Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:55:00 (2398)

     Kristín Ástgeirsdóttir (frh.) :

     Virðulegi forseti. Þegar fundi var slitið klukkan sex í morgun hafði ég rétt byrjað ræðu mína um fjárlögin. Ég var búin að tala í u.þ.b. 40 mínútur. Þegar þar var komið sögu hafði ég rætt um ástandið í þjóðfélaginu og lagt þar til grundvallar spá Þjóðhagsstofnunar. Ég kynnti álit minni hluta efh.- og viðskn. á tekjuhlið fjárlaganna og síðan var ég þar stödd að ég var að mæla fyrir till. minni hluta menntmn. um skólagjöld en þá var klukkan orðin sex og úthald stjórnarliða algjörlega brostið. Ég verð eiginlega að harma það að svo fjörugar umræður skuli hafa verið stöðvaðar þegar menn voru komnir vel á skrið og það stóð ekki á mér að halda áfram ræðu minni.
    En nú ætla ég sem sagt að halda áfram, virðulegi forseti, ætla reyndar ekki að tala mjög langt mál. Ég verð þó aðeins að fara til baka og rifja upp þessa till., sem ég var að kynna, vegna allra þeirra þingmanna sem voru fjarverandi umræðuna í nótt.
    Á þskj. 312 flytja eftirtaldir þingmenn brtt. við fjárlögin: Valgerður Sverrisdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Ólafur Þ. Þórðarson og sú sem hér stendur.
    Þessi brtt. er í 26 liðum og gengur út á það að skólagjöld við öldungadeildir og í skólum á háskólastigi skuli ekki lögfest. Hér erum við sem sagt að gefa Alþingi á nýjan leik tækifæri til þess að fella þessa tillögu ríkisstjórnarinnar um skólagjöld.
    Ég þarf ekki að beita miklum rökstuðningi fyrir þessari tillögu. Við flm. hennar teljum að skólagjöld eigi ekki að innleiða í íslenska skólakerfinu. Við fögnum því að sjálfsögðu að stjórnarflokkarnir náðu samkomulagi um það að skólagjöld skyldu ekki innleidd í framhaldsskólum landsins en það er allmikið eftir enn, háskólarnir og öldungadeildirnar. Við teljum að hér sé um ranga stefnu að ræða. Hér er verið að ganga þvert gegn þeirri reglu, sem hefur ríkt alla þessa öld, um að reyna að koma á sem allra mestu jafnrétti til náms. Hér hefur verið reynt að stuðla að því að allir hefðu tækifæri til þess að afla sér menntunar. Við höfum komið hér upp öflugu og fjölbreyttu skólakerfi en þær spurningar hljóta að vakna hver sé tilgangurinn með þessum skólagjöldum. Er hann fyrst og fremst sá að afla fjár til skólakerfisins eða er hann sá að draga úr menntun í landinu? Er hann sá að sjá til þess að færri nemendur afli sér framhaldsmenntunar? Það verð ég að segja, virðulegi forseti, að ef það er hugmyndin er þar um öfugþróun að ræða. Ef það er eitthvað sem Íslendingar þurfa á að halda þá er það aukin menntun, auknar rannsóknir, til þess að hægt sé að stuðla að nýsköpun í landinu.
    Allar svokallaðar iðnvæddar þjóðir eða iðnríki heimsins beina nú sjónum mjög að skólakerfinu. Ég get vitnað bæði til ríkja OECD og ekki síst Bandaríkjanna, Kanada og Japans þar sem menn reyna mjög að efla menntun og auka fjárveitingar til skólakerfisins. Hér erum við að horfa upp á mikla öfugþróun. Öfugþróun, hæstv. menntmrh. Hér er verið að reyna að innleiða skólagjöld. Fjárlagafrv. úir og grúir af tilmælum til skólanna um að spara og hagræða í stað þess, ef eitthvert vit væri í fjárlögum íslenska ríkisins, að auka fjárveitingar til skólanna vegna þess að þar er vaxtarbroddur. Þar er sá vaxtarbroddur sem við þurfum á að halda.
    En þetta er ekki aðeins spurning um framtíðina og það að hér spretti upp atvinna, hér verði til einhver atvinna og nýsköpun í atvinnu. Þetta er spurning um jafnrétti, þetta er spurning um þær hugmyndir sem hafa verið ríkjandi í íslensku samfélagi frá byrjun þessarar aldar. Þau stjórnvöld sem nú hafa sest á valdastóla eru því miður haldin ýmiss konar þráhyggju eins og einkavæðingu. Ég óttast að þessar skólagjaldahugmyndir séu einmitt forboði þess, sem reyndar kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að hér eigi að efla einkavæðingu í skólakerfinu.
    Einhverra hluta vegna hafa ákveðin öfl mikla trú á því að skólar, sem reknir eru af einkaaðilum, séu einhverjum þeim kostum búnir sem ríkisskólar eru ekki. Staðreyndin er sú, þegar litið er á lönd eins og Bretland þar sem er að finna afar dýra og fína einkaskóla fyrir bresku yfirstéttina sem gegna því hlutverki m.a. að viðhalda stéttaskiptingu í bresku samfélagi, að þetta eru örfáir skólar. Reyndar eru skólar sem reknir eru af einkaaðilum eða studdir af stórfyrirtækjum og stofnunum nokkuð margir í Bandaríkjunum og

þróast þar við hlið ríkisháskóla og ríkisskóla. Auðvitað getur þetta orðið til að efla fjölbreytni en við lifum einfaldlega í svo litlu og fámennu samfélagi að hér er ekki kostur á slíku úrvali skóla. Við verðum ósköp einfaldlega að einbeita okkur að því að halda hér uppi öflugu og góðu skólakerfi. Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að minna á það að ein meginforsenda þess að hér blómstri gott skólakerfi er auðvitað sú að launakjör þeirra, sem vinna við skólakerfið, séu með þeim hætti að það sé eftirsóknarvert að fást við kennslu. En hér í þessum tillögum, sem einmitt eru til umræðu við 3. umr. um fjárlögin, er boðaður niðurskurður á launum opinberra starfsmanna. Menntmrn., eins og önnur ráðuneyti, á að ná niður launakostnaði. Ég verð að lýsa því hér sem minni skoðun að skólakerfið hér á landi þolir engan niðurskurð launa, engan. Þar eru launakjör með þeim hætti að það er íslensku samfélagi til vansa.
    Ég ætla ekki að gera skólagjöldin að frekari umræðuefni en ég minni á þessa brtt. okkar. Þegar atkvæðagreiðsla fer fram gefst þingmönnum kostur á að sýna hug sinn til skólagjaldanna. Ég vona að þeir þingmenn Alþfl., sem hafa lýst andstöðu sinni við skólagjöld, standi við orð sín og greiði atkvæði með þessari tillögu í stað þess að sitja hjá eins og þeir gerðu við 2. umr.
    Mig langar einnig til að minna aðeins á þær brtt. sem við kvennalistakonur flytjum við fjárlagafrv. Þær eru örfáar en ganga allar út á það að styrkja stöðu kvenna í samfélaginu. Ég vil rifja það upp að við kvennalistakonur erum á Alþingi fyrst og fremst til þess að reyna að leggja okkar af mörkum til að bæta hag kvenna, gera þær sýnilegri í þjóðfélaginu, draga hlut þeirra fram í samfélaginu og reyna hvað við getum til að efla þátttöku þeirra og áhrif.
    Þetta eru örfáar tillögur sem mig langar að gera að umræðuefni. Sú fyrsta gengur út á það að Byggðastofnun fái sérstakt framlag til þess að stuðla að atvinnuþróun fyrir konur á landsbyggðinni. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að þessi tillaga er flutt því staðreyndirnar tala sínu máli. Við höfum horft upp á það, reyndar í u.þ.b. 200 ár, að það eru miklu frekar konur en karlar sem flytja sig af landsbyggðinni og til Reykjavíkur eða þéttbýlisins. Það liggur a.m.k. á mínu borði ársskýrsla Reykjavíkurborgar þar sem rakin er íbúaþróun allt frá manntalinu 1703. Þær tölur sýna að konur hafa alltaf verið í meiri hluta í Reykjavík. Þessu hefur m.a. ráðið þörfin fyrir vinnuafl kvenna hér í bæ. Vinnukonur voru stór og fjölmenn stétt hér í bænum allt fram á miðja þessa öld. Enn þann dag í dag er það að gerast að konur flytja úr sveitum og dreifbýli og hinum smærri stöðum landsbyggðarinnar hingað á suðvesturhornið í atvinnuleit vegna þess, held ég fyrst og fremst, hve atvinnulíf er fábreytt úti á landsbyggðinni. Það sér hver maður að ef það er ásetningur okkar að reyna að viðhalda byggð sem víðast á landinu, ég er ekki að segja að það þurfi að vera í hverjum einasta firði og hverri einustu sveit, þarf auðvitað að eiga sér stað þróun þar eins og annars staðar, en ef við viljum tryggja dreifða byggð í landinu þurfa konur að eiga kost á fjölbreyttari vinnu en nú. Það þarf eitthvað að gerast í þessum málum. Þess vegna leggjum við til að Byggðastofnun fái ákveðið framlag til þess að stuðla að atvinnuþróun kvenna. Þessum peningum er hægt að verja á ýmsan hátt með því að veita styrki til nýsköpunar, með því að standa fyrir námskeiðum og ýmsu því sem gæti leitt konur áfram í atvinnusköpun.
    Næsta tillaga gengur út á það að hækka framlag til Kvennasögusafnsins. Það er ekki há upphæð sem hér er um að ræða. Þetta er ákaflega hógvær beiðni. Við leggjum til að í stað þess að Kvennasögusafnið fái 1 millj. fái það 1,5 millj. Ekki er hægt að fara fram á minna. Þarna er um að ræða ákaflega merkilega stofnun, framtak einstaklings, Önnu Sigurðardóttur, sem hefur lagt heimili sitt undir kvennasögusafn þar sem hún hefur safnað ýmiss konar gögnum um sögu kvenna, bókum, blaðagreinum, tímaritum, ljósmyndum og fleiru, sem snertir sögu okkar kvenna, sem því miður er enn að mestu óskráð.
    Í þriðja lagi leggjum við til sérstakan lið til alþjóðasamtakanna UNIFEM. Þetta eru kvennasamtök Sameinuðu þjóðanna sem m.a. gegna þeim tilgangi að styðja konur í þróunarlöndunum. Þarna er á ferðinni ákaflega merkilegt starf og auðvitað þarf ekki að tíunda það hér fyrir þingmönnum að við Íslendingar höfum miklu að miðla til annarra þjóða, menntun, heilsugæslu og ýmsu öðru. Við eigum að styðja þjóðir svokallaðra vanþróaðra ríkja eða þróunarlanda eins og við best getum.
    Fjórða tillagan gengur út á það að styrkja Kvennaathvarfið í Reykjavík og samtökin Stígamót. Bæði þessi samtök vinna að því að aðstoða konur og börn sem verða ýmist fyrir líkamlegu eða andlegu ofbeldi, sem því miður er allt of algengt í okkar samfélagi, skelfilega algengt. Það veitir ekki af að styðja þessi samtök sem bæði hjálpa þeim sem lent hafa í slíkum hörmungum og vinna jafnframt að fyrirbyggjandi starfi, fræðslu og kynningu.
    Í fimmta lagi leggjum við til að Fæðingarheimili Reykjavíkur fái sérstaka fjárveitingu, 50 millj. Eins og kunnugt er eru það áform hæstv. heilbr.- og trmrh. að Fæðingarheimili Reykjavíkur verði lagt undir Landspítalann en konur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafa margar hverjar lagst gegn þessari sameiningu og hafa lagt áherslu á að konur eigi að eiga fleiri kosta völ. Þær eigi að geta valið á milli fæðingarstofnana. Það er ekki að spyrja að miðstýringaráráttunni hjá þessum stjórnarflokkum sem hér ríkja. Allt skal sameinað í eitt allsherjar spítalaskrímsli.
    Ég vil síðan fara örfáum orðum um þær brtt. aðrar sem liggja fyrir og skal reyna mjög að stytta mál mitt, virðulegi forseti. Ég vil nefna till. sem verður væntanlega mælt fyrir síðar í dag um heiðurslaun listamanna. Ég vil lýsa ánægju minni með að nú fjölgar um eina konu á þessum lista og veitir ekki af. En það kemur í annarra hlut að mæla fyrir þeirri tillögu.
    Varðandi brtt. meiri hluta fjárln. er þar sem betur fer ýmislegt gott að finna en þar er líka margt mjög vont. Ég vil fagna því sem ég nefndi áður að skólagjöld í dagskólum framhaldsskólanna eru felld niður. Þetta er eins og við vitum árangur af samningum ríkisstjórnarflokkanna og það er ástæða til þess að fagna því að þetta varð niðurstaðan. Mig langar líka að lýsa yfir ánægju minni með hækkun á fjárveitingu til Íslensku óperunnar. Ég er mikill unnandi klassískrar tónlistar og vona svo sannarlega að Íslenska óperan fái að dafna. Það er þó sá ljóður á þessum tillögum að framlag til Leikfélags Reykjavíkur er lækkað mjög en við verðum að vona að Reykjavíkurborg hlaupi þar undir bagga.
    Hér væri ástæða til þess að gera tillögur meiri hluta fjárln., sem varða landbúnaðinn, að sérstöku umræðuefni. Það er í rauninni alveg hrikalegt hvað landbúnaðurinn verður fyrir miklum niðurskurði. Við vitum að það hefur átt sér stað mikill samdráttur í landbúnaði, og eins og ég hef margoft nefnt í þessum ræðustól, þarf mjög að stuðla þar að endurskipulagningu og hagræðingu, eins og það heitir á nútímamáli. Ég verð að harma það að fyrst að menn gerðu þennan búvörusamning við bændur skuli hér gengið fram við að rifta honum eða brjóta hann, nánast í hverju atriðinu á fætur öðru. Ég verð að segja að þótt ýmsir hópar verði fyrir miklum skerðingum í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin grípur til þá verða bændur mjög illa úti. Það gildir reyndar um allt launafólk í landinu sem verður að taka á sig verulegar kjaraskerðingar vegna stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, gera að umræðuefni síðustu tillögu eða tillögu númer 45 á skjali meiri hlutans sem snýr að launalið í ríkiskerfinu. Þar stendur: Launaliðir rekstrarviðfangsefna lækki um 6,7% og önnur gjöld um 1,3%.
    Þarna er á ferðinni sú fyrirskipun sem út hefur verið gefin um niðurskurð yfirvinnu og launa í ríkiskerfinu. Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. við 2. umr. hvernig hann ætlaði að ná þessu markmiði í menntakerfinu. Mér er menntakerfið mjög hugleikið og þess vegna horfi ég sérstaklega á það. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvernig þessi niðurskurður á að nást fram nema stefna eigi að niðurskurði á kennslu á öllum skólastigum. Ef svo er er þar á ferðinni mjög alvarlegt mál, eins og ég hef áður nefnt. Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin hverfi frá þessum áformum og átti sig á því að m.a. í skólakerfinu byggir fólk launakjör sín að miklu leyti á yfirvinnu, því miður, vegna þess að

grunnlaunin eru svo lág. Grunnlaunin eru svo lág að fólk verður hreinlega að vinna yfirvinnu og þar af leiðandi að kenna miklu meira en góðu hófi gegnir til þess að hafa sæmileg laun. Þess vegna á ég mjög erfitt með að sjá að þetta komist til framkvæmda nema af því leiði verulegt tjón í skólakerfinu. Það er nokkuð, herra forseti, sem við megum alls ekki við.
    Ég gæti gert mjög margt í þessum tillögum að umræðuefni en ég veit að mælendaskrá er löng og ég var búin, eins og ég nefndi í upphafi, að flytja nokkra ræðu milli kl. 5 og 6 í morgun. Þetta er því orðinn dágóður skammtur en ég hef að sjálfsögðu tækifæri til þess að tala öðru sinni við þessa umræðu og þá mun ég hugsanlega taka á fleiri málum. Ég vil líka minna á að það sem eftir lifir þings eigum við eftir að ræða frumvörp um tekjuskatt og eignarskatt þar sem sjómannaafslátturinn og barnabæturnar koma til umræðu. Þá gefst eflaust kostur á að ræða betur launakjörin í landinu og þær miklu árásir sem nú er verið að gera á ýmsa hópa samfélagsins.