Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

56. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 00:43:00 (2346)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992 er heiti þess máls sem hér er á dagskrá. Það merkilega við þetta frv. er að það tekur yfir tímabilið frá 1992--2002 og ber þó þetta sakleysislega nafn. Ég held að þeim, sem væri að fletta lagasafni og sæi þennan texta, mundi aldrei detta í hug að gá hvort breytingar væru á grunnskólalögum í þessu frv. Hann mundi telja að þetta væri frv. fjallaði aðeins um ríkisfjármál 1992. Nú er mér að vísu ljóst að trúlega verður texti þessa frv., ef að lögum verður, tölvukeyrður þannig að menn setji þetta á réttan stað inn í lagasafnið í framtíðinni. En það hlýtur engu að síður að vera umhugsunarefni hvaða ástæður liggja á bak við að menn geri sér lítið fyrir og taki grunnskólalög með þeim hætti sem hér er gert inn í þetta frv.
    Ég vil vekja athygli á því að hæstv. menntmrh. er með þeirri tillögugerð sem hér er að leggja til grundvallarbreytingar í grunnskólalögunum hvað það varðar að tímafjöldi, sem börnum er ætlað að stunda nám, verður ekki lengur ákveðinn í lögunum sjálfum heldur í reglugerð. Þetta þýðir það að þó að Alþingi Íslendinga hafi skoðanir á því hvernig eigi að standa að skólahaldi og eigi sér einskis ills von í þeim efnum þá getur ráðherra hvenær sem er breytt þessum ákvæðum í reglugerðinni. Hann getur eins tekið ákvörðun um að það verði kennt fimm tíma á viku ef honum sýnist svo. Vald til reglugerðarsetningar í þessum efnum er ótakmarkað. Það er ótakmarkað og ef hæstv. menntmrh. heldur að hann sé að draga sér vald með þessu móti til frambúðar þá er rétt að hæstv. menntmrh. gefi sér tíma til að fletta spjöldum sögunnar og átta sig á því að þó að hátt sigli hann í dag gæti annar verið kominn í þennan stól á morgun. Sá gæti allt eins tekið ákvörðun um það að tvöfalda tímann sem krakkarnir ættu að vera í skóla. Þetta þýðir í reynd að Alþingi Íslendinga er að afsala sér valdi sem það hefur til framkvæmdarvaldsins með ófyrirséðum afleiðingum. Hæstv. menntmrh. getur þess vegna verið farinn úr stólnum um áramót og annar kominn í staðinn. En verði þetta samþykkt þá hefur hann komið því til leiðar að enginn veit hvaða kennsla verður í grunnskólum landsins.
    Ég held að það sé líka umhugsunarefni að það ákvæði, sem sett var inn í grunnskólalögin í fyrra og var ætlað að veita með aðlögunartíma sveitarfélögum það aðhald að skólinn skyldi verða einsetinn á tíu ára tímabili, er tekið út. Sem sagt, tíu ár fram í tímann á þetta frv. að hafa áhrif á grunnskólalögin í landinu, með þessari fyrirsögn og það vekur virkilega undrun. Þetta er eins og að fæðingarvottorð og dánarvottorð væru sett í sama texta og gefin út sem fæðingarvottorð.
    Ég ætla ekki að dvelja lengur við einsetna skólann en það sækir á huga minn þótt þetta sé sett inn fyrst og fremst til að storka þinginu. Og nú verður það að segjast eins og er að Alþfl., flokkur jafnaðarmanna eins og þeir kynna sjálfa sig, hlýtur að verða að svara því hvers vegna skrifa þeir upp á þetta. Hvers vegna ætla þeir að standa að því að breyta grunnskólalögunum með þessum hætti? Hvar á Norðurlöndum hefur mönnum dottið þetta í hug --- eða Þýskalandi eða Frakklandi? Svarið er: Hvergi.
    Ég ætla að hafa hér örlítið innskot í þessa umræðu. Það var ákvæði í þessum bandormi á þann veg að menn vildu breyta kosningalögunum og taka burtu ákvæði um hvernig ætti að auglýsa framboð. Það merkilega gerðist í allshn. að heilbrigð skynsemi varð ofan á og það er m.a. að þakka þeim hæstv. forseta sem hér situr. Honum varð einfaldlega ljóst ásamt meiri hluta nefndarinnar að þetta átti ekkert skylt við fjárlög 1992 nema þá ef ríkisstjórnin væri búin að ákveða að hafa kosningar á því ári. Þessi brtt. fór þess vegna frá allshn. inn í efh.- og viðskn. Og viti menn, efh.- og viðskn. virti þetta þannig að ég verð

að segja eins og er að ég tel að þeir stjórnarsinnar sem stóðu að þeirri breytingu séu menn að meiri því að þeir litu ekki á þetta sem heilagt plagg sem bæri að afgreiða. Þeir litu á þetta sem frv. sem bæri að fara yfir og meta hvort skynsamlegt væri að gera að lögum eða ekki.
    Eitt atriði er það í grunnskólalögunum, svo að ég haldi áfram með þau, sem ég tel að Íslendingar hefðu þurft að vera búnir að lögbinda fyrir löngu og það er það ákvæði að börn eigi rétt á því að fá skólamáltíðir. Hvernig gengur það upp hjá þessari þjóð, sem er sjöunda í röðinni samkvæmt skýrslu OECD um þjóðartekjur á mann, að halda því fram að það sé eðlilegt að kennararnir fari í mat en krakkarnir fái ekkert? Hvernig gengur það upp? Við skulum fara örlítið yfir sögulegar staðreyndir. Mér er ljóst að um 1850 voru menn skyldaðir til þess af sveitarstjórnum Íslands að standa að vegavinnu. Það voru lagðar kvaðir á bæi að vinna svo og svo mörg dagsverk til þess að greiða fyrir samgöngubótum og það var ákvæði um að menn skyldu nesta sig sjálfir, menn skyldu koma með nesti sitt sjálfir. Hreppurinn ætlaði ekki að skaffa þeim mat. Hvernig er þetta í dag? Fá þeir sem eru í vegavinnu mat eða verða þeir að nesta sig sjálfir? Það er löngu búið að leysa þetta mál. Það er talið eðlilegt að þar séu mötuneyti sem sinni því að menn fái mat á sínum matmálstímum.
    Mér er líka ljóst að herskyldan var þannig. Það var herskylda og hermennirnir voru skyldugir ef þeir voru í heimavarnarliðssveitum að nesta sig sjálfir. Það var kvöð. Þeir skyldu koma með nesti með sér. Hvernig er þetta í dag? Það er búið að breyta þessu. Það er búið að breyta þessu um alla Evrópu. Ég er viss um að það er enginn í þessu þingi sem getur bent á her sem er þannig útbúinn að menn eigi að hafa nesti með sér að heiman. Og hvernig stendur þetta þá með skólana um Evrópu? Jú, íslenska menntmrn. leyfir sér að senda bréf inn til nefndadeildar þingsins og segja nánast ekkert af viti um þetta mál. Það er skrúfað fyrir upplýsingastreymi inn til þingsins um upplýsingar frá næstu þjóðum. Látið að vísu í það skína að ýmsir einstaklingar í menntmrn. viti nú dálítið um hvernig þetta sé, einn hjá þessu landi, annar hjá hinu. En að þeir svari nefndadeild þingsins sem á að vera upplýsingagjafi fyrir þingmenn í þessum efnum, gefi þeim heiðarleg svör það er af og frá. Ráðuneytið treystir sér ekki einu sinni til að svara því sómasamlega hvernig staðið er að þessum málum hér á landi. Þeir treysta sér ekki einu sinni til þess að svara því, segjast þurfa lengri tíma. Viðurkenna þó að mjög víða hefur sú þróun orðið þar sem heimavistarskólarnir voru og heimanakstursskólarnir eru í dag að þar eru mötuneyti. Þar eru rekin mötuneyti.
    Ég minnist þess að á þeim árum sem ég var skólastjóri vestur á fjörðum var það föst regla í því litla sjávarþorpi þar sem ég var skólastjóri að við gerðum hlé kl. 12 til þess að börnin kæmust heim og hefðu möguleika á að borða hádegisverð eins og fullorðna fólkið. Mér brá þegar ég ferðaðist um Vestfirði og áttaði mig á því að það var ekki alls staðar sem þetta var við lýði lengur. Krakkarnir voru að koma heim úr skólanum um kl. 2, sjö, átta og níu ára krakkar, foreldrarnir í sumum tilfellum báðir útivinnandi. Vafalaust hefur verið reynt að hafa eitthvað til. Engu að síður er það staðreynd að það er tíu ára skólaskylda í þessu landi. Tíu ár sem íslenska ríkið var að taka ákvörðun um að börnin eigi ekki að fá eðlilegar máltíðir. Svo kenna menn heilsufræði í skólanum, heilsufræði þar sem lagt er upp úr því að menn eigi að borða hollan og góðan mat. Hvar er nú rökrétt samhengi í þessari hringavitleysu, hvar er það rökrétta samhengi? Eða manneldisstefnan, sem var samþykkt af Alþingi Íslendinga, ég einn af fáum sem þorði ekki að greiða atkvæði með henni af því að mér var ekki ljóst hvernig hún væri hugsuð í framkvæmd.
    Það er Íslendingum ekki til mikils sóma að horfa á þá staðreynd að þegar viðreisnin fór frá var þetta land í 12. sæti í þjóðartekjum á mann, í 12. sæti samkvæmt OECD. Þegar

framsóknarmenn voru búnir að stjórna landinu í 10 ár eftir það ásamt öðrum flokkum vorum við komnir í 4. sæti í þjóðartekjum á mann samkvæmt sömu skýrslugjöfum og eftir 20 ár vorum við í 6. sæti. Svo segja menn: Það er bara ekki hægt að leggja það á íslenska þjóð að sjá til þess að börnin fái mat í skólanum. Það er slík rosaleg kvöð að sveitarstjórnarmenn fyllast heilagri vandlætingu ef á að sjá til þess að krakkarnir fái mat í skólanum. Eru það snauðustu sveitarfélög á Íslandi sem gera uppreisnina? Nei. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að það eru sveitarfélögin sem hafa verið að leika sér með þá peninga sem þau hafa undir höndum, hafa verið í gæluverkefnum, byggja veglega minnisvarða um borgarstjóra þannig að á koparspjaldi utan á stórbyggingunum verði skráð eftir 100 ár hver var borgarstjórinn sem byggði slíkt eins og með píramídana í Egyptalandi. En að tryggja það að íslensk börn fái skólamáltíðir eins og er í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Finnlandi og Frakklandi. Hver einasti maður í menntmrn. veit að þannig er þetta. ( Gripið fram í: Og Bretlandi.) Og Bretlandi, ríki Thatcher. Hún þótti hörð, járnfrúin. Það hvarflaði ekki að henni að taka þau réttindi af að börnin fengju mat í skólanum.
    En í rykföllnum plöggum Reykjavíkurborgar er skýrsla þar sem gerð var könnun á því hvort öll börn í höfuðborg Íslands vær vel nærð. Það vantaði 10% upp á. Það minnir á það að Vilhjálmur frá Skáholti orti ljóð utangarðs. Það er enn stefnt að því að utangarðsmenn skuli vera í þessari borg. Vissulega getur verið að það stafi af því sama og var hans meinsemd. Hann sagðist hafa vanrækt að vinna fyrir Ólaf Thors og Co. En hvað um það. Er það sanngjarnt hjá þessari þjóð að hopa nú frá þessari samþykkt en taka í staðinn ákvörðun um að það þurfi bara að auka löggæsluna í landinu? Ég tel að það verði smánarblettur á Alþingi Íslendinga sem ekki verði þveginn af því á næstu áratugum ef menn á kvöldstund fyrir jól taka ákvörðun um að taka þetta atriði út úr grunnskólalögunum. Það á ekki erindi inn í þetta frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það á að taka þetta út. Það á ekkert erindi þarna inni. Því er smyglað þarna inn. Það er viðurkennt af hæstv. menntmrh. og ég vona að ég móðgi engan þó að ég biðji hæstv. menntmrh. ekki að vera viðstaddur. Ég held að það breyti engu. Ég held að hæstv. menntmrh. sé gersamlega rökþéttur í þessu máli. Sama hvaða rök væru notuð, hversu lengi væri talað og hversu mikið væri sagt og hversu mikið af gögnum væri lagt fyrir hann. Hæstv. menntmrh. er í þessu máli að því er virðist eins og grammófónsplata þar sem nálin er orðin föst í ákveðnum hring.
    En hæstv. menntmrh. ætlar að leggja fram virðulegt frv. að nýjum grunnskólalögum. Það ætlar hann að gera með hækkandi sól. Þar eiga að vera falleg ákvæði skulum við gera ráð fyrir. Þar hentar ekki að setja inn að lagt hafi verið til að íslensk börn ættu ekki rétt á skólamáltíðum. Slíku frv. verður slegið upp í Morgunblaðinu og það verður kynnt. Þar hentar ekki að það sé verið að benda á að menn séu að taka svona lagað upp. Það verður gert í allt öðru frv. ( Gripið fram í: . . . blekkingaleikur.) Þessi blekkingaleikur er augljós hverjum manni sem vill hugsa, hverjum manni sem vill hugsa er þessi blekkingaleikur augljós. En það sem mér er gersamlega óskiljanlegt er hvers vegna íslenskir jafnaðarmenn í Alþfl. ætla að færa börnunum á Íslandi þessa jólagjöf. Hvers vegna ætla þeir að færa börnunum á Íslandi þessa jólagjöf? Ég býst ekki við að hæstv. utanrrh. lækki svo flugið að hann brjóti heilann um grunnskóla á Íslandi. Ég býst ekki við því að hæstv. iðnrh. brjóti heilann um grunnskóla á Íslandi. Og ég býst ekki við því að hæstv. umhvrh. brjóti heilann um grunnskóla á Íslandi En ég spyr sjálfan mig þeirrar spurningar: Fær það staðist að hæstv. félmrh. telji það ekki falla undir félagslegt réttlæti hvort börn eigi kost á skólamáltíðum eða ekki? Fær það staðist að hæstv. félmrh. telji að eðlilegt sé að hér sé skólaskylda, herskylda á íslensk börn að mæta, en þetta séu þeir þegnar sem sitji uppi með skylduna en ekki réttinn. Það er merkilegt ef hæstv. félmrh. telur að þetta sé það sem eigi

að færa börnunum sem jólagjöf á þessum jólum.
    Menn geta svo leitt hugann að því að í frétt sem barst í gegnum Morgunblaðið í fyrra til þegna þessa lands kom það fram að breskur dómari dæmdi óknyttastrák til þess að borða venjulegan mat, hann skyldi borða venjulegan breskan mat. Það sem fréttamönnunum þótti merkilegt var sú niðurstaða að eftir að strákur sat uppi með það að fá eðlilegan breskan mat lét hann af óknyttunum. Það skyldi þó ekki vera að þeir séu margir sem vegna vanlíðunar stunda óknytti sem þeir mundu láta af ef líkamleg líðan væri eðlileg. (Gripið fram í.) Það er nú einu sinni svo, hv. 8. þm. Reykn., að þótt menn vilji í daglegu tali aðgreina líðan sálar og líkama er það einfalt mál fái maður sér naglbít og klípi í stóru tána á einhverjum manni er eins og ástandið á sálinni versni líka, það er ekki bara líkaminn sem taki kvalirnar. ( ÓRG: Ræðumaður hefur alveg gleymt að tala um heilbrrh.) Hæstv. heilbrrh. hefur margt að glíma við og ég efa að hann lúti að þessu máli. (Gripið fram í.) Það segir nú kannski sitt um þessa hluti að hæstv. félmrh. lýsti því yfir að sumir virtust hafa kok til að gleypa hvað sem er. Ráðherrann sagðist ekki hafa slíkt kok og við minnumst þess að á flokksþingi Alþfl. sló í brýnu á milli þessa ráðherra og núv. formanns. Núv. formaður virðist hafa orðið það sár að hann þurfti í blaðaviðtali að rétta sinn hlut eftir vopnaviðskiptin, svo barinn var hæstv. utanrrh. Þess vegna er mín spurning til hæstv. félmrh.: Lítur ráðherrann svo á að það sé aðeins innan síns ráðuneytis sem ráðherrann eigi að hafa áhrif á félagslegt réttlæti í þessu landi eða telur hæstv. félmrh. að það sé eðlilegt að hann skipti sér af félagslegu réttlæti í hvaða ráðuneyti á Íslandi sem er? Það vill nefnilega svo til að umhvrh. virðist líta svo á að hann eigi að skipta sér af umhverfismálum í öllum málaflokkum. --- Nú hef ég orðið til þess að vekja hæstv. menntmrh. af værum blundi og þykir mér það miður því að ég ætlaði alls ekki að verða til þess að trufla hæstv. menntmrh.
    Ég geri mér grein fyrir því að menn vilja helst fá að vera í friði með svona frumvörp, vilja helst ekki þurfa að hlusta á neinar athugasemdir. En það væri mikil kaldhæðni ef örlögin yrðu á þann veg hjá hæstv. menntmrh. Segjum nú að ákvæðið um að setja þetta inn í reglugerð yrði samþykkt og svo yrði alþýðubandalagsmaður menntmrh. mánuði seinna. Þá væri hæstv. menntmrh., sem er löggiltur sjálfstæðismaður í bak og fyrir, búinn að koma því til leiðar að Alþingi Íslendinga hefði afhent Alþb. alræðisvald um það hversu marga tíma ætti að hafa í kennslu í hverjum bekk. Það væri skemmtilegt að standa upp frá borðinu eftir slíka afgreiðslu. En svo miklir draumóramenn eru íslenskir ráðherrar að þeir trúa því að vald þeirra standi svo lengi að það eigi að semja lögin eftir því hver sé ráðherra yfir hverjum málaflokki á hverjum tíma. Það er skrýtin lagasetning að tarna ef gengið væri út frá því að miðað væri við ákveðna menn. Það yrði sett inn í bandorminn, með leyfi hæstv. forseta, að svo lengi sem ákveðinn þingmaður er ráðherra skuli reglugerðarvaldið vera til staðar, annars falli það út. Þá væri náttúrlega séð við þessum leka.
    Herra forseti. Ég hljóp á því og get eiginlega ekki orða bundist af því að ég met það svo að sá jarðvegur sé það ófrjór að ekki sé vert að eyða lengri tíma í að tala um grunnskólann. Ég hugðist víkja svolítið að þeirri miklu sérþekkingu sem er í hv. fjh.- og viðskn. á refa- og minkaveiðum í landinu. Það vill svo til að Íslendingar búa við það að þessi tvö dýr valda stundum meiri usla í náttúru landsins og á búpeningi landsmanna en góðu hófi gegnir. Ekki fer á milli mála að minkurinn hefur orðið til þess að draga úr fuglalífi mjög víða og ég hygg að þeir sem vilja friða minkinn og tófuna á vissum landssvæðum séu þá jafnframt að leggja til að á viðkomandi svæði megi gjarnan fækka öðrum villtum dýrum. Hér eru menn að gera því skóna að ákveðin svæði eigi að vera friðhelg og sveitarfélögin í næsta nágrenni eigi aftur á móti að bera kostnað af veiðum í sínu sveitarfélagi.
    Með leyfi forseta langar mig að segja frá því að fyrir nokkrum árum gekk ég upp á Göltinn, sem er fjall við Súgandafjörð, og var með sjónauka með mér. Ég var að kíkja af

fjallsbrúninni niður í hvilft sem var þar fyrir neðan og mér til stórrar undrunar sá ég ekki betur en yrðlingar, sem voru þar að leik hjá móður sinni, væru allir komnir með lambamerki í eyrað. Þóttu mér það undur og stórmerki, vissi ekki til að farið væri að marka yrðlingana eða merkja þá. En með vissu þess manns sem taldi sig ekki sjá neinar ofsjónir hætti ég á að færa það í tal við menn þegar ég kom til byggða hvort hugsanlegt væri, ég þorði ekki að kveða fastar að orði, að yrðlingar væru komnir með lambamerki í eyrað. Ég fékk það svar að í nafni vísindanna hefði ágætur Íslendingur, sem er nú yfirmaður þessara mála, farið fram á það við tófuskyttu svæðisins að merkja þessa yrðlinga til þess að átta sig á því þegar þeir yrðu felldir hvert væri það svæði sem tófan færi um.
    Niðurstaðan var þó nokkuð merkileg. Þetta svæði sem þeir ólust upp á er nánast á milli Súgandafjarðar og Bolungarvíkur. Tvær tófur voru drepnar í Holti í Önundarfirði, í varpinu þar, sem höfðu verið merktar og ein var drepin í botni Dýrafjarðar. Þá er fjarlægðin orðin meiri en 70 km. Ef menn tækju sig til og friðuðu ákveðin svæði, og tófan er nokkuð skynsöm, ég hygg kannski að hún sé greindari en hæstv. umhvrh. gerir sér grein fyrir, mundi tófan fljótlega átta sig á því að þessi ákveðnu griðlönd væru náttúrlega besti staðurinn til að dvelja á meðan hún væri að koma upp yrðlingunum. Þar fengju grenin að vera í friði. En hún mundi líka gera sér grein fyrir því að það mundi vera betra að leita sér fanga svolítið fyrir utan svæðið því að sú kenning hefur lengi verið á lofti að tófan drepi yfirleitt ekki nálægt greninu. Eitt var það sem kom í ljós varðandi þessar tófur sem voru merktar að ein þeirra átti greni í Súgandafirði í 7 km fjarlægð frá þessum stað en sótti engu að síður til fanga í varpinu í Holti í Önundarfirði. Niðurstaðan yrði kannski sú að þeir sem ættu að sjá um grenjavinnsluna í nágrenni við þjóðgarðana sætu uppi með það að ríkið æli upp refinn en þeir yrðu að borga kostnaðinn af því að fella hann og þætti það nokkuð grátt gaman jafnvel þó að ríkið tæki þátt í því með þeim. Ég verð þess vegna að segja eins og er að það þarf ögn merkilegri texta en hér er á bls. 3 í nál. til þess að sannfæra mig um að menn séu búnir að finna lausn á þessu máli. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Jafnframt er gert ráð fyrir að skipulagi veiðanna verði breytt þannig að þær verði markvissari og kostnaðarminni fyrir sveitarfélögin.``
    Þetta með að verða markvissari taldi ég að ég skildi, þ.e. það ættu að vera betri skyttur sem önnuðust þetta en verið hafa. Hvernig þær ættu að verða kostnaðarminni var mér ekki alveg ljóst eftir að þessi nýja aðferð væri upp tekin að hafa sérstök vaxtarsvæði fyrir tófuna og önnur svæði þar sem ætti að slátra henni. Það verður að segjast eins og er að ekki er að undra þó að venjulegum mönnum vaxi það dálítið í augum að hafa ekki komist á fund í nefndinni til þess að verða þess aðnjótandi að átta sig á því hvernig þetta er hugsað.
    Hér er samt fullyrt á öðrum stað svolítið neðar, með leyfi forseta: ,,Tjón af völdum refa og minka er mismikið eftirt svæðum. Því er talið heppilegra að draga úr útgjöldum til þessa viðfangsefnis með því að heimila umhvrh., í samráði við veiðistjóra, að taka ekki þátt í kostnaði við eyðingu þeirra á svæðum þar sem þeir valda minnstum usla . . . ``
    Nú er vitað að það er enginn búskapur í þjóðgarðinum t.d. á Þingvöllum, ekki ein einasta rolla sem hv. þjóðgarðsvörður hefur og lambadauði þess vegna enginn af völdum tófunnar. Það yrði þess vegna sjálfgefið uppeldissvæði. Hitt er svo spurning hvort karlarnir í Grímsnesinu þyrftu að borga kostnaðinn við að slátra ef tófan yrði með bústað í öllum þeim grenjum sem hafa verið á hinu víðáttumikla svæði þjóðgarðsins. Kannski er þetta hugsað á þann veg, sem ég tel mig hafa veður af, að ágætur þingmaður í salnum sé að hugleiða að það verði þjóðgarðsnefndin sjálf sem verði send á skytterí í Grímsnesiu til þess að minnka kostnaðinn hjá sveitarfélaginu þar.

    Ég leyfði mér að flytja eina brtt. við orminn langa eins og mér finnst eðlilegt nafn á þessum bandormi. Ég sé að ég hef orðið til þess að vekja karlmennskuþrá stjórnarmanna í þjóðgarðsnefndinni og þeir eru farnir að hugsa til veiðitúra í Grímsnesinu. Hitt er svo spurning hvort þeir yrðu til þess að skjóta hver á annan eins og stundum hefur komið fyrir þegar tvær tófuskyttur hafa verið að læðast á svipuðu svæði og ekki áttað sig gjörla á því hvað var refurinn eða sýnilegir hlutar af hinni skyttunni. En við skulum vona að þeir standi tæknilega að þessu, þessir heiðursmenn og þarna verði engin mistök.
    Ég leyfði mér, herra forseti, að leggja til eina brtt. á skerðingarákvæðunum sem eru hér á ýmsum framlögum til ýmissa málaflokka. Í 43. gr. er gert ráð fyrir því að fjárframlag til Ferðamálaráðs nemi ekki hærri upphæð en 68 millj. á árinu 1992. Nú er þessu ráði ætlaður viss hluti af þeim tekjustofni sem Fríhöfnin skilar til ríkissjóðs. Í ljósi þess að hér stefnir í atvinnuleysi og í ljósi þess að tekjur Íslendinga af ferðamálum hafa verið um 11 milljarðar á seinasta ári og vaxið mjög ört, eina atvinnugreinin sem er í mikilli sókn, þá tel ég að íslenska ríkið sé ekki að afla sér fjár með því að skerða þetta framlag heldur sé íslenska ríkið að tapa tekjum með því að skerða þetta framlag. Það sé að koma í veg fyrir það að við fáum jafnmarga ferðamenn til landsins og það sé að koma í veg fyrir það að jafnmargir Íslendingar ferðist um eigið land og þeir mundu gera ef við sinntum því betur að taka á móti ferðamönnum.
    Mér er það veruleg raun að horfa á þá staðreynd að ýmsir fagrir staðir búa við slíkt aðstöðuleysi að ferðafólk sem þangað kemur á ekki einu sinni kost á eðlilegri salernisaðstöðu og það er ekki til að hrópa húrra fyrir að skoða afleiðingarnar af þessu. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn getur litið svo á að hægt sé að fjölga ferðamönnum á ýmsum stöðum án þess að menn kosti einhverju til til þess að hægt sé að taka á móti þeim. Nú skulum við skoða hver er munurinn á því ef Íslendingur ferðast um þetta land, eyðir 100 þús. hér innan lands eða fari hann til útlanda og eyði 100 þús. þar. Í ljós kemur nefnilega að hann borgar flugvallargjaldið, skattinn á Keflavíkurflugvelli, hann borgar farmiðann til útlanda og heim og hann borgar far með rútu eða leigubíl eða gjald af bensíni á leiðinni til Keflavíkur. Örlítið brot af þessum upphæðum renna vissulega í ríkissjóð, örlítið brot.
    En hvað gerist ef hann ferðast um sitt eigið land? Þá blasir við að mjög stór hluti, 30--40%, hvorki meira né minna af þessum 100 þús. kr. fara í ríkissjóð. Skyldi það ekki skipta einhverju máli í öðrum tekjustofnum hjá ríkinu hvort við stuðlum að því að fólk geti ferðast um landið eða hvort við stöndum þannig að málum að ekki sé hægt að taka á móti ferðamannastraumnum inn á þau svæði þar sem menn vilja vera? Ég er þess vegna sannfærður um að íslenska ríkið skapar sér ekki tekjur með því að spara á þessu sviði. Það skaðar sínar tekjur, það skaðar sínar heildartekjur. Það vill svo til að í forsetastól situr þessa stundina hv. 1. þm. Vesturl. sem veit þó nokkuð mikið um þessi mál. Stykkishólmur hefur vaxandi tekjur af umferð ferðamanna og ég er sannfærður um að hv. 5. þm. Vesturl. vill að sú starfsemi blómstri og geri sér grein fyrir því að það skiptir máli að fólk fái þau störf sem þessu fylgja yfir sumartímann. Þetta eru kannski þær einu síldveiðar sem við höfum í dag. Margir ættu ekki kost á vinnu ef þetta félli út. Hvers vegna skyldi þessi þjóð ekki laga sig að þeirri staðreynd og leggja fjármuni í það að hægt sé að tryggja umferð ferðamanna um landið án þess að við sköðum það, sköpum atvinnu með þessu móti, aukum gjaldeyristekjur okkar og aukum tekjur ríkissjóðs. Það er kolvitlaus stefna að skerða þennan stofn eins og hér er verið að leggja til. Það skaðar ríkið, það eykur ekki tekjur ríkisins.
    Það er dálítið merkilegt að þessi bandormur sem hér er til umræðu gengur svo þvert í reynd á nefndir þingsins að segja má sem svo að fjh.- og viðskn. hafi verið ætlað að hafa

allt sérfræðilegt vit sem nefndirnar hafa verið að reyna að skapa möguleika á að væru til staðar með því að skipta störfum þingsins niður í marga málefnahópa. Við höfum ekki áður horft á frv. sem grípur til jafnmargra laga og hér. Nú er það svo að við breyttum t.d. jarðræktarlögunum verulega 1987 og Alþingi Íslendinga hefur raunverulega allt vald á þeim útgjöldum. Það er vissulega hægt að leiða rök að því í dag að verslunaraðstaða til þess að selja landbúnaðarvörur í heiminum er í slíkum fjötrum að við eigum ekki mikla möguleika á sölu landbúnaðarvara til útlanda. Samt liggur það fyrir sem staðreynd, hæstv. forseti, að FAO gerir ráð fyrir því að á næstu tíu árum muni þörf mannkynsins fyrir matvæli vaxa helmingi hraðar en landbúnaðarframleiðslan í heiminum og stór landssvæði, sem áður voru akurlendi, eru ekki herfuð í dag vegna þess að þau hafa orðið að eyðimörkum eða þá vegna þess að ef haldið yrði áfram að herfa þau og plægja mundi sá jarðvegur fjúka burt og verða á stuttum tíma ófrjór. Þetta er staðan. Í mjög góðri ræðu um þessi mál sem íslenski utanrrh. núverandi, að vísu í annarri ríkisstjórn þá, hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, flutti á þingi Sameinuðu þjóðanna gerði hann grein fyrir þessu. Þess vegna verð ég að segja eins og er að mér finnst sú breyting, sem hér er lögð til á jarðræktarlögunum, ekki vera framsýn og mér finnst hún ekki leysa neinn vanda í fjárlögum þessa árs. Það má vel vera að menn vilji horfa lengra fram í tímann.
    Nú hafa margir ræðumenn talað um þennan bandorm og ég hef ekki hugsað mér að taka allar greinar hans til efnislegrar umfjöllunar þó að ég hefði kannski áhuga á því að ræða þær margar hverjar. Ég vil minna Alþingi Íslendinga á þá ábyrgð sem fylgir löggjafarsetningunni og þeim gamla draumi að menn hafa alið þá von í brjósti að okkur miðaði fram á við en ekki aftur á bak. ,,Það er svo bágt að standa í stað``, var einu sinni kveðið og þess vegna vil ég hvetja þá hina mörgu ungu þingmenn sem eru komnir hér til starfa að hugleiða það hvort ekki sé verið að vinna skemmdarverk á grunnskólalöggjöfinni með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.
    Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.