Aukatekjur ríkissjóðs

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 17:32:00 (2338)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Þetta frv. er í sjálfu sér sárasaklaust. Það fjallar ekki um nýja skatta, að því er sagt er, það fjallar um aukatekjur ríkissjóðs og fljótt á litið gætu menn látið sér detta í hug eftir nafninu að dæma að þessar aukatekjur kæmu af himnum ofan, væru aðsendar og væru ekki skattheimta á nokkurn mann. Og kannski er þarna verið að fjalla um þá blindgötu sem Sjálfstfl. er kominn í, að hafa boðað það miskunnarlaust að þeir ætluðu hvorki að leggja á nýja skatta eða hækka skatta, það sé stefna núv. ríkisstjórnar að gera þetta ekki, en í framkvæmd er það svo að það er eins og þegar kemur að ríkinu, þá sé gersamlega vonlaust að búa við verðbólgulaust þjóðfélag, það sé gersamlega vonlaust. Þá dugi ekkert nema nýjar og nýjar hækkanir á öllum sviðum. Það er sláandi þegar menn fara yfir skýringarnar á greinunum að í sumum tilfellum virðist beinlínis stefnt að því að hafa textann ógreinilegan, hafa textann þannig að sá sem les skýringarnar viti örugglega ekki of mikið eftir að hafa lesið þær. Og ég vil, með leyfi forseta, vekja athygli á því að skattlagningin sem hér er verið að leggja til er hreinlega ævintýralega mikil í sumum tilfellum. Ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta skýringar á 10. gr.
    ,,Í þessu ákvæði er kveðið á um gjöld fyrir veitingu ýmissa atvinnuréttinda eða tengdra réttinda. Fjárhæðir gjalda eru að mestu óbreyttar frá því sem var í reglugerð 644/1989, um aukatekjur ríkissjóðs. Þó er í 8. tölul. hækkuð verulega leyfi til verkfræðinga, arkitekta o.fl. Er sú hækkun gerð í þeim tilgangi að samræma gjaldtöku samkvæmt þeirri stefnu sem mörkuð var í áðurnefndri reglugerð varðandi gjöld fyrir atvinnuréttindi.``
    Sem sagt, fyrst taka ráðherrar sig til og setja reglugerð. Svo leggja þeir til að gerðar verði breytingar á lögum sem taki mið af reglugerðinni og virðist nú nokkuð sérstæð uppsetningin á vinnubrögðunum. En, með leyfi forseta, vil ég hér halda áfram:
    ,,Í 29. tölul. greinarinnar er kveðið á um gjaldtöku fyrir atvinnuréttindi önnur en kveðið er á um í 1.--28. tölul. Hækkar það gjald úr 1.500 kr., eins og það er nú samkvæmt reglugerðinni, í 5.000 kr. Undir þetta ákvæði falla t.d. leyfi til sálfræðinga, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga, kennara. Ekki eru tæmandi talin þau leyfi sem undir þennan tölulið falla. Hækkun er gerð til þess að samræmis sé gætt varðandi gjaldtöku fyrir einstök atvinnuréttindi.``
    Það er náttúrlega slík haugalygi að láta sér detta það í hug að það sé einhver samræmingarástæða sem valdi því að rigna þurfi þessum hækkunum yfir þjóðina. Auðvitað á þetta ekkert skylt við samræmingu. Hér eru menn einungis á fínu máli að fara í kringum hlutina, forða sér frá því að nefna þá réttum nöfnum. Þetta er skattheimta, þetta er skattheimta og aftur skattheimta. Og þessi leyfi sem alls staðar er verið að setja á, --- hvað er þetta annað en stöðugt meiri og meiri skerðing á frelsi manna til atvinnuréttinda? Og hvað er þetta annað en bænarskjölin fornu, framhald af þeim, þar sem menn þurftu stöðugt að senda bænarskrár til kóngsins að gera þetta eða hitt? Hér nægir mönnum það ekki að afla sér ákveðinna prófa til að mega vinna ákveðin verk, nei. Hér skal séð til þess að leyfisgjaldið til ríkisins hækki t.d. úr 1.500 kr. í 5.000 kr. Og það væri fróðlegt að sjá hvernig færi fyrir þessu landi ef allir þeir aðilar sem stæðu í einkarekstri þyrftu að hækka sína taxta jafnævintýralega mikið fyrir unna þjónustu því að það fer ekki á milli mála að þegar þessi gjöld eru sett á í upphafi þá er hugsunin fyrst og fremst sú að embættismennirnir sem vinni verkin þurfi ekki að fá aukagreiðslur úr ríkissjóði fyrir að vinna þetta verk. Tekjurnar af leyfunum nægi sem greiðslur til þeirra fyrir verkið.
    Ég verð að segja eins og er að hér er ákaflega skemmtilegur texti sem sýnir vel hvað er að gerast. Það er skýringin á 8. gr.: ,,Samkvæmt þessu ákvæði hækkar gjald fyrir þinglýsingu úr 600 kr. í 1.000 kr. En gjald þetta hefur verið óbreytt síðan í ársbyrjun 1990.`` Manni hefði brugðið ef staðið í textanum, síðan 1970, 1950 eða 1980. En hér kemur tilkynningin: Gjaldið hefur verið óbreytt síðan 1990. Og hvað þarf að hækka? Úr 400 í 1.000. Það er ekki skrýtið að flokkurinn sem hefur reynt að fá þá ásýnd hjá almenningi að hann sé yfir höfuð á móti öllum sköttum, sérstaklega á móti vinstri sköttum, þurfi að koma í dulargervi til þjóðarinnar þegar hann er að ná sköttum af henni. ( Gripið fram í: Úr 600 í 1.000.) Úr 600 í 1.000. Hafi mér orðið á mismæli þá biðst ég afsökunar á því. Úr 600 í 1.000.
    Ég hygg að það þyrfti að vera rannsóknarverkefni fyrir sálfræðinga hvernig andleg líðan er hjá þeim mönnum sem telja sér nauðsyn á að falsa staðreyndir með þessum hætti, falsa staðreyndir stöðugt, segja frá hlutunum með öðrum nöfnum en gefa til kynna það sem raunverulega er að gerast.
    Ég minnist þess sem góðs dæmis um fölsun staðreynda að þegar Austurstræti var

lokað fyrir bílaumferð á sínum tíma bárust þær fréttir að búið væri að opna Austurstræti fyrir umferð gangandi fólks. Núna þegar þessu er breytt í fyrra form hefði maður gert ráð fyrir að textinn hljóðaði á þá leið að nú væri búið að loka Austurstræti fyrir umferð gangandi fólks. Svo er nú ekki. Nú berast fréttirnar að það sé verið að opna Austurstræti fyrir bílaumferð þannig að það virðist alveg sama hvort verið er að loka strætinu eða opna strætið fyrir bílaumferð, það er ávallt notaður sami texti: Það er verið að opna strætið. Og í þessum skýringum sem hér fylgja er fróðlegt að skoða fleiri fjárhæðir sem verið er að leggja til hækkanir á og kemur fram í skráningu á atvinnustarfsemi af ýmsu tagi. Það er 13. gr. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir eftirfarandi skráningar skal greiða gjald sem hér segir: 1. Skráning hlutafélags og samvinnufélags 100 þús. kr. 2. Skráning erlendra félaga 50 þús. kr.``
    Þetta verður ekki skilið á annan veg en þann að það borgi sig að láta senda skeyti frá Kaupmannahöfn og heim, um að skrá eigi erlent félag til þess að losna við að borga 50 þúsund kall. Og mér er spurn: Hvaða stórglæpamenn eru það á Íslandi sem eru að fara út í atvinnurekstur þegar vaxandi kreppa er í landinu sem beri að leggja á þessar kvaðir? Hver er tilgangurinn?
    Lesi maður hér áfram, þá kemur: ,,Skráning firma eins manns 40 þús. kr. Skráning firma tveggja manna eða fleiri 50 þús. kr.`` En ef þessir, sem eru nú búnir að starfa, taka sig nú til og breyta hjá sér, það eru kannski þessir stóru sem gætu nú e.t.v. borgað, þá kemur hér: Aukatilkynning og skráning breytinga 1.000 kr.
    Ég hnýt hér um það að lögskráning sjómanna er upp á 500 kr. Það verður ekki af textanum ráðið hvort það eigi að vera 500 kr. fyrir hvern sjómann eða hvort verið sé að tala um að það eigi að borga sama gjald ef það er 30 tonna bátur sem lætur lögskrá eða að það sé togari eða heilt flutningaskip. Það hlýtur nú að vera dálítill munur á vinnu hvort heldur verið er að skrá þrjá eða fjóra á bátinn eða allan hópinn. En hér stendur: Lögskráning sjómanna 500 kr. og enginn greinarmunur gerður á því hvort eigi að lögskrá tvo eða þrjá eða þúsund stykki. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi uppsetning um margt merkileg.
    Hér kemur einn kafli sem er ærið umhugsunarefni. Það er ekki merkileg þjónusta sem þar er veitt en það eru ljósrit og endurrit, 15. gr. ,,Fyrir endurrit eða ljósrit skal greiða 100 kr. fyrir hverja vélritaða síðu`` stendur hér. ,,Fyrir staðfestingu dómsgerðar skal greiða 1000 kr. Í ritlaunum skv. 1. mgr. er innifalið staðfestingargjald nema af dómsgerðum og lögbókandastaðfestingum.`` Það getur vel verið að ef menn eru að ljósrita eina og eina síðu að hugsanlegt sé að menn taki 100 kr. fyrir síðuna. En það er ansi vel í lagt ef menn þurfa að láta ljósrita fyrir sig nokkuð margar síður ef 100 kr. eru fyrir síðuna. Auðvitað er hér verið að tryggja að það er ekki verið að taka þjónustugjald heldur skatt. Það er verið að leggja á skatta og það er nefnilega tímanna tákn að þegar þessi ríkisstjórn leggur á skatta þá þorir ekki nema einn sjálfstæðismaður fyrir utan hæstv. forseta að vera í salnum. Það þorir ekki nema einn sjálfstæðismaður fyrir utan hæstv. forseta að vera í salnum þegar verið er að leggja á skatta. Og þó að hæstv. heilbrrh. sé hér á vappi þá stafar það ekki af því að hann bæti hlut sjálfstæðismanna í þessum efnum, hann er eins og allir vita tilheyrandi öðrum stjórnarflokki. Ég hygg nú að hæstv. heilbrrh. mundi gera grein fyrir því ef þar yrði á breyting.
    Nú er það svo að menn leita gjarnan réttar síns af illri nauðsyn. Menn leita réttar síns fyrir dómstólum og menn leita eftir ýmsum þjónustuatriðum. Og fljótt á litið spyr maður sjálfan sig, getur ekki verið sátt um að greidd sé sanngjörn þóknun sem er greiðsla fyrir þann kostnað sem þetta kostar? Það getur maður litið á sem eðlilegan hlut. Hitt hlýtur að vera skattheimta. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að þessi gjaldheimta, sem

hér er verið að hækka verulega, beri keim af því að núv. ríkisstjórn hefur ekki þrek til að segja þjóðinni að það þurfi að innheimta skatta. Hún vill aftur á móti reyna að fara í kringum þetta með því að hækka gjöld sem hafa verið viðurkennd sem þjónustugjöld, hækka þau það mikið að í raun eru þau orðin að sköttum. Með leyfi forseta vil ég lesa hér úr frhnál. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 frá meiri hluta fjárln. Þar segir svo í 6. lið:
    ,,Aðrir skattar. Ekki er ástæða til að gera sérstaklega að umtalsefni aðra skatta en benda má á að aukatekjur ríkissjóðs hækka verulega en minni hluti nefndarinnar studdi þær hækkanir í ljósi þeirrar stöðu sem nú er í ríkisfjármálum.``
    Þarna djúpt inni í þessu nál. er viðurkennt að um skattheimtu sé að ræða --- ( Gripið fram í: Af minni hluta.) --- af minni hluta. Og meiri hlutinn telur það samt svo mikils virði að fá stuðninginn að hann kyngir því að játa að það sé skattheimta og það er nú svo að ég hygg nú að það dyljist ekki nefndarmönnum meiri hlutans í þeirri hv. nefnd sem þetta mál var til meðferðar að hér er ekki um neitt annað en skattheimtu að ræða. En það þreytir mig hvers vegna menn vilja þá stöðugt reyna að koma sér undan því að segja sannleikann í þessum efnum.
    Ég hef legið undir því mestan þann tíma sem ég hef setið á Alþingi Íslendinga að ríkisstjórn sé að leggja á skatta og við höfum orðið að standa upp og segja: Vissulega er starfandi ríkisstjórn að leggja á skatta vegna þess að við þurfum tekjur. Hér er hráskinnsleikurinn sá að menn koma sér undan því að játa staðreyndum. Þetta heitir frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs, fallegt nafn. Ég efa að fagurkeri í bókmenntum hefði komið öllu hlutlausara og prúðara nafni á þennan texta. En að þessar aukatekjur séu skattar, það er af og frá. Þetta er ekki virðisaukaskattur eða eitthvað slíkt. Hvergi í textanum er minnst á að þetta sé skattur. Þetta eru bara tekjur.