Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 02:43:00 (2384)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegur forseti. Það er satt að segja mjög sérkennilegt fyrir nýliða á Alþingi eins og mig að verða vitni fyrsta sinni að þeim vinnubrögðum sem tíðkast við fjárlagagerð. Menn hafa gjarnan í þessari pontu gripið til sjómannalíkinga í málfari. Það virðist vera mjög vinsælt á hinu háa Alþingi og virðist fylgja því sérstök vellíðan að nota slíkt málfar.
    Ekki verður annað sagt en að það hafi gefið á bátinn hér á Alþingi á undanförnum dögum og vikum. Hér hafa miklir lagabrotsjóir riðið yfir, mikið pappírsfár fylgt þessu öllu saman. Þáltill. hafa komið fram á síðustu stundu og þykk nál. komið á borð þingmanna. Allt þetta eiga þeir auðvitað að lesa og kynna sér og gera mál upp við sína samvisku og samþykkja fjárlög í samræmi við það.
    Ég fæ ekki betur séð en þeir sem hafa verið í skipsrúmi árum og jafnvel áratugum saman eigi fullt í fangi með að stíga ölduna hér á Alþingi svo ekki sé talað um þá sem eru nýmunstraðir á þessa skútu. Ég hef kallað þetta áður lagasukk og bið forseta velvirðingar á því að ég skuli nota það orð en geri það samt. Hér eru lagatextar skrifaðir á hlaupum og hér eru brtt. við lög sífellt að koma fram á síðustu stundu. Við þetta má þjóðin búa. Þess vegna er sífellt verið að breyta lögum á Alþingi að textar eru skrifaðir með þessum hætti og lög eru sett með þessum hætti. Satt að segja minna ráðherrar og stjórnarþingmenn mig á börn sem hafa komist í dótakistu annarra barna. Þeir sjást ekki fyrir, þeir róta og tæta, þeir brjóta og týna.
    Í borgarstjórn fannst mér mottó fyrrv. borgarstjóra og núv. hæstv. forsrh. vera það að betra væri illt að gera en ekki neitt. Því miður verð ég að segja það eftir reynslu mína á þingi undanfarnar vikur að þetta virðist vera sameiginlegur kvilli margra valdsmanna. Hæstv. heilbrrh. --- sem því miður er ekki í salnum í kvöld enda mun hann hafa lagt út í þá hetjudáð að leggjast undir hníf lækna þessa dagana og getur því ekki verið með okkur hér í kvöld --- virðist t.d. hafa fengið þá flugu í höfuðið að honum bæri að stjórna með offorsi.
    Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu eftir Árna Björnsson, yfirlækni lýtalækningadeildar Landspítalans. Þar sem mér finnst hún vera nokkuð lýsandi um það hvernig mál hafa gengið fyrir sig langar mig til að vitna í hana hér, með leyfi forseta. Árni segir svo:
    ,,Í ,,Bókinni um veginn`` eftir spekinginn Lao-Tse segir svo um hinn duglega herforingja:
    ,,Duglegur herforingi lætur ekki ófriðlega. Sá sem vopnfimastur er, gengur ekki berserksgang. Mikill sigurvegari er ekki áleitinn. Góður foringi kemur sínu fram með hægð.```` --- Mættu nú ýmsir af ráðherrum okkar taka þetta til fyrirmyndar.
    ,,Þessi lýsing á hinum góða og duglega herforingja hefur ekki glatað gildi sínu í aldanna rás. Á tímum spekingsins hafa væntanlega verið til annars konar herforingjar sem létu ófriðlega, börðu bumbur, þeyttu lúðra og bitu í skjaldarrendur til að hræða þegna sína til hlýðni og óvinina til undanhalds. Tímarnir hafa breyst en mennirnir ekki. Foringjar haga sér á svipaðan hátt og þeir hafa gert í gegnum aldirnar. Hinn öruggi og dugmikli foringi sem þekkir markmið sín fer sér hægt og beitir valdi sínu af hógværð. Foringinn sem ekki þekkir markmið sín og er óöruggur með sjálfan sig, en vill láta liðsmenn sína og andstæðinga óttast sig, lætur enn ófriðlega, en í stað þess að láta blása í lúðra og berja bumbur, safnar hann að sér fjölmiðlaliði, sem tíundar fyrir lýðnum allt það sem foringinn ætlar að gera og í stað þess að bíta í skjaldarrendur, birtist hann á sjónvarpsskjánum daglega og stundum oft á dag, horfir fránum sjónum á liðsmenn og andstæðinga og sendir út tilskipanir.
    Því eru ummæli spekingsins Lao-Tse rifjuð upp hér,`` segir Árni, ,,að heilbrigðisstéttir og þeir sem njóta þjónustu þeirra, hafa nýlega eignast foringja. Sá tilheyrir þeim

flokki sem heitir Jafnaðarmannaflokkur Íslands og gekk á liðnu vori fram fyrir kjósendur, undir kjörorðunum: Jöfnun lífskjara og efling velferðarkerfisins.`` --- Ég verð að segja það að þessi orð Árna Björnssonar finnst mér eiga kannski aldrei betur við en akkúrat hér í kvöld.
    En ástæða þess að ég fór að vitna í þessa grein og tók hana með mér voru auðvitað ekki atburðir þessa kvölds, því þá gat ég ekki séð fyrir, heldur stjórnstíll hæstv. heilbrrh. Hann hefur að undanförnu hrært svo hraustlega í heilbrigðispottinum að allt virðist þar komið í einn graut. Engar útlínur verða lengur greindar, engar grundvallarskoðanir, engin stefna nema þá helst sú að skera niður, ekki bara núna, helst í gær. Hann lagði upp með þá hugmynd að sameina Landakotsspítala og Borgarspítala og skera sameiginlega fjárveitingu til þeirra niður um 310 millj. kr. Hann sagði í sjónvarpinu að þetta væri einföld og ódýr aðgerð. Á fjárlögum var fjárveiting vegna sameiningar 204 millj. kr. Þessar 204 millj. kr. áttu að greiða fyrir rekstri þeirra í tengslum við verkefnatilflutninginn og að auki voru 107 millj. kr. til að mæta kostnaði við sjálfan verkefnatilflutninginn. En auðvitað var þetta ekki einfalt og ódýrt mál. Kostnaður við breytingar á sjúkrahúsunum, þ.e. Borgarspítala og Landakoti, er nú varlega áætlaður einn milljarður kr. Svartsýnir menn segja lágmark tveir milljarðar. Reynslan hefur kennt mér að hægt sé að fara bil beggja og þess vegna megi áætla að kostnaðurinn verði um 1,5 milljarðar.
    Ég er hrædd um að margir hafi talið að fjárvana ríkissjóður gæti nýtt þetta fé í annað en þetta ævintýri. Það væri kannski í lagi að setja 1,5 milljarða í slíka sameiningu ef fyrir hefði legið að þetta væri rakinn sparnaður og hagræði í framtíðinni. En ekkert lá fyrir um það og enn liggur ekkert fyrir um það. En þegar karlmenn vilja ólmir í ævintýri er gott að eiga góðar og staðfastar konur. Í þessu tilviki reyndust guðhræddar konur á elliheimili í Garðabæ betri en engin. Þær settu hæstv. ráðherra stólinn fyrir dyrnar. Og við það hefur nú fengist frestur sem mikilvægt er að nota skynsamlega og skoða alla kosti yfirvegað og með rósemi hugans ef hana er þá að finna hjá hæstv. heilbrrh. eða nokkrum öðrum ráðherra.
    Sér í lagi virðist heilbrrh. hafa heldur suðrænt geðslag. Hann verður nú að fá sína ,,vendettu``, fá sína hefnd. Hann fyrirhugar nú að skera niður á Landakoti 400 millj. kr. ef miðað er við fjárveitingu á fjárlögum ársins 1991. Með öðrum orðum á að skera fjárveitinguna til spítalans úr 1.263 millj. í 831 millj. kr. Engu að síður á spítalinn að afla sér sömu sértekna og á síðasta ári eða 152 millj. kr. þrátt fyrir að verulega þurfi að draga úr starfsemi spítalans. Það má því segja að starfsemi spítalans sé stillt upp andspænis sömu valkostunum og sveitarfélögunum. Eða með öðrum orðum: Spítalinn getur valið um það hvort það á að hengja eða skjóta en líflát skal það vera.
    Borgarspítalinn virðist hafa verið heldur samvinnuþýðari en Landakot enda stærri og kannski til meira að vinna fyrir hann og ekki hefur verið skorið eins harkalega niður rekstrarframlagið þar. En þó hefur það verið skorið talsvert niður eða úr 2,8 milljörðum kr. á fjárlögum ársins 1991 í 2,5 milljarða kr. árið 1992. Þetta er með öðrum orðum 324 millj. kr. niðurskurður en á móti kemur að ráðherra ætlar að losa spítalann við hinn beiska kaleik að reka Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar. Á því sparast líklega um 50 millj. kr. Mun ég koma síðar að þeim þætti. Gulrótin í sameiningarmálunum var að leysa nokkuð úr brýnasta vanda aldraðra hjúkrunarsjúklinga í Reykjavík. Sá vandi er vissulega mikill og hann krefst raunhæfra útbóta. En það orkar tvímælis svo ekki sé meira sagt að það hafi verið raunhæfur og hagkvæmur kostur að gera Landakot að öldrunarspítala. Í raun kemur út úr því dæmi, sem fyrir liggur í gögnum þingmanna og sem þeir væntanlega hafa lesið eins og öll önnur gögn sem á borðum þeirra liggja, að þetta er afskaplega léleg nýting á rými. Í hlut hvers sjúklings koma um 80 m 2 nettó. Svo samanburður sé tekinn eru um 34 m 2 á hvern sjúkling á Sólvangi, í Sunnuhlíð eru 40 m 2 og á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi 72 m 2 . Ef við tökum bara þennan milljarð, sem nefnd sú, sem ráðherra skipaði til að vinna að málinu, reiknar með að fari í þessar breytingar, hefði engu síður hvert rými fyrir aldraða á Landakoti kostað um 9 millj. kr. Þetta er jafnmikill stofnkostnaður og á nýju

og sérhönnuðu hjúkrunarheimili, Eir í Grafarvogi, sem m.a. er hannað fyrir Alzheimer-sjúklinga að hluta en þeir þurfa meira rými en aðrir öldrunarsjúklingar. Þá er þess að geta að rekstrarkostnaður á slíkum stofnunum hækkar í svipuðu hlutfalli eða í hlutfalli við stærð rýmisins. Með öðrum orðum má reikna með að rekstrarkostnaður á þeim öldrunarspítala sem Landakot var fyrirhugað að verða yrði mikill.
    Mig langar í þessu sambandi að vitna í sérálit hjúkrunarforstjóra Landakotsspítala sem hún skilaði sem einn af nefndarmönnum í nefndinni sem ráðherra skipaði til að kanna þessi sameiningarmál. Í þessu nál. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt áliti nefndarinnar er gert ráð fyrir að 111 öldrunarlækninga- og hjúkrunarsjúklingar verði á Landakotsspítala sem mun vera um 9.000 m 2 . Þannig koma um 80 m 2 í hlut hvers sjúklings. Landakotsspítali yrði því að mínu mati dýr öldrunarspítali auk þess sem marvíslegra breytinga á húsnæði er þörf áður en af því getur orðið.`` Þá segir hún: ,,Mönnun á öldrunarlækninga- og hjúkrunardeildum er vandamál jafnvel þótt um nýtísku sérhannaðar deildir sé að ræða eins og lokun hjúkrunardeildar í B-álmu ber vott um. Ég vara því við að erfitt muni verða að manna öldrunarlækninga- og hjúkrunardeildir í óhentugu húsnæði Landakots. Í dag eru talin 137 rúm fyrir öldrunar- og hjúkrunarsjúklinga á Hvítabandi, Heilsuverndarstöð og Hafnarbúðum og í B-álmu Borgarspítala. Eftir sameiningu er gert ráð fyrir 171 rúmi, þ.e. aukning um 24 rúm.`` --- 24 rúm, hæstv. forseti. Rætt hefur verið um að taka 10 rúm af lyflækningadeild þannig að aukningin gæti orðið 34 rúm sem hrekkur skammt til að leysa vanda 200--300 aldraðra sem nú eru sagðir bíða eftir slíku rými. Og í þessi 34 rúm --- til að ná nú þessu fram og til að fá fólk til að bíta í gulrótina --- þá á að eyða einum milljarði.
    Ég talaði áðan um rými og benti á að það væru um 80 m 2 á hvern sjúkling á Landakotsspítala eftir breytingu sem er talsvert mikið vegna þess hversu húsnæðið er óhentugt. Í þessu sambandi má geta þess að nýir norskir staðlar gera ráð fyrir að flatarmálið á hvern sjúkling á hjúkrunarheimili sé um 48--60 m 2 .
    Það er þekkt að mikill skortur er á hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík, eins og kemur fram í nefndaráliti hjúkrunarforstjóra Landakots. Eiginleg hjúkrunarpláss í Reykjavík eru fimm á hverja 100 aldraða og fara í 8 ef allt er meðtalið. Landsmeðaltalið er hins vegar 13. Það gefur því auga leið að mjög brýnt er að úr þessu verði bætt í Reykjavík. Auðvitað liggur beint við að ljúka B-álmunni sem hefur verið munaðarlaus bygging í mörg ár eða allt frá því að Framkvæmdasjóður aldraðra hætti að fjármagna og framlög af fjárlögum áttu að taka við. Byggingarframkvæmdir þar hafa haldið áfram með hraða snigilsins og ef svona heldur áfram þá verður sú bygging ekki fullbúin fyrir árið 2010.
    Nú vaknar auðvitað sú spurning hvort fyrirhugað sé að nota í B-álmuna eitthvað af þeim 195,5 millj. kr. sem eru komnar inn á fjárlagalið núna eftir að ljóst var að ekki yrði af sameiningu. Ekkert liggur fyrir um það, þetta er óskilgreindur liður á fjárlögum. Nú hefði ég auðvitað kosið að spyrja hæstv. heilbrrh. eða einhvern ráðherra sem eitthvað veit um þessi mál, hvernig þessu sé háttað. Ég vonast til þess að heilbrrh., sem af skiljanlegum ástæðum getur ekki verið hérna í kvöld, fái a.m.k. þessa spurningu þannig að hann geti þá svarað henni síðar í umræðunni. Ég sem sagt spyr: Er áætlað að eitthvað af þessum 195,5 millj. fari í B-álmuna eða á að nýta það í eitthvað annað?
    Þá hlýt ég líka að spyrja hvernig velviljinn í garð aldraðra hjúkrunarsjúklinga í Reykjavík birtist í fjárlagafrv. að öðru leyti. Ég fæ ekki séð að hann sé mikill.
    Ég minntist á Fæðingarheimilið áðan og mig langar að gera það lítillega að umtalsefni. Ég er hrædd um að ef þetta verður að veruleika sem nú er fyrirhugað, þ.e. að flytja rekstur Fæðingarheimilisins frá Borgarspítalanum og yfir á Landspítalann, að margar konur í Reykjavík telji sig illa sviknar af hæstv. forsrh. sem fyrir rétt rúmu ári sem borgarstjóri í Reykjavík lofaði þeirri stofnun á afmæli hennar bjartri framtíð og löngum lífdögum. Nú er það hann sem á hlut að því að leggja þessa stofnun niður. ( Gripið fram í: Viltu ekki fá forsrh. í salinn?) Er hægt að fá forsrh. í salinn? ( Forseti: Ef þess er óskað þá mun forseti gera ráðstafanir til að forsrh. verði viðstaddur.) Ég óska eftir því að a.m.k.

einhver ráðherra sé viðstaddur þessa umræðu. Það var ákveðið, væntanlega að þeirra beiðni m.a., að halda áfram umræðu um fjárlög og þá held ég að það sé ekki nema sanngjarnt að einhverjir þeirra séu viðstaddir þessa umræðu. Þeir eru ákafir að hlusta á fjárlagaumræðu veit ég og þess vegna ekki nema eðlilegt að þeir séu í salnum. Ég hefði svo sem kosið að sjá fleiri í salnum. Ég hefði kosið að sjá einhverja af sjálfstæðiskonunum í salnum þegar ég ræði um Fæðingarheimilið í Reykjavík. Ég hlýt að spyrja: Hvar eru allar sjálfstæðiskonurnar sem börðust fyrir framtíð Fæðingarheimilisins með oddi og egg í tíð vinstri meiri hlutans í borgarstjórn? Þá voru uppi fyrirætlanir um að leggja Fæðingarheimilið niður. Þá gengu fram fyrir skjöldu fjölmargar sjálfstæðiskonur, ásamt auðvitað fleiri konum, og söfnuðu undirskriftum til að reyna að tryggja það að Fæðingarheimilið mætti vera áfram í rekstri og það tókst. En hvar eru þær nú? Hvar er vörn þeirra fyrir þessa stofnun? Ég get mér þess til að engin sjálfstæðiskona sé í þinghúsinu í kvöld fyrst engin þeirra er viðstödd umræðuna. Virðist nú að þær sinni öðrum störfum en þingstörfum og mundu nú kannski margir kjósa að fara í þeirra spor en eiga ekki þann kost. ( Fjmrh.: . . . sýnist.) Hvað sagði hæstv. fjmrh.? ( Fjmrh.: Hann endurtekur það ekki.) Hann endurtekur það ekki, nei, það er kannski best að sleppa því. Vilja þessar sjálfstæðiskonur nú standa að því að leggja þetta heimili niður sem fæðingarstofnun? Vilja þær flytja allar fæðingar inn á hátæknisjúkrahúsið Landspítalann? Hvar er nú valfrelsið sem sjálfstæðismenn prísa svo mjög á hátíðarstundum? Hvar er ögrunin sem fylgir samkeppni? Hvar er hún? Hvernig stendur á því að konur hafa þurft að verja þessa stofnun fyrir niðurskurðarhnífum karla á valdastólum aftur og aftur? Það er hver atlagan á fætur annarri gerð að þessari stofnun. Skyldi það vera tímanna tákn og m.a. tákn ríkisstjórnarinnar að þrjár sjúkrastofnanir sem voru byggðar upp og reknar af konum til skamms tíma með miklum ágætum eru nú öðrum fremur undir niðurskurðarhnífnum? Ætla menn algerlega að líta fram hjá þeim kostum sem þær stofnanir eru prýddar og einblína fránum arnaraugum á ef ekki ímyndað þá a.m.k. ósannað hagræði við að leggja þær af eða skera niður við trog? Hvar er stefnan í heilbrigðismálum? Hver er framtíðarsýnin? Hver er heildarmyndin? Ég auglýsi eftir þessu í ríkisstjórnarliðinu og ekki bara í heilbrigðismálum heldur í flestum málum.
    Í þeirri fjárlagaumræðu sem fram hefur farið á undanförnum dögum og vikum hefur svartsýni og bölmóður svifið yfir vötnum og það eina sem menn virðast koma auga á sér til bjargar er niðurskurður. Þjóðhagsstofnun framleiðir hverja þjóðhagsspána annarri verri. Þjóðartekjur minnka frá mánuði til mánaðar, kaupmáttur rýrnar og atvinnuleysi vex --- í spánum. Mér segir svo hugur að menn telji ekki mjög heppilegt að sýna fram á nokkra ljósglætu því hana er hvergi að sjá í þeim pappírum sem ríkisstjórnin lætur frá sér fara; að menn telji ekki heppilegt að benda á slíkt meðan þeir eru að koma niðurskurðaráformum sínum í framkvæmd og ganga frá kjarasamningum. Það er heldur ekki gott að sýna neina ljóstýru meðan verið er að smala saman stjórnarliðinu og fá það til að kokgleypa hugsjónir sínar og hjartans mál, eins og við höfum orðið vitni að hér á undanförnum dögum.
    Hæstv. fjmrh. og forsrh. hafa báðir sagt það á Alþingi á undanförnum vikum að allir verði að leggja sitt af mörkum. En auðvitað er það eins og hvert annað sjónarspil. Það verða ekkert allir að leggja sitt af mörkum við það að ná niður fjárlagavanda ríkisins. Það eru tveir aðilar öðrum fremur. Það eru sveitarfélögin og barnafjölskyldurnar í landinu sem eiga að ná þessu niður. Það á að innheimta nefskatt í sveitarfélögum, hinn svokallaða og illræmda lögguskatt sem hér hefur margoft komið til umræðu og ætla ég ekki að fara ítarlega út í það. Hann á að skila 700 millj. kr. og það er þegar ljóst að nokkur sveitarfélög munu hækka útsvarsprósentu sína til að mæta þessu. Og hvað er þetta annað en aukin skattheimta, herra fjmrh.?
    Það er ljóst að lögguskatturinn kemur þungt niður á ýmsum sveitarfélögum úti á landi og í honum eru mörg sérkennileg stökk, svo ekki sé meira sagt. Eins og allir vita eiga sveitarfélög með 300 íbúa og færri að borga 1.700 kr. pr. íbúa, en stærri sveitarfélög 2.850 kr. pr. íbúa. Þá er auðvitað allt með talið, börn og gamalmenni. Þannig að ef útsvarsgreiðendur eru aðeins teknir er ljóst að upphæðin er mun hærri.
    En ég talaði um sérstök stökk í þessu efni. Mig langar til að benda á t.d. eins og einn hrepp sem er Nesjahreppur. Í Nesjahreppi býr 301 íbúi. Þessi eini íbúi gerir það að verkum að lögguskatturinn hjá þessu sveitarfélagi fer úr 1.700 kr. í 2.850 kr. Með öðrum orðum, þessi eini íbúi kostar sveitarfélagið 346 þús. kr. Ef það væru 300 íbúar í þessu sveitarfélagi þá væri þessi nefskattur á sveitarfélagið 346 þús. kr. lægri. Það má geta þess að í þessu sveitarfélagi, sem er reyndar svona um meðaltal hvað varðar tekjur vegna útsvars, fasteignaskatts og aðstöðugjalds pr. íbúa, er álagningarprósentan nýtt að fullu, þ.e. 7,5% og verður ekki hækkuð þrátt fyrir þennan nefskatt, þannig að hann mun beinlínis skerða tekjur þessa sveitarfélags án þess það hafi möguleika á að bæta sér það upp.
    Það má nefna annað sveitarfélag sem er Gnúpverjahreppur. Þar eru 304 íbúar. Þeir fara líka yfir markið og fá þar af leiðandi á sig 2.850 kr. nefskatt pr. íbúa sem annars væri 1.700 kr.
    Ég get nefnt hér einn enn sem er Seyluhreppur sem er með 305 íbúa. Það er hreppur sem er með tekjur vegna útsvars, fasteignaskatts og aðstöðugjalds og landsútsvars undir meðaltali. Þessi hreppur nýtir líka álagningarprósentu sína að fullu og getur þar af leiðandi ekki bætt sér þetta upp með þeim hætti sem t.d. sveitarfélögin hér í kring, eins og Mosfellsbær og Hafnarfjörður hugsast gera með því að hækka álagningarprósentuna. Þessir fimm íbúar sem eru umfram 300 í Seyluhreppi kosta þetta sveitarfélag 350 þús. kr.
    Enn eitt dæmi ætla ég að taka og það er Reykdælahreppur. Þar búa 313 íbúar. Það vill svo til að í þeim hreppi er reyndar ekki lagt á nema 7% útsvar en sá hreppur er talsvert undir meðaltali í tekjum pr. íbúa og mun því þessi skattur líka hitta þann hrepp illa fyrir.
    Þetta er ekki það eina. Til viðbótar auknum álögum vegna lögguskattsins koma svo auknar álögur vegna Fasteignamats ríkisins en þar eiga sveitarfélögin að fara að borga í meira mæli en verið hefur fyrir þá þjónustu sem Fasteignamatið veitir og vegna framlaga til félagslegra íbúða, en þar er ráðgert að sveitarfélögin eigi að greiða sem svarar 3,5% af verði hverrar íbúðar og eru það áætluð gatnagerðargjöld sveitarfélagsins sem þau þurfa að leggja þar að mörkum. Þá þurfa sveitarfélögin líka, sem stór atvinnurekandi í landinu, að greiða talsvert framlag vegna ábyrgðasjóðs launa sem er ein af þeim hugmyndum eða tillögum sem ríkisstjórnin hefur boðað og mun ekki aðeins koma illa niður á sveitarfélögunum sem atvinnurekendum heldur auðvitað ekki síður á launþegum en réttindi þeirra verða verulega skert ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar um úthlutun úr þeim sjóði ná fram að ganga.
    Í þessum málum öllum var samráð við sveitarfélögin nær ekkert. Fyrst dúkkaði upp tillagan um það að færa umtalsverða þjónustu, sem veitt er fötluðum, yfir á sveitarfélögin og láta þau borga fyrir það. Þá kom upp að það mundi lenda mjög misjafnlega á sveitarfélögum og þá var þeim hreinlega sagt að finna leið til að borga tollheimtumönnum í ríkisstjórninni. Í heild er það rúmur milljarður sem sveitarfélögin verða að taka á sig í auknum álögum ef frv. ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.
    Það liggur fyrir að ákveðin sveitarfélög ætla að brjótast undan þessum álögum ríkisvaldsins með því að hækka útsvarsprósentu sína upp í 7,5% eins og ég gat um áðan og með því móti öðlast þau rétt til tekjujöfnunarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það takmarkar auðvitað það fé sem Jöfnunarsjóðurinn hefur til að úthluta smáum sveitarfélögum sem eru illa stödd og það er talið að þetta geti orðið til þess að skerða framlög til þeirra um allt að 40%.
    Þetta hefur auðvitað leitt til þess að segja má að sveitarfélög séu nú komin í hár saman. En það kemur mér ekki á óvart þó að mönnum sé það hugnanlegt því ef ég þekki hæstv. forsrh. rétt, þá lætur honum best að deila og drottna. En það er líka gerð tilraun til þess að etja barnafólki saman. Flytja þar frá einum hópi til annars. Frá hjónum með meðaltekjur til einstæðra foreldra. Og ekki einu sinni hjónum með meðaltekjur heldur undir meðaltekjum. Ef við tökum dæmi af hjónum með tvö börn þá er núllpunkturinn hjá þeim, þ.e. þar sem ekki skiptir máli hvort þau fá greitt samkvæmt núgildandi barnabótakerfi eða

samkvæmt því kerfi sem ríkisstjórnin leggur til, þá er núllpunkturinn 2,2 millj. í árstekjur og skerðingin er komin að fullu til framkvæmda við 2,4 millj. Full skerðing á barnabótum samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar nemur 35,5%. Það hefur verið reiknað út, ef við tökum fjölskyldu með þrjú börn, að þetta nemi 4.000 kr. á mánuði. Þetta er ekkert annað en skattur á barnafólk. Þetta er skattur á barnafólk meðan aðrir vel stæðir, barnlausir, þurfa ekkert að greiða í púkkið sem hér er verið að fjalla um í fjárlögum. En þetta er auðvitað gert í nafni réttlætis og menn segja: Tekjutenging er réttlát. Það hafa margir fallist á það úti í samfélaginu að það sé réttlátt að tekjutengja. En hver talaði um að tekjutengingin ætti að byrja við 2,2 millj. hjá hjónum með tvö börn? Hvaða réttlæti er í því?
    Í nafni réttlætisins er sem sagt innheimtur 500 millj. kr. skattur af barnafólki. Auðvitað er þetta ekkert annað en aðför að fjölskyldunni. Fjölskyldan á sér formælendur fáa í ríkisstjórnarliðinu.
    Mig langar í þessu sambandi til að minna á það --- nú hefði ég kosið að hæstv. utanrrh. væri í salnum því ég þarf að eiga aðeins orð við hann. ( Forseti: Ég er að gera ráðstafanir til þess að utanrrh. verði í salnum.) Ég bíð á meðan. --- ( Forseti: Hæstv. utanrrh. hefur tjáð mér að hann ætli ekki að koma.) Herra forseti, ég get ekki með nokkru móti sætt mig við það að utanrrh. komi ekki vegna þess að ég þarf að eiga orðastað við hann vegna aðgerða sem hann stóð að sem fjmrh. á sínum tíma og koma þessu máli mjög við. Ég þarf ekki að tala við hann sem utanrrh. núna heldur sem fyrrv. fjmrh. og mun ekki halda áfram máli mínu fyrr en utanrrh. er kominn í salinn. ( Forseti: Ég verð að upplýsa hv. þm. um það að ég hef ekki ráð á vilja hæstv. utanrrh. Ég mun gjöra aðra tilraun til þess að biðja hann um að koma hér í salinn að beiðni hv. þm.) --- Ég hef nú ekki þingsköpin við höndina en ég veit ekki betur en það sé skylda ráðherra, eins og annarra þingmanna, að sækja þingfundi og ef ráðherra er í húsinu þá tel ég það skyldu hans að sitja hér í þingsalnum sé þess óskað eindregið. --- Þar sem ég sé að hæstv. utanrrh. gengur nú í salinn þá ætla ég að halda áfram ræðu minni. Til að upplýsa hæstv. utanrrh. ætla ég að rekja lítillega það sem ég var að segja.
    Ég var að tala um barnabætur og benti á að þessi hæstv. ríkisstjórn ætlaði nú í nafni réttlætis og tekjutengingar að innheimta 500 millj. kr. skatt af barnafólki. Ég sagði að þetta væri aðför að fjölskyldunni og hún ætti sér formælendur fáa í ríkisstjórnarliðinu. En þetta er ekki bara aðför að fjölskyldunni, þetta eru líka svik við það sem fjölskyldufólki var lofað og því var fært árið 1988 þegar hæstv. utanrrh. og þáv. fjmrh. stóð fyrir því að koma hér á hinum illræmda matarskatti. Þá hélt núv. utanrrh. og þáv. fjmrh. langar ræður hér í þinginu um ágæti þess að taka upp virðisaukaskattskerfi og leggja virðisaukaskatt á matvæli. Í anda sjónhverfingarpólitíkur sinnar og í anda þeirra loftfimleika sem hér eru stundaðir af miklu kappi gat hann auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þetta kostaði fólkið ekki neitt, þetta væri fólki til hagsbóta. En hann sagði hér, með leyfi hæstv. forseta, og mig langar að lesa úr ræðu sem hann flutti í efri deild Alþingis þann 10. des. 1987. Þá sagði þáv. fjmrh. og núv. utanrrh., með leyfi forseta:
    ,,Það er auðvitað rétt, og hefur aldrei verið undan dregið í mínum málflutningi, að matarútgjöld heimila hækka með þessum breytingum. Það er hins vegar argasta blekking að halda því fram að matarútgjöld hækki um fjórðung. Hið rétta í því máli er að matarreikningur meðalfjölskyldu á Íslandi gæti hækkað um 7% þegar upp er staðið.`` --- Nokkru síðar segir hann:
    ,,Þetta eru um 1.800 kr. á mánuði hjá þessari sömu vísitölufjölskyldu, hjónum með tvö börn. Það eru auðvitað peningar. En hvað kemur á móti þessum 1.800 kr. á mánuði í auknum útgjöldum? Á móti kemur lækkun á fjölmörgum öðrum nauðsynjavörum því þótt það sé auðvitað rétt að menn borði ekki hreinlætisvöru eða frystikistur eða teppi eða barnavagna eru þetta engu að síður vörur sem ganga inn í heimilishald allra fjölskyldna í landinu. Þessar vörur og raunar fjölmargar aðrar vörur sem vega þungt í heildarútgjöldum lækka svo mikið í verði að heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar haldast óbreytt.``
    Og svo sagði þáv. fjmrh. og núv. utanrrh.:

    ,,Nú kann einhverjum að koma spánskt fyrir sjónir að framfærslukostnaður geti haldist óbreyttur þrátt fyrir 7% hækkun matvælaútgjalda. Skýringin á þessu er einföld.`` --- Eins og allt hjá hæstv. utanrrh. --- ,,Hún liggur í því að matvælaliðurinn í framfærsluvísitölunni vigtar minna en fjórðung af heildarútgjöldum vísitölufjölskyldunnar samkvæmt neyslugrunni sem fundinn er með sérstakri könnun frá árinu 1978 og vegur enn minna í útgjaldamynstri vísitölufjölskyldunnar samkvæmt nýjum vísitölugrunni sem byggður er á neyslukönnun heimilanna á þessu ári.`` --- Síðan er ráðherra með langar útlistanir á ársútgjöldum vísitölufjölskyldunnar, en segir svo:
    ,,Lítum á annað atriði. Nú er það auðvitað svo að neysluvenjur fólks eru misjafnar og það er svo undarlegt með þessa blessaða vísitölufjölskyldu að hún virðist eiga sér fáa formælendur og vera heldur vinafá.`` --- Og það eru sannarlega orð að sönnu ef litið er á aðgerðir núv. ríkisstjórnar, hún er a.m.k. vinafá þar. --- ,,Samt sem áður er hún engu að síður þverskurður af fjölskyldum í landinu og neysluútgjöldum þeirra. Og þá má spyrja sem svo: En hvað með aðrar fjölskyldur? Fjölskyldur með fleiri börn? Fjölskyldur eldra fólks? Og svarið er þetta: Þótt þessar aðgerðir komi út á sléttu gagnvart meðalfjölskyldunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að til viðbótar við auknar niðurgreiðslur skuli varið 600 millj. kr. á næsta ári í auknar lífeyrisgreiðslur og barnabætur.`` --- Þ.e. til ellilífeyrisþeganna og til barnafólksins. ,,Þessari fjárhæð verður varið þannig að u.þ.b. helmingur hennar rennur til að hækka lífeyrisgreiðslur um áramótin þannig að heildarhækkun bótagreiðslna verði 7%`` --- átti væntanlega að vega upp á móti þeim 7% sem staðgreiðslukostnaðurinn hækkaði. Og reyndar segir hann: ,,Þ.e. jafnmikil og nemur áætlaðri hækkun á matvælum vegna þessara aðgerða. Hinn helmingur fjárhæðarinnar verður notaður til að hækka barnabætur og barnabótaauka um 10% frá áramótum. Jafnframt verður ákveðinni fjárhæð varið til að hækka skerðingarmörk í barnabótaauka sérstaklega, en hann er tekjutengdur, ef börn eru fleiri en eitt. Þessi hækkun barnabóta og barnabótaauka, hækkunin ein, samsvarar 5.000 kr. á hvert barn á ári að meðaltali. Með þessum viðbótaraðgerðum til tekjujöfnunar er því enn frekar dregið úr áhrifum hækkunar á matvælaútgjöld að þessu sinni hjá barnmörgum og tekjulágum fjölskyldum. Þetta eru staðreyndir málsins að því er varðar annars vegar meðalfjölskylduna, hins vegar barnmargar fjölskyldur og í þriðja lagi þá sem hafa tekjur sínar frá almannatryggingakerfinu.`` Svo segir hann:
    ,,Það er rétt að geta þess hér að barnabætur eru greiddar út með um 64 þúsund börnum. Hækkun barnabóta og barnabótaauka svarar því til, eins og ég sagði, miðað við þessar upphæðir, um 5.000 kr. á ári á hvert barn, þ.e. þegar miðað er við að til hækkunar barnabóta og barnabótaauka verði varið um 320 millj.`` --- og ég bið menn að setja á minnið 320 millj. kr. --- ,,sem skiptist þannig að 280 millj. verði varið til sérstakrar 10% hækkunar barnabóta og barnabótaauka, en um 40 millj. til hækkunar skerðingarmarka ef börn eru fleiri en eitt.``
    Nú vill svo furðulega til að ef þessar 320 millj. eru framreiknaðar miðað við meðalverðlag ársins 1988 þegar þetta kom til framkvæmda og forsendur fjárlaga fyrir næsta ár þá eru þetta nákvæmlega 500 millj. kr. þannig að núna er verið að taka af barnafólki á einu bretti það sem því var fært árið 1988 og átti að vega upp á móti hækkun matarútgjalda. Sá ráðherra sem hrósar sér af því í þessari ræðu að hafa komið þessu á er að standa að því að þetta sé tekið aftur og svona eru efndirnar og svona eru lagasetningar þessara manna.
    En þetta er auðvitað ekki það eina sem lendir á barnafólki. Á barnafólki lenda líka auknar byrðar vegna annarra hluta, svo sem vegna læknis- og lyfjakostnaðar. Ég fór nokkuð ítarlega í það mál þegar rætt var um hinn svokallaða bandorm en þar benti ég m.a. á það að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu við börn er tvöfalt til þrefalt meiri en vegna fólks á besta aldri. Með öðrum orðum: Börn nota þessa þjónustu mun meira en fólk á besta aldri.
    Það skal þó sagt að í heilbr.- og trn. Alþingis náðust fram ákveðnar lagfæringar á þessum hlutum þannig að það má betur við það una en fyrirhugað var og ætla ég að þakka

þar sérstaklega þá góðu samvinnu sem hefur átt sér stað um þetta mál í hv. heilbr.- og trn. Alþingis. Þar hafa menn sýnt samningavilja, samningalipurð en ekki yfirgang og offors eins og virðist vera lenska a.m.k. í dag.
    En þetta er bara ein hliðin á málinu. Önnur er sú að í þessu fjárlagafrv. er boðuð mun verri þjónusta í skólakerfinu. Það á að skera niður launalið grunnskólans um 6,7% eða um 343,5 millj. brúttó. Þar af falla 137 millj. á svokallaðan safnlið ráðuneytisins sem ráðherra getur væntanlega ráðstafað síðan að eigin geðþótta. En nettóniðurskurður í grunnskólanum á næsta ári er um 200 millj. kr. Þetta þýðir auðvitað að það verður að skera verulega niður fræðslumagnið í grunnskólanum og það verður að fækka daglegum kennslustundum. Ef fyrstu þrjár greinar bandormsins í óbreyttri mynd verða að veruleika er búið að gefa ráðherra heimild til að útdeila kennslumagninu í grunnskólanum. Þá er búið að opna fyrir það að ráðherra útdeili kennslumagninu á nemendur í grunnskólanum. Þess vegna höfum við lagt á það mikla áherslu að þetta náist í burtu.
    Þessi 200 millj. kr. niðurskurður í grunnskólanum er enn alvarlegri fyrir þá sök að allur niðurskurðurinn kemur á haustmissiri. Það er of seint að ætla sér að taka hann á vormissirinu. Þá kennslu er búið að skipuleggja. Það er búið að ráða kennara, það er búið að skipta börnum niður í bekki og honum verður ekki viðkomið að neinu leyti á vormissirinu þannig að þennan 200 millj. kr. niðurskurð þarf að taka á fjórum síðustu mánuðum ársins, september, október, nóvember og desember. Ég verð að segja að mér þykir hæstv. menntmrh. vera kjarkmikill og djarfur ef hann heldur að hann geti náð þessu fram. Sé hann þeirrar skoðunar að þetta sé gerlegt þá hlýt ég að spyrja hvort hann viti ekki hvað hann er að gera. Vita þeir menn sem standa að ríkisstjórninni, hvort þeir heita ráðherrar eða almennir þingmenn, ekki hvað þeir eru að gera? Þekkja menn ekki óánægju foreldranna með þjónustu skólakerfisins? Ég er sannfærð um það að standi ráðherra að því að skera niður í grunnskólanum 200 millj. kr. mun það valda verulegri ólgu meðal foreldra þeirra barna sem skólann sækja og það mun grafa endanlega undan tiltrú fólks á opinberu skólakerfi. En kannski það sé einmitt markmiðið, að draga undan tiltrú fólks á opinberu skólakerfi.
    Á undanförnum missirum hafa menn gengið fram fyrir skjöldu og prísað mjög einkavæðingu, líka í skólakerfinu og mér segir svo hugur að ýmsir í stjórnarliðinu sjái sér leik á borði að skapa svigrúm fyrir einkarekstur í skólakerfinu. Þeir foreldrar sem eru borgunarmenn munu, ef þessi niðurskurður verður að veruleika, hugsanlega krefjast þjónustunnar gegn greiðslu ef ekki vill betur. Þeir munu því í auknum mæli sækja í einkaskóla standi það á annað borð til boða og mér sýnist að það muni a.m.k. ekki verða neitt hik á borgarstjórn Reykjavíkur að opna fyrir þá möguleika. Þeir foreldrar sem hafa ráð á, neiti einfaldlega að fórna hagsmunum barna sinna á altari sparnaðaráforma ríkisvaldsins. Þeir gefist upp fyrir menningarleysi ríkisvaldsins og skilningsleysi þess á aðstæðum og þörfum barna.
    Þetta var um niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast barnafjölskyldum í landinu. En það á líka að taka af launafólki með beinum aðgerðum og það er gert í gegnum sjómannaafsláttinn sem menn hafa verið að semja um á göngum allt til dagsins í dag og þá öðrum fremur stjórnarliðar sem ekki hafa getað komist að sameiginlegri niðurstöðu um það mál og eins í gegnum ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota því eins og ég gat um í fyrri ræðu minni verða réttindi launafólks til útgreiðslna úr þeim sjóði verulega skert. Segja má ef það mál verður að veruleika að engin trygging sé fyrir því að þeir muni ná nema rétt lágmarksréttindum. Í dag geta þeir fengið sex mánaða laun greidd út úr þessum sjóði, auðvitað með ákveðnu hámarki, sem mig minnir að sé um 120 þús. kr. á mánuði, en með þetta á að fara niður í þrjá mánuði. Sjóðurinn mun ábyrgjast þriggja mánaða laun vegna gjaldþrota og einnig verður sett þak á þessi laun þannig að það fer niður í 90 þús. kr. Þarna á líka að seilast í vasa launafólks.
    Svo segist þessi ríkisstjórn ekki hækka skatta, hún segist ekki vera skattahækkunarstjórn. Ef þetta er ekki skattahækkunarstjórn er aðeins eitt orð til yfir þessa ríkisstjórn, ein skilgreining og það er álagastjórn. Hún leggur álögur á almenning og hún er álög á almenningi.
    Nú hefði ég kosið að hæstv. forsrh. væri í salnum því að ég tel að hann muni þekkja nokkuð þau orð sem ég ætla að viðhafa í ræðu minni. Mig langaði að minna hann á hans eigin orð við ákveðið tilefni og óska ég eftir því að hæstv. forsrh. sé í salnum. --- Ég var að biðja um hæstv. forsrh. í salinn og þar sem hann er nú kominn þá held ég áfram ræðu minni.
    Ég ætlaði að minna hæstv. forsrh. á það að sl. vor lýsti hann þáv. ríkisstjórn í sjónvarpsþætti þar sem hann sat fyrir svörum með þeim orðum að þar væri allt upp í loft. Hann sagði um ríkisstjórnina, ef ég man þetta rétt: ,,Ríkisfjármálin eru upp í loft, kjaramálin eru upp í loft, samstarf stjórnarflokkanna er upp í loft.`` Sömu skilgreiningu mætti nota á núv. ríkisstjórn sem er auðvitað undir forustu hæstv. forsrh. Það mætti segja um hana að þingflokkar stjórnarliðsins væru upp í loft, kjaramálin upp í loft, samstarf við sveitarfélögin upp í loft, tengslin við VSÍ upp í loft, álverið upp í loft, samningar um Evrópskt efnahagsvæði upp í loft og þingstarfið hér upp í loft. Þannig er nú málum komið undir forustu hæstv. forsrh. sem taldi að hjá öðrum hefði allt verið upp í loft í vor. Ég hef sjaldan orðið vitni að því að hlutir væru eins mikið upp í loft og núna. Það er einlæg ósk mín að þessi loftköst öll verði til þess að kollvarpa ríkisstjórninni svo að gíslar stjórnarinnar í báðum þingflokkum losni úr viðjum hennar og almenningur við álög hennar því að þetta er ekki bara álagastjórn, þetta er álagastjórn. Hún leggur ekki bara á fólk nýjar álögur, hún er álög á fólki.
    Hér á þingi var mjög erfið fjárlagaumræða og lagafúsk um áramótin 1987--1988 og það var fyrirborði um fall þáv. ríkisstjórnar. Og ég segi bara: Guð, lát erfiða umræðu núna á gott vita svo fílaballinu í glervörubúðinni fari senn að ljúka og þá geta aðrir tekið til við þá miklu viðreisn sem þörf er á eftir þetta. En af því að hér hefur verið reynt að ná samningum í kvöld við hæstv. ríkisstjórn þannig að ljúka mætti þessu þinghaldi og það hefur ekki gengið heldur er allt upp í loft, þá langar mig líka til þess að minnast á þetta ,,upp-í-loft-ástand`` sem hefur ríkt í stjórnarliðinu að undanförnu. Við höfum horft á einstaklingsbundnar uppreisnir stjórnarliða. Þeir hafa verið í einstaklingsbundinni uppreisn hver á fætur öðrum. Þeir hafa margir hverjir verið einhvers staðar á fleti fyrir þar sem niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar hefur sést bregða fyrir. Svo undarlega hefur auðvitað viljað til að þeir hafa undirritað mörg af þeim bréfum sem hafa borist inn sem mótmæli við áformum ríkisstjórnarinnar. En það virðist eins og þeir hafi verið að safna kjarki eða þá hafi verið að berja í þá kjarkinn á undanförnum dögum og mér segir svo hugur að það sé kannski komið fyrir þeim núna eins og ref þeim sem hét í höfuðið á Mikael erkiengli og gekk undir nafninu Mikki refur. Hann sagði einhverju sinni við dýrin í Hálsaskógi: ,,Þið getið svo sem talið mig með en mér finnst þessi lög hreinasta bull`` og þannig held ég að mörgum stjórnarþingmönnum sé farið á þessari stundu. Ég á von á því að margir stjórnarliðar hafi það helst fyrir stafni um jólin að sleikja sín eigin sár. Þau kunna að vera stór, þessi sár, en mikið held ég að það sé rýrt fóður.
    Ég hef lokið ræðu minni.