Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:49:00 (2307)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með forseta að full ástæða sé til þess að hér náist samstaða allra þingmanna um betri vinnubrögð. En ég vil þá spyrja forseta varðandi ummæli hæstv. forsrh. í útvarpi í hádeginu þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Í sjálfu sér getur stjórnarandstaðan talað eins lengi og hún vill og við líka því að við erum búnir að ná landi í því sem við þurfum að ná landi í og erum tilbúnir að afgreiða það og málþóf breytir engu um niðurstöðuna.``
    Virðulegi forseti, ég spyr hvort forseta finnist að þetta sé sá sáttatónn sem þurfi að koma frá þeim manni, frá hæstv. forsrh., sem ætti að sitja samráðsfundi til þess að reyna að ná samkomulagi. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsrh. og ítreka það sem fram hefur komið: Hver er sú lausn í einu af þeim meginmálum sem við erum búnir að ná landi í? Ég túlka það sem eitt af meginmálum varðandi arðgreiðslur atvinnulífsins, frádrátt af arði af hlutfé sem aðilar atvinnulífsins segja að sé bein atlaga við sig. Nú skora ég á hæstv. forsrh. að koma upp og kynna fyrir okkur þá lausn. Við vinnum við þetta nótt og dag í efh.- og viðskn. en við höfum ekkert séð þar.
    Til viðbótar, virðulegi forseti, vil ég segja og ítreka það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði hér í nótt að meðan inni í tillögum hæstv. ríkisstjórnar, sem hún hefur lagt fyrir Alþingi, eru ákvæði eins og lögregluskatturinn munum við halda uppi málefnalegri andstöðu svo lengi sem þurfa þykir til þess að berjast á móti þessu. Þetta er að mínu mati einhver ósvífnasta atlaga að minna megandi sveitarfélögum sem gerð hefur verið. Ég vil benda hæstv. forsrh. á það, ef hann veit það ekki, að ég hef dæmi um það að ef ég tek þær upplýsingar sem hæstv félmrh. gaf um áhrif lögregluskattsins á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þá veit ég um sveitarfélög sem verða að greiða 13 þús. kr. á næsta ári á íbúa sem mundi þýða fyrir Reykjavíkurborg, ef hún fengi samsvarandi skatt, 1,3 milljarða. Þetta er þvílíkt ranglæti sem bitnar helst á landsbyggðinni þar sem hvert mál ríkisstjórnarinnar á fætur öðru heggur í sama knérunn. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telur að málefnaleg barátta gegn þessu flokkist undir málþóf.