Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 02:02:00 (2381)

     Páll Pétursson :
     Herra forseti. Á þskj. 340 flytjum við Valgerður Sverrisdóttir sjö brtt. Með þessum brtt. leggjum við til að tekjur ríkissjóðs á árinu 1992 hækki um 1.260 millj. en gjöldin um 1.000 millj.
    Í 1. tölul., sem er brtt. við þskj. 295, þ.e. tekjuskattur einstaklinga, nettó, að fyrir 14 milljarða 750 millj. komi 14 milljarðar 50 millj. Þessi tillaga felur það í sér að tekjuskattur einstaklinga lækki um 700 millj. kr. og sveitarfélög greiði ekki hluta kostnaðar við löggæslu eins og gert er ráð fyrir í brtt. meiri hluta fjárln.
    Hér hefur í dag staðið mikil umræða milli manna út af hinum svokallaða lögguskatti. Við teljum að þar sé gengið freklega á hlut sveitarfélaganna og það sem verra er, eftir því sem okkur sýnist, muni þessi útgjöld koma mjög ómaklega niður. Þau koma einstaklega hart niður á minnstu sveitarfélögunum. Við höfum ekki séð útfærslu á þessum skatti sem geti gert hann viðunandi og leggjum því til að hann verði ekki innheimtur af sveitarfélögunum.
    2. tölul. brtt. á þskj. 340 er um jöfnunargjaldið og okkar tillaga er sú að í staðinn fyrir að ætla því að gefa 360 millj. verði það látið gefa 720 millj., þ.e. að jöfnunargjaldið gildi út árið 1992. Þetta teljum við mjög eðlilegt og reyndar óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli afsala sér þessum tekjustofni sem kæmi sér ábyggilega vel í þeim fjárhagsþrengingum sem ríkissjóður óneitanlega er í. Því má bæta við að forsvarsmenn iðnaðarins eru mjög á því að þetta sé skynsamlegt og telja að hagsmunum iðnaðarins sé það mjög mikilvægt að þetta gjald verði ekki afnumið eins og ríkisstjórnin hefur hugsað sér að gera. Sú mótbára hefur heyrst að þetta gjald brjóti í bága við þá fríverslunarsamninga sem við erum aðilar að. Sumir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa haldið því fram í alllangan tíma. Við lítum svo á að það sé afsakanlegt að framlengja þetta gjald út árið með tilliti til hinnar þröngu stöðu okkar og vegna þess að við eigum í miklum efnahagsþrengingum og höfum halla á utanríkisviðskiptum.
    Þriðja brtt. er um virðisaukaskattinn þar sem við leggjum til að hert verði og bætt innheimta á virðisaukaskatti þannig að hann skili ríkissjóði 500 millj. kr. meiri tekjum en brtt. meiri hluta fjárln. gera ráð fyrir. Það er enginn vafi á því að með bættri innheimtu virðisaukaskatts og traustara eftirliti með innheimtunni er unnt að ná verulegum fjármunum í ríkissjóð. Það er nokkurt áhyggjuefni að eftir því sem tímar líða komast menn upp á lag með að finna göt á virðisaukaskattskerfinu og notfæra sér þau.
    Við leggjum til í 4. brtt. að Byggðastofnun fái 250 millj. í staðinn fyrir 200 millj. Við lítum svo á að hið geysimikilvæga hlutverk Byggðastofnunar sé með engu móti unnt að rækja með því að ætla henni einungis 200 millj. kr. Þær umræður sem farið hafa fram á Alþingi á haustþinginu um Byggðastofnun og byggðapólitík hafa leitt það mjög glögglega í ljós að hæstv. ríkisstjórn hefur horn í síðu Byggðastofnunar og raunar hefur hún gert aðför að henni. Ef þær hugmyndir ná fram að ganga, sem ég ætla að vona að ekki verði og okkur takist að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn, ef þær tillögur ná fram að ganga þá yrði um að ræða svo mikla skerðingu á starfsmöguleikum Byggðastofnunar að hún væri lítilsmegandi apparat eftir þá meðferð.
    Við leggjum til í 5. brtt. að í samræmi við brtt. við 25. gr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992, nái hún fram að ganga, skuli tekjur af aðflutningsgjöldum af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins á árinu 1992 í samræmi við 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985. Áætlað er að þessar tekjur nemi 200 millj. á árinu 1992. Það er ekki vansalaust hvernig útvarpsmálum okkar er háttað. Það er algerlega ómögulegt að búa við það að Íslendingar eigi ekki rétt og jafna möguleika á því að njóta þessara fjölmiðla. Svo er mál með vexti, þó að sumum hv. alþm. sé það ekki kunnugt, að nokkur hluti landsmanna hefur ekki tök á því að hlusta á Ríkisútvarpið og á nokkrum stöðum, sem betur fer ekki mörgum, næst ekki sjónvarp. Þetta er mjög mikilvægt réttlætismál og er sjálfsagt að vinna sem snarast að því að bæta þar úr.
    6. brtt. fjallar um að auka tekjur af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og hækka útsöluverð áfengis og tóbaks þannig að það gefi 400 millj. kr. meira í ríkissjóðs en samkvæmt brtt. meiri hluta fjárln.
    Þá er í lokatillögunni lagt til að ríkissjóður leggi fram 50 millj. kr. til Skipaútgerðar ríkisins til að mæta hluta af rekstrarfjárþörf fyrirtækisins og greiða fyrir skipulagsbreytingum í rekstri þess. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. samgrh. hefur lagt þessa stofnun í einelti, mjög mikilvæga stofnun í okkar þjóðfélagi, sem veitir þjónustu sem ekki verður rækt með öðrum hætti. Við viljum ekki horfa upp á hvernig sú stofnun er meðhöndluð og við viljum ekki stuðla að þeirri einokun í flutningum á sjó, sem hæstv. samgrh.

stendur fyrir, þ.e. að sölsa undir Eimskipafélagið leynt og ljóst flutningana. Við teljum að eðlileg samkeppni sé forsenda þess að þjónusta verði viðunandi.
    Það væri sérmál og freistandi að ræða um útþenslu Eimskipafélags Íslands og hvernig það félag leggur undir sig æ fleiri og gildari þætti í okkar þjóðfélagi. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um það en vera kann að síðar gefist tækifæri til þess við þessa 3. umr. eða ég telji það nauðsynlegt að fjalla ítarlegar um þessa brtt. svo og aðrar. En til þess að greiða nú fyrir þingstörfum sem mest ég má mun ég, herra forseti, láta máli mínu lokið.