Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:56:00 (2308)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að staðfesta það, sem ég hélt hér fram í nótt, að mörg fordæmi væru fyrir því að mál hefðu komið á dagskrá þó að nál. og brtt. hefði verið útbýtt eftir miðnætti nóttina áður. Ég hélt þessu fram í nótt, aflaði mér þegar í stað dæma um það og þetta vita auðvitað allir, sem hér hafa setið einhvern tíma, að hefur tíðkast. Eins og fram kom bæði í nótt og hér fyrir skömmu hjá forseta hafa engar breytingar orðið á þingsköpum að því er þetta varðar. Ég vil þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að staðfesta þetta. En mér kemur hins vegar eilítið á óvart að hv. þm. Svavar Gestsson skuli enn halda þessu til streitu þegar búið er að sýna fram á það með ótvíræðum hætti að hér er engin breyting á ferð frá því sem áður hefur verið.
    Ég vil, virðulegi forseti, af því að ég hef nú í höndunum ummæli mín frá því í nótt sem einhver þingmaður hefur verið svo vinsamlegur að dreifa hér til annarra þingmanna, láta þess getið að ég gat mér rétt til þegar ég spáði því að hér yrði einhver umræða um þingsköp í upphafi fundar. Það var talað um þingsköp í tvo klukkutíma í eftirmiðdaginn í gær. Það var talað um þingsköp í einn klukkutíma í gærkvöldi og það var talað um þingsköp í einn klukkutíma í nótt, milli kl. 2 og 3. Auk þess bar það við í gærkvöldi að þrír hv. þm., sem allir eiga sæti í heilbr.- og trn. og hafa flutt þar frv. sem nefndin flytur sameiginlega um heilbrigðisþjónustu og hefur verið árlegt frv. í nokkur ár, tóku sig til og fluttu ítarlegar ræður við 3. umr. um málið þó svo þeir hefðu ekki séð ástæðu til þess að taka áður til máls, hvorki við 1. né 2. umr.
    Ég tel, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) Ég er hér að veita ákveðnar upplýsingar og mér kemur á óvart ef menn taka það illa upp. Ég er að segja það, virðulegi forseti, að hér hefur miklum tíma undanfarinn sólarhring verið varið til einskis. Ég vil mælast til þess að menn láti af þessu togi um vinnubrögð og annað þess háttar, setjist niður í alvöru og reyni að koma sér saman um það hvernig eigi að ljúka þessu þinghaldi fyrir jólin. Ég hef áður haldið því fram, virðulegi forseti, síðast í nótt, að það væri unnt að gera það á næstu sólarhringum ef vilji stendur til þess. Ég tel að það sé enn þá hægt en ég tel því miður ekki að sá vilji hafi komið fram í þeim umræðum sem ég vitnaði til í máli mínu.
    Ég vil svo að lokum svara þeirri spurningu sem hv. 18. þm. Reykv. beindi til mín áður en forsrh. gekk í salinn. Mér er ekki kunnugt um annað en að það sé fullur ásetningur stjórnarflokkanna að beita sér fyrir því, eins og fram hefur komið, að frv. um tekjuskatt og eignarskatt verði að lögum.
    Vegna þeirra frammíkalla sem hér hafa verið vil ég láta í ljós undrun mína á því

að stjórnarandstaðan telji að hún geti einokað umræður og menn megi ekki taka hér til varna eða veita þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegt að fram komi til þess að skýra mál. Ég vil ítreka að ég tel rétt að menn tali nú saman og einbeiti sér að því að vinna þau störf sem þingið á að vinna fyrir jólin, ljúka þeim verkum sem þarf að vinna, því löggjafarstarfi sem þjóðin ætlast til af þessu þingi.