Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 14:59:00 (2369)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Til skýringar verð ég að taka fram að ég las nákvæmlega þessi stuttu ákvæði úr grunnskólalögunum og frv. þannig að það fór ekkert á milli mála og ég gerði mér grein fyrir að hér var um frestun að ræða. Mér fannst í rauninni ekki sanngjarnt að gera þá kröfu að hæstv. menntmrh. væri viðstaddur fyrri hluta ræðu minnar í dag. En þar benti ég sérstaklega á að þessi frestun væri jafnframt í raun fráhvarf frá stefnu sem mörkuð hefur verið og við höfum oft orðið vör við að frestun verður býsna löng stundum þegar hart er í ári og við vitum að það þarf að draga saman. Ég viðurkenni að hjarta mitt tók kipp þegar ég heyrði að það þyrfti jafnvel að gera enn meira og því ítreka ég að ég lít svo á að með þessari frestun og með því að setja þær byrðar á herðar hæstv. menntmrh. að verða að skerða skólatíma eins og hann einmitt tengdi mjög réttilega í sínu máli séum við að snúa til baka og ég óttast að þetta muni ekki bara verða eitt ár heldur varanleg og alvarleg skerðing. Ég held að við séum að tala sama tungumál og um sömu hluti og ég skil mjög vel hæstv. menntmrh. að vilja ekki víkjast undan því fyrir sitt leyti að taka sinn hluta af ábyrgðinni, en ég held að við verðum að undanskilja grunnskólann í þessum efnum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt.