Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:01:00 (2309)

     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessa þingskapaumræðu að öðru leyti en því að fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl. með nokkrum alvöruþunga að fjárln. hefði vangert í sínum störfum að taka eigi fyrir álit minni hluta efh.- og viðskn. um tekjuhlið fjárlaga. Ég vil geta þess að fjárln. gerði hlé á fundum sínum í marga klukkutíma í gær meðan beðið var eftir áliti efh.- og viðskn. um tekjuhlið fjárlaga. Síðan kom nál. frá meiri hluta nefndarinnar og eftir að það var fengið var það tekið fyrir á formlegum fundi og tekjuhlið afgreidd. Ekki var gerð athugasemd við það á fundi nefndarinnar að þessi háttur væri viðhafður. Hins vegar var greint frá því sem var sjálfsagt mál, að ef álit kæmi frá minni hluta efh.- og viðskn. yrði það prentað sem fylgiskjal með framhaldsáliti nefndarinnar. Þetta var gert.
    Ég vek í fyrsta lagi athygli á því að engin vissa gat legið fyrir um það hvort minni hluti efh.- og viðskn. skilaði áliti frá sér um þetta mál enda er það ekki skylt. Hvergi er skylt í þingsköpum að það sé gert.
    Í öðru lagi stendur hvergi í þingsköpum að það sé skylt af hálfu fjárln. að taka minnihlutaálit fyrir á fundi en það stendur í þingsköpum að það sé skylt, ef álit koma fram þá séu þau prentuð með sem fylgiskjöl og það er gert. Ég tel því aðfinnslur hv. 1. þm. Austurl. um þetta efni algerlega tilefnislausar.