Aukatekjur ríkissjóðs

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 17:21:00 (2335)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það ríkir friður í þingsölum þessa stundina. Þess vegna langar mig að nota tækifærið og eiga hér orðastað við forseta því hér situr nú á forsetastóli sá sem tekur ábendingum mjög vinsamlega. ( Gripið fram í: Á friðarstóli.) Já, á friðarstóli. Mig langar að beina spurningu til hæstv. forseta. Fyrir nokkrum dögum var lögð mikil áhersla á að afgreiða eitt ákveðið mál út úr efh.- og viðskn., þ.e. um svokallað tryggingagjald. Svo ég skýri nú málið fyrir hæstv. forseta, þá gengur það út á að lögð er til einföldun á innheimtu tryggingagjalds. Við í minni hluta í efh.- og viðskn. komumst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið staðið að undirbúningi málsins með eðlilegum hætti og lögðum til að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar vegna þess að við töldum eðlilegra að fyrir lægi samkomulag við sveitarfélögin áður en málið yrði að lögum. En nú vil ég beina þeirri spurningu til forseta: Hefur stjórn þingsins orðið við þessum tilmælum efh.- og viðskn. eða hver er skýringin á því að þetta mál sem lögð var svona mikil áhersla á að yrði afgreitt út úr nefndinni birtist ekki á dagskrám þingsins? ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um það í framhaldi af fyrirspurn hennar að mér er þetta mál sjálfum ókunnugt. Ég mun kanna það í þaula strax og mér gefst tækifæri til og upplýsa hv. þm. um niðurstöður þeirrar könnunar.) Þakka þér fyrir.