Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 14:45:00 (2404)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 frá menntmn. á þskj. 300. Menntmn. Alþingis hefur fjallað um úthlutun heiðurslauna listamanna fyrir næsta ár líkt og áður hefur tíðkast af forverum hennar, menntamálanefndum efri og neðri deildar. Nefndin leggur til að jafnmargir listamenn fái heiðurslaun í ár og fengu þau á síðasta ári, eða 18 listamenn. Jafnframt gerir nefndin tillögu um að hver heiðurslaun hækki úr 800.000 kr. í 850.000 kr. Af þeim 18 sem fengu heiðurslaun á þessu ári eru 16 á lífi. Nefndin gerir tillögu um að tveimur nöfnum sé bætt á þann lista. Hún mælir með því að Sigríður Hagalín og Thor Vilhjálmsson bætist í hóp þeirra listamanna sem njóta heiðurslauna. Var nefndin einróma um þá ákvörðun.