Fjáraukalög 1990

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 15:17:00 (2325)

     Pálmi Jónsson :
     Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv., nefndarmaður í fjárln., greindi frá því í hverju fyrirvari hennar og hv. 4. þm. Suðurl. væri fólginn varðandi þá brtt. sem hér er flutt við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Hún gerði samanburð á því að ríkissjóður á árinu 1990 yfirtók lausaskuldir í Seðlabankanum, lausaskuldir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og tók til þess nýtt lán, sem hér hefur verið gert að umtalsefni af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, annars vegar og hins vegar á því að það gæti farið svo að ábyrgðir falli á ríkissjóð vegna kaupa á jörðinni Flekkuvík á Reykjanesi.
    Ég áleit að ég hefði nú komið öllu sem máli skipti til skila við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur varðandi þetta mál. Hún sagði að hvergi mundi sjást í fjárlögum ef þessi skuld, 108 millj. kr., væri yfirtekin eða félli á ríkissjóð og það mundi verða tekið út úr einhverjum óskilgreindum sjóði í iðnrn.
    Þetta er misskilningur eins og ég hafði sagt hv. þm. Hér er um ríkisábyrgð að ræða og í fjárlögunum er ætlað fé til að standa straum af ríkisábyrgðum sem falla á ríkissjóð á næsta ári. ( GHelg: Ótilgreindum.) Ótilgreint vegna þess að fyrir fram, hv. þm., er ekki hægt að vita hvaða ríkisábyrgðir kunna að falla á ríkissjóð á einhverju tilteknu ári. ( Gripið fram í: . . . núna í þessu tilviki.) Það lítur þannig út að þessi ríkisábyrgð falli á ríkissjóð á næsta ári, um 108 millj. kr., en í fjárlagalið 09 971 undir fjmrn. --- ekki einhverjum óskilgreindum sjóði iðrnrn. --- eru ætlaðar 550 millj. kr. til þess að standa straum af ríkisábyrgðum sem falla kunna á ríkissjóð á því ári. Það er ætlað fyrir þessum útgjöldum í fjárlögunum og meira til. Og þetta er allt annars eðlis heldur en þegar um er að ræða nýja lántöku umfram það sem heimildir fjárlaga greina. Ég held að þetta hljóti að vera fullskýrt.
    Ég sé ekki ástæðu til að flytja langt mál út af ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Við höfum rætt þessi mál áður. Hann fór hér ýmsum orðum um mig persónulega. Það er honum frjálst. Hann má nefna mig þeim orðum sem hann kýs hér í þessum ræðustól. Ég er hér og get þá svarað fyrir mig. Hann má sem sagt gera það að vild sinni. Hann kom með alveg nýtt hugtak í pólitík. Hann fjallaði um pólitíska skapsmuni Pálma Jónssonar og pólitíska hagsmuni mína, eins og ég hefði einhverja pólitíska eða persónulega hagsmuni af því hvernig yfirtaka ríkissjóðs á lausaskuldum úti í Seðlabanka vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er færð. Þvættingsræða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar hér áðan var hreint með ólíkindum.
    Hitt er verra þegar hv. þm. leyfir sér að fara að draga nafngreinda einstaka menn úr embættismannakerfinu og ríkiskerfinu hér sem sökudólga í þessum ræðustól. Hann á að

hafa þá kurteisi til að bera, þessi hv. þm., og viðhafa þau vinnubrögð að ef hann vill tala til einhverrar stofnunar þá á hann að nefna þá stofnun en ekki vera að draga út úr einstaka starfsmenn þeirrar stofnunar þegar álit stofnunarinnar er eitt og hið sama. Það er stofnunin sem stendur að baki því áliti sem um er að ræða.
    Ég ætla ekki að fara um þessi orð mörgum orðum. Ég vil aðeins segja að það sem skilur á milli okkar hv. þm. Ólafs Ragnar Grímssonar er þetta: Fjárlög og fjáraukalög eiga að mínum dómi að sýna sem gleggsta mynd af útgjöldum og afkomu ríkissjóðs hverju sinni, sem gleggsta mynd. Þau eiga að vera að mínum dómi sem næst því að þar komi sambærileg útkoma úr tekjum og gjöldum og afkomu og síðar birtist í ríkisreikningi. Með því að þetta sjónarmið sé viðhaft þá þarf að taka inn á fjárlög eða fjáraukalög ýmsar lántökur ríkissjóðs, ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs sem koma til útgjalda í ríkisreikningi þegar hann er gerður upp. Þetta sjónarmið hefur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ekki viljað viðurkenna og það sýnir sig m.a. í því að í ríkisreikningi fyrir árið 1989, ef ég man rétt, sem lagður hefur verið fyrir Alþingi, þá sést mismunur á útkomu á gjaldahlið ríkisreiknings og útkomu á gjaldahlið fjárlaga og fjáraukalaga fyrir það ár sem munar ekki milljörðum heldur tugum milljarða.
    Þó að þar sé auðvitað um mjög afbrigðilegt dæmi að ræða þá er það samt svo að það væri ákjósanlegt til þess að auðvelda skilning almennings, og meira að segja hv. alþm., á þessum málum að þetta verði fært í það horf að samræmi sé á milli fjárlaga og fjáraukalaga annars vegar og ríkisreiknings hins vegar. Ef það er ekki þá opnar það leið fyrir fjmrh. hverju sinni, svo sem var í tíð þessa hv. þm. þegar hann var fjmrh., að halda leyndum, hafa utan við kerfi fjárlaga og fjáraukalaga ýmsar skuldbindingar, ýmis raunveruleg útgjöld ríkissjóðs sem ekki eiga að sjást hér á Alþingi fyrr en ríkisreikningur er lagður fram mörgum árum síðar. Það er þetta verklag sem þessi hv. þm. vill viðhafa og um þetta stendur sú deila sem verið hefur á milli okkar um þetta efni.