Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:49:00 (2396)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Beint var til mín ákveðnum spurningum sem mér er mjög ljúft að svara. Ég vil láta það koma fram strax að þetta er framhaldsumræða og sú fyrri var nokkuð góð umræða, ég held hún hafi verið fyrripartinn í gær, ef ég man það rétt, og þá einmitt kom hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, þessum sjónarmiðum á framfæri og við ræddum þetta frv. nokkuð. Það er rétt með þessar ábendingar sem komu fram hjá honum og sem hann reyndar kom á framfæri í nefndinni. Við ræddum þennan þátt 14. gr. og þessi 10 ár. Mitt sjónarmið var að það væri mjög jákvætt að sveitarstjórnirnar eignuðust heimæðarnar. Ég leit svo á að þetta svigrúm væri gefið til þess að smærri sveitarfélögum, ekki síst, yrði ekki gert með mjög litlum fyrirvara eða fortakslaust, eins og hér kemur fram, að yfirtaka heimæðar sem væru kannski með allt öðrum hætti en gerist í þéttbýlinu. Þá vorum við að ræða um langar heimæðar í meira dreifbýli. Þarna þyrfti að vera svigrúm til yfirtöku. Mér finnst alveg sjálfsagt að taka málið fyrir aftur í nefndinni þar sem margar ábendingar hafa komið fram eftir á. Ég vek athygli á að allir nefndarmenn rita undir nál. og einn með fyrirvara. Við vorum búin að ræða þetta nokkuð vel, ábendingar voru komnar fram og allir voru tilbúnir að veita málinu brautargengi. Það er mjög gott ef hægt er að staldra við og skoða þau atriði sem menn hafa áhyggjur af eftir á þegar þeir fara að velta þessu fyrir sér. Það skal ekki standa á því að ég taki þetta til skoðunar í nefndinni.
    Annað atriðið var 7. gr. og þessi upphæð, sem má nema allt að 0,3% af álagningarstofni. Það var líka rætt hvernig hann væri myndaður af markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík. Mitt mat var að þetta hafi tengst því þegar upp kom fyrir tveimur til þremur árum hve misjöfn staða sveitarfélaga var, þegar tekið var mið af fasteignamati, en matið var mjög misjafnt um land. Félmrh. getur áréttað það ef þetta er rangt með farið hjá mér en þá var reynt að finna stuðul sem jafnaði þau gjöld sem þyrftu að vera með áþekkum hætti.
    Hér var líka borin fram spurning um það, vegna þess sem stendur í umsögn um 7. gr., að einstaka vatnsveitur hafa haft heimild til að innheimta hærra hundraðshlutfall og áhyggjur af því hvað gerist ef þetta gjald nægir ekki ef sveitarstjórn hefur ráðist í dýra vatnsveitu. Ég vek þar athygli á 2. gr. sem einmitt er vísað í í nál. að ætlast er til að sveitarstjórn geri áætlun fyrir fram til að reyna að fyrirbyggja að farið sé í framkvæmd sem sveitarfélagið ræður varla við að framkvæma og reka. Hér var einmitt spurt hvað gerist ef framkvæmdin og reksturinn er það dýr að 0,3% af álagningarstofni dugir ekki. Ég held að mjög æskilegt væri að félmrh. setti fram skoðun á því en ég sjálf taldi að þarna hefði verið farið rúmt með, einmitt vegna þeirra vatnsveitna sem hafa þurft að innheimta örlítið hærra hundraðshlutfall. Ef framkvæmd og rekstur er óeðlilega dýrt miðað við að þetta er talið rúmt gjald hefði ég talið að þá gilti svipað ákvæði og með önnur verkefni sveitarstjórna ef upp koma vandkvæði sem sveitarstjórn ræður illa við.
    En mér er ljúft að taka þetta mál aftur fyrir milli 2. og 3. umr.