Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 23:29:00 (2344)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Í því þingmáli sem hér er til umræðu er komið allvíða við þannig að það er auðvitað eðlilegt að umræðurnar berist um víðan völl án þess að kannski sé hægt að kvarta sérstaklega undan því. Menn hafa haldið sig við efnahagsmálin í meginatriðum. Það er auðvitað ljóst að þessar umræður hljóta að verða sérstaklega ítarlegar vegna þess að það gengur heldur erfiðlega hjá ríkisstjórninni að koma hlutunum saman hjá sér og málin eru þar meira og minna upp í loft og í uppnámi.
    Ríkisstjórnin birtir reglulega fréttir um það að hún sé að viðurkenna ýmsa í heiminum. Hins vegar hafa engar fréttir borist um það enn þá að ríkisstjórnin hafi hugsað sér að viðurkenna stjórnarandstöðuna og taka upp við hana stjórnmálasamband. Það væri athyglisvert að taka það til sérstakrar umræðu, af því að hér er t.d. staddur hv. formaður utanrmn., hvort ekki mætti kanna það að ríkisstjórnin tæki upp stjórnmálasamband við stjórnarandstöðuna eða a.m.k. kannaði möguleikana á því að eiga við hana óformlegar viðræður um diplómatískt samband þó síðar yrði. Ég er þá ekki að tala um þetta almanaksár og ekki það næsta heldur kannski það þar næsta. Við búum við afar sérkennilegar aðstæður

að þessu leyti í þessari virðulegu stofnun og þau 10--12 ár sem ég hef verið hér man ég satt að segja aldrei eftir öðrum eins vinnubrögðum af hálfu ríkisstjórnar og þeim sem nú blasa við.
    Ég átti því láni að fagna að eiga t.d. ágæt samskipti við formann þingflokks Sjálfstfl. á árunum 1983--1987. Hann hefur nú forframast nokkuð, ef svo má segja. Hann situr nú í menntmrn., sem er eitt allra þýðingarmesta ráðuneyti þjóðarinnar eins og allir vita. Honum tókst oft með undarlegri lagni að þoka málum áleiðis við hinar flóknustu aðstæður. Því miður hefur hæstv. ráðherra ekki skilið neinar leiðbeiningar eftir handa eftirmönnum sínum eða þá að þeir eru ekki læsir á þær. Ég hugsa að það sé kannske það síðarnefnda, að þeir kunni ekki að lesa í þann texta, sem fyrrv. hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. starfaði eftir.
    Það sem ég ætlaði mér að ræða hér, virðulegi forseti, voru nokkrir þættir þessara mála og í fyrsta lagi ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Það er mál sem ég hefði viljað ræða við hæstv. félmrh. og fagna því mjög að hún er hér viðstödd, sýnir okkur þann heiður og þá virðingu að vera viðstödd þessa umræðu. Ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot var tekin upp með lögum á árunum 1971--1974. Sá maður sem fyrstur flutti það mál inn í þingið var hv. þm. Björn Jónsson. Hann flutti það sem stjórnarandstæðingur iðulega á viðreisnarárunum, á árunum fram undir 1970. Þegar hann tók við starfi félmrh. á þeim tíma, 1971--1972, og þáv. hæstv. ráðherra reyndar líka, Hannibal Valdimarsson, var tekið upp óbreytt þingmannafrv. frá hv. þm. Birni Jónssyni, síðar forseta Alþýðusambands Íslands, óbreytt þingmannafrv. sem hann hafði flutt aftur og aftur á viðreisnarárunum. Þetta frv. varð að lögum undir hans forustu og Hannbals Valdimarssonar á þeim tíma. Á þeim tíma sem liðinn er frá árunum 1971--1972 hefur það ekki gerst fyrr en nú að Alþfl. og Sjálfstfl. ná saman aftur einir í ríkisstjórn. Það gerist núna. Það næst að Sjálfstfl. og Alþfl. ná meiri hluta til að mynda ríkisstjórn. Það er eins og við manninn mælt að á fyrsta þinginu eftir að þessi ríkisstjórn er mynduð, Alþfl. og Sjálfstfl. í fyrsta sinn sem þessir flokkar ná saman einir í stjórn eftir 1971, er byrjað á því að eyðileggja þessi handaverk Björns Jónssonar og Hannibals Valdimarssonar, lögin um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Þetta er gert með ótrúlega ósvífnum hætti og í rauninni algjörlega án þess að hafa hið minnsta samráð við verkalýðshreyfinguna í landinu. Ég vil segja við hæstv. félmrh. að ég er sannfærður um það að ef hún hefði lagt á sig svo sem eins og tvo eða þrjá hvað þá fjóra, fimm fundi með verkalýðshreyfingunni um þessi mál hefði tekist að ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna um fyrirkomulag á þessu máli sem hefði tekið niður kostnaðinn á ársgrundvelli um 20--25%. Það er ekki of seint enn að ganga í þetta verk. Ég skora á hæstv. félmrh. að ganga í það verk að ræða við forustumenn Alþýðusambands Íslands þegar í stað og verkalýðssamtakanna um það að breyta þessum frumvarpsákvæðum þannig að um þau náist sátt við samtök launafólks og að kostnaðurinn minnki.
    Mér er vitaskuld ljóst að Alþýðusambandið mun aldrei fallast á það fyrir sitt leyti að þetta verði fjármagnað með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það er ekki sá þáttur sem ég er að ræða heldur bótaþáttur málsins, bótaþátturinn. Ég er algjörlega viss um, ég þekki það, að það hefði verið unnt að ná um það samkomulagi við Alþýðusambandið ef hæstv. félmrh. hefði látið svo lítið að yrða á það fólk sem þar er nú í störfum, eftirmenn Björns Jónssonar og Hannibals Valdimarssonar.
    Mér þætti fróðlegt að vita í þessu sambandi, virðulegi forseti, hversu oft hæstv. félmrh. hefur rætt við forustumenn Alþýðusambands Íslands um þessi mál síðustu dagana eða vikurnar. ( Gripið fram í: Svarið er já). Svarið er já, ég sagði hversu oft. Já er ekki töluorð. Mér er kunnugt um það að engar alvarlegar samningaviðræður hafa farið fram. Hæstv. félmrh. hefur verið ófáanlegur til þess að hefja eðlilegar samningaviðræður við Alþýðusamband Íslands um þetta mál. Í staðinn er farið í það, sem má segja að sé rökrétt pólitískt framhald af viðreisnarstjórninni, að eyðileggja þessi lög.
    Þegar málið er lagt hér fyrir í upphafi kemur fram í þessu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að þar eru tvær greinar sem heita Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Í frumvarpstextanum kemur hvergi fram hvernig þessi ákvæði eru tengd lögunum um ríkisábyrgð á laun við gjaldþrot. Þetta er auðvitað þvílíkt fúsk í vinnubrögðum í félmrn. eða forsrn., nema hvort tveggja sé, að það tekur engu tali. Að menn skuli ekki einu sinni hafa rænu á því í prófarkalestri málsins að hengja á einhver lög þessa texta um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.
    Síðar við meðferð málsins á Alþingi og í hv. efh.- og viðskn. taka menn sig til og reyna aðeins að laga hlutina. Settar eru upp nýjar greinar inni í lögunum sem væntanleg eru, ef ríkisstjórnin fær að ráða þessu sem hún gerir auðvitað, inni í lögunum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þá er gert ráð fyrir því að sett verði í leiðinni sérlög um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota og þau verði prentuð með sjálfstæðum hætti í lagasafninu. Lög nr. 13/1979, um efnahagsmál og fleira, hafa lengi sætt mikilli gagnrýni lögfræðinga og stjórnmálamanna fyrir það að þar séu menn í sama lagatextanum að grauta saman alls konar óskyldum ákvæðum. Þessi lög, kölluð Ólafslög, voru sett í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978--1979, og m.a. skrifuð af núv. hæstv. iðnrh.
    Hér er hins vegar um algjöra nýjung í lagasetningu að ræða vegna þess að í þessu sulli --- sem kallað er bandormur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi kalla safnlög. Einhver vildi kalla þetta langhala og sumir snarpa langhala --- er tekin upp sú nýlunda í frv. um þennan langhala, að sett er inn ákvæði í nál. og tillögu nefndar þar sem segir, að þetta eigi að gefa út sérstaklega undir fyrirsögninni Lög um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Ég ætla að lesa nokkur dæmi, virðulegi forseti, um það ótrúlega fúsk sem kemur fram í þessari tilraun til lagasetningar. Það er t.d. í 13. brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Í stað orðsins ,,ríkissjóður`` í 5.--7. gr., . . . komi (í viðeigandi beygingarföllum): ábyrgðasjóður.`` Þetta er einkar athyglisvert við lagasetningu og víst að hæstv. menntmrh. ætti að kynna sér hvort þetta er ekki sérstaklega til eftirbreytni eða hitt þó heldur, að segja í stað orðsins ,,ríkissjóður`` í þessum tilteknu lögum komi orðið ,,ábyrgðasjóður`` í viðeigandi beygingarföllum. Þetta eru auðvitað afleiðingar af þessari nefnifallssýki sem gengur yfir í landinu, eins og kunnugt er, þar sem menn eru hættir að geta beygt nokkurn skapaðan hlut. Þeir hafa helst alla hluti í nefnifalli af því að tölvan hefur það þannig. Ég er alveg sannfærður um það, þó að þetta sé gagnrýnivert, að þetta sé brautryðjendastarf hjá hæstv. félmrh. Það hefur enginn ráðherra fyrr eða síðar í sögunni látið sér detta í hug að smella inn brtt. og hafa svo í sviga á eftir ,,í viðeigandi beygingarföllum``. Það er eins gott að menn séu klárir á fallbeygingunum og ekki verði ágreiningur um það í ríkisstjórninni hvort það eigi að vera þolfall eða þágufall. ( Gripið fram í: Er nokkur langhali í þessu?) Eða ranghali, nema það væri ranghali, hv. þm.
    Síðan segir í þessum furðulega texta frá hæstv. félmrh. eða embættismönnum hennar --- ég veit ekki hvort er, ég trúi því ekki að hún hafi gert þetta --- að sé gert ráð fyrir verulegum breytingum á lögunum t.d. með því að fella úr gildi 1. til og með 4. gr. laganna um ríkisábyrgð á launum. Hvorki meira né minna en allar þessar fyrstu greinar. Það er gert hérna með pínulitlum innskotsbrtt. frá efh.- og viðskn., í viðeigandi beygingarföllum að vísu. Þar kemur fram hvað á að gera og er það tíundað rækilega t.d. í nál. meiri hlutans hvað á að gera. Er launafólki sagt frá því hvað á að gera? En er það er nefnilega fólk sem hér er um að ræða. Það er nefnilega fólk sem vinnur hjá fyrirtækjum sem verða gjaldþrota. Það er lifandi fólk, það er fólk sem hefur kaup fyrir að selja vinnuafl sitt og á ekkert annað og þegar fyrirtækið verður gjaldþrota er auðvitað eðlilegt að það eigi

lögvarinn rétt á að halda sínum launum fyrir þá vinnu sem það hefur innt af hendi. Þetta er auðvitað svo sjálfsagður hluti mannréttinda og jafnaðarþjóðfélags að það ætti ekki að þurfa að ræða um það. En ríkisstjórnin, sem er að framlengja arf viðreisnarstjórnarinnar hingað inn og eyðileggja handaverk þeirra Björns Jónssonar og Hannibals Valdimarssonar, er annarrar skoðunar. Í nál. meiri hlutans um þetta mál er engin skýring gefin á því að verið sé að brjóta þessa réttindalöggjöf svo að segja á bak aftur. Það er engin skýring gefin á því. Og hvað er það sem er fellt niður? Í fyrsta lagi þá er kröfutíminn styttur úr sex mánuðum í þrjá. Breytir þetta miklu fyrir ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot? Svarið er nei, það breytir ekki miklu. Samkvæmt úttekt sem gerð hefur verið á þessum greiðslum á undanförnum árum er hér um sárafá tilvik að ræða en þeir eru til sem lenda í því að þurfa að vinna hjá gjaldþrota fyrirtæki lengur en í þrjá mánuði án þess að til gjaldþrotsins hafi komið. Þannig að hér er í rauninni ekki verið að spara mjög mikið fyrir ríkissjóð eða þetta kerfi yfir höfuð. Það er verið að henda þessu af ríkissjóði. Það eru í raun og veru engin efnisleg rök fyrir því að stytta þetta úr sex mánuðum í þrjá mánuði. Það eru engin efnisleg rök fyrir því, ekki nokkur. En látum það vera því það er ekki lakasti þátturinn af þessu og ef þetta væri það eina þá mundi ég ekki segja margt um þetta frv. hér.
    En það eru fleiri þættir í þessu frv. sem verið er að breyta mjög mikið. Það er verið að fella út kröfugerðir lífeyrissjóðanna í þessu sambandi og það er verið að fella út vaxtaákvæði laga. En í lögunum segir að ábyrgð taki til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur og síðan eru þær taldar upp og hér eru m.a. dráttarvextir af kröfunum, sem á undan eru taldar, frá gjalddaga þeirra til þess dags sem félmrh. ákveður að kröfuna skuli greiða úr ríkissjóði. Þetta ákvæði um vexti og dráttarvexti á kröfunni er fellt út. Það er fellt út og ég spyr hæstv. félmrh., eru þetta kannski mistök? Eða hvernig hefur hæstv. félmrh. hugsað sér að þessi þáttur verði leystur að því er vextina varðar? Það er aldeilis óhjákvæmilegt að fá svar við því. Einnig var það þannig í gömlu lögunum eða þeim lögum, sem enn þá gilda, að kröfurnar, þ.e. ábyrgðin náði til kostnaðar sem launþegi eða sá er krefst bóta samkvæmt e-lið hefur orðið að greiða vegna nauðsynlegra ráðstafana til innheimtu kröfu sinnar. Um þetta er ekki orð í þessum brtt. og það er ekki orð um þetta í skýringunum heldur í nefndarálitinu, hv. þm., ekki orð. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að hæstv. félmrh. geri grein fyrir þessu máli hér og svari því, hvernig á því stendur að þessi réttarákvæði eru felld niður.
    Alþýðusamband Íslands hefur sent bréf um þetta mál til þingsins þar sem þessu er mótmælt mjög ákveðið með mjög gildum rökum og þó alveg sérstaklega kerfinu sem verið er að taka upp. Kerfið byggir á því að stofnaður verði sjóður, í hann verði borgað 0,2% gjald atvinnurekenda af greiddum vinnulaunum og þannig eru launamenn í raun sjálfir að kosta þennan sjóð af því að það er ljóst að ella gætu þeir sótt hærri laun fyrir sig ef þessi aðferð væri ekki valin. Það er þessi leið sem Alþýðusambandið gagnrýnir mjög ákveðið.
    Ég sé að Samtök lífeyrissjóðanna hafa einnig mótmælt þessu frv. Ég hef í höndum upplýsingar um hvernig greiðsludreifing hefur verið á kostnaði við þennan sjóð á þessu ári. Það kemur fram að í Reykjavík eru þetta um 215 millj. kr. sem borgaðar hafa verið á fyrstu 11 mánuðum ársins, á Austurlandi t.d. 129 þús. kr. á Norðurlandi eystra 32 millj., á Vestfjörðum 9,9 millj., á Vesturlandi 14,9 millj., á Reykjanesi 118 millj. og á Suðurlandi 11,6 millj. Og það eru mörg mörg hundruð launamanna hér á bak við, sennilega telja þeir þúsundir ef eitthvað er og af þessum ástæðum, virðulegi forseti, vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan. Ég skora á hæstv. félmrh., að hefja þegar í stað viðræður við Alþýðusamband Íslands um fyrirkomulag þessa máls. Og ég endurtek líka það sem ég sagði hér áðan, að ég er sannfærður um að hægt er að ná samkomulagi við Alþýðusambandið um breytt fyrirkomulag sem gæti sparað fjármuni í þessu efni, algjörlega sannfærður um það.

Ég hef rökstuddan grun um að svo sé og rökstuddan grun um að hæstv. félmrh. hafi vanrækt að eiga eðlileg viðtöl við Alþýðusamband Íslands um þennan kafla.
    Hér er auðvitað um að ræða mikilvægt réttindamál og þess vegna er eðlilegt að það sé tekið til rækilegrar umræðu hér. Í brtt. stendur m.a., með leyfi forseta: ,,Skorti ábyrgðasjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum og reglugerð skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal útvega það fé sem sjóðinn vantar og skal það gert með láni eftir nánari ákvörðun ríkisstjórnar hverju sinni. Lánið skal endurgreitt með álagningu sérstaks aukagjalds á næsta almanaksári.`` Hvað þýðir þetta á mannamáli, virðulegi forseti, hvað þýðir þetta nú? Það þýðir að ef mikið verður um gjaldþrot og margir þurfa að fá greidd vinnulaun í gegnum þetta kerfi þá er of lítið til í sjóðnum og þá þarf að leggja á hærra gjald. Með öðrum orðum, eftir því sem atvinnureksturinn er meira á hausnum eftir því á hann að borga meira í þennan sjóð. Þetta er auðvitað algjörlega öfugt að hlutunum farið.
    Ég heyrði það ekki í máli hv. frsm. efh.- og viðskn. né hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hvernig hefði nákvæmlega verið farið í þetta mál í efh.- og viðskn. né heldur í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. En það er auðvitað spurning hvort hugsanlegt er að efh.- og viðskn. taki þetta mál sérstaklega fyrir núna milli 2. og 3. umr. Ég skora á ríkisstjórnina ef hún nær ekki að semja um þetta mál við verkalýðssamtökin næstu daga að strika þetta út úr þessum langhala hér, strika þetta út eða fresta því að minnsta kosti. Ég sé reyndar, virðulegi forseti, í frv. að það er hvort eð er ekki gert ráð fyrir að þetta taki gildi fyrr en 1. mars 1992 þannig að þá er komið talsvert inn á næsta ár og menn hafa væntanlega löngu hafið störf hér að nýju eftir áramót. Þess vegna eru auðvitað full rök fyrir því að þessu verði frestað og ég heiti á hæstv. félmrh. að fara í það af fullri alvöru að ræða við verkalýðssamtökin. Ég heiti á efh.- og viðskn. að gera það líka og að halda þannig á málum að ekki verði farið af stað með þetta öðruvísi en að þær viðræður hafi átt sér stað. Með þeim rökum líka að það liggur ekkert á og ríkisstjórnin er sjálf búin að viðurkenna að það liggur ekkert á í þessu og við skulum bara fara í þetta mál hér bak jólum þegar menn koma hingað hressir og endurnærðir að afloknu jólaleyfi.
    Það er líka svoddan fljótaskrift á þessu, hæstv. félmrh. Menn eiga að vanda sig við svona. Lagasetning er alvarlegt mál. Þetta er ekki eins og að henda saman einni kjallaragrein að setja lög. Lagasetning er alvarlegt mál og menn eiga að vanda sig við lagasetningu. Því hafa menn algjörlega gleymt þegar þeir voru að undirbúa þessi ósköp þar sem menn gleymdu því meira að segja að nefna lagatilvísanir í upphaflega frumvarpstextanum og létu sér ekki detta það í hug að hengja frumvarpsgreinarnar á einhver lög sem eru til í landinu. Nei, nei, það gleymdist. Það getur verið alvarleg gleymska, sérstaklega fyrir þá sem eiga að búa við lögin ef stjórnvöld fúska við lagasetningu. Ég get út af fyrir sig nefnt mörg dæmi um lagafúsk sem hefur komið fólki í koll m.a. úr félmrn.
    Virðulegi forseti. Ég endurtek þá áskorun mína til hæstv. félmrh., að sjá svo til að annaðhvort verði þessu breytt í samkomulagi við verkalýðssamtökin eða þessu verði bara frestað, strikað út úr frv. Það er algjörlega ástæðulaust finnst mér fyrir stjórnarandstöðuna að líða það að mál af þessu tagi sé afgreitt svo að segja alveg fyrirhafnarlaust. Það eru engin rök sem mæla með því, það er ekkert sem mælir með því, að þetta verði afgreitt svona, ekki neitt af neinu tagi.
    Virðulegi forseti. Ég vík þá að næsta kafla ræðu minnar þar sem ég ætla aðeins að fara yfir menntamálaþátt frv. og ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að vera viðstaddur umræðuna. Í nál. minni hluta efh.- og viðskn. er farið yfir þetta mál nokkuð rækilega, en þarna eru þrjár greinar sem fjalla um menntamál sérstaklega, um skólamál og grunnskólann alveg sérstaklega. Ég ætla að byrja á því að skora á hæstv. menntmrh. að sjá til þess

að þessi kafli verði strikaður út. Hann á ekki heima hérna, burt séð frá efni málsins. Það eru engin rök fyrir því að hafa þetta inni í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, engin rök, því að það er ekkert hérna sem er með þeim hætti að það hafi í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð frá og með næstu áramótum, ekkert, ekki króna. Auk þess sem hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að hann ætli að flytja eftir áramótin frv. til laga um breytingu á grunnskólalögum og þar er auðvitað eðlilegt að vera með svona mál. Það leggst of lítið fyrir hæstv. menntmrh. að vera að reyna að smygla þessu hér inn í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er fullkomlega skothelt. Það eru engin rök fyrir því. Hvaða rök ætli séu fyrir því að ætla t.d. að afnema grunnskólaráð í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það væri fróðlegt að vita hvaða efnahagslega þýðingu grunnskólaráð muni hafa --- að þau muni ráða úrslitum um þróun efnahagsmála á Íslandi á næsta ári, ákvæðin um grunnskólaráð eða aðstoðarskólastjóra. Ókunnugur maður sem kæmi að þessum texta og þekkti ekki til á Íslandi gæti ímyndað sér að aðstoðarskólastjórar væru alveg sérstakir melir og vandamál í ríkisfjármálum á Íslandi, að þeir væru í rauninni á við verðbólguna, okurvextina og atvinnuleysið samanlagt, --- aðstoðarskólastjórar --- af því að hér er þessu smyglað inn í frv., að að heimild til að ráða aðstoðarskólastjórar verði felld út. Það var ekki eins og það væri skylda heldur var það heimild.
    Í nál. minni hluta menntmn. um þennan kafla er farið mjög rækilega ofan í saumana á þessum málum. Ég ætla aðeins að staldra þar við. Í fyrsta lagi er það sem fram kemur í a-lið 1. gr., þar sem segir að 3. mgr. 4. gr. eigi að falla út. Hvað kemur það ríkisfjármálunum við, hæstv. menntmrh.? Þetta ákvæði kveður á um málsverði á skólatíma sem kemur í hlut sveitarfélaga en er ekki ríkisins að sjá um og sveitarfélögin hafa auðvitað samkvæmt ákvæðum laganna, eins og þau eru, frelsi til þess að haga þessu eins og háttar á hverjum stað þannig að það eru engin rök fyrir því að taka þetta hérna inn, ekki nokkur rök.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að í meginatriðum verði 9. gr. laganna um grunnskóla felld út. Hvað er í henni? Hún er um grunnskólaráð og það er auðvitað algjörlega út í hött að fella hana niður, enda ákváðu menn að hætta við það og tillagan um að fella niður ákvæði um grunnskólaráð úr grunnskólalögunum hefur verið dregin til baka af ríkisstjórninn og er það út af fyrir sig þakkarvert.
    Í þriðja lagi var ákvæðið um aðstoðarskólastjóra og ríkisstjórnin hefur líka ákveðið að draga það ákvæði til baka ef ég skil brtt. meiri hlutans rétt.
    Í síðasta lagi er í 1. gr. gert ráð fyrir því að 1. og 6. mgr. 46. gr. komi ekki til framkvæmda á árinu 1992. Hvað er þar? Þar er verið að fjalla um vikulegan kennslutíma á nemanda í grunnskólum og skólaathvörf fyrir nemendur utan kennslutíma, eins og segir hér í áliti minni hluta menntmn. Þetta ákvæði er í raun og veru algjörlega fráleitt í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess að menntmrh. hafði heimildir til að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir í þessu efni á þeim forsendum sem hann taldi faglega eða fjárhagslega skynsamlegt. Því eru engin rök fyrir því, virðulegi forseti, að hafa þetta hér í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnir sem byggja skólahúsnæði eigi að kosta aðstöðu fyrir heilsugæslu og tannlækningar. Ég heyrði það hér á einhverjum hv. þm. í gær eða fyrradag að þetta væri kannski alveg sérstaklega vafasamt fyrir landsbyggðina að fá þetta framan í sig en það mál liggur ekki þannig. Þetta er góð tillaga hjá hæstv. menntmrh., hún á hins vegar ekkert að vera í þessum lögum. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að borgarstjórn Reykjavíkur neyðist til að hafa heilsugæsluaðstöðu í grunnskólum. Það er skynsamleg tillaga en hún á ekki heima í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess að hér er um að ræða almennt lagaákvæði sem á ekkert erindi í þetta frv.

    Í 3. gr. eru gerðar miklar breytingar á bráðabirgðaákvæðum grunnskólalaga og eru þær eftirfarandi: Í fyrsta lagi er frestað fækkun nemenda í neðstu bekkjum grunnskólans og þar kemur sparnaður. Hann er talinn nema 20 millj. á árinu 1992 og hans fer að gæta frá og með haustinu 1992. Það er ekkert sem gerist á fyrri hluta næsta árs sem leiðir til sparnaðar af þessum ákvæðum.
    Í öðru lagi er fellt niður ákvæðið um námsráðgjafa við grunnskóla sem átti að koma til framkvæmda á fimm árum og þetta er líka algjör óþarfi. Menntmrh. gat ákveðið þetta sjálfur, hann þurfti í raun og veru engar sérstakar nýjar lagaheimildir ef hann hefði talið nauðsynlegt að seinka því átaki í námsráðgjöf sem hefur verið í gangi í grunnskólum. Hann þurfti þess ekki, það er ekkert sem segir til um það.
    Þá er gert ráð fyrir því að fella niður ákvæði 3. gr. grunnskólalaga um einsetinn skóla sem eiga að fullu koma til framkvæmda, ekki á næsta ári heldur á tíu árum, árið 2001. Þá verður að vísu þessi ríkisstjórn löngu, löngu hætt. Út af fyrir sig geta menn kannski huggað sig við það en það er algjör fjarstæða að hafa þetta hér inni í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna ársins 1992. Þetta er ekki frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001. Þetta eru ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Algjörlega út í hött að seilast inn í næstu öld eftir lagabreytingu. Það er naumast að ríkisstjórnin er allt í einu forsjál á einu sviði að negla inn í næstu öld að ekki verði framfarir í skólamálum á Íslandi. En sem betur fer verður þá búið að breyta um ýmsa hluti þannig að ekki er víst að þetta verði svona allan þann tíma.
    Síðan er sett inn ákvæði í 3. gr., þar stendur: ,,Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.``
    Áður er búið að gera ráð fyrir afnámi þeirra lagaákvæða sem kveða á um tiltekinn lágmarkstíma í bekkjum þannig að verið er að segja í fyrsta sinn frá því að grunnskólalögin voru sett 1974, og þá auðvitað í fullri andstöðu við íhaldið, að börn í landinu skuli ekki hafa neina tryggingu, neitt lágmark í tímum, að menntmrh. geti við skrifborð sitt skorið niður tímana hjá hverju einasta barni í grunnskólum í landinu með reglugerð.
    Ég er hræddur um að aðrir þjóðfélagshópar en börn mundu rísa upp og láta til sín taka ef væri verið að skerða kjör þeirra eins og hér er verið að hóta að skerða kjör barna. Hér er verið að skerða kjör barna og foreldra í landinu og þar með framtíðar landsins. En eins er auðvitað með þetta, virðulegi forseti, engin ástæða er til að setja þetta inn í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess að þetta sparar ekki neitt á næsta ári fyrr en þá næsta haust, sem er svo allt annað mál.
    Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, ástæðu til þess að beina þeirri áskorun eða beiðni, ef menn vilja, til hæstv. menntmrh. að hann losi þingið við að afgreiða þennan kafla úr frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 og felli hann niður. Það eru engin rök fyrir því að hafa þetta þarna inni. Auðvitað kemur fram í þessu, virðulegi forseti, tiltekin grundvallarafstaða til skólamála í landinu. Það er rétt eins og hver önnur almenn efnahagsleg aukageta, þetta skóladrasl í landinu, bara vesen og kostar peninga og kennarar sem heimta kaup og krakkar sem heimta bækur og guð veit hvað. Það er ekki nægur skilningurinn á þeim veruleika sem blasir auðvitað við í hverju nútímaþjóðfélagi að gott menntakerfi er undirstaða góðra lífskjara. Þjóð sem vanrækir menntakerfi sitt, hvort sem það eru leikskólar, grunnskólar eða aðrir skólar er að brjóta niður þann meginlífskjaragrunn sem allar þróaðar þjóðir hafa lagt áherslu á á undanförnum árum og áratugum. ( Gripið fram í: Einkaskólarnir bjarga þessu.) Og einkaskólarnir bjarga þessu ekki. Þeir gera það ekki. ( ISG: Þeir eru á jötunni líka.) Auk þess er þetta ríkisrekinn kapítalismi. Þeir eru á jötunni líka, eins og hv. 10. þm. Reykv. bendir á.

    Ég held, virðulegi forseti, að þessi ákvæði um grunnskólann séu til marks um tiltekið virðingarleysi fyrir skólum í ríkisstjórninni og ég harma að það er svo. En ég vona að hæstv. menntmrh. geti a.m.k. útskýrt af hverju þetta er þarna inni, af því að þetta heitir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Ég hef ekki heyrt þær útskýringar né heldur séð þær því að ég las grannt þær ræður sem hann flutti um þetta mál við 1. umr. málsins þegar hún fór fram á sínum tíma.
    Í annan stað, virðulegi forseti, að því er varðar menntmrn. sérstaklega langar mig til að víkja að öðru atriði. Í síðari hluta frv. eru svokölluð ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` og ég ætla ekki að ræða þau í einstökum atriðum nema ég ætla að víkja að 28. gr. Mig langar til að ræða það augnablik við hæstv. menntmrh. Þannig er að á fyrri hluta ársins var tekin um það ákvörðun að Íslendingar yrðu aðilar að norrænu kvikmyndaverkefni og í fjáraukalögum ársins 1991 er ákvæði um að greiða 14 millj. úr ríkissjóði í verkefnið á árinu. Hins vegar byggðist þetta verkefni á því í heild að það yrði fjármagnað á nokkurra ára bili og annar hluti framlags Íslands kæmi inn á árinu 1992. Í frv. til fjárlaga og þessum texta er ekki gert ráð fyrir því að þessar 14 millj. verði greiddar inn í norrænt kvikmyndaverkefni. Var þetta kannski eitt af þeim fjölmörgu loforðum sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn gaf, menntmrh. og fjmrh. sem voru í þeirri stjórn, þeir skúrkar báðir? Út af fyrir sig komu þeir báðir að málinu, en það gerðu fleiri. Upp á þetta fyrirheit um samnorræna kvikmyndaverkefnið skrifaði þáverandi formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, núv. hæstv. dómsmrh., hann skrifaði upp á þetta fyrirheit. Þáverandi og ennverandi formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, auk þess fulltrúar og forustumenn annarra flokka. Kvikmyndasjóður Íslands og þeir sem að honum standa voru því í góðri trú um að það væri breið heildarsamstaða á bak við þetta mál á Alþingi Íslendinga, hverjir svo sem væru í stjórn. Og það var á þeim forsendum sem norræna kvikmyndaverkefnið samþykkti aðild Íslands sem kæmi til greiðslu á nokkurra ára bili. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að hækka þess vegna þá tölu sem gert er ráð fyrir til Kvikmyndasjóðs eða að sérmerkja fjármuni í þessu skyni á fjárlögum nema við viljum að þetta verkefni og aðild okkar að því hrynji. Mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. veitti orðum mínum athygli í þessu efni vegna þess að ég er sannfærður um að ef ekkert verður gert í málinu núna er vá fyrir dyrum hjá stórum fjölda kvikmyndagerðarmanna okkar og fyrirtækja sem oft hafa verið stofnuð á afar veikum grunni satt að segja í kringum framleiðslu kvikmynda hér.
    Ég vil þessu næst . . . ( Forseti: Eins og forseti hefur bent hv. ræðumanni á er ætlunin að gera hlé á fundinum núna klukkan hálfellefu í hálfa klukkustund vegna nefndarfundar. Áður en það hlé er gert, ef hv. ræðumaður samþykkir að gera hlé á máli sínu, þá hefur verið útbýtt á fundinum og vill forseti lesa um þær útbýtingar.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Í frv. því sem hér um ræðir er komið víða við og ég hafði fjallað fyrr í kvöld um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota og um I. kafla frv. Ég ætla aðeins að víkja lauslega að þeim kafla frv. sem fjallar um breytingar á lögum um almannatryggingar með síðari breytingum. Eins og fram hefur komið náði heilbr.- og trn. samstöðu um róttækar breytingar á þeim kafla og ég tel mjög mikilvægt að ríkisstjórnin hefur fallist á þau sjónarmið sem urðu ofan á í hv. heilbr.- trn. þannig að ástæðulaust er að fara miklu fleiri orðum um þann kafla að öðru leyti en því að í frv. er tekið sérstaklega á tannréttingamálum og um þann þátt flytjum við stjórnarandstæðingar í hv. heilbr.- og trn. sérstakar brtt. sem gerð hefur verið grein fyrir fyrr í umræðunum sl. nótt, m.a. af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur.
    Auðvitað eru ýmsir fleiri þættir í frv. sem væri ástæða til að staldra við, t.d. það að tekin er um það ákvörðun að fella endanlega niður úr lögum ákvæði um framlög í Iðnlánasjóð, en Iðnlánasjóður hefur verið afgreiddur þannig á undanförnum árum að framlag

til hans hefur verið fellt niður frá ári til árs, en nú er gert ráð fyrir því að fella niður framlög til Iðnlánasjóðs með varanlegum hætti. Við sem erum fulltrúar stjórnarandstöðunnar í hv. iðnn. töldum að það væri eftir atvikum ástæðulaust að leggjast sérstaklega gegn þessari tillögu með hliðsjón af þeirri sterku stöðu sem Iðnlánasjóður hefur og hefur verið að þróast á undanförnum árum.
    En áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, tel ég óhjákvæmilegt af því við vorum að tala hér aðeins um grunnskólann áðan að víkja sérstaklega að þeirri spurningu sem komið hefur upp í tengslum við umræður um fjárlagafrv. og ekki er víst að gefist tími til að ræða þá, en það er spurningin um svokallaðan flatan niðurskurð. Ég held að mjög æskilegt sé að velta því fyrir sér, virðulegi forseti, hvernig þessi flati niðurskurður kemur við skólana. Ég hef út af fyrir sig ekki haft aðstöðu til að meta þetta í einstökum tilvikum en þó hef ég kannað þetta sérstaklega að því er varðar grunnskólann og þar koma mjög uggvænlegir hlutir fram ef maður skoðar þær tölur sem liggja fyrir.
    Eins og kunnugt er þá er gert ráð fyrir því að brúttóniðurskurður á launum hjá ríkinu og þar með menntmrn. verði 6,7%. Nú er gert ráð fyrir því að menntmrh. hafi hluta af þessum niðurskurði til baka til svokallaðra endurráðstöfunar og það er aftur á móti mál sem við vitum í raun og veru ekkert um. Við vitum ekki hvernig þessari endurráðstöfun verður háttað og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert Alþingi grein fyrir því hvernig endurráðstöfun fjármuna verður hagað samkvæmt þeim tillögum sem liggja nú fyrir hjá hv. meiri hl. fjárln. Alþingis.
    En ef við skoðum hinn flata niðurskurð einvörðungu, burt séð frá endurráðstöfun fjármuna, er rétt að byrja á að minna á að kostnaður menntmrn. og ríkisins vegna grunnskóla núna er eiginlega eingöngu launakostnaður. Ríkið greiðir engan annan kostnað við grunnskólana nú orðið, hitt liggur á sveitarfélögunum. Launakostnaður við grunnskóla er liðlega þriðjungur af heildarlaunagreiðslum á vegum menntmrn., um 35%. Og ef heildarniðurskurður á launum í menntmrn. á að vera 720 millj. eins og mér sýnist þetta vera fyrir endurráðstöfun fjármuna þá er hlutur grunnskólanna um 250 millj. kr. ef ég kann að lesa þessar tölur rétt miðað við að 35% af heildarlaunagreiðslum á vegum ráðuneytisins eru til grunnskólanna. Það eru býsna margar kennarastöður, virðulegi forseti, sem væru þar með felldar niður. Hversu mörgum stöðugildum samsvarar það? Þessar 252 millj. kr. samsvara 190 stöðugildum sem þarna væri hugsanlega um að ræða. Hins vegar er gert ráð fyrir því að allur niðurskurðurinn komi til framkvæmda á síðari hluta næsta árs, þ.e. frá ágúst, september næsta ár og út það ár. Ef svo verður að málum staðið væri ekki um að ræða 190 stöðugildi heldur 380 stöðugildi. Ef við dreifum 380 stöðugildum hlutfallslega jafnt á fræðsluumdæmi kemur býsna fróðleg niðurstaða út. Það kemur út að þá væri fækkað um 100 stöðugildi kennara í Reykjavík einni, virðulegi forseti. Hverju samsvarar það? Það samsvarar því að loka bæði Fellaskóla og Seljaskóla í Reykjavík. Ef við skoðum Reykjanes samsvarar þetta um 80 stöðugildum í Reykjanesfræðsluumdæmi. Hverju samsvarar það í skólum á Reykjanesi? Það samsvarar því að loka grunnskólunum í Keflavík og Grindavík eins og þeir leggja sig. Og af því að forsetinn hér, hinn virðulegi forseti, hv. 1. þm. Vesturl. og formaður Hafnasambands Íslands, er hér, þá er kannski vert að velta því fyrir sér hvað þetta þýðir á Vesturlandi. Þetta þýðir það leggja niður 28 kennarastöður á Vesturlandi. Ég hef ekki tekið saman hvað það þýðir í eins stórum skólum á Vesturlandi, ég get ímyndað mér t.d. og þykist reyndar vera alveg viss um að þetta jafngildir því að leggja niður verulegan hluta af skólahaldi í dreifbýlishreppum Vesturlands. Þetta jafngildir því t.d. að leggja niður allt skólahald í Dalasýslu svo ég nefni dæmi um svæði þar sem ég er prýðilega kunnugur og reyndar mun meira. 28 stöðugildi á Vesturlandi. Og á Vestfjörðum, 20 stöðugildi kennara. Í Strandasýslu eru margir litlir grunnskólar. Þar er um að ræða

skóla sem eru með niður í eina eða tvær stöðuheimildir. Skóla eins og í Broddanesi, skóla eins og á Drangsnesi þar sem eru líklega fjórar stöðuheimildir, skóla eins og í Árneshreppi. Það er alveg augljóst mál að það er ekki hægt að fækka um 20 stöðuheimildir á Vestfjörðum fyrir kennara öðruvísi en að leggja niður fjöldann allan af þeim litlu skólum sem þar eru til, væntanlega með svipuðum aðferðum og beitt hefur verið við Héraðsskólann í Reykjanesi. Á Vestfjörðum er fjöldi lítilla skóla. Í raun og veru er aðeins einn skóli sem telst til stærri skóla á Vestfjörðum. Þessi ákvörðun um fækkun á kennurum og flatan niðurskurð á fjármunum til kennslulauna þýðir að það verða lagðir niður mjög margir barnaskólar á Vestfjörðum. Á Norðurlandi vestra mundi þetta þýða fækkun um 22 kennara. Á Norðurlandi eystra þýðir þessi niðurskurður fækkun um 44 kennara. Hvað þýðir það? Það samsvarar því að loka bæði Lundaskóla og grunnskólahaldinu í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Það samsvarar því að loka tveimur grunnskólum á Akureyri. Eða ætli það samsvari kannski því alveg eins, virðulegi forseti, að leggja niður skólahald í Norður-Þingeyjarsýslu og ríflega það.
    Þetta er ég að segja til þess að hv. þm. og menntmrh. átti sig á því hvað við stöndum frammi fyrir hrikalega erfiðum hlutum. Vissulega er menntmrh. engan veginn öfundsverður af því verkefni sem við honum blasir samkvæmt þessu ákvæði fjárlagafrv. Vissulega er það líka þannig að eitthvað af endurráðstöfunarfénu getur hann notað til þess að draga úr þessum sviða. En stefnan er þessi. Og ég endurtek að ég er sannfærður um að það er útilokað að ná þessu markmiði öðruvísi en að skera niður og fækka verulega skólum, í dreifbýlinu alveg sérstaklega.
    Ég er hræddur um að það verði margt Reykjanesið, virðulegi forseti, í skólamálum á Íslandi sumarið 1992 ef þetta gengur eftir. Það verði margur Reykjanesskólinn og það verði margur kjördæmisþingmaðurinn sem kveinkar sér undan þeim ákvörðunum sem menntmrh. verður neyddur til að taka því hann gerir það örugglega ekki með glöðu geði ef þessi ákvæði fjárlagafrv. og tillögur meiri hluta fjárln. ná fram að ganga.
    Ég efast um að hv. formaður fjárln. geri sér grein fyrir því að tillögurnar jafngilda því að leggja niður skóla í Keflavík og Grindavík. Ég dreg ekki í efa og er reyndar alveg viss um að hv. varaformaður fjárln., hv. þm. Pálmi Jónsson, gerir sér ekki grein fyrir því að þetta jafngildir því að leggja niður skólahald á stórum flákum á Norðurlandi vestra. Ég er líka viss um að hv. 2. þm. Norðurl. e., hæstv. landbrh., gerir sér ekki grein fyrir því að þessi flati niðurskurður í skólum þýðir það að lagðir verða niður eða lokað tveimur skólum á Akureyri, bæði Lundaskóla og Gagnfræðaskólanum, því grunnskólastarfi sem þar fer fram, eða jafngildir því að leggja niður allt skólastarf í Norður-Þingeyjarsýslu. En það er þetta sem ríkisstjórnin er að segja menntmrh. að gera. Ég efast líka um það að hv. 1. þm. Suðurl. geri sér grein fyrir því að í þessum ákvörðunum er gert ráð fyrir því að leggja niður 38 kennarastöður á Suðurlandi sem jafngildir því að leggja niður t.d. verulegan hluta af þeim skólum sem nú eru starfræktir í Árnessýslu, eða jafngildir því að leggja niður flestalla skóla í dreifbýli á Suðurlandi. Ég efast um að hv. 1. þm. Suðurl. hafi gert sér grein fyrir þessu. Ég segi við virðulegan forseta að það verkefni sem verið er að setja hæstv. menntmrh. í með þessum ákvörðunum um flatan niðurskurð er algjörlega óvinnandi vegur því með þessu móti væri verið að brjóta niður allt grunnskólahald í landinu. Verið getur að það vaxi ekki mönnum í augum rétt fyrir jól á Alþingi, þegar menn líta hér út á Austurvöllinn, að það eigi að leggja niður kennarastöður á Vestfjörðum. Mönnum þyki það bara smámál að leggja niður 20 kennarastöður á Vestfjörðum sem jafngildir því t.d. að loka skólum í þorpunum, byggðarlögunum, í kringum Ísafjörð. Það getur vel verið að mönnum þyki þetta smámál. En ég fullyrði þá það, virðulegi forseti, sem er kannski það alvarlegasta í þessu --- ég segi enginn í meiri hlutanum hefur gert sér grein fyrir því hvaða

verkefni er verið að leggja hér á hendur menntmrh. Það þýðir auðvitað ekki það, herra forseti, að það eigi að fyrirgefa þeim af því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Það liggur ekki þannig. En það á auðvitað að gefa þeim kost á því að leiðrétta þessar hugmyndir vegna þess að þær eru óframkvæmanlegar nema menn séu vísvitandi að taka ákvörðun um að leggja niður skólahald í landinu.
    Auðvitað má setja þetta líka þannig upp að niðurskurðurinn samsvari því að minnka kennslu allra nemenda í grunnskólum um fjórar stundir á viku frá næsta hausti, eða hann samsvari því að öll stærðfræðikennsla yrði strikuð út í grunnskólanum. Það er svipuð upphæð sem þarna er um að ræða, eða hann samsvari því að engin sex eða sjö ára börn kæmu í grunnskólann næsta haust. Það er auðvitað þessi hrikalegi veruleiki, virðulegi forseti, sem verið er að segja við hæstv. menntmrh. að hann eigi að framkvæma.
    Á hliðstæðan hátt er hæstv. heilbrrh. sagt að loka heilu sjúkrahúsunum. Ég hef því miður ekki, herra forseti, haft aðstöðu til þess að útfæra þessa þætti á einstök sjúkrahús yfir landið eða hverju niðurskurðurinn nemur af því er heilbrrn. varðar. En þar er um gríðarlegar tölur að ræða. Ég er ansi hræddur um það, þegar kemur fram á árið 1992, og hæstv. ráðherrar þurfa að loka spítalanum á Selfossi eða skólum í dreibýlinu á Suðurlandi þá muni hv. 3. þm. Suðurl., sá ágæti formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og stórvinur minn, ekki ganga brosandi hér um sali. Það er hætt við því að það verði margur Matthías Bjarnason í þingliði Sjálfstfl. sumarið 1992. Og margt Reykjanesið.
    Ég óttast, virðulegi forseti, að fulltrúar stjórnarflokkanna geri sér enga grein fyrir hvað er á ferðinni og hv. þm. Árni Johnsen er reyndar tillögumaður um þennan flata niðurskurð. Ég segi í fullri alvöru: Ég óttast að við stöndum frammi fyrir algjörlega nýjum veruleika í skólamálum á Íslandi og í velferðarþjónustu yfirleitt.
    Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að mikill vandi blasir við Alþingi þessa dagana? Hvernig stendur á því að hér fara fram ítarlegar umræður um ráðstafanir í ríkisfjármálum? Hvernig stendur á því að það fara fram ítarlegar umræður um fjárlög fyrir árið 1992? Hvernig stendur á því að þinghaldið er í uppnámi? Hvernig stendur á því?
    Hv. þm. Geir Haarde og hæstv. forsrh. hafa auðvitað á því sínar skýringar. Skýringarnar eru þær að þeir þurfa enn þá að vera að burðast með minni hluta, stjórnarandstöðuna. Það er seinlegt og vesen að vera með lýðræði. Það sá Stalín snemma, eins og kunnugt er. En við erum sem betur fer með lýðræði og þingræði í landinu. Af hverju er það sem umræðurnar taka einhvern smá tíma? Hver er munurinn á þessum umræðum og umræðum sem hafa farið fram um fjárlög á undanförnum árum og áratugum? Hann er sá að það er verið að brjóta niður velferðarþjóðfélagið og sáttina um velferðarþjóðfélagið. Það hefur verið sátt um íslenska velferðarþjóðfélagið. Það hefur verið sátt um tiltekinn lágmarkssamnefnara fyrir velferðarþjóðfélagið á Íslandi. Núna er verið að rjúfa þá sátt. Það er verið að slíta í sundur friðinn á Íslandi í dag. Ekki aðeins við samtök launafólks heldur einnig við skóla, heilbrigðisstofnanir og hina félagslegu þjónustu og sveitarfélögin í landinu. Það er verið að slíta í sundur friðinn sem er forsenda þess að þessi fámenna þjóð norður við ysta haf fái að lifa og dafna í landinu. Að menn nái sátt um grundvallaratriði, mannúðarstefnu í framkvæmd. Stjórnin beitir sér fyrir því með beinum hætti að brjóta þá mannúðarstefnu á bak aftur og það er kostulegt að fylgjast með því hvernig forustumenn hagsmunasamtaka sem hafa gengið fram galvaskir til að berjast fyrir ýmsum málum á undanförnum árum, eru núna allt í einu komnir í band, eins og hv. formaður Hafnasambands sveitarfélaga. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. ( ÓÞÞ: Það eru ljótu bréfaskriftirnar sem fara á milli.) Það eru kostuleg bréfin sem hv. 1. þm. Vesturl. fær frá formanni Hafnasambands sveitarfélaga og það væri auðvitað sálfræðilegt rannsóknarefni að stúdera innan í þá suma, þessa þingmenn stjórnarliðsins um þessar mundir. Það væri fróðlegt fyrir sálfræðinga, starfsmenn hæstv. menntmrh., að skoða innan í þá, sálartetrin í þeim sumum um þessar mundir. Ekki bara formann Hafnasambands sveitarfélaga. ( PJ: Hefur þingmaðurinn skoðað inn í sálfræðinga?) Nei, en ég held það væri ástæða fyrir sálfræðinga að skoða innan í hv. þm. Pálma Jónsson --- og nú skal ég rökstyðja það ef hv. þm. vildi gjöra svo vel og fá sér sæti augnablik vegna þess að ég held það sé betra að taka við þessu sitjandi en standandi.
    Þannig háttar til að hv. þm. Pálmi Jónsson er varaformaður í fjárln. Hann er að leggja það til að leggja niður 22 kennarastöður á Norðurlandi vestra næsta haust. ( Gripið fram í: Það verður ekki kennt þar meira.) Það verður ekki kennt þar meira, segir þingmaðurinn glaðhlakkalega, og það er kannski stefnan. --- Hæstv. forseti, það er spurning hvort það væri hægt að biðja hv. varaformann fjárln. að staldra við augnablik. Hann er lagður á flótta. Það er kannski verið að skoða innan í hann einhvers staðar þarna frammi. Auðvitað skammast þeir sín þessir menn --- og kemur ekki framkvæmdastjóri Verslunarráðsins í dyrnar í staðinn. Sá sem er búinn að skrifa sjálfum sér bréf og hótaði að stefna sér fyrir dómstóla. ( Gripið fram í: Strax fyrir jól.) Og helst fyrir jól. Skrifa sjálfum sér bréf og væri fróðlegt að vita hvert hann sendir stefnuna á sjálfan sig. Það er væntanlega ekki mikill frímerkjakostnaður þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er að taka við kærunum frá framkvæmdastjóra Verslunarráðsins. Það er auðvitað alveg kostulegt að sjá til þessara manna og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, hins mikla jafnaðarmannaleiðtoga ( ÖS: Var þetta ekki vatn í glasinu sem ég gaf þér?), sem nú er að leggja það til að loka tveimur skólum í Reykjavík næsta haust --- og hann hleypur úr dyrunum líka. Og það er athyglisvert, virðulegi forseti, að þessir höfuðsnillingar sem eru að senda sjálfum sér hótunarbréf daginn út og daginn inn, haldast ekki við hér í salnum. Ég er hræddur um að þeir verði ekki flissandi mikinn hér næsta sumar þegar verður farið að loka ,,Reykjanesskólunum`` allt í kringum landið. En ég held það væri vissara fyrir þá að athuga sinn gang núna vegna þess að það getur orðið of seint fyrir sálfræðingana að skoða vandamál þeirra þegar kemur fram á sumarið 1992. Ég held það yrði ódýrara að tryggja þeim meðferð strax í dag, virðulegi forseti.