Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 13:19:00 (2362)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. E.t.v. hefði verið betra, í stað þess að hlaupa í salinn, að ég hefði fylgt því eftir, sem ég ætlaði að gera, að leita eftir því að ráðherra kæmi hér því vissulega væri betra, ef efasemdir eru um frv. og ákveðnum þáttum ekki fylgt nægjanlega eftir í nefnd, að viðkomandi ráðherra gæti svarað fyrir það, en ég skal gera mitt besta í að svara. Það kemur fram í grg. að nokkur sveitarfélög hafa þurft að hafa eitthvað hærra gjald en þessi viðmiðun nær til. Nú er líka lögð mikil áhersla á og eins í nál. að það sé ekki farið í framkvæmdir hjá sveitarfélagi, og vísa ég í sveitarstjórnarlög, öðruvísi en fyrir liggi að viðkomandi sveitarfélag ráði við framkvæmdina og reksturinn á eftir. Og hvað gerist ef sveitarfélag ræður ekki við framkvæmd sem þegar er gerð? Það held ég að sé framkvæmd sem byggir á sveitarstjórnarlögunum því auðvitað getur það komið til að sveitarfélög hafi stofnað til verkefna hjá sér sem á einhverjum tíma reynast því um megn. Það hlýtur að vera þannig að það sé þá heimildarákvæði eða eitthvað slíkt í sveitarstjórnarlögum til að taka á því. Ég treysti mér ekki til að svara hvað verður gert, ef slíkt frv. er orðið að lögum, og eitthvert sveitarfélag hefur farið í framkvæmd á vatnsveitu sem reynist svo dýr í rekstri að gjaldið dugir ekki og tel að það væri æskilegra að ráðherra sveitarstjórnarmála svaraði því. Ég get ekki svarað þessu betur.