega að hagsmunum nemenda og foreldra þeirra og gera skólunum enn erfiðara en nú er að sinna lögboðnum skyldum sínum.``
    Síðan kemur áskorun til okkar um að standa vörð um þær samþykktir sem gerðar voru hér sl. vor.
    Kennarafélag Reykjavíkur sendir einnig frá sér ályktun á svipuðum nótum þar sem talað er um að nýju grunnskólalögin sem samþykkt voru sl. vor. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Kennarar fögnuðu því að ný grunnskólalög voru samþykkt í vor en í þeim er einmitt tekið tillit til breytts þjóðfélags og stefnt að lengingu skóladags nemenda, skólamáltíðum, skólaathvarfi og fækkun nemenda í bekkjardeildum.``
    Þetta er aðeins örstutt brot úr þeim ályktunum sem komið hafa frá Kennarasambandi Íslands og Kennarafélagi Reykjavíkur og eru í samræmi við þær miklu áhyggjur sem fólk í þjóðfélaginu, kennarar og foreldrar sérstaklega, hafa varðandi þetta atriði. Auðvitað eru miklu fleiri atriði í ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem fólk úti í þjóðfélaginu hefur áhyggjur af en þetta snertir okkur öll og það er því mjög alvarlegt að ríkisstjórnin skuli ætla sér að vega þannig að grunnskólanum með þessum hætti og kalla það ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Ég vil benda á það, virðulegur forseti, að svo virðist sem þessum kafla frv. sé ætlað að skila, eftir því fram hefur komið 20--40 millj. í ríkissjóð. Það er nokkuð á reiki eftir þeim upplýsingum sem fengist hafa en ég held að þessi svokallaði sparnaður sé í raun enginn sparnaður heldur verði þetta miklu dýrara þegar upp er staðið og tel það raunar alveg víst.
    Eins og ég sagði áðan var mikil samstaða hér á síðasta þingi um setningu grunnskólalaga, þeirra sem nú eru í gildi, og studdum við þingkonur Kvennalistans, sem þá áttum sæti á Alþingi, það frv. dyggilega og kannski ekki að undra þar sem flutt hafði verið af hálfu Kvennalistans í efri deild, sem þá var, fyrst á 110. löggjafarþingi í febrúar 1988 og síðar á 111. löggjafarþingi í nóv. 1988, frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla þar sem lögð var áhersla á samfelldan skóladag, lengri skóladag sérstaklega fyrir yngri nemendur, skólamáltíðir, skólaathvörf og fleira sem hefur síðan komið inn í núgildandi lög. Við vildum að vísu á 113. löggjafarþingi ganga heldur lengra en í grunnskólafrv., sem þá var til umræðu. Samkvæmt okkar tillögum hefðu lögin litið eilítið öðruvísi út en við töldum þó að þetta væri ásættanlegt sem fyrsta skref og studdum þar af leiðandi það frv.
    Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í þær tillögur sem fram komu af hálfu Kvennalistans á sínum tíma varðandi þetta frv. en ég get aðeins drepið á og langar til að vitna hér aðeins í upphafi greinargerðarinnar, en flm. frv. voru Guðrún Agnarsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að taka hér örfáar línur, en þar segir:
    ,,Brýn þörf er á því að samræma betur vinnudag barna og foreldra hérlendis. Gera þarf vinnudag barna í skóla samfelldan, lengja kennslutíma yngstu árganganna og öll börn verða að hafa tækifæri til að matast í skólanum. Enn fremur er nauðsynlegt að börn eigi þess kost að dveljast í skólanum utan kennslustunda og njóta þar umsjár kennara eða annarra með uppeldisfræðimenntun. Grunnskólar þurfa að vera einsetnir heilsdagsskólar þar sem vinnutími og viðvera bæði nemenda og kennara er samfelld. Nauðsynlegt er að fækka nemendum í hverjum bekk þannig að nám og kennsla komi að sem bestum notum. Það er einkum mikilvægt í yngstu bekkjunum. Einnig þarf að gæta þess að skólar verði ekki of stórir eða fjölmennir.``
    Síðan er í þessu frv. lagt til að lögbundin verði fræðsluskylda 6 ára barna sem nú er orðið að lögum og síðan eru rakin í ekki mjög miklu máli, en þó nokkru, álit ýmissa manna um mikilvægi þess að lengja skóladaginn og koma á skólamáltíðum og þess háttar og bent á að Ísland er eitt fárra ríkja í hinum vestræna heimi sem hefur svo stuttan skóladag yngstu nemendanna.
    Ég vil, virðulegi forseti, ekki eyða allt of miklum tíma með því að fara í gegnum grg. en mig langar þó aðeins að minnast á eitt atriði sem bent er á í henni um mikilvægi þess að lengja skóladag og að skóladagur sé samfelldur vegna þess hve slys á börnum eru algeng hér á landi. Það er að í könnun Bjarna Torfasonar læknis, sem gerð var árið 1979, kom í ljós að slys á gangandi vegfarendum voru algengust meðal barna og unglinga. Þetta er auðvitað mjög slæmt og því miður hefur lítil breyting orðið til batnaðar í þessum málum. Ég tel þess vegna að það geti alls ekki gengið að við stöndum fyrir því nú með lagasetningu af því tagi sem gert er ráð fyrir í þessu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að taka allan þennan mikilvæga kafla laganna burtu. Ég tel að það komi bara alls ekki til greina og ég veit að það þarf ekkert að lýsa því fyrir hv. þm. hér í smáatriðum hversu mikilvægt þetta er því svo mikið hefur verið rætt um

það á fyrri þingum. Það er því stórfurðulegt að það skuli vera lagt til hér, ekki aðeins að koma með einhverjar sparnaðaraðgerðir í grunnskólunum, heldur að gera verulegar breytingar á grunnskólalögunum. Ég óttast að þetta eigi ekki einungis að gilda árið 1992 heldur mun þetta vera fordæmi um það sem koma skal og er þá illt í efni.
    Það eru ekki bara kvennalistakonur, sem hafa lagt fram frv. til breytinga á grunnskólalögum þar sem lögð er áhersla á þessi atriði, heldur kom líka fram á 111. löggjafarþingi frv. til laga um breytingu á grunnskólalögum og flm. voru Ragnhildur Helgadóttir, Birgir Ísl. Gunnarssonar og Þorsteinn Pálsson. Þar eru mjög mörg svipuð atriði og lögð áhersla á það sama. Mér þótti merkilegt að sjá að þar sem ráðuneyti menntamála er í höndum Sjálfstfl. sem hefur lagt áherslu á að skóladagur lengist og að nemendur fái mat í skólanum. Í fyrrnefndu frv. er vitnað m.a. til þess að í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sem birt var um haustið 1987, var mjög ítarlega fjallað um fjölskyldu- og jafnréttismál. Í ágúst 1987 skipaði Þorsteinn Pálsson, sem þá var forsrh., samstarfsnefnd sem í áttu sæti Inga Jóna Þórðardóttir, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, Bessí Jóhannsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir, Þrúður Helgadóttir og Sigríður Snævarr. Skýrsla nefndarinnar var mjög löng en mig langar að taka upp örfá atriði. Það er vitnað í þessa skýrslu í frv. þessu, sem ég minntist á, sem flutt var af þingmönnum Sjálfstfl. sem þá voru. Með leyfi forseta ætla ég að taka örfá atriði:
    ,,Nefndin telur æskilegt markmið að allir grunnskólanemar njóti skólavistar a.m.k. sex klukkustundir á dag. Þessu markmiði verði náð í fjórum áföngum, þannig að skóladagur verði lengdur úr 22--35 stundir á viku í 30--36 stundir á viku.`` --- Síðan er vitnað í kafla, það á að gera þetta á ákveðnum tíma og miðað við að þetta eigi að taka gildi á þessu ári, árinu 1991--1992.
    Síðan segir líka: ,,Með skipulögðum aðgerðum innan fræðsluumdæmanna verði komið á skólaathvörfum þar til tillögur um lengingu skóladags verða komnar til framkvæmda.`` Þ.e. gert er ráð fyrir að koma á skólaathvörfum en þetta frv., sem við erum að fjalla um, gerir einmitt ráð fyrir að það verði allt saman fellt niður. Síðan er talað um að lokið verði við að koma á samfelldum skóladegi árið 1989--1990.
    Nú gæti maður kannski ímyndað sér að núv. ríkisstjórn segði að auðvitað væri þetta allt saman fyrri ríkisstjórn að kenna vegna þess að ekki var haldið þannig á málum að hægt væri að framkvæma þessi áform. Þau voru að vísu ekki í lögum þá og Sjálfstfl. var ekki í menntmrn. En nú er Sjálfstfl. kominn í menntmrn. og hefði þá mátt ætla að þeir mundu drífa sig í að framkvæma þessa stefnu sem þeir eru búnir að hafa, að því að sagt er, í fjölda ára. En það er öðru nær. Það á ekki einu sinni að reyna að halda í horfinu heldur á að skera verulega niður.
    Ég sagði frá því áðan að við hefðum rætt á 113. löggjafarþingi frv. til laga um grunnskóla. Hið ágætasta mál sem hér náðist síðan breið samstaða um eftir að gerðar voru á því nokkrar breytingar, sem Kvennalistinn taldi að vísu ekki vera til bóta, en það var samt sem áður niðurstaðan.
    Í nál. fulltrúa Sjálfstfl., Sólveigar Pétursdóttur og Ragnhildar Helgadóttur kom fram að þeim fannst rétt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Það var ekki vegna þess að þær teldu að þetta frv. væri ekki nógu metnaðarfullt heldur töldu þær auðvitað, eins og svo margir aðrir, að þarna þyrfti endilega að koma á samfelldum skóladegi, skólamáltíðum og fleira en þær töldu að það þyrfti að sjá betur fyrir fjármálahlið málsins og það hljóta allir að vera sammála um. En það getur varla verið að með þessu áliti hafi þær ætlast til þess að um leið og Sjálfstfl. fengi menntmrn. mundi öllum áformum svipt til hliðar.
    Í umræðum um þetta mál, sem stóðu yfir í samtals fjórar vikur, voru haldnar miklar og langar ræður og sérstaklega af hálfu hv. þm. Sjálfstfl. Það eru aðeins nokkur atriði í þeim ræðum sem ég vil taka út. Mér dettur ekki í hug að lesa það allt saman upp vegna þess að þá dygði ekki þessi nótt né heldur allur næsti dagur því svo mikið töluðu sjálfstæðismenn í þeirri umræðu. Það er ekki síst vegna þess að ég treysti mér ekki til að lesa mikið upp úr þessum ræðum að þær eru yfirleitt mjög líkar vegna þess að þetta var eiginlega alltaf sama ræðan aftur og aftur. Þegar farið er að lesa þetta, ég ætlaði mér að reyna að ná í einhver gullkorn þarna, sá ég að þau voru kannski ekki svo mörg vegna þess að þetta var meira og minna endurtekning á því sem sagt hafði verið áður. (Gripið fram í.) Já, það hafði ég einmitt hugsað mér, en ég ætla samt ekki að fara úr þessum ræðustól öðruvísi en að minnast á fáein atriði, af því að ég veit að hv. þm., sem hér greip fram í, hv. þm. Stefán Guðmundsson, hefur mikinn áhuga á þessum ræðum. Ég sat hérna mestmegnis undir því á sínum tíma en þetta er bara sýnishorn af því sem talað var. Það sem e.t.v. vekur athygli þegar farið er í gegnum þetta er að hörð gagnrýni hv. þm. Sjálfstfl. kemur fram á að ekki skuli vera haft nægilegt samráð við sveitarfélögin. Mig langar til að grípa niður þar sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir er að tala, þar sem hún segir, með leyfi forseta:
    ,,Aðfinnsluverð er sú forræðishyggja gagnvart sveitarfélögunum sem gengur eins og rauður þráður í gegnum frv.`` --- Síðan er talað um það aftur og aftur og hv. þm. Pálmi Jónsson talar um af mikilli vandlætingu hvernig vaðið er yfir sveitarfélögin og ætlast til þess að þau taki þátt í því að lagðar séu álögur á sveitarfélögin sem felist í þessu. Mig langar til að vitna hér í smá kafla af ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar þar sem hann segir, með leyfi forseta: ,,Og ég hlýt að endurtaka þá spurningu mína`` --- hann var búinn að spyrja nokkrum sinnum áður --- ,,treysta hv. þm. stjórnarliðsins sér til þess að samþykkja slíkt mál án þess að fulltrúar sveitarfélaganna í landinu treysti sér til þess að mæla með því að það verði samþykkt? Ég held að þá sé farið að fara mjög aftan að siðum ef á þann veg á að ganga fram með lagasetningu hér á hinu háa Alþingi.``
    Þetta er ein megingagnrýni Sjálfstfl. á þetta frv. og gengur eins og rauður þráður í gegnum allar þær ræður sem hér voru haldnar, að verið sé að vaða þarna yfir sveitarfélögin og vandlætingin er alveg gífurleg. Þetta vildi ég gera að umræðuefni í þessari ræðu minni, en eins og hv. þm. benti á gæti ég í seinni ræðu minni talað nánar um það sem hér kemur fram.
    Ég vil taka það fram að hv. þm. Sjálfstfl. á þessum tíma voru ekki á móti því að gerðar yrðu þessar breytingar á grunnskólalögunum. Það sem kemur fram er að mikilvægt sé að þessi mál séu sett á forgangslista stjórnvalda, eins og kemur fram í ræðu Sólveigar Pétursdóttur, sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Ég mun fyrir mitt leyti reyna að stuðla að því ef Sjálfstfl. á aðild að næstu ríkisstjórn og ef ég verð í aðstöðu til þess.`` --- Hún vill stuðla að því að þetta verði sett á forgangslista.
    Ég get ekki séð að með þessu frv. sé verið að setja þetta mál á forgangslista. Það er svo langt í frá. En vegna þess að rauður þráður í gegnum allar ræður sjálfstæðismanna er vandlæting á því að ekki megi samþykkja þetta frv. vegna þess að Samband ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögin í landinu treysti sér ekki til að samþykkja það óbreytt, þá vil ég benda á að ekkert samráð var haft við Samband ísl. sveitarfélaga eftir því sem þeir segja í yfirlýsingum sínum áður en þetta frv. var lagt fram þrátt fyrir lagaboð þar um eða, eins og segir í þeirra yfirlýsingu: ,,Samningsbundið og lögformlegt samstarf er einnig rofið og það einskis virt af ríkisstjórninni.``
    Þrátt fyrir langar og miklar ræður á 113. löggjafarþingi, sem tóku yfir sex fundi og voru í fjórar vikur, virðist ekki að sjálfstæðismenn, sem núna sitja á þingi og ráða ferðinni, taki nokkurt mark á þeim sem þarna voru. Ég gerði mér ekki grein fyrir að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefði svo lítið að segja innan þingflokks Sjálfstfl.
    Ég hef einungis lagt áherslu á 1. hluta þessa frv. í ræðu minni og tel það alveg nauðsynlegt að hann verði felldur út í heilu lagi, eins og gert er ráð fyrir í áliti minni hluta hv. efh.- og viðskn. og einnig í áliti minni hluta hv. menntmn. sem komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að þessi kafli félli út úr frv.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta frv. á þessu stigi málsins. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast aðeins á 4. tölul. brtt. á þskj. 286 þar sem gerð er tillaga um að bæta við ákvæði um ábyrgðasjóð launa. Þau ákvæði voru ekki tekin fyrir í félmn. og skil ég ekki hvernig stendur á því að það kemur hér allt í einu án þess að félmn. hafi verið falið að fjalla um það mál.
    Ég vil líka lýsa því að ég tel rétt og ætla mér að styðja brtt. um að 43. gr. þessa frv. falli brott og mun gera frekari grein fyrir því síðar í þessari umræðu. Ég ætla mér, virðulegur forseti, ekki að hafa þetta lengra að svo komnu máli þar sem ég tel að ég hafi gert sæmilega grein fyrir því af hverju ég tel ekki koma til álita að 1. hluti þessa frv. verði að lögum. Ég get raunar tekið fram að það eru fleiri atriði hér sem ég tel ótækt að verði að lögum en þessi kafli finnst mér einna mikilvægast að falli brott.