Fjárlög 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 21:21:00 (2373)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að þakka enn einu sinni öllu því starfsfólki sem unnið hefur með og fyrir fjárln. Ég geri ráð fyrir að oft áður hafi reynt á þolinmæði þessa fólks, en þó líklega aldrei eins og nú. Það var erfitt fyrir nefndarmenn, a.m.k. okkur í minni hluta fjárln., að henda reiður á öllum þeim breytingum sem gerðar voru á frv. frá degi til dags, hvað þá fyrir það starfsfólk sem þurfti að vinna úr breytingunum og setja þær á blað í tillögu- eða tilkynningaformi.
    Þegar 2. umr. um fjárlög fór fram fyrir rúmri viku ræddum við í minni hluta fjárln. um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlaga, enda voru þau með endemum. Þá lágu fyrir rúmlega sólarhrings gamlar tillögur sem gerbyltu bæði tekju- og gjaldahlið frv. Nefndinni og hv. þm. öllum var gert að afgreiða þær tillögur á nokkrum klukkutímum. Ekkert svigrúm mátti gefa til að athuga hvað lægi að baki tilskipunum sem komu frá ríkisstjórninni. Minni hluti nefndarinnar hafði farið fram á að fá til viðtals ýmsa þá aðila sem tillögurnar snertu beint. Við því var ekki orðið. Ég býst við að ekki sé um að kenna viljaleysi formanns nefndarinnar til að verða við óskum okkar heldur tímapressu og seinagangi ríkisstjórnarinnar og þá fyrst og fremst hæstv. forsrh. Á honum hvílir sú skylda að verkstýra og það verður að segjast eins og er að sú verkstjórn hefur verið í mesta ólestri.
    Þegar farið var til 2. umr. um það frv. til fjárlaga sem lagt var fram í byrjun október lá fyrir nýleg spá Þjóðhagsstofnunar sem gerð var eftir að draumsýn um álver steytti á skeri. Þessi spá Þjóðhagsstofnunar gerði ráð fyrir mun dekkri horfum en sú spá sem frv. byggði á. Nú, aðeins rúmri viku seinna, kemur enn eitt álit Þjóðhagsstofnunar og enn dekkra en áður. Og hvað með forsendur þess frv. sem áttu, ef marka mátti ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, að vera eitthvert það trúverðugasta plagg sem lagt hafi verið fram á Alþingi? Forsendurnar sem frv. var byggt á eru týndar og tröllum gefnar. Öll vinnan sem fagráðuneytin lögðu í ramma sína er fyrir bí. Varla verða starfsmenn ráðuneyta eða forstöðumenn stofnana eins viljugir til þess að gera raunhæfar áætlanir að ári eftir þá meðferð sem ráðuneytin og einstakar stofnanir hafa nú fengið. Reyndar var frá upphafi arfavitlaust að reisa fjárlagagerðina að hluta til á hugsanlegri byggingu álvers, því líkurnar á því að álverið yrði reist minnkuðu dag frá degi, áður en gengið var endanlega frá frv. og nú sitja menn ráðalausir í ráðuneytum og stofnunum og velta fyrir sér útfærslum á flötum og hugmyndasnauðum tillögum ríkisstjórnarinnar.
    Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu á fund fjárln. til að fjalla um nýjustu þjóðhagshorfur og efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Það fór ekki fram hjá nokkrum manni að þeim fannst trúverðugleikinn ekki afskaplega mikill. Í það minnsta settu þeir fyrirvara við flest það sem sagt var með vísun til þess að tillögurnar væru sífellt að breytast þessa dagana. Það lá við að ég fyndi til með þeim að eiga að reikna einhverja vitræna niðurstöðu út úr vitleysunni.
    En hver er þá stefnan sem birtist í frv. eins og það liggur fyrir og á líklega að vera í endanlegri mynd? Frv. einkennist af úrræðaleysi, skattheimtu og afsali á samfélagslegri ábyrgð. Úrræðaleysið birtist í þeim brtt. sem hæstv. ríkisstjórn gerir við frv. Flatur niðurskurður, tilfærsla á verkefnum yfir til sveitarfélaganna og almenningur og fyrirtæki eiga að borga meira en áður fyrir þá þjónustu sem veitt er.
    5% flatur niðurskurður á laun og önnur gjöld sem nemur tæpum 2 1 / 2 milljarði kr. skal framkvæmdur á einu ári. Auk þess á að fækka störfum hjá ríkinu um 600. Það er alls ekki um að ræða að dreifa þessum flata niðurskurði jafnt á allar stofnanir ríkisins. Þær stofnanir sem þurfa greiðslur úr ríkissjóði í formi tilfærslna sleppa flestar við niðurskurð. Ég nefndi þetta í ræðu minni við 2. umr. fjárlaga og rakti þó nokkur dæmi þessu til staðfestingar. Þá bar ég m.a. saman stofnanir í landbrn. og menntmrn. og þar var ólíku saman að jafna. Menntmrn., heilbr.- og trmrn. og félmrn. að því er tekur til málefna fatlaðra fá niðurskurðinn af fullum þunga á flestar sínar stofnanir ólíkt sumum öðrum ráðuneytum. Með öðrum orðum sagt: Það er mest skorið niður hjá þeim ráðuneytum sem fara með afar mikilvæg og viðkvæm samfélagsleg verkefni.
    Ýmsir tóku undir það í ræðum við 2. umr. um frv. að þessu þyrfti að breyta, nauðsynlegt væri að dreifa niðurskurðinum jafnar á stofnanir og ráðuneyti en ríkisstjórnin ætlaði að gera. Milli 2. og 3. umr. birtist tillaga hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum og þar kemur fram, eins og hv. þm. geta séð í brtt. meiri hluta fjárln., sem varð auðvitað að gera þessa tilskipun ríkisstjórnarinnar að sinni, að taka á nokkrar tilfærslustofnanir með í niðurskurðinn. Hér er þó ekki um að ræða hluta af upphaflegum niðurskurðarpakka heldur tilfærslur upp á rúmlega 164 millj. kr. Ég segi tilfærslur vegna þess að þessir tilteknu fjárlagaliðir lækka um samtals 164 millj., en sú upphæð rennur beint í pott ríkisstjórnarinnar, fjárlagalið 950, sem ráðherrar eiga að fá til eigin ráðstöfunar.
    Þær stofnanir sem þarna ræðir um eru ekki valdar af handahófi. Nei, þær eru í stíl við annan niðurskurð hæstv. ríkisstjórnar. Flestar eru þær í heilbr.- og trmrn., í félmrn. og menntmrn. Ekki er tekið á ýmsum stofnunum sem árum saman hafa fengið framlög úr ríkissjóði í formi tilfærslna og hefði þó ef til vill verið full þörf á að draga úr framlögum til

sumra þeirra og knýja á um endurskoðun á hlutverki og starfsemi. Ég nefni sem dæmi að samfara breyttum búskaparháttum og almennum samdrætti í landbúnaði væri engin goðgá að endurskoða Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Skógrækt ríkisins og endurskipuleggja þessar stofnanir. Reyndar gildir það sama um rannsóknastofnanir atvinnuveganna í heild sinni og sjóðakerfi þeirra allt saman.
    Þetta er ekki sagt í þeirri meiningu að þessar stofnanir eða sjóðir atvinnuveganna vinni ekki eða hafi ekki unnið gagn heldur vegna þess að ég held að veruleg þörf sé til að endurmeta og endurskipuleggja hlutverk og starfsemi ýmissa stofnana sem ríkið rekur í dag svo þær verði ekki eins og nátttröll í íslensku þjóðfélagi.
    Ég er líka viss um að til lengri tíma litið skilar slíkt endurmat og endurskipulagning raunhæfari sparnaði en sú leið sem nú er valin og heitir að skera flatt. Þessi flati niðurskurður bitnar helst á þeim stofnunum ríkisins sem þó hafa þróast eðlilega í tímans rás, eins og skólarnir okkar og heilbrigðisþjónustan. Það má eflaust spara með betri skipulagningu, en það er alveg ljóst að ekki næst árangur með þeim aðgerðum sem nú á að beita ef markmiðið er að hagræða og spara jafnframt því að veita góða þjónustu sem það hlýtur að vera. Skynsamleg og eðlileg vinnubrögð væru að endurskoða og hagræða áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar um niðurskurð eða aukin framlög. Það krefst þó þess að stjórnendur, þ.e. ráðherrar, leggi á sig vinnu. Það var ekki gert núna.
     Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flatan niðurskurð var tekin á einni nóttu. Vinnan við útfærsluna á að fara fram síðar á vegum ráðuneyta og stofnananna sjálfra og ekki virðist skipta máli hvort niðurskurður á viðkomandi stofnun er skynsamlegur eða æskilegur. Í tilskipunum um flatan niðurskurð eins og þeim sem ríkisstjórnin hyggst framkvæma felst óhjákvæmilega að ákvarðanir um einstakar stofnanir eru teknar með bundið fyrir bæði augun.
    Við skulum minnast þess að þær stofnanir sem nú þurfa að útfæra tilskipanir ríkisstjórnarinnar um sparnað eru þær sömu og tóku þátt í að undirbúa þær raunhæfu tillögur sem hæstv. fjmrh. kynnti við 1. umr. um fjárlögin. Nú fá forráðamenn þessara stofnana kaldar kveðjur. Það er ekki eingöngu um að ræða að búið sé að gerbreyta tillögum þeirra um rekstur stofnana á næsta ári. Það verður heldur ekki hlutverk forstöðumanna að ráða nýtt starfsfólk í þær stöður sem losna eða taka ákvörðun um hvort manna á þær eða ekki. Nei, það ætlar ríkisstjórnin að sjá um sjálf. Þar á bæ hafa verið teknir upp stjórnarhættir sem ég hélt að forusta Sjálfstfl. og formaður Alþfl. hefðu fordæmt, en það hlýtur að vera misskilningur. Þessa stjórnarhætti er nú verið að leggja af þar sem þeir hafa verið viðhafðir og það er áreiðanlega ekki víða í heiminum sem verið er að reisa þá við.
    Ríkisstjórnin ætlar að gera hvort tveggja, fara með starfsmannahald hinna ýmsu stofnana og færa í auknum mæli fjárveitingavaldið frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, taka að sér fjármálastjórnina. --- Það er þó varla hægt að hrósa þeim þætti í fyrra starfi hæstv. forsrh. Það er öllum landslýð orðið ljóst að fjármálastjórn er ekki hans sterka hlið.
    Við 2. umr. lágu fyrir tillögur ríkisstjórnarinnar um að færa ákveðin verkefni í málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þarna var um að ræða tilfærslur á verkefnum upp á 400 millj. kr. Stjórnarandstaðan mótmælti þessu strax harðlega og fljótlega eftir að þessar tillögur birtust mótmæltu samtök fatlaðra og sveitarstjórnarmenn. Ekkert samráð hafði verið haft við þessa aðila sem eiga þó beinan hlut að máli. Þetta er alveg dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.
    Það er vissulega við erfiðleika að stríða. Það er samdráttarskeið í íslensku þjóðfélagi og þeir erfiðleikar sem því fylgja hafa komið niður á öllum, ekki bara í ríkisrekstrinum heldur í flestum þáttum þjóðfélagsins. Það virðist hins vegar ekki hvarfla að ráðamönnum í þessari ríkisstjórn að fleiri geti átt bágt en ríkissjóður. Þeir bara valta yfir allt og alla og velta vandamálunum ýmist á undan sér eða frá sér yfir á aðra. Og það eru ekki bara ráðamenn þessarar ríkisstjórnar því flestir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. fylgja hlýðnir eftir. Einn og einn hv. þm. ríkisstjórnarinnar reynir að mögla, en á þá er ekki hlustað. Hæstv. forsrh. álítur að málflutningur þeirra sé fljótfærni eða bernskubrek, alls ekki pólitík. Staðreyndin er hins vegar sú að hið eina sem lýsir fljótfærni eða bernskubrekum í pólitík eru ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórn hæstv. forsrh. Þannig var það um tillöguna um að færa málefni fatlaðra eða hluta þeirra til sveitarfélaganna. Hún var vanhugsuð og ríkisstjórnin varð að hætta við að framkvæma hana, sem betur fer.
    En þar með er ekki öll sagan sögð. Ríkisstjórnin er greinilega staðráðin í að láta sveitarfélögin taka á sig stóran hluta af vanda ríkissjóðs sem þjáist af samdráttarverkjum. Nú er það löggæslan. Sveitarfélögin eiga að taka þátt í að greiða fyrir löggæsluna, 700 millj. Þær skulu koma í þeirra hlut á næsta ári. Og eins og áður var ekkert samráð haft við þá sem hlut eiga að máli. Yfirlýsing Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég las upp við 2. umr. og hæstv. fjmrh. man áreiðanlega og kann vel, er enn í fullu gildi. Þar átelur sambandið ríkisstjórnina harðlega fyrir að brjóta samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og verkaskipti. Mótmæli hafa líka borist til þingmanna undanfarinn sólarhring frá ýmsum sveitarfélögum um land allt þegar ljóst var orðið að ríkisstjórnin ætlaði að gera alvöru úr þessari tillögu sinni og keyra hana í gegnum nefndir þingsins hvað sem tautar og raular.
    Fyrst var tilkynnt að þessi skatttekja ríkisins yrði með þeim hætti að þátttaka sveitarfélaga í löggæslukostnaði yrði dregin af staðgreiðsluskilum útsvars. En það var fyrir hádegi í gær. Síðdegis í gær kom tilkynning frá hæstv. fjmrh. um að þessi innheimtuáform hefðu breyst. Nú á að innheimta sérstakan nefskatt sem verður ákveðin krónutala á hvern íbúa án tengingar við útsvarstekjur viðkomandi sveitarfélags og skal hann renna beint til ríkisins. Þessi vinnubrögð eru alveg í takt við annað sem frá stjórninni hefur komið og ég er reyndar viss um að í ræðu hv. formanns fjárln. leynast enn atriði sem ekki hefur alveg verið gengið frá.
    Þessi skattlagning á sveitarfélögin snertir mörg þeirra afar illa, minni og tekjulítil sveitarfélög þó verst. Þau hafa flest nýtt tekjustofna sína að fullu og þess utan þurft á framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að halda. Þrátt fyrir það reynist þeim þó erfitt að veita þá þjónustu sem þeim er skylt að annast samkvæmt lögum og reglum. Jöfnunarsjóður hefur um 500 millj. kr. til ráðstöfunar vegna tekjujöfnunar.
    Til þess að eiga rétt á framlagi úr sjóðnum verða sveitarfélögin að fullnýta tekjustofna sína. Það hafa stóru sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu ekki gert. Nú liggja hins vegar fyrir yfirlýsingar frá tveimur þeirra a.m.k. um að þau muni vegna þessa nýja skatts ríkisins á sveitarfélögin fullnýta útsvarsstofninn og þannig öðlast rétt á framlagi úr Jöfnunarsjóði. Þetta mun gera það að verkum að úthlutun til minni sveitarfélaga, sem eru mun verr í stakk búin til að sinna lögboðinni þjónustu, mun verða verulega minni en áður og veldur samdrætti í þjónustu við íbúana. Hæstv. félmrh. hefur margstaðfest þetta í viðtölum við fjölmiðla á undanförnum sólarhring og talið að skerðingin nemi allt að 40%.
    Ég hef í fórum mínun gögn sem staðfesta þetta. Nefskatturinn og fyrirsjáanleg skerðing á úthlutun úr Jöfnunarsjóði getur þýtt allt að 20--40% skerðingu hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er óskiljanleg þegar hugsað er til þess að stöðugt er verið að gera meiri kröfur til sveitarfélaganna og þeirrar þjónustu sem þau eiga að veita án þess þó að tryggja um leið að nýir tekjustofnar fylgi með. Þetta er líka óskiljanlegt í ljósi þess samdráttarskeiðs sem nú hefur varað í nokkuð langan tíma og ekki sér fyrir endann á og hefur bitnað á rekstri sveitarfélaga ekki síður en á rekstri ríkisins.
    Í mörgum sveitarfélögum víðs vegar um landið þar sem staðan er þannig að atvinnulífið hefur byggt á einu eða tveimur stórum fyrirtækjum blasir við hrun í dag. Fyrirtækin ramba á barmi gjaldþrots eða eru rekin áfram með tapi í von um bata í bættri tíð með blóm í haga. Sumir kalla slík fyrirtæki félagsmálastofnanir vegna þess að atvinnulíf heilla sveitarfélaga byggir allt sitt á tilurð þeirra. Og sjóðasukk er nefnt þeir peningar sem hafa farið í að halda slíkum fyrirtækjum gangandi. Sérstaklega á þetta við um fyrirtæki í sjávarútvegi. Slíkur málflutningur lýsir mikilli vanþekkingu á atvinnulífinu í landinu og þróun þess og væri efni í heila ræðu.
    Nú liggur fyrir það álit hæstv. forsrh. að það eigi ekki að hjálpa eða lappa upp á

gjaldþrota fyrirtæki sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Ekki gerir það horfurnar í rekstri margra sveitarfélaga glæstari.
    Nefna mætti ýmsar aðrar tillögur ríkisvaldsins í þessu frv. til fjárlaga sem illu heilli verður líklega að lögum eftir nokkra klukkutíma, tillögur sem koma sveitarfélögunum um landið mjög illa. Niðurskurður á allri samfélagslegri þjónustu og flatur niðurskurður á laun og rekstrargjöld opinberra stofnana mun til dæmis snerta íbúa sveitarfélaga á landsbyggðinni mun verr en íbúa höfuðborgarsvæðisins þótt þeir fái vissulega sinn skerf. Það er á mörgum sviðum mun dýrara að búa úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og allur niðurskurður á opinberri þjónustu samfara aukningu á innheimtu þjónustugjalda mun gera þann mun enn meiri en hann er núna og þykir þó mörgum nóg um.
    Það er óþarfi að fara mörgum orðum um framlög til einstakra ráðuneyta, stofnana eða um einstaka fjárlagaliði. Það var gert rækilega við 2. umr. í ræðum fulltrúa minni hluta fjárln. og hefur staðan lítið breyst síðan þá. Sú pólitíska stefna sem birtist í frv. er öllum ljós, þar er frjálshyggjan alls ráðandi og samkvæmt hennar boðskap er dregið úr samfélagslegri þjónustu hvar sem því verður við komið. Skiptir þar litlu hvort viðkomandi hæstv. ráðherra kallar sig íslenskan jafnaðarmann eða fulltrúa Sjálfstfl., flokks frjálshyggju. Þar er ómögulegt að greina á milli.
    Tekjujöfnun fyrirfinnst ekki í frv. eða þeim brtt. sem fyrir liggja þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar hæstv. félmrh. á haustdögum. Þvert á móti er ekkert verið að fara í felur með þá stefnu sem frv. boðar, versnandi kjör og afar slæma stöðu láglaunafólks í landinu. Sá sem ekki sér það er blindur eða vill ekki sjá.
    Skattheimtan hefur aldrei verið meiri en nú. Samt eru ekki allir skattarnir sýnilegir, a.m.k. ekki tekjumegin í frv. Aukin skattheimta er færð sem sértekjur á einstaka stofnanir og kölluð þjónustugjöld. Ríkisstjórnin neitar opinberlega að verið sé að auka skattheimtu, en hvað er hún að gera? Á bls. 244 í greinargerð með frv. til fjárlaga útskýrir ríkisstjórnin þjónustugjöldin og hvers vegna hún fór akkúrat þá leið til þess að auka tekjur ríkissjóðs, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þjónustugjöld í stað skatta. Ríkisstjórnin stóð frammi fyrir vali milli þriggja kosta til að bregðast við vaxandi rekstrarhalla ríkissjóðs. Í fyrsta lagi að hækka skatta. Annar möguleiki var að beita hefðbundnum niðurskurði og skerða þjónustu til dæmis með því að loka í stórum stíl sjúkrahúsdeildum og skólum. Þriðji möguleikinn var að fjármagna hluta starfseminnar með þjónustugjöldum.
    Í fjárlagafrv. er lögð aukin áhersla á þjónustugjöld. Munurinn á sköttum og þjónustugjöldum er sá, að skattar eru lagðir á almenna skattstofna eins og tekjur, eignir, vörur og þjónustu. Þjónustugjöld eru hins vegar greiðslur þeirra sem nota tiltekna þjónustu ríkisins. Þau eru til þess fallin að efla kostnaðarvitund þeirra sem njóta þjónustunnar svo og hinna sem hana veita og stuðla þannig að sparnaði og betri meðferð á almannafé.``
    Eins og segir í upphafi 1. mgr. taldi ríkisstjórnin sig standa frammi fyrir þrem valkostum, að leggja á aukin þjónustugjöld, að hækka skattana eða að beita hefðbundnum niðurskurði og skerða þjónustu til dæmis skóla og sjúkrahúsdeilda. Ja, svei! Ríkisstjórnin hefur ekki getað valið á milli. Það er auðséð því frv. til fjárlaga felur allt þetta í sér. Þjónustugjöld eru stórhækkuð, skattar eru stórhækkaðir og öll opinber þjónusta er stórskert. Svona sýndarmennskuskrif eru til einskis þegar staðreyndirnar tala sínu máli.
    Undanfarið hefur borið á því að einn og einn hv. þm. ríkisstjórnarinnar hefur hlaupið út undan sér, liðið illa, samviskan aðeins bært á sér, og gagnrýnt gerðir og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. sagði reyndar í gær og í dag og kannski í fyrradag að búið væri að koma öllum slíkum málum í lag. Tryggur meiri hluti væri fyrir öllum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. En það á nú eftir að koma í ljós. Og ég á eftir að sjá marga hv. þm. Alþfl. greiða atkvæði tillögum sem beinlínis skerða kjör þeirra sem minnst hafa, að þeir segi já við slíkum tillögum.
    En áfram með þjónustugjöldin. Ég ætla til gamans að rifja upp kafla úr ræðu núverandi varaformanns fjárln., hv. þm. Pálma Jónssonar, sem hann flutti við 2. umr. um frv.

til fjárlaga fyrir árið 1990. Þar fjallaði hann sérstaklega um þjónustugjöld og þær fjárhæðir sem stofnunum eins og Pósti og síma væri gert að skila í ríkissjóð. Allt væru þetta auknir skattar á landsmenn. En hv. þm. Pálmi Jónsson sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,En hæstv. ríkisstjórn hefur fleiri járn í eldinum. Gerðar eru í fjárlagafrv. mjög harðar kröfur á hendur ýmissa stofnana ríkisins um að afla sértekna, sem þýðir það að þær selja þjónustu sína mun hærra verði en áður hefur tíðkast. Það er viðurkennt að sumar þessara stofnana verða beinlínis að velja sér viðskiptamenn eftir því hvort þeir geta borgað eða ekki. Þannig er það t.d. um rannsóknastofnanir og aðrar stofnanir sem eiga að þjóna atvinnulífinu, að það getur ráðið úrslitum um hvort þjónustan er veitt eða ekki, hvort litið sé svo á að atvinnufyrirtækin hafi bolmagn til þess að borga. Hinir, sem eru verr staddir, verða settir hjá. Þessi stefna hæstv. ríkisstjórnar gengur svo langt að nokkrar stofnanir í A-hluta ríkissjóðs eiga að innheimta meira fyrir þjónustu sína en þær þurfa á að halda og skila sem tekjum í ríkissjóð. Þessar stofnanir á sem sagt að nota sem innheimtumenn fyrir ríkissjóð beint til þess að afla skatta. Þannig er það með stofnanir eins og Húsameistara ríkisins, Brunamálastofnun, Vinnueftirlit, lyfjamál og Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Allar þessar stofnanir eiga að innheimta af landslýðnum meira fé heldur en þarf til þess að standa undir rekstri þeirra og skila sem skatttekjum í ríkissjóð samtals 58,8 millj. kr.``
    Og áfram heldur hv. þm. Pálmi Jónsson:
    ,,Ýmsar stofnanir B-hlutans eru undir sömu sök seldar. Þannig á t.d. Póstur og sími að innheimta með hækkuðum póstburðargjöldum og símgjöldum um 350 millj. kr. umfram það sem stofnunin þarf sjálf á að halda. Símgjöldin og póstburðargjöldin eru þannig notuð til þess að ná sköttum af fólkinu í landinu beint í ríkissjóð.``
    Þegar ég las þetta fyrir skömmu velti ég því fyrir mér hvort hv. þm. væri enn sömu skoðunar og hvort vænta mætti álíka orða um stóraukna skattheimtu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þar voru menn þó búnir að lofa skattalækkunum. Að vísu hefur hv. þm. Pálmi Jónsson ekki staðið að slíkum fyrirheitum og því ekki um svik að ræða af hans hálfu. En hann styður þau. Ef ég spyr hann nú vegna fyrri yfirlýsinga um Póst og síma: Hvað nú, hv. þm. Pálmi Jónsson, hvar sem þú ert í húsinu, þegar Póstur og sími á að skila yfir 900 millj. kr. í ríkissjóð? Og svari síðan landsmenn allir: Hvað er skattur? Hvað eru þjónustugjöld? Ég sé ekki mun á þessu, ég geri ekki greinarmun á því frekar en hv. þm. Pálmi Jónsson gerði á sínum tíma.
    Auðvitað eru þjónustugjöld skattar og auðvitað er þátttaka sveitarfélaga í löggæslu skattur og auðvitað þýðir lækkun barnabóta og lækkun skattaafsláttar sjómanna aukna skattheimtu. Og því til viðbótar er ekki orðið við óskum um eðlilega hækkun á skattleysismörkum. Allt eru þetta auknir skattar, auknar álögur. Leiðin sem valin var af ríkisstjórninni var sú að auka skattheimtu á einstaklingum án tillits til tekna. Þvert á móti munu þessir óbeinu skattar, eða feluskattar eins og þeir eru stundum kallaðir, bitna hvað verst á þeim sem minnst hafa. Eðlilegra hefði mér fundist að fara aðrar leiðir í tekjuöflun fyrir ríkissjóð, t.d. að hafa jöfnunargjaldið á allt árið, að hækka skil Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í ríkissjóð og að skattleggja fjármagnstekjur.
    Afkoma ríkissjóðs er vissulega alvarlegt áhyggjuefni, en það á einnig við um afkomu sveitarfélaganna og heimilanna í landinu. Í frv. til fjárlaga hefði mátt taka á þessum vanda ef menn hefðu gefið sér tíma og lagt í það vinnu. En það var ekki gert og ég held, því miður, að þessar hroðvirknislegu tillögur, sem hér eru lagðar fram í formi frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 og flestar þær brtt. sem frá ríkisstjórninni hafa komið, bæti síður en svo ástandið. Niðurskurðar- og sparnaðartillögurnar munu að stórum hluta reynast óframkvæmanlegar.
    Heildarskattbyrðin, þar með talin þjónustugjöldin, mun reynast heimilunum í landinu ofviða, sérstaklega þegar spáð er nú rýrnandi kaupmætti, stórauknu atvinnuleysi og samdrætti í félagslegri þjónustu og ríkið hefur í ofanálag í hótunum um að nú skuli samið um núll sem þýðir 5,5% kjararýrnun. Sveitarfélögin, sem mörg hver eru illa stödd, munu ekki

geta tekið á sig auknar álögur án þess að fá aukna tekjustofna og ef það gerist ekki munu þau draga enn frekar úr framkvæmdum og rekstrarkostnaði sem eðlilega hefur í för með sér aukið atvinnuleysi og þar af leiðandi enn þá minni tekjur sveitarfélagsins. Fyrirtækin í landinu hafa einnig orðið fyrir barðinu á samdrætti í þjóðarbúskapnum og afkoma þeirra farið síversnandi af þeim sökum og svar ríkisstjórnarinnar er að auka skatta á atvinnuvegina verulega. Samtök atvinnurekenda í landinu hafa mótmælt þessu kröftuglega. En verður tekið mark á því?
    Svo virðist vera að ríkisstjórnin hafi ekki og ætli ekki að hafa samráð um eitt eða neitt. Allar aðgerðir hennar, tillögur og ákvarðanir valda úlfúð og usla hvar sem er í þjóðfélaginu. Það er ekki annað hægt en að harma slík vinnubrögð, sérstaklega með tilliti til þeirra væntinga sem menn gerðu sér eftir þjóðarsáttarsamningana svokölluðu. Vonir hafa verið bundnar við að samvinna á svipuðum nótum næðist aftur. En eftir því sem fleiri tillögur og tilskipanir ríkisstjórnarinnar sjá dagsins ljós þeim mun minni verður vonin.
    Virðulegi forseti. Það þjónar litlum tilgangi að gagnrýna eða meta á annan hátt hvern lið frv. fyrir sig. Þar rekur sig flest hvað á annars horn. Til að mynda er gert ráð fyrir að sum fyrirtæki ríkisins verði seld og andvirði þeirra renni í ríkiskassann. Sum þessara fyrirtækja eiga á næsta ári jafnframt að greiða arð af rekstri sínum í ríkissjóð, sama árið og til stendur að selja þau. Og hver ætli vilji svo kaupa hlutabréf ríkissjóðs í ýmsum fyrirtækjum þess þegar fulltrúar hlutafjármarkaðarins fullyrða að ríkisstjórnin sé með aðgerðum sínum að kæfa þann markað í fæðingu? Nei, hvar sem borið er niður bera tillögurnar merki um hroðvirkni og óvönduð vinnubrögð.
    Þegar fjárln. var breytt sl. vor í heilsársnefnd veit ég að margir gerðu sér, eins og ég, vonir um að nú yrði af þingsins hálfu lögð meiri og betri vinna í frv. til fjárlaga en áður hefur verið gert. Ég hélt að markmiðið með breytingunni væri m.a. að gefa nefndum þingsins betri tíma til vinnu. Hvað varðar umfjöllun um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 var það ekki gert. Þar er þó ekki við nefndina að sakast eða forustu hennar heldur við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sjálfrar, en e.t.v. helst við sjálfan verkstjóra hennar, hæstv. forsrh. Hann virðist eftir ýmsum ummælum hans að dæma ekki hafa mikið álit á hv. þm. eða vinnu þeirra.
    Ég er þess fullviss að nefndarmenn í fjárln. hefðu viljað fá meiri tíma til þessarar vinnu. Og ég er þess einnig fullviss að ef sá tími hefði verið gefinn væri útkoman önnur og betri fyrir íslenskt þjóðfélag en raun ber vitni.
    Ég kæri mig ekki um að eyða meiri tíma en ég hef nú þegar gert í umfjöllun um frv. en ætla í lok ræðu minnar að nefna brtt. sem ég hef flutt, þá einu sem ég flyt við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, því að ég tel að það sé ekki rétt að hræra mikið í þeim graut sem frv. er og best að leyfa honum að brenna við. En brtt. er við 4. gr. undir umhvrn., þ.e. um að við liðinn 14-190, Ýmis verkefni, bætist nýr liður, a. 130. Til undirbúnings byggingar Náttúruhúss fari 500 þús. kr. Til þess að mæta þessum kostnaði legg ég til breytingar á lið 690, Mengunarvarnabúnaður fyrir hafnir, að í staðinn fyrir 15 millj. verði þar framlag 14,5 millj. Ástæðan fyrir því að ég flyt þessa brtt. er sú að meiri hluti fjárln. leggur til að liðurinn 691, Náttúruhús í Reykjavík, verði felldur út. Ég tel hins vegar rétt að það komi þarna inn í staðinn nýr liður sem verði að upphæð 500 þús. til að halda megi áfram undirbúningsvinnu vegna þessa máls. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, umhvrn. og menntmrn.
    Í ársbyrjun 1991 var komið á fót samstarfshópi ofangreindra aðila til að vinna að undirbúningi þess að byggt verði náttúruhús í samvinnu þessara aðila. Í samstarfshópinn voru skipaðir þeir Sveinbjörn Björnsson, núv. rektor Háskóla Íslands, og Örn Helgason af hálfu Háskólans, Þórður Þorbjarnarson og Hjörleifur B. Kvaran af hálfu Reykjavíkurborgar, Kristinn Helgason, sem var formaður nefndarinnar, og Sveinn Jakobsson af hálfu umhvrn. og Álfheiður Ingadóttir var fulltrúi menntmrn. Á þessu ári hefur verið unnið að forathugun og að undirbúningi að byggingu slíks húss og nýlega hefur komið út skýrsla samstarfshópsins um niðurstöðurnar. Á næsta ári var ráðgert að vinna enn betur einstaka þætti

í undirbúningsvinnunni þannig að vanda megi til þessa máls. Í framkvæmdaáætlun þeirri sem samstarfshópurinn hefur lagt fyrir aðstandendur verkefnisins er gert ráð fyrir að undirbúningsvinnan muni taka næstu þrjú ár áður en til endanlegrar ákvörðunar verður gengið um hvenær og hvort ráðist verði í þetta verkefni. Hér er því verið að horfa til mjög langs tíma og gert er ráð fyrir að tiltölulega lítil fjárhæð muni duga til þess að halda megi áfram með málið.
    Sú varfærna áætlun sem lögð er til grundvallar þessu verkefni tekur ríkt tillit til þeirrar erfiðu stöðu sem ríkisfjármálin eru í núna. Hinu má þó ekki gleyma að það verkefni sem hér um ræðir hefur verið lengi á dagskrá og hafa margir lagt þar hönd á plóginn. Það skiptir líka veigamiklu máli að gott samstarf hefur tekist á milli ríkis, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um samvinnu á þessu sviði.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, þakka nefndarmönnum samstarfið og ítreka þakklæti minn til allra þeirra sem unnu með okkur.