Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:22:00 (2316)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um gæslu þingskapa í framhaldi af þeim umræðum sem hafist hafa vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv. sl. nótt þar sem hann taldi að ekki væri ástæða til þess að taka mikið tillit til nál. minni hluta. Ég minnist þess í störfum mínum sem forseti að ég reyndi alltaf að taka tillit til nefndarálits frá minni hluta nefnda. Oft var frestað fundi meðan beðið var eftir að fá þau fram því að eðli málsins samkvæmt voru þau oft seinna á ferðinni. Það var ekki verið að ásaka minni hlutann um einhvern sérstakan drátt þó að það henti þar sem þeir áttu erfitt með að fara að vinna að sínu nál. fyrr en afstaða meiri hlutans lá fyrir. Ég tel þetta því furðulegan málflutning hjá hv. 8. þm. Reykv. en reyndar í samræmi við það sem við höfum heyrt frá hæstv. forsrh.
    En ég minnist þess líka að oft stöðvuðust umræður vegna þess að ráðherrar eða flm. tillagna voru ekki viðstaddir þegar mál var til umræðu. Hins vegar gerðist það í nótt að ég ásamt hv. 15. þm. Reykv. héldum áfram máli okkar þó að þeir sem þar áttu hlut að máli væru ekki mættir. Ég segi fyrir mig, ég vildi ekki tefja fund með því að fara að bíða eftir því að þeir væru sóttir eða gera þeim það ónæði. En ekki hefur alltaf verið hafður sá háttur á.
    Aðeins í lokin um þingsköpin. Ég hef nokkrum sinnum komið upp nú á þessum vetri með ábendingar þar sem ég hef talið að ekki væri að fullu tekið tillit til þeirra breytinga sem gerðar voru á þingsköpum og nú síðast fyrir fáum dögum um að nefndum hafi ekki verið gefið það tóm til starfa sem var grundvöllur að færslu Alþingis í eina málstofu. En því miður hefur ekki að öllu, einu sinni, verið haldið gömlum hefðum. Þar minnist ég

síðast fyrir fáum dögum þegar varaforseti leyfði þingmanni að fresta sinni ræðu án þess að málinu væri frestað heldur til þess að annar þingmaður gæti tekið til máls. Þar tel ég algerlega vera farið á svig við gamla hefð og ákvæði þingskapa um að hver megi aðeins tala tvisvar og þá í mesta lagi aftur að bera af sér sakir. En ef á að taka upp þann sið að leyfa mönnum að fresta sinni ræðu til þess að annar komist að, þá sé ég ekki hvernig í ósköpunum á að stjórna hér fundahaldi.