Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 04:44:00 (2385)

     Steingrímur J. Sigfússon (frh) :
    Herra forseti. Ég tek það þá svo að hv. formaður fjárln. sé kominn í hús og mættur og mun ég þá beina máli mínu til hans í þeim skilningi. Það sem gerir að verkum að ég sé mig knúinn til að ræða þetta mál eru orð sem eftir honum eru höfð úr framsöguræðu hans um nál. og brtt. meiri hluta fjárln. Vissulega talaði hann öðrum þræði fyrir nefndina alla sem formaður. Ég verð að segja, herra forseti, eins og er að viss ummæli sem þarna féllu af hans hálfu komu mér nokkuð á óvart og eru mér nokkurt undrunarefni þar sem hér talar formaður fjárln. en enginn annar embættismaður í stjórnkerfi landsins, hvorki í dómstólum, rannsóknarrétti né annars staðar, þó ætla mætti að hv. formaður fjárln. hefði upplifað sig um stund sem slíkur.
    Það er rétt að rekja lítillega gang þessa máls sem varðar kaup ríkissjóðs á loðdýrahúsum og fleiri hlutum á ríkisjörðunum Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Árnessýslu. Þetta eru tvær af þó nokkuð mörgum ríkisjörðum sem loðdýrabændur sátu á og sitja sumir enn, en þó hefur þeim nú fækkað af vissum ástæðum sem ég hygg að hv. þm. þekki.
    Það er upphaf þessa máls að þegar ríkisstjórnin síðasta var með á sínu borði ýmsar ráðstafanir og aðgerðir til að koma til móts við vanda loðdýrabænda í þeirra miklu þrengingum urðu til tillögur, aðgerðarpakki að segja má, sem tóku til allmargra aðila í þjóðfélaginu. Þar voru fremst í flokki bændasamtökin sem féllust á að nota fjármuni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Stofnlánadeild bænda, bankar, Ríkisábyrgðasjóður og landbrn. og Jarðasjóður og jarðadeild. Allir þessir aðilar og fleiri til voru laðaðir til samstarfs og þátttöku í talsvert viðamiklum aðgerðum þar sem velt var um fleiri hundruð millj. kr. í fjármunum og skuldsetningu og reynt var að koma til móts við þennan hóp landsmanna sem áttu í gífurlegum þrengingum af sér algerlega óviðráðanlegum ástæðum. Það varð niðurstaða, bæði á hinu háa Alþingi sem og í ríkisstjórn, að réttlætanlegt væri að grípa til allviðamikilla björgunarráðstafana þar sem að sumu leyti með nokkuð óvenjulegum hætti var reynt að koma til móts við þennan hóp manna. T.d. voru sett á hinu háa Alþingi lög og í framhaldi af því framkvæmdar skuldbreytingar þar sem veðsetningarhlutfall jarðanna var hækkað meira en nánast dæmi eru til um. Ríkisábyrgðasjóður er sá aðili sem tók þar áhættuna með bændum. Ég hygg að helst sé að finna fordæmi og hliðstæðu í þeim ráðstöfunum sem gripið var til gagnvart fyrirtækinu Flugleiðum hf. á sínum tíma upp úr 1980 í þess erfiðleikum. Menn mátu það greinilega svo hér á hinu háa Alþingi og í ríkisstjórn Íslands á þessum tíma, hún var skipuð af Framsfl., Alþb. og Alþfl., að það væri réttlætanlegt að fara þarna í allmiklar aðgerðir. Hluti af þessum aðgerðum var, margkynnt og yfirlýst, að litið yrði sérstaklega á vandamál bænda á ríkisjörðum og yrði þá horft til möguleika jarðadeildar landbrn. og Jarðasjóðs að leysa úr vandkvæðum þeirra eftir því sem mögulegt væri. Allmörg slík tilvik voru til skoðunar á vegum þeirra lögfræðinga sem bændasamtökin réðu í þjónustu sína til að aðstoða bændur í þessum erfiðleikum. Milli 120 og 150 bújarðir voru til skoðunar á vegum þessara lögfræðinga. Þeir gerðu síðan tillögur til Stofnlánadeildar, Framleiðnisjóðs, landbrn. og viðskiptabanka viðkomandi bænda um hvernig með skyldi fara og reynt yrði að ná fram lausn á fjárhagsvanda viðkomandi aðila. Það lá fyrir, var margyfirlýst, kynnt opinberlega á fundum loðdýrabænda, í ríkisstjórn, í samstarfsnefnd sem stjórnarflokkarnir skipuðu um þetta mál og fjölmiðlum, að í þessum hugmyndum var allan tímann sá möguleiki að Jarðasjóður, landbrn. og jarðadeild tækju þátt í að leysa úr þessum vanda að sínu leyti gagnvart ábúendum ríkisins á ríkisjörðum þannig að hér var ekki unnið laumulega að hlutunum. Hér er þess vegna ekki á ferð mál sem hefði átt að koma mönnum mjög mikið á óvart.
    Aldrei í öllum þessum ferli og í allri þessari vinnu var hreyft efasemdum, hvorki af lögfræðingum landbrn. og jarðadeildar þess né af þeim lögfræðingum tveimur sem unnu á vegum Stéttarsambands bænda að þessum ráðstöfunum, um að Jarðasjóður og jarðadeild landbrn. hefðu ekki lagalegar heimildir til að taka þátt í þessu verkefni, aldrei, a.m.k. ekki í eyru þess sem hér talar. Það var litið svo til að Jarðasjóði sem sjálfstæðum sjóði með sjálfstæðan fjárhag og nokkra getu til að taka á sig skuldbindingar væri slíkt heimilt, enda fyrir því allmikil hefð að Jarðasjóður geri skuldbindingar jafnvel langt fram í tímann án þess að fyrir því sé aflað sérstakra lagaheimilda. Það er að vísu svo að langalgengast er samkvæmt venjulegri framkvæmd þessara mála að slíkar skuldbindingar verði þegar ábúendaskipti verða á jörðum af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þá er ótvíræð lagaskylda ríkisins að leysa til sín eignir ábúendanna. En fyrir hinu eru líka allmörg fordæmi frá undangengnum árum að Jarðasjóður geri þetta í einstökum tilvikum þegar sérstaklega stendur á án þess að um ábúðarslit hafi verið að ræða. Vissulega er það svo og þeim sem hér stendur dettur ekki í hug að bera á móti því að það má deila um þá aðferð, hvort hún hafi nógu traustar lagalegar forsendur að baki sér, eins og svo fjölmargt fleira sem lýtur að ýmsum útgjaldaskuldbindingum ríkisins á undangengnum árum og væri sá listi langur að mati ræðumanns af hann væri allur tekinn saman. En engu að síður hefur þetta viðgengist í nokkrum mæli á undangengnum árum án þess að menn hefðu, fyrr en þá nú að þetta mál kom upp, efasemdir um að þetta væri ekki heimilt og gerlegt á grundvelli laga og starfsreglna Jarðasjóðs.
    Rétt er að benda á að Jarðasjóður hefur á undanförnum árum skuldbundið ríkið um umtalsverðar fjárhæðir, langt umfram fjárveitingar sínar innan viðkomandi árs, og væri skynsamlegt fyrir formann fjárln., ef hann vill kafa ofan í þessi mál af alvöru og kynna sér staðreyndirnar og sannleikann, að afla sér upplýsinga um að Jarðasjóður velti í raun á undan sér útgjaldaskuldbindingum svo nemur líklega á annað hundrað millj. kr. fyrst og fremst vegna þess að hann hefur leyst til sín eignir ábúenda og keypt eignir og yfirtekið við það allmiklar skuldir og greiðsluskuldbindingar. Þannig hefur myndast heilmikil ábyrgð hjá ríkinu. En þetta er ekki jafnóeðlilegt og ætla mætti í fljótu bragði þegar höfð er hliðsjón af því að landbrn. og jarðadeild þess hafa heimildir til að stofna til ábyrgða af þessu tagi í því formi að ábúendur ríkisins mega fjárfesta á jörðunum og veðsetja viðkomandi eignir ríkisins fyrir. Í jarðalögunum eru því ótvíræðar heimildir til þess án tengsla við fjárveitingar Jarðasjóðs að skuldbinda ríkið. Þær eru fyrir hendi. Þær hafa verið nýttar um áratuga skeið án nokkurra athugasemda. Mér er ekki kunnugt um að Ríkisendurskoðun hafi nokkru sinni gert athugasemdir við framkvæmd jarðalaganna eins og hún hefur verið undanfarin ár. Ég man ekki til þess í minni tíð í landbrn. að hafa rekist á athugasemdir til að mynda frá Ríkisendurskoðun né hinu háa embætti ríkislögmanns og er því þó falið m.a. að sjá til þess að allt sé með skikk á þeim bæ og eðlilega framkvæmt.
    Það sem ég er að segja, herra forseti, er ósköp einfaldlega að þarna hefur viðgengist ákveðin framkvæmd í stjórnsýslunni sem hefð er fyrir og fjölmörg fordæmi nákvæmlega hliðstæð þessu eru fyrir hendi frá undangengnum árum, bæði fyrri fordæmi úr minni embættistíð í landbrn. og a.m.k. forvera míns þess síðasta ef ekki fleiri sem á undan komu. Það hef ég að vísu ekki fengið tæmandi upplýsingar um, enda hef ég ekki lagt í það að afla slíkra gagna. En að sjálfsögðu yrði slíkt gert ef með þyrfti og væri út af fyrir sig ástæða til eins og þetta mál hefur verið upp vakið.
    Þannig verður að skoða skuldbindindingar Jarðasjóðs með þeim hætti að þarna er á ferðinni sjálfstæður sjóður sem byggir á sérlögum með sjálfstæðan fjárhag og er að kaupa og selja eignir daginn út og daginn inn og hefur ákveðna getu til þess og ákveðnar fjárveitingar til þess að stofna til skuldbindinga. Hér er um tiltölulega sérstakt tilvik af því tagi að ræða. Ég tel þess vegna að þessu sé ekki saman jafnandi við til að mynda útgjaldaskuldbindingar sem aflað er heimildar til eftir á og kallast aukafjárveitingar sem úir og grúir af því miður og menn þekkja. Mér er nær að halda að hv. formaður fjárln. hafi þurft að taka inn á fjárlög eða fjáraukalög eitthvað af slíku í sinni tíð. Þá er ég að tala um hv. núv. formann fjárln.
    Og hvernig er þetta nú hugsað með aukafjárveitingar? Jú, það er litið svo til að handhafar framkvæmdarvaldsins í þingbundinni ríkisstjórn með meiri hluta alþingismanna að baki sér geti í trausti þess að það sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir viðkomandi ákvörðunum og útgjöldum fyrir fram skuldbundið ríkið. Auðvitað væri hægt að líta á þetta mál sem slíkt, en ég tel að það sé ekki að öllu leyti sambærilegt vegna þess að ósköp einfaldlega hafi Jarðasjóður þarna miklu ríkari heimildir og jarðadeild landbrn. og landbrh. sem yfirmaður þeirra en til að stofna til venjubundinna aukafjárveitinga. Ég tel því, herra forseti, enn fráleitara að telja þennan gjörning lögbrot en fjölmargar aukafjárveitingar og útgjaldaskuldbindingar sem í einföldum krafti framkvæmdarvaldsins eru gerðar. Það er eins og mig minni, herra forseti, að það hafi verið eitthvað um það á undanförnum árum að menn hafi verið að kaupa eitt og eitt hús og afla síðan útgjalda eftir á fyrir slíku --- eða það man sennilega enginn hv. alþm. eftir því. Nú er það þannig, herra forseti, að ég ætla ekki að byggja málsvörn mína upp á því að fara að benda á önnur tilvik sem kannski orka tvímælis, miklu meira en þetta. En ég held að það sé samt rétt að ef menn gerast dómharðir úr ræðustóli minnist menn samhengis hlutanna, líka hv. formaður fjárln.
    Ég held, herra forseti, að með hliðsjón af því sem ég hef rakið og gæti rökstutt mikið ítarlegar ef út í það er farið sé ekki ýkjaerfitt fyrir mig að sýna fram á að það séu ekki innistæður fyrir hinum stóru orðum hv. formanns fjárln., en hann mun hafa sagt að það væri tvímælalaust sín skoðum. Ég vona að hann hafi verið að vitna til sinnar persónulegu skoðunar, ekki talið sig geta talað fyrir hönd fjárln. eða e.t.v. meiri hluta hennar heldur verið að lýsa sinni persónulegu skoðun að hann teldi þetta lögbrot. E.t.v. verður hv. formaður fjárln. svo vinsamlegur að skýra það nánar, en ef hann sér ekki ástæðu til þá gott og vel. Ég tel að það séu ekki innistæður fyrir þessu af því að ég tel að það sé hægt að finna í jarðalögunum, í hefð þessara mála fullnægjandi rökstuðning fyrir því að þetta sé venja í stjórnsýslunni og samkvæmt þeirri réttartúlkun sem viðgengist hafi og stjórnsýsluhefð sé fullkomlega ástæðulaust að halda því fram að hér sé um lögbrot að ræða og það jafnvel án nokkurs sérstaks rökstuðnings.
    Að vísu mun hv. formaður fjárln. hafa vísað í minnisblað frá embætti ríkislögmanns. Hann kann að hafa kallað það greinargerð. Það vill svo til að seint og um síðir fékk ég í hendur þetta minnisblað frá ríkislögmanni sem heitir svo samkvæmt því handriti sem ég hef undir höndum. Hvort það gerir mikinn eðlismun eða ekki skal ég láta ósagt, en í öllu falli ber þetta ekki yfirskriftina greinargerð. Það er alþekkt í stjórnsýslunni að minnisblöð eru annað en endanlegar greinargerðir.
    Enn er því við að bæta og mætti rekja að landbrh. er hagsmunagæslumaður ríkissjóðs í því tilliti sem að landbúnaðarmálunum og vörslu hluta undir landbrn. snýr hverju sinni. Ég hygg að því verði ekki móti mælt að í gegnum þá framkvæmd jarðalaganna og kaup Jarðasjóðs á einstökum eignum bænda án þess að um ábúðarslit væri að ræða hafi iðulega verið afstýrt mun meiri útgjöldum fyrir ríkissjóð en ella hefðu orðið. Vegna þess ákvæðis jarðalaganna að ef ekki væri unnt að leysa þannig aðsteðjandi vandamál mundu ábúendur eiga þann rétt að segja upp ábúð og virkja þar með ótvíræða kaupskyldu ríkisins á öllum sínum eignum á jörðunum, þá er það borðleggjandi að með þessari lausn hefur iðulega verið afstýrt meiri útgjöldum fyrir ríkið. Ég tel reyndar auðvelt að sýna fram á að svo hafi verið í þessu tilliti. Ég tel þess vegna, herra forseti, að fullnægjandi málsástæður séu fyrir hendi til að hrekja þá fullyrðingu hv. formanns fjárln. að hér hafi verið um ólögmætan gjörning að ræða. Það er a.m.k. ósannað og er jafnósannað þó að hv. formaður fjárln. lýsi úr þessum ræðustóli sinni persónulegu skoðun og ég hlýt að leyfa mér að spyrja, herra forseti, hvað knýi hv. formann fjárln. til að fara með slíkar yfirlýsingar af sinni hálfu hér í ræðustólinn. Er hann að gera sig í stakk búinn til að verða einhver úrskurðaraðili eða dómari í þessu máli? Ég spyr. Var einhver sérstök þörf á því fyrir hv. formann fjárln. að fara með þessum hætti hér fram í málinu?
    Hv. formaður fjárln. hefur dreift gögnum hér um þingsalina og það er gott og blessað. Hv. formaður fjárln. hefði að mínu mati að vísu mátt afla sér gagna víðar úr því að hann var í slíkri söfnun á annað borð. Það er t.d. fremur óvenjulegt að þegar svona stendur á skuli höfuðmálsaðilinn, landbrn., lögfræðingar þess og framkvæmdaaðilar málsins, ekki hafa átt þess kost að skýra sín sjónarmið að séð verður. A.m.k. eru slík gögn ekki lögð fram af hálfu formanns fjárln. né heldur hef ég heimildir fyrir því að starfsmenn þar hafi verið kvaddir til fundar við fjárln. þegar þetta mál var til umfjöllunar og þaðan af síður sá sem hér talar og hefði þó einhverjum e.t.v. fundist ástæða til þess, úr því að farið var ofan í málið á annað borð, að hann ætti þess kost að skýra mál sitt. --- Það er fundur úti í sal, herra forseti, sem væri kannski ástæða til að huga nánar að og ég get gert hlé á máli mínu ef þeir drengskaparmennirnir hæstv. fjmrh. og hv. formaður fjárln. þurfa hlé til fundahalda, ( Fjmrh.: Hvað þýðir drengskaparmaður?) en ef ekki held ég áfram máli mínu og lýk því. ( Fjmrh.: Hvað áttu við með drengskaparmaður?) Það er fullkomlega tært íslenskt orð, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Það var meint þannig?) Það var meint þannig.
    Mín orð, herra forseti, eru þá að lokum þau um þetta mál að ég tel þá till. sem hæstv. landbrh. hefur gert með ósk sinni til fjárln. eftir atvikum eðlilega og skynsamlega, ósköp einfaldlega vegna þess að úr því að efasemdir hafa komið upp um að þessi framkvæmd jarðalaga gegnum Jarðasjóð, sem á sér hefð að baki og hér á í hlut, er nú talin orka tvímælis af embætti ríkislögmanns, þá sé að sjálfsögðu rétt að skoða það og skynsamlegt að eyða allri óvissu um það að fyrir svona ákvörðun séu réttar forsendur, item að taka framkvæmd þessara mála til skoðunar í framhaldinu því að slíkt er jafnan gert þegar réttarþróun í landinu bendir til þess að hefðir séu að breytast eða réttarvenjur. Það er hugtak sem ég vona að hv. formaður fjárln. þekki, hugtakið réttarþróun. Það lýtur að því að túlkun manna á lögum og rétti kann að breytast í takt við aðstæður og gjarnan gerist það að lokum í gegnum breytingar á lögum í takt við nýjar aðstæður. Sé hér að eiga sér stað einhver réttarþróun finnst mér sjálfsagt að skoða það og bregðast við því. Þar með er ekki sagt að sú réttarvenja sem var við lýði við tilteknar aðstæður hafi ekki staðist sem barn síns tíma. Að sjálfsögðu verður að láta atburði og ákvarðanir hvers tíma njóta þess tíma sem þær fóru fram á.
    Vona ég að ég þurfi svo ekki hafa um þetta mál fleiri orð hér og helst ekki annars staðar því að hér er um það að ræða að reynt var samkvæmt bestu getu og bestu samvisku að leysa úr erfiðum mannlegum vandamálum vítt og breitt um landið þar sem áttu í hlut hinar miklu hörmungar sem gengu yfir loðdýrabændur og menn vafalaust þekkja og muna eftir. Hversu vel til vinsælda það var fallið á sínum tíma að glíma við þau snúnu vandamál og taka að nokkru leyti inn á sig þær mannlegu þjáningar sem þessum erfiðleikum fylgdu veit ég ekki. En það var nú einu sinni hlutskipti þessa ræðumanns um svo sem eins og tveggja ára skeið að glíma við þetta og var ekki alls staðar vísan stuðning að finna í þeirri erfiðu baráttu, t.d. ekki alltaf í flokki hv. formanns fjárln., og fór í það satt best að segja nokkur tími að sannfæra þá flokksmenn hv. formanns fjárln. um að það væri þrátt fyrir allt skylt samfélaginu að taka sameiginlega á þessum miklu vandamálum sem ákveðinn fámennur hópur Íslendinga varð fyrir á þessum tíma. Nú horfir þar vonandi til betri vegar og þá gleðjast menn yfir því, það ég er sannfærður um, og ekki mun ég sjá eftir því að hafa lagt nokkuð af kröftum mínum í það og tíma mínum. Jafnvel þó að þessi eftirleikur hafi nú komið upp eins og punkturinn yfir i-ið í glímu minni við þetta erfiða vandamál, vandamál loðdýrabænda, mun það engu breyta um að ég taldi mér það skylt, og mundi telja mér það skylt aftur ef sömu aðstæður kæmu upp, að gera það sem ég gerði og skammast mín þar ekki fyrir nokkurn hlut því að allt var það gert samkvæmt bestu samvisku og samkvæmt bestu vitund. Hvert einasta hæti, hv. formaður fjárln., það skalt þú hafa mín óbreyttu orð fyrir.
    Vona ég svo, herra forseti, að þetta hafi allt saman komist til skila og sé málið, sem ég hef hér verið að flytja, þá að einhverju leyti skýrara fyrir mönnum. Og lýkur þá þessari ræðu minni við 3. umr. fjárlaga sem eiga að gilda fyrir Íslendinga á árinu 1992 og verði nú það ár þjóðinni farsælt og friðsælt og gott og göfugt og okkur öllum saman til mikillar hamingju og vona ég að birti til fallega þegar daginn tekur að lengja á nýjan leik, en það er mjög skammt í að svo verði, herra forseti, og góða nótt.