Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:02:00 (2310)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það urðu mér mikil vonbrigði þegar upplýst var af hv. 8. þm. Reykv. að þingmenn gætu ekki treyst þeirri dagskrá sem lögð væri fram í Alþingi Íslendinga. Þeir gætu ekki treyst því að sú dagskrá væri unnin af þeirri samviskusemi, að skrifstofustjóri þingsins uppálegði sínum starfsmönnum að semja dagskrána nákvæmlega í samræmi við þau þingsköp sem eru í gildi. Mér satt best að segja brá. Ég ætlaði ekki að trúa því að þetta væri rétt. En nú er það upplýst af tveimur þingmönnum í salnum að þetta sé staðreynd. Sú röksemdafærsla er uppi höfð að af því að 29. gr. þingskapa hafi verið brotin sé heimilt að halda áfram að brjóta hana. Sem sagt hefðin sé búin að brjóta greinina. Þetta er svo forkostuleg röksemdafærsla að hún er móðgun við heilbrigða skynsemi. Með leyfi forseta, vil ég lesa 29. gr. þannig að það fari ekkert á milli mála hvað þar stendur:
    ,,Þá er nefnd hefur lokið athugun máls og kosið framsögumann fyrir það, sbr. þó fyrri málsl. 27. gr., lætur hún uppi álit sitt er skal prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Ef nefnd er ekki einhuga um afgreiðslu máls og hver hluti hennar skilar áliti skal hann tilnefna framsögumann. Eigi má taka málið til umræðu fyrr en a.m.k. einni nóttu síðar en áliti nefndar eða meiri hluta hennar var útbýtt.
    Fái nefnd mál til umfjöllunar á nýjan leik eftir útgáfu nefndarálits getur hún gefið út framhaldsnefndarálit.``
    Ef hægt væri að standa hér upp og segja: Af því að þessi þingsköp voru brotin á undanförnum árum, án þess að mönnum hafi það verið ljóst, m.a. mér, er hægt að brjóta þau áfram af því að greinin hljóðar eins, þá vil ég spyrja: Hvernig hefði sá texti átt að hljóða sem hefði getað leitt það í ljós að Alþingi gæti staðfest vilja sinn sem væri innihald þessarar greinar? Hvernig hefði þá sá texti átt að hljóða í greininni? Þessi ósvífni að reyna að smygla málum áfram með þessum hætti, og að skrifstofa þingsins skuli vera ber að þeim vinnubrögðum að gera það, er fáheyrð ósvífni í ljósi þess að Alþingi Íslendinga

hefur ekki, svo að ég muni eftir, fellt það að samþykkja afbrigði. Ég minnist þess ekki að Alþingi hafi fellt það að samþykkja afbrigði. Að reyna þá, þrátt fyrir það, að virða ekki þingsköpin hvað þetta atriði snertir og reyna að taka síurnar burtu úr þinginu sem eru þó ekki of miklar, skil ég ekki. Ég skil ekki hver tilgangurinn er nema það skuli vera hin nýja stefna að nú eigi að storka þingmönnum sem mest.
    Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að að sjálfsögðu ræður meiri hlutinn niðurstöðu atkvæðagreiðslu í málum. Það efar enginn. En þessi þingsköp eru jafnrétthá fyrir meiri hluta og minni hluta og vilji hæstv. forseti hafa frið verða þingmenn að geta treyst því að þegar stendur: ,,Ef leyft verður``, þá hafi það verið skrifað alls staðar á dagskrána þar sem það á að vera. Þeir verða líka að geta treyst því að ekki sé verið að reyna að fara í kringum það þannig að hver og einn þingmaður þurfi að vera eins og spæjari að fylgjast með klukkinni hvort þingsköpin hafa verið virt eða ekki. Það er eftirlitsstarf skrifstofunnar að sjá um að þetta sé í lagi.