Fjáraukalög 1990

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:51:00 (2322)

     Frsm. fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Fjárln. hefur yfirfarið frv. til fjáraukalaga 1990 og verður það að segjast eins og er að mjög langt er síðan frv. var lagt fyrir. Það var lagt fyrir á síðasta vorþingi og aftur núna og fyrst nú kemur það til 2. umr. og afgreiðslu.
    Fjárln. gerir aðeins eina brtt. og varðar hún Verðjöfnunarsjóð. Tillaga þessi á rætur að rekja til laga nr. 39 frá 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Samkvæmt þeim var Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins m.a. lagður niður. Í ákv. til brb. í nefndum lögum er kveðið á um að ríkissjóður skuli taka við skuldbindingu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Meðal skulda sem ríkissjóður yfirtók var yfirdráttur á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 1.458.283. þús. kr.
    Þann 1. nóv. 1990 undirritaði þáv. fjmrh. skuldabréf til handa Seðlabanka Íslands að sömu fjárhæð til greiðslu á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá bankanum. Fjárln. telur rétt að gera þessa brtt. til þess að sýna rétta stöðu og leggur einhuga til að tillagan verði samþykkt ásamt frv.