Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 05:19:00 (2388)

     Frsm. samgn. (Árni M. Mathiesen) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. samgn. við 4. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, lið 10-322, Flóabáta og vöruflutninga.
    Í upphafi máls míns vil ég leiðrétta eitt orð sem misritaðist á bls. 2 í till. Í b-lið, Flóabátar, liður 6, stendur Eyjafjarðarferja en á að standa Eyjafjarðarferjur.
    Samgn. flytur þessa till. nú og tekur þar við hefðbundnu hlutverki samvinnunefndar samgöngumála sem flutt hefur sams konar tillögur mörg undanfarin ár. Að þessu sinni var skipaður vinnuhópur af hálfu samgn. en jafnframt skipaði fjárln. vinnuhóp og unnu þessir tveir vinnuhópar sameiginlega að tillögunum sem samgn. flytur hins vegar.
    Í þessari till. kemur fram að mikil aukning er á kostnaði við rekstur flóabáta og er það vegna kaupa á nýrri skipum eins og Fagranesinu, Baldri og Herjólfi. Að þessu sinni hefur nefndin vegna þess liðar sem fjallar um vetrarsamgöngur reynt, þar sem það hefur verið mögulegt, að færa fjárveitingar til sveitarfélaganna sjálfra en ekki til einstaklinga eða fyrirtækja eins og gert hefur verið áður og teljum við heppilegt að gera þetta á þennan hátt og það sé öruggara og réttara og leiði til betri og réttari meðferðar þessara fjármuna.
    Að öðru leyti vísa ég til nál. nefndarinnar, en nefndin stendur í heild að brtt. og nál.