Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:31:00 (2391)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Sú spurning sem hér er borin fram snýst einkum um framkvæmd og ákvæði til bráðabirgða í 14. gr. en það kemur fram, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, að í 4. gr. er sú breyting gerð að sveitarstjórn er eigandi vatnsveitna sveitarfélaga og sér um allar vatnsæðar hennar, þ.e. aðalæð, götuæð og heimæðar. Það kemur fram í 4. gr. frv. að eins og málum er háttað í dag skal húseigandi sjá um og greiða kostnað við lagningu slíkra vatnsæða og jafnframt annast viðhald hennar, en hér er lögð til sú breyting að lagning og viðhald heimæðar verði alfarið í höndum sveitarstjórnar. Þá er spurning um hvernig hagað verði framkvæmdinni að því er varðar ákvæði til bráðabirgða um

þær heimæðar sem voru lagðar fyrir gildistöku laganna.
    Nefndin sem samdi þetta frv. taldi nauðsynlegt að hafa nokkurn aðlögunartíma og taldi ekki rétt að sveitarstjórnirnar yfirtækju heimæðar fyrirvaralaust. Þetta hefur verið kostað af eigendum íbúða og sú spurning vaknaði ef þetta yrði strax yfirtekið af sveitarstjórnum að hugsanlega væri hægt að tala um eignaupptöku og þá kallað á bætur fyrir. Þetta er sú skýring sem ég fékk hjá nefndinni og hún taldi því nauðsynlegt að þarna væri gefið nokkurt svigrúm. Þó er ekkert því til fyrirstöðu eins og hér kemur fram að á þessu tímabili sé hægt að leita eftir samkomulagi við sveitarstjórnirnar að þær yfirtaki heimæðarnar. Ef einhver óskar sérstaklega eftir því getur hann vissulega farið fram á það að viðkomandi sveitarstjórn yfirtaki þær en skyldan fellur á sveitarfélögin að liðnum 10 árum frá gildistöku laganna. Út af fyrir sig hefði verið hægt að hafa hérna fimm ár, átta ár eða tíu ár, en nefndin sem samdi þetta taldi rétt að hafa þennan aðlögunartíma.
    Vatnsgjaldið sem hefur verið nefnt er nokkuð hátt, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, og má það nema allt að 0,3% af álagningarstofni. Það er algengt núna að sveitarstjórnirnar ákveði upphæð vatnsgjalds sem er á bilinu 0,1--0,2% en hér er lagt til að það megi nema allt að 0,3% af álagningarstofni þannig að það er rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að verulegt svigrúm er gefið umfram það sem hefur verið.