Fjárlög 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 21:52:00 (2374)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Þá hefur endanleg útfærsla fjárlaga til 3. umr. litið dagsins ljós. Fæðingarhríðir við að koma króganum fullsköpuðum út úr nefndum og af borði ríkisstjórnarinnar hafa verið erfiðar. Í upphafi var vitað að það var ekki gert ráð fyrir eðlilegri meðgöngu og þaðan af síður fæðingu á fullsköpuðu afkvæmi.
    Í sumar byrjaði ríkisstjórnin feril sinn með yfirlýsingum um niðurskurð hér og niðurskurð þar. Þannig fékk þetta afkvæmi ekki eðlilegt fæðuval á meðgöngu til að ná þroska til fæðingar. Þegar frv. svo fæddist í byrjun þings komu áhrif hinnar erfiðu meðgöngu í ljós og ekki tók betra við fyrstu lífdagana. Og raunar var það ekki vitað frá degi til dags hvernig bæta ætti augljósa vankanta sem komu æ betur í ljós. Hinir ýmsu kerfislæknar voru til kallaðir og reyndu þeir að bæta sköpunarverk ríkisstjórnarinnar.
    Fjárln. tók svo að sér umönnun og aðhlynningu afkvæmis þessa samkvæmt tilskipun og tókst á síðasta sólarhring að koma því á kreik. Samkvæmt lögum verður það svo að taka sína eldskírn út í lífið í gegnum 3. umr. sem nú er hafin. Fyrr fær það ekki sitt rétta nafn né telst vera fullburða. En búast má við því að það eigi enn eftir að mæta allmörgum áföllum á því ári sem því er ætlað að lifa meðal þjóðarinnar.
    Frá því að frv. þetta var lagt fram til 1. umr. hefur það komið æ betur í ljós sem við kvennalistakonur vöruðum við. Forsendur fjárlaga voru byggðar á veikum grunni og gátu fyrirsjáanlega ekki staðist. Það hefur enda komið fram nú þegar. Þjóðhagsstofnun lagði fram nýja spá 17. des. sl. um horfur í efnahagsmálum á næsta ári. Þar er spáð enn meiri samdrætti en í nóvemberspá stofnunarinnar, þjóðartekjur muni dragast saman um 6,1% frá fyrra ári og landsframleiðslan um 4,1%. Viðskiptajöfnuðurinn er óhagstæður um 4,1%. Rekstrarafkoma fyrirtækjanna versnar því um 6--8 milljarða frá fyrra ári og kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkar um 5,5% frá fyrra ári en þjóðhagsáætlun gerði í upphafi ráð fyrir 3,3% samdrætti.
    Hvað segja þessar tölur okkur? Þær segja að fram undan sé kreppa í efnahagsmálum, mesta lægð sem komið hafi síðan 1950, segja þessir spámenn okkar. En ef við skoðum framtíðina í ljósi þess sem fortíðin segir okkur er það ekkert einsdæmi að sveiflur séu í efnahagslífi okkar Íslendinga. Atvinnuvegir okkar eru nú einu sinni mjög sveiflukenndir og árferði og aflahorfur hafa mikið að segja. Þannig hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna áður rýrnað meira en Þjóðhagsstofnun spáir að hann muni gera á næsta ári. Árið 1983 var það um 13,5% og árið 1989 rýrnaði hann aftur um 7,9%.
    Það sem er alvarlegast í dæminu er það sem vitað hefur verið frá því að skýrsla Hafrannsóknastofnunar kom út í sumar og í framhaldi af því ákvörðun hæstv. sjútvrh. um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðaári því þar var farið svo til algerlega að tillögum fiskifræðinga og aflaheimildir skertar mjög frá fyrra ári, sérstaklega í þorski, en þar á aflinn að minnka um nálægt 50 þús. tonn á milli ára. Það hljóta því að verða minnkandi þjóðartekjur á næsta ári og það er það sem málið snýst um og eins gott að fólk almennt

fari að gera sér ljóst samhengið þarna á milli. Það er nefnilega ekki þannig að við getum lifað á því að selja hvort öðru vörur og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
    Við lifum á fiski og því fer efnahagur þjóðfélagsins eftir þeim arði sem við fáum úr þessari stærstu auðlind okkar. Við getum svo endalaust rætt um það hvernig við förum með þann arð og verðum trúlega aldrei sammála. Við getum fengið meira fyrir aflann með bættri nýtingu og meiri úrvinnslu ef við leggjum fé í þróunar- og rannsóknarstörf, en mér sýnist þessi ríkisstjórn ekki leggja mikið upp úr því þar sem framlög til allrar rannsóknarstarfsemi verði skorin við nögl meira en margt annað og skerðing á framlögum til rannsóknastofnana í sjávarútvegi er 51% á milli ára.
    Atvinnuleysi mun aukast á næsta ári úr 1,5% nú í 2,6% og nú hefur dæmið algerlega snúist við frá því í september þegar vantaði 650 manns á vinnumarkaðinn samkvæmt könnun sem gerð var þá. Nú vilja atvinnurekendur fækka störfum um 300 manns. Og nú getur farið að koma fram krafa um að þeim erlendu verkamönnum sem hér eru verði vísað frá vinnumarkaðnum.
    Eins og ég sagði áðan er spáð 2,6% atvinnuleysi á næsta ári. Það getur þýtt 1.800 millj. í atvinnuleysisbætur, auk þess sem ríkissjóður og sveitarfélög verða af skatttekjum þessa fólks sem gengur þá um atvinnulaust.
    Ef við snúum okkur að því að ræða þær álögur sem boðaðar eru á sveitarfélög samkvæmt nýjustu áformum ríkisstjórnarinnar er þar um að ræða 700 millj. sem fara eiga til að greiða löggæslu. Nú virðist vera hætt við að færa framkvæmd á lögum um málefni fatlaðra til sveitarfélaganna, enda mætti það mikilli mótspyrnu hvaðanæva að. Hins vegar kemur það nú að innheimta á ákveðið gjald pr. íbúa og fer það eftir íbúafjölda sveitarfélagsins hve hátt þetta gjald er. Upphæðin getur verið frá 1.700--2.800. En sveitarfélögin eru nú sem óðast að bregðast við þessu og hvernig? Jú, þau hækka auðvitað útsvarsprósentuna, þau sem ekki hafa þegar fullnýtt hana, og það eru stærstu sveitarfélögin sem eiga þar ónýttan tekjustofn sem þau hafa hingað til ekki þurft að fullnýta. Þau hafa komist af með að gera það ekki hingað til. En með þessu komast þau líka í þann hóp sem getur átt rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    En hvernig bregðast minni sveitarfélögin við og þau sem átt hafa í erfiðleikum, hafa jafnvel þurft að hjálpa atvinnurekstrinum svo að ekki yrði algert hrun í byggðarlaginu? Þau geta ekki hækkað prósentuna. Hún er fullnýtt fyrir. Og þau geta jafnvel átt von á að þau fái skert framlag úr Jöfnunarsjóði vegna þess að þau sveitarfélög sem bætast nú í hóp þeirra sem eiga rétt á framlagi þar skerða möguleika sjóðsins til að standa við bakið á hinum sem þar eru fyrir. Þá hafa sveitarfélögin aðeins um tvær leiðir að velja. Að leita út á lánamarkaðinn eða draga saman. Ef við höldum áfram með dæmið, þá þýðir samdráttur skerta þjónustu, minni framkvæmdir --- með öðrum orðum: Sveitarfélögin verða að hætta við fyrirhugaðar framkvæmdir og þar með minnkar atvinna. Skert þjónustustig veldur óánægju íbúanna sem þá flytja sig um set og leita í stærri sveitarfélögin þar sem ekki þarf að skerða þjónustu.
    Þessar tilfærslur ríkisins til sveitarfélaga eru sagðar vera til þess að draga saman útgjöld og minnka halla ríkisins sem á að koma landsmönnum til góða í minni eftirspurn ríkisins eftir lánsfé og þar með lækkandi vaxtastigi. En er það ekki sama hvort það er ríkið eða sveitarfélögin sem leita út á markaðinn? Eftirspurnin er sú sama. Þessi yfirlýsti tilgangur ríkisstjórnarinnar stenst því ekki.
    Aftur á móti getur allt þetta orðið til enn frekari byggðarröskunar, gert litlu sveitarfélögunum erfiðara um vik að sinna sínu hlutverki. Er það kannski hinn duldi tilgangur þessara aðgerða alveg á sama hátt og gjaldþrotastefna ríkisstjórnarinnar á að vera til að hagræða í rekstri fyrirtækja? Eða hefur ríkisstjórnin ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess að ráðast með þessum hætti á fjárhag sveitarfélaganna?
    Eins og ég sagði eru sveitarfélögin sem óðast að bregðast við þessu. Þau hafa varla haft ráðrúm til þess því að yfirlýsingarnar breytast frá degi til dags. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp bréf frá einu sveitarfélagi á Vestfjörðum sem ég held að sé dæmigert fyrir mörg sveitarfélög úti um allt land og það er frá hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps. En í ályktun hreppsnefndar, sem dags. er 18. des., segir svo:
    ,,Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps mótmælir harðlega áformum ríkisvaldsins um að velta hluta af rekstrarvanda ríkissjóðs yfir á sveitarfélögin. Hreppsnefndin bendir á að sveitarfélögin í landinu verði engu síður en ríkissjóður fyrir verulegum tekjumissi vegna samdráttar í atvinnulífinu. Minnkandi atvinnutekjur leiða til lækkunar útsvarstekna og samdráttur í rekstri fyrirtækja kemur fram í lækkuðum aðstöðugjöldum. Sveitarfélögin geta með engu móti velt þeim rekstrarvanda sem af þessu leiðir yfir á ríkissjóð né aðra aðila í þjóðfélaginu.
    Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps telur það óþolandi gerræði af hálfu ríkisvaldsins að velta stórum útgjaldaliðum yfir á sveitarfélögin á sama tíma og tekjur þeirra dragast verulega saman. Í þessu sambandi vill hreppsnefndin sérstaklega benda á hugmyndir um þátttöku sveitarfélaga í löggæslukostnaði, en þessi eini liður mundi kosta Hólmavíkurhrepp tæplega 1,4 millj. kr. á ári ef núverandi hugmyndir verða að veruleika við afgreiðslu fjárlaga. Einnig mótmælir hreppsnefndin harðlega hugmyndum um að krefja sveitarfélög á nýjan leik um framlag til félagslegra íbúðarbygginga. Þá bendir hreppsnefndin á að skerðing á framlögum ríkisins til eyðingar refa og minka mun bitna langharðast á sveitarfélögum í dreifbýli, en snertir fjölmennustu sveitarfélögin lítið sem ekkert.
    Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps varar sérstaklega við hugmyndum um að sækja áformuð framlög sveitarfélaga til ríkisins í staðgreiðslufé sveitarfélaganna. Þetta gengur þvert á það samkomulag sem staðgreiðslukerfið byggist á.``
    Svo sem kunnugt er hafa nú þessi áform sem staðfest eru fyrir rúmum sólarhring breyst vegna þess að nú er áformað að taka nefskatt. En eins og ég segi: sveitarfélögin hafa tæplega við að bregðast við nýjum og nýjum tilskipunum eða tilkynningum. En svo að ég haldi áfram með þessa samþykkt hljóðar hún svo áfram:
    ,,Í ársbyrjun 1990 tóku gildi ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þessi lög byggðust á samkomulagi þessara aðila í kjölfar langrar samvinnu um málið. Með lögunum voru sveitarfélögunum tryggðar auknar tekjur til að takast á við ný verkefni og til að bæta úr bágri fjárhagslegri stöðu. Nú virðist ríkisvaldið ætla að hafa þetta samkomulag að engu. Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaga þrátt fyrir ákvæði sveitarstjórnarlaga þar um og samstarfssáttmála ríkis og sveitarfeaga. Með þessu bregst ríkisvaldið trausti sveitarfélaganna og bindur enda á farsælt samstarf síðustu ára. Vandséð er hvernig samstaða á að geta náðst um sameiningu sveitarfélaga og önnur þau sameiginleg verkefni sem nú liggja fyrir. Og sveitarfélögin mega sífellt vænta þess að ríkið snúi baki við gerðum samningum strax og staðið er upp frá samningaborðinu.
    Víða um land eru nú gerðar miklar kröfur á hendur sveitarfélaga um fjárhagslega þátttöku í atvinnulífinu. Því til viðbótar hefur ríkisvaldið aukið fjárhagslega skyldu sveitarfélaganna að undanförnu með nýjum lögum og reglugerðum. Ef núverandi hugmyndir verða þar að auki að veruleika við afgreiðslu fjárlaga er ljóst að sum sveitarfélögin neyðast til að hækka álögur á íbúana með einhverju móti. Ef ríkisstjórnin hefur gefist upp á að reka ríkissjóð án skattahækkana ber henni að viðurkenna það og hækka skatta sjálf í stað þess að hvítþvo sig af vandanum og neyða sveitarfélög til skattahækkana.
    Eins og þegar hefur komið fram mun slíkt auk alls annars leiða til þess að nokkur af stærstu sveitarfélögum landsins seilast í auknum mæli í fé Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá verður minna til skiptanna fyrir smærri sveitarfélögin sem mörg hver búa við afar erfiðan fjárhag og miklar kröfur um aukna þjónustu.``
    Þannig hljóðar bréf þessarar hreppsnefndar og ég hef fengið fleiri sem eru í svipuðum dúr. Sum þeirra benda jafnvel á að það séu ekki nema rétt tvö ár frá því að ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga tóku gildi og um þau lög hafi verið full samstaða og ítreka að þarna sé ríkisstjórn Íslands að brjóta gert samkomulag.
    Framlag til hafnamála er eitt af því fáa þar sem farið er eftir samþykktum áætlunum, þ.e. framlagið er nokkuð nálægt því sem hafnaáætlun fyrir árið 1992 gerir ráð fyrir

en það var 818 millj. samkvæmt tillögum Hafnamálastofnunar í febrúar á þessu ári. Framlagið er í fjárlagafrv. 810 millj. kr., en ekki er þó allt sem sýnist því að raunverulega er um að ræða 687 millj. kr. en Hafnasambandi sveitarfélaga gert að innheimta 125 millj. kr. með álagi á vörugjöld í höfnum. Hafnasamband sveitarfélaga hefur mótmælt því með ályktun frá 17 des. --- Ég verð að biðja forseta afsökunar á að ég hef bréfið ekki meðferðis en reyndar mun það vera að finna í nál. meiri hlutans --- Þessi álagning mun verða til að auka misréttið í vöruverði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þar sem 25% álag á vörugjald mun hafa áhrif til hækkunar á ýmsa nauðsynjavöru en það eru fyrst og fremst þær vörutegundir sem fluttar eru með skipum. Þar verða margfeldisáhrif sem felast í því að gjaldið kemur tvöfalt á vörur út á land og síðan koma þau áhrif fram í álagningu og virðisaukaskatti.
    Í fjárlagafrv. við 1. umr. sagði hæstv. fjmrh. að þrátt fyrir samdrátt í heildarútgjöldum ríkissjóðs hækkuðu framlög til samgöngumála. Ég hef leitað með logandi ljósi að þessu hækkaða framlagi en ekki fundið. Ég vil því biðja hæstv. fjmrh. að hjálpa mér að leita. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að sjá að framlagið til vegamála er skert allverulega frá því sem samþykkt vegáætlun gerir ráð fyrir. Er þar um 25% skerðingu að ræða a.m.k. og fer það nokkuð eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Upphafleg vegáætlun gerði ráð fyrir 6,3 milljörðum til vegamála en endurskoðuð vegáætlun var upp á 6 milljarða og 80 þús. kr. Í fjárlagafrv. var sett talan 5 milljarðar og 830 þús. og var þar komin skerðing upp á 250 millj. Þar næst er svo ákveðið að draga 265 millj. kr. af tekjum Vegasjóðs og leggja í ríkissjóð. Til viðbótar er hætt við lántöku vegna Vestfjarðaganga upp á 250 millj. Þarna hlýtur því að vera um a.m.k. 765 millj. kr. skerðingu til framkvæmda að ræða og mun það bitna á nýframkvæmdum. Ríkisstjórnin hefur gefið út að hægt verði á framkvæmdum við Vestfjarðagöng, jafnvel frestað að gera göngin til Súgandafjarðar, um eitt ár. Forsvarsmenn Vegagerðarinnar hafa í fjölmiðlum gefið í skyn að þeir hyggist leita leiða til að halda megi áfram eins og fyrirhugað hefur verið samkvæmt undirskrifuðum samningum. Endanlegur frágangur tefjist þó um eitt ár. Þetta hefur ekki fengist inn á borð fjárln. sem ítrekað hefur beðið um útfærslu á þeirri skerðingu sem fyrirhuguð er. Ég sé þó að nú er komin fram þáltill. um breytingu á vegáætlun en hún hefur ekki enn verið rædd hér og ekki heldur komið inn til samgn., þannig að hún á algerlega eftir að fá venjulega umfjöllun í þinginu.
    Það er því enn þá allt í lausu lofti um það hvernig staðið verður að málum. En ég ítreka það, sem ég sagði við 2. umr. um þetta frv., að í þessu máli öllu er ríkisstjórnin að brjóta samninga sem búið er að samþykkja. Enginn þorir að nefna tölur varðandi kostnað við það samningsbrot. Þá er þetta enn ein aðför að raunverulegri byggðastefnu sem felst í því að bæta samgöngur og stækka þjónustusvæði. Í mínum huga og margra annarra eru bættar samgöngur númer eitt, tvö og þrjú þegar rætt er um byggðamál.
    Þetta frv. mun reynast erfitt fyrir fjölskyldufólk og liggja til þess margar ástæður. Barnabætur á að skerða um 500 millj. kr. Þar er verið, eins og svo oft áður, að leggja auknar byrðar á herðar þeirra sem eiga börn og hafa meðaltekjur en ekki er hreyft við þeim barnlausu. Þeirra tekjur eru ekki skertar. Hækkun þjónustugjalda til heilsugæslu og aukinn lyfjakostnaður kemur harðast niður á barnafólki og lasburða fólki sem oft þarf að leita læknis. Skólagjöld og hertar reglur Lánasjóðs ísl. námsmanna munu auka útgjöld ungs fólks sem er að leita sér menntunar eða hefur nýlokið námi. Breytingu á grunnskólalögum, sem koma á til framkvæmda á næsta ári, er frestað. Sú breyting hefði haft það í för með sér að bætt væri aðstaða barna og foreldra. Breyting á kostnaði fyrir tannlæknaþjónustu eykur kostnað foreldra vegna barna og niðurfelling á greiðslum fyrir tannréttingar, nema í einhverjum sérstökum tilfellum, gerir það sömuleiðis. Allt þetta er aðför að fjölskyldunum í landinu og barnafólkinu sérstaklega. Þar teljum við kvennalistakonur að verið sé að byrja á öfugum enda við að afla fjár. Hvað með skatt á fjármagnstekjur? Eða tvö skattþrep? Hvers vegna ekki að hækka vörur eins og áfengi og tóbak til að afla tekna? Ég ætla þó ekki að fara nánar út í útlistun á þessum málaflokki þar sem við höfum skipt því

nokkuð með okkur kvennalistakonur og aðrar munu taka það hér fyrir.
    Mennta- og menningarmál eru kafli út af fyrir sig. Þar er skerðingin allmikil. Í nál. sem minni hlutinn hefur sent frá sér segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. til fjárlaga er boðuð afgerandi stefnubreyting í skólamálum með álagningu skólagjalda. Þótt boðað hafi verið að tillögur um skólagjöld á framhaldsskólastigi verði að mestu dregnar til baka er enn fyrirhugað að taka upp nemendaskatt á háskólastigi og í öldungadeildum framhaldsskólanna. Eiga háskólanemar nú að greiða allt að 17.000 kr. til viðbótar þeirri upphæð sem nemendur greiða nú til félagsstarfa sinna.
    Þeir nefndarmenn, sem undir þetta rita,`` --- en það er minni hluti fjárln. --- ,,eru alfarið á móti því að skólagjöld séu innheimt í ríkisskólum og telja það brjóta í bága við þá grundvallarreglu um jafnrétti til náms sem ríkt hefur í íslensku skólakerfi. Þá bendum við á að slíkt kallar á aukin námslán. Verra er þó að framlög til Háskóla Íslands eru skert verulega sem getur haft í för með sér að takmarka verður inntöku nýrra nemenda í skólann.
    Sama gildir um framlög til framhaldsskóla. Þau eru einnig skert þrátt fyrir mikla aukningu nemenda og ekki séð hvernig hægt er að mæta því nema með því að vísa nemendum frá. Ekki er bætt úr brýnni þörf iðnmenntunar í landinu þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að verk- og listgreinar þurfi að efla sem forsendur fyrir þróun íslensks iðnaðar á mörgum sviðum. Þeir framhaldsskólar, sem hyggjast auka framboð verkmenntagreina, geta það ekki sökum fjárskorts. Og ekki bólar á framkvæmdafé til uppbyggingar dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar í landinu. Þá er ekki í frv. mótuð nein stefna í málefnum héraðsskólanna, heldur er það alfarið undir ráðherra komið hver framtíð þeirra verður.``
    Ég vil minna á að við 2. umr. um fjárlagafrv. urðu hér allmiklar umræður um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi. Þá var það upplýst að það yrði skoðað sérstaklega fyrir 3. umr. Við heyrðum síðan í framsöguræðu hv. formanns fjárln. í kvöld hvernig leysa á það mál með skipun nefndar eftir áramót sem eigi að skoða hvert hlutverk skólinn geti haft í framtíðinni. Það var í raun og veru það eina sem út úr því máli fékkst. Verð ég að segja að ég veit ekki hvort sú nefnd muni geta framkvæmt margt þegar ekkert fjármagn er til þeirra hluta sem henni er ætlað að gera.
    Ég vil benda á að á Alþingi í fyrra, þ.e. á 113. þingi, var samþykkt þál. um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót samstarfshópi á vegum ráðuneyta og sveitarfélaga til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir sem miði að því að aðstoða ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla. Samstarfshópurinn fjalli einnig um sameiginlegar forvarnir gegn þessum vanda.
    Samstarfshópurinn verði skipaður fulltrúum tilnefndum af dómsmála-, félagsmála-, menntamála-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, stærstu sveitarfélögunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Samstarfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 1991.``
    Nú mundi ég vilja spyrja --- ég veit ekki hvort það ætti að vera fjmrh., líklega ætti það helst að vera hæstv. forsrh., sem ekki hefur séð sér fært að sitja og hlusta á þessa umræðu í kvöld --- en ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ríkisstjórnar að hún svaraði því hvort þessi samstarfshópur hafi verið skipaður og hvort hann muni skila tillögum fyrir árslok og er ekki langt eftir í það. Þessi þál. var samþykkt á Alþingi 12. mars 1991. Ég mundi vilja benda á, vegna þess að ég var að ræða málefni héraðsskólanna og Reykjanesskólans sérstaklega, að þarna finnst mér hægt að hugsa sér að hlutverk Reykjanesskólans gæti e.t.v. verið í tengslum við þessa þál. Þarna er greinilega mikið vandamál á ferðinni sem Alþingi samþykkti í fyrra að skoða nánar. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. ríkisstjórnar að sá samstarfshópur, sem hér er talað um, muni skoða málefni Reykjanesskólans í tengslum við þessa tillögu og athuga hvort ekki sé hægt að sameina þau úrræði sem þar hugsanlega finnast.

    Í samþykkt minni hluta fjárln. um mennta- og menningarmál segir enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að fresta að framkvæma breytingar á grunnskólalögum sem samþykktar voru á sl. vetri.`` --- Höfum við heyrt miklar umræður um það í sambandi við umræðurnar í dag um ríkisfjármálin og undanfarna daga. --- ,,Það teljum við mjög óeðlilegt þar sem hér er ekki um verulega fjármuni að ræða í heildarpakka fjárlaga en hins vegar mundu þessar breytingar horfa mjög til bóta fyrir allt skólastarf í grunnskólum. Einnig er í frv. verið að skerða lögbundinn tekjustofn Ríkisútvarpsins og stofnuninni þar með gert ókleift að sinna lögboðnu hutverki sínu svo vel sé. Sömu sögu er að segja um Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn, byggðasöfnin og flestar aðrar menningarstofnanir í landinu. Menningarminjar verða einnig illa úti og virðast lítils virtar.
    Ástæða væri til að gera áhugaleikfélögunum sérstök skil því að í engri listgrein í landinu er jafnalmenn þátttaka og víða eru leikfélögin uppistaða menningar- og félagslífs í hinum dreifðu byggðum landsins. Þessa starfsemi hefur ríkisstjórnin kosið að verðlauna með ónógum fjárveitingum til Bandalags íslenskra leikfélaga.
    Tónlist og myndlist eru hvorki forgangsviðfangsefni þessarar ríkisstjórnar né meiri hluta fjárln. Fé til kynningar á íslenskri list erlendis er lítið og seinlegt verk að sannfæra stjórnvöld um að list og menning þjóðar geti verið arðbær í beinhörðum peningum ef rétt er á málum haldið.
    Mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu er ferðaþjónusta í landinu. Í fjárlagafrv. er hún skorin niður að því marki að erfitt er að sjá hvað um það verk verður sem þegar hefur verið unnið.
    Framlag til rannsóknastofnana`` --- eins og ég gat um áðan --- ,,er skert verulega og þeim gert að afla sér aukinna sértekna sem alls óvíst er að takist. Það mun verða til að draga úr nauðsynlegri tilrauna- og þróunarstarfsemi.``
    Ég ætla ekki að rekja fleiri einstaka málaflokka í gjaldahlið fjárlagafrv. Ég verð að segja að mér finnst það ekki þjóna miklum tilgangi þar sem allflestir hv. þm. sjá sér ekki fært að sitja og hlusta á þetta. Þannig að það mun einungis verða til þess að hafa þetta skráð í þingtíðindum að þingmenn standa hér og flytja mál sem þeim eru hugleikin í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.
    En svo ég víki lítils háttar að tekjuhliðinni þá hefur hún nú verið endurskoðuð, m.a. í ljósi efnahagssamdráttar eins og segir í vinnuskjali frá fjmrn. 17. des. sl. Þar er því lýst að heildartekjur ríkisins muni lækka um rúmlega milljarð frá fjárlagafrv. eða í 105,4 milljarða. Skatttekjur lækka svipað eða úr 98,9 milljörðum í 97,8 milljarða. Skattheimta sem hlutfall af landsframleiðslu eykst og verður nú 28,5%. Hefur skatthlutfallið aldrei verið jafnhátt. Aukningin jafngildir því að skattbyrði hverrar fjögurra manna fjölskyldu aukist um 24.000 kr. Þá eru ekki meðtaldir ,,feluskattarnir``, þ.e. þjónustugjöldin svokölluðu sem auka enn á þessa byrði. Hækkun gjalda á heilsugæslustöðvum er talin nema 12--15 þús. kr. fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þá erum við farin að tala um 35--40 þús. kr. hækkun skattbyrði þessarar sömu fjölskyldu.
    Ríkisstjórnin hefur ítrekað það að við séum á leið inn í enn frekara samdráttarskeið en verið hefur. Ég dreg ekki í efa að ástandið er erfitt og ekki er spáð bata í þjóðhagshorfum á næsta ári. Á fundi í fjárln. hinn 17. des. sl. þar sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar lagði fram nýja þjóðhagsspá kemur það fram að efnahagsdýfan muni verða enn dýpri en spáin í nóvember gerði ráð fyrir. En ég vil benda á að hér er um spá að ræða. Venjulega er tilhneiging hjá stjónvöldum að setja fram eins dökka spá og mögulegt er þegar erfitt reynist að koma saman fjárlögum. Mikil skerðing er fyrirhuguð og þar að auki eru samningar lausir. Allt þetta býður upp á það að setja fram eins dökka þjóðhagsspá og frekast er hægt. Ég endurtek það að hér er um spá að ræða en ekki staðreynd sem orðin er. Það er þó ekki hægt að segja annað en að þörf sé á einhverju öðru en svartsýnisrausi við þær aðstæður sem nú eru. Þegar erfiðleikar eru í þjóðfélaginu ættu stjórnvöld að gera sitt til að auka hóflega bjartsýni meðal þegna sinna. Í því skyni verður að benda á að ekki eru öll

sund lokuð fyrir okkur þó ekki komi álver í bráð og jafnvel verði ekki af samningum um EES. Þetta tvennt hefur á undanförnum árum átt að leysa allan vanda í efnahagsmálum okkar. Stjórnvöld hafa einblínt á þessa kosti og ekki skoðað aðra í neinni alvöru. Við kvennalistakonur höfum alltaf viljað fara þá leið að leita tvíhliða samninga við EB og við höfum varað við að sjá ekki aðra leið en álver til að auka þjóðartekjur. Þess í stað höfum við bent á að efla beri ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein, ekki síst í dreifbýlinu. En aukning í greininni hefur aðallega komið þar fram. Núv. ríkisstjórn hyggst hins vegar skerða framlög til ferðamála. Við höfum ítrekað bent á að gera þurfi svæðisbundnar auðlindakannanir og taka síðan ákvarðanir í framhaldi af þeim, með nýtingu þeirra auðlinda í huga sem þar kunna að finnast. Við höfum bent á möguleika íslensku ullarinnar ef rétt er að málum staðið. Og við höfum hvatt til eflingar menntunar og rannsóknarstarfsemi sem hlýtur að verða grundvöllur nýrrar atvinnuuppbyggingar.
    Ég gæti talað langt mál um áhrif þessa fjárlagafrv. og þeirra frv. sem því fylgja á hag fjölskyldna hér á landi. Þar sem við kvennalistakonur höfum ákveðið að skipta því nokkuð á milli okkar að ræða einstök mál mun ég ekki ræða þetta frekar nú. En ég vara við þeirri stefnubreytngu sem fram kemur í þessu fjárlagafrv. þar sem eru auknar álögur á launafólk sem ekki hefur úr miklu að spila. Það mun valda ómældum erfiðleikum hjá mörgum fjölskyldum. Þetta frv. þrengir hag sveitarfélaga og atvinnuveganna meira en þörf er á og þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhefur, og sér í lagi einstakir ráðherrar hennar, er til þess fallið að auka á sundrungu og það kallar á hörð viðbrögð þeirra sem fyrir því verða og umbjóðenda þeirra.
    Svo ég víki aftur að upphafi ræðu minnar á ég ekki von á því að þetta ófullburða afkvæmi ríkisstjórnarinnar eigi eftir að taka út eðlilegan þroska. Þvert á móti mun það verða fyrir bæði fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum áföllum sem engir kerfislæknar munu geta bætt en ríkisstjórnin situr uppi með óskapnaðinn.