Fjáraukalög 1990

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 15:25:00 (2326)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Þessi ræða sannaði akkúrat það sem ég sagði hér um málflutning Pálma Jónssonar í þessu máli. Hann hefur aldrei getað haldið sér í þessu máli við eðlilega, faglega og fræðilega umræðu um það hvernig eigi að setja upp ríkisreikning heldur ávallt notað þessa umræðu í pólitískum skylmingum, pólitískum metnaði hv. þm. Pálma Jónssonar. Nú fór hann að saka mig um það að ég hefði verið að fela eitthvað. Hvílíkur furðulegur málflutningur.
    Hver var það sem ákvað að láta færa upp margra áratuga gamla vanrækslu af fyrri skuldbindingum í ríkisreikningi annar en sá sem hér stendur? Hver var það, sem beitti sér fyrir því eftir að Sjálfstfl. hafði stýrt fjmrn. í fjögur ár að flytja hér inn í þingið öll fjáraukalögin sem Sjálfstfl. vanrækti að flytja hér inn í þingið, annar en sá sem hér stendur? Hver var það, sem dró út úr skúffu fjmrn. það sem Sjálfstfl. vildi fela þar frá allri sinni fjármálaráðherratíð og kom aldrei með inn í þingið, annar en sá sem hér stendur?
    Það er broslegt að þingmenn Sjálfstfl. séu að setja sig á háan hest og rugla um fyrir almenningi og þingmönnum sem vita ekki um hvað málið snýst. Þessir tugir milljarða, sem hv. þm. var að tala hér um og tengdi við árið 1989 og hefði verið eitthvað sem ég hefði viljað fela, hvað var það? Það var verið að færa upp á einn stað allar skuldbindingar ríkisins, meira að segja lífeyrissjóðaskuldbindingar frá síðustu 20--30 árum. Þá á það að vera gert að einhverjum sérstökum dularfullum gerningi frá minni fjármálaráðherratíð. Þetta er auðvitað ágætis sýnishorn af því hvernig hv. þm. Pálmi Jónsson og hugmyndafræðingur hans, Sigurður Þórðarson, kjósa að haga sér í þessu máli og ég hika ekkert við að nefna vararíkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, því að hann verður auðvitað að þola það eins og aðrir í þessu þjóðfélagi að embættisfærslur hans og sjónarmið séu gerð að umtalsefni hér á Alþingi. Því að við lifum í lýðræðislegu ríki þar sem þingmenn hafa fullan rétt og málfrelsi til þess að ræða um það sem sýnist.

    Svo sagði hv. þm. að ágreiningurinn milli mín og hans stæði um það hvort það ætti að færa skuldbindingarnar eða ekki. Hvílík fjarstæða. Ágreiningurinn snýst ekkert um það. Ég hef aldrei haldið því fram að það ætti ekki að færa skuldbindingarnar, bara aldrei. Ef þm. hv. Pálmi Jónsson er að tala með betri vitund þá er auðvitað alveg ljóst að hann hefur bara ekki skilið neitt í þessu máli á undanförnum árum, þannig að hann hlýtur að vera að tala gegn betri vitund og vera að falsa hlutina með þessum hætti. Ágreiningurinn hefur alls ekki snúist um það að færa skuldbindingarnar. Ágreiningurinn hefur snúist um það hvort öll skuldbindingin væri færð sem útgjöld á því ári sem skuldbindingin er ákveðin --- eða hvort útgjöldin vegna þessara skuldbindinga eru færð á þeim árum þegar um raunverulegar greiðslur úr ríkissjóði er að ræða eða ekki. ( Gripið fram í: Fortíðarvandi. Þannig verður fortíðarvandi til.)
    Það er það sem ég hef sagt, að útgjöld eru útgjöld. Útgjöld er það sem reitt er fram úr ríkissjóði. Og það er þess vegna sem ég vitnaði í heilbrigða skynsemi hér áðan. Hv. þm. sagði að fjárlögin og fjáraukalögin og ríkisreikningurinn ættu að gefa sem gleggsta mynd af útgjöldunum. Ég er alveg sammála því. En þessi skuldbinding --- henni voru ekki samfara nein útgjöld á árinu 1990, ekki króna. Það var ekki króna í útgjöld á árinu 1990 vegna þessarar skuldbindingar. Og menn geta bara velt því fyrir sér hvort sé eðlilegra og meira í samræmi við eðlilegan skilning almennings í landinu að þegar við tökum lán, t.d. persónulega til að kaupa bíl þá færum við lánið sem útgjöld í heimilisbókhaldinu á þeim árum þegar við borgum af láninu. En við færum lánið ekki sem útgjöld í heimilisbókhaldinu á árinu sem það var tekið --- en alls ekki sem útgjöld á því ári sem við borgum af láninu.
    Við skulum taka dæmi af Pálma Jónssyni, segjum að hann keypti sér bíl. (Gripið fram í.) Og hann tæki 2 millj. kr. lán núna fyrir áramótin til þess að borga bílinn. Samkvæmt kenningu hans ætti að færa þessar 2 millj. sem útgjöld í heimilsbókhaldi hv. þm. Pálma Jónssonar á Akri þótt hann hafi ekki borgað krónu af því í ár. En þegar hann á að borga af láninu á næsta ári og árinu 1994 þá myndi hvergi sjást í heimilisbókhaldinu hjá hv. þm. að hann hefði borgað af láninu. Þá væru þær afborganir ekki til í heimilisbókhaldinu. Þeir sem læsu heimilisbókhaldið hjá hv. þm. myndu komast að raun um að hann hefði ekki haft nein útgjöld af þessum bílakaupum á árunum 1993 og 1994. Menn sjá auðvitað hve fjarstæðukennt þetta er.
    Og það sem er nú öllu fjarstæðukenndara en flest annað er að fara að gera svona tæknileg atriði í útfærslu ríkisreikninga að pólitísku metnaðarmáli. En við sáum það í ræðu hv. þm. að þannig er þessi liður vaxinn. Ég tók eftir því að hv. þm. sagði ekki orð um það sem ég spurði að hérna áðan: Á að færa yfirtöku skuldbindingar Framkvæmdasjóðs Íslands sem nettóútgjöld á árinu 1992, verði frv. ríkisstjórnarinnar samþykkt? Þannig að hallinn hjá núv. fjmrh. Friðriki Sophussyni verði hærri sem þessu nemur. Á ég t.d. að koma hingað um mitt næsta ár, þegar hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson segir: Ja, hallinn er 5 milljarðar, --- á ég þá að koma upp og segja: Nei, nei, hallinn er 6,5 milljarðar af því að þú yfirtókst skuldbindingar vegna Framkvæmdasjóðs Íslands sem ekki á að greiða af fyrr en eftir þrjú eða fjögur ár.
    Ef ég veldi síðari kostinn þá væri ég að haga mér eins og hv. þm. Pálmi Jónsson. En auðvitað væri það fullkomlega ósanngjarnt gagnvart núv. hæstv. fjmrh. og ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að temja mér svona ósanngjarnan málflutning eins og hv. þm. Pálmi Jónsson hefur tamið sér í þessu máli, ætla bara ekki að gera það.
    En hv. þm. Pálmi Jónsson verður auðvitað, ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur, að beita sér fyrir því í fjáraukalögum fyrir árið 1992 að yfirtaka skuldbindinga Framkvæmdasjóðs Íslands verði færð sem nettóútgjöld hjá núv. hæstv. fjmrh. Það verður gaman að fylgjast með því þegar hv. þm. fer að gera það. Eða kannski verður með það eins

og annað hjá Sjálfstfl., þá verði komin allt önnur skoðun, af því þá hentar ekki pólitískt fyrir Sjálfstfl. að gera það. Þá hentar það ekki fyrir fjmrh. og forustu Sjálfstfl. að gera það. Vegna þess að það er ekki nein samkvæmni í því sem Sjálfstfl. segir.
    Hann heimtar að jöfnunargjald sé lagt niður í tvö ár. Krefst þess í dag að það sé lagt á. Hann heimtar að innlánsstofnanir séu ekki skattlagðar. Krefst þess í dag að þær séu skattlagðar. Hann heimtar að sérstakur eignaskattur, svokallaður ekknaskattur sé lagður niður. Krefst þess í dag eftir nokkra daga að hann verði lagður á. Hann heimtar að tekjuskattur sé lækkaður. Krefst þess í dag að hann verði hækkaður. Og þannig koll af kolli. Þetta er nú stefna Sjálfstfl. í framkvæmd. Þetta er nú samkvæmnin í stefnunni. Og nú er meira að segja gengið svo langt að menn ætla að fara að hringla með bókhaldsreglur ríkisfjármálanna til þess að þjóna tímabundnum pólitískum metnaði og hagsmunum Sjálfstfl.
    Vertu velkominn, hæstv. fjmrh., þú hefur örugglega áhuga á að heyra svarið. Ég spyr hv. þm. Pálma Jónsson: Hvernig ætlar hann að láta færa yfirtöku ríkissjóðs á fjárskuldbindingum Framkvæmdasjóðs Íslands verði frv. ríkisstjórnarinnar samþykkt hér á Alþingi? Á að færa það sem nettóútgjöld á næsta ári þó ekki verði króna borguð vegna þeirra skuldbindinga? (Gripið fram í.) Hvað sagði þingmaðurinn? ( Gripið fram í: Það bíður síns tíma.) Það bíður síns tíma, sagði þingmaðurinn, akkúrat. Þarna sannaðist nefnilega mitt mál. Það á bara að meta það af tækifærismennskunni þá hvað hentar. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hreinskilnina. ( Gripið fram í: Það verður skoðað.) Það verður skoðað, sagði þingmaður, já, en svarið er ekki klárt. Auðvitað er svarið klárt ef á að samþykkja það sem þingmaður leggur til. En nú hefur hann sagt hér í frammíkalli: Það er bara ekkert klárt. Það bara bíður síns tíma og verður skoðað.
    Er Sjálfstfl. alveg sama hvað hann segir? Skiptir bara ekki nokkru máli hvað sagt er í dag og hvað á morgun? Er allt byggt undir einhverja pólitíska áróðurshagsmuni frá degi til dags? Er ekkert rétt eða rangt í sjálfu sér, aðeins spurning um það hvað þjónar hagsmunum Sjálfstfl.? Ég þakka hv. þm. fyrir það að hann er nú búinn að upplýsa að meiri hlutinn á Alþingi er ekki að beita sér fyrir neinni kerfisbreytingu í færslu ríkisbókhalds eða skuldbindinga ríkissjóðs. Nei takk. Hann er bara að þjóna stríðshagsmunum hv. þm. Pálma Jónssonar, því hann þorir ekki og leggur ekki í að svara spurningunni um Framkvæmdasjóð Íslands. Er það nú kjarkur, hv. þm.
    Eru engin takmörk fyrir því hvað þingmenn Sjálfstfl. láta nota sig í hérna í salnum? Ég skil vel af hverju núv. hæstv. fjmrh. fór út. Hann er auðvitað búinn að ganga frá því við hv. þm. Pálma Jónsson að skuldbindingar um Framkvæmdasjóð verði alls ekki færðar sem útgjöld í fjárlögum næsta árs. Eigum við ekki að taka það inn í fjárlagafrv., hv. þm., --- núna? Eigum við ekki að vera sjálfum okkur samkvæmir? Því ef þetta fjáraukalagafrv. verður samþykkt hérna núna er alveg ljóst að flytja verður brtt. um að auka hallann á fjárlagafrv. næsta árs um 1,5 milljarða vegna frv. ríkisstjórnarinnar um Framkvæmdasjóð. Við getum m.a.s. samþykkt frv. um Framkvæmdasjóð núna fyrir jólin. Ríkisstjórnin biður um það, það er á forgangslistanum, við skulum gera það. En þá er auðvitað alveg ljóst, virðulegi forseti, að samkvæmt því sem meiri hluti fjárln. er að leggja til --- og ég bið formann fjárln. að hlusta vel ( Gripið fram í: Hann gerir það, sperrir eyrun.) þá verður fjárln. að flytja brtt. hér um að útgjaldahlið fjárlaganna sé aukin um rúman milljarð. Því það er ekki hægt, hv. þm. Karl Steinar Guðnason að leggja til að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins sé færður sem útgjöld í fjáraukalögin fyrir árið 1990 en leggja ekki til við þingið að yfirtaka skuldbindinga Framkvæmdasjóðs Íslands verði færð sem útgjöld í fjárlagafrv. fyrir árið 1992. Svona einfalt er þetta nú.
    Við skulum sjá hvað gerist. Hvort minn málflutningur verður sannaður hér í þingsalnum, að þetta sé bara pólitískur leikaraskapur hjá hv. þm. Pálma Jónssyni og meiri

hluta þingsins. Eða hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur og færa Framkvæmdasjóðinn til þess að auka útgjöldin og þar með láta hallann vaxa úr tæpum 4 milljörðum í rúma 5? Á ég kannski að flytja brtt. fyrir þingmanninn, Pálma Jónsson? Til þess að lofa honum að vera sjálfum sér samkvæmur hér í þingsalnum? Kannski ég hugleiði það. Ef þetta fjáraukalagafrv. fyrir árið 1990 verður samþykkt með þessari breytingu þá mun ég hugleiða það að flytja hér brtt. varðandi Framkvæmdasjóð Íslands. Og hún hlýtur þá að verða samþykkt á útgjaldahlið.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að ræða þetta mál mikið lengur. Öll höfuðatriði þess hafa nú komið fram. Og á síðustu mínútunum hefur þetta mál skýrst mjög vel. Við skulum sjá hvað verður gert hér í reynd. Ég bið hins vegar um það, virðulegi forseti, að atkvæðagreiðslu um þetta mál verði frestað þar til gefist hefur færi á því að skoða nánar hvernig meiri hluti ríkisstjórnarinnar ætlar að fara með yfirtöku skuldbindinga vegna Framkvæmdasjóðs Íslands í fjárlagafrv. fyrir árið 1992. Það er þess vegna formleg ósk frá mér að þótt þessari umræðu ljúki verði atkvæðagreiðslu frestað þar til að við höfum tækifæri til þess að skoða samhengi þessarar afgreiðslu, fjáraukalaga fyrir árið 1990, við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992.