Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:34:00 (2303)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Er von á hæstv. forsrh. hingað í salinn? ( Forseti: Hæstv. forsrh. er samkvæmt töflunni ekki kominn í húsið en forseti mun athuga það. --- Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hún vilji fresta sinni athugasemd við gæslu þingskapa og hleypa að hv. 1. þm. Austurl. sem einnig vill gera athugasemdir við gæslu á meðan.) Nei, ég ætla einnig að eiga orðastað við 8. þm. Reykv. svo að ég er að hugsa um að byrja.
    Virðulegi forseti. Í nótt var okkur sagt það af hv. 8. þm. Reykv., þingflokksformanni sjálfstæðismanna hér á Alþingi, að nefndarálit minni hlutans skiptu engu máli, það þyrfti ekki að bíða eftir þeim. Í Ríkisútvarpinu í hádeginu, og kannski var sú frétt flutt einnig í morgun, fylgdi hæstv. forsrh. þessum ummælum eftir og sagði að það væri alveg sama hvað stjórnarandstæðingar töluðu hér, það væri búið að ná meiri hlutanum saman og engu yrði breytt. Með þessum ummælum er hæstv. forsrh. einfaldlega að segja að það sé alveg nákvæmlega sama hvaða rök komi fram hér á hinu háa Alþingi í þeim málum sem hér eru til umræðu, þar verði engu breytt.
    Að mínum dómi sýna þessi ummæli viðhorf til löggjafarhlutverks Alþingis sem ég tel algera óhæfu. Og ég vil beina spurningu til þingflokksformanns sjálfstæðismanna í fjarveru hæstv. forsrh.: Er það t.d. meiningin að keyra hér í gegn það frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem nú er til umræðu í hv. efh.- og viðskn. þrátt fyrir hörð mótmæli vinnuveitenda, verkalýðshreyfingar og sjómanna? Á ekki að hlusta á nein þau rök sem fram koma í málinu? Ég tel að með þessum ummælum hafi hæstv. forsrh. nú kastað stríðshanskanum og verði honum að góðu.