Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:47:00 (2395)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Mér sýnist að þau sjónarmið sem hér hafi komið fram snúist um að gera ákvæðið í 14. gr. fortakslausara en það er. Talað er um að að liðnum 10 árum frá gildistöku þessara laga beri sveitarstjórn að yfirtaka framangreindar heimæðar og síðan kemur viðbótin: ,,sé þess óskað af fasteignareiganda.`` Þá er spurningin um það hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi um að gera þetta fortakslausara þannig að þessi síðustu orð falli brott. Ég tel rétt að það sé skoðað milli 2. og 3. umr. hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi um þetta. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál og fulltrúar Sambands sveitarfélaganna áttu sæti í nefndinni sem hefur samið þetta frv. Síðan hefur þetta gengið yfir til Sambands sveitarfélaga sem hefur mælt eindregið með samningu þessa frv.
    Þetta frv. felur í sér að verið er að einfalda alla framkvæmd á þessu. Ég tel mjög slæmt ef þetta dregst þannig að það nái ekki fram að ganga fyrir áramótin sem er nauðsynlegt út af álagningunni. Ef það nær ekki fram að ganga fyrir áramótin yrði raunverulega að fresta þessu um eitt ár. Þess vegna legg ég áherslu á að frv. verði samþykkt fyrir áramótin en legg til að nefndin skjóti á fundi til þess að ræða þetta mál. Ég tel að hér sé ekki um nein mistök af hálfu nefndarinnar að ræða heldur sé fyrst og fremst verið að ræða um hvort gera eigi þetta ákvæði fortakslausara. Því tel ég rétt að nefndin komi saman til þess að ræða þetta ákveðna atriði og athuga hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi. Þetta mál megi þá lögfesta fyrir jólaleyfi vegna þess að, eins og ég segi, annars mundi þetta í reynd frestast í eitt ár sem ég tel að sé mjög bagalegt vegna þess að sveitarstjórnir, margar hverjar, hafa lagt mikla áherslu á að þetta frv. næði fram að ganga.