Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 15:30:00 (2411)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að fjalla nokkuð um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við gerð þessa fjárlagafrv. Ég verð að segja sem nýliði á Alþingi að mér finnst þau ekki vera til fyrirmyndar. Mál hafa komið inn mjög seint, breytingar hafa komið á hverju málinu eftir annað, þau hafa verið illa unnin og illa undirbúin, illa kynnt og jafnvel ekki kynnt viðkomandi aðilum. Það hefur verið kallað í aðila til samráðs til málamynda þegar mál hafa verið komin að lokastigi út úr nefndum og þannig finnst mér að bæði nefndum þingsins og þingmönnum hafi verið gert að framkvæma verk sem er óframkvæmanlegt nema að vinna það mjög illa. Það er auðvitað þess vegna sem við stöndum frammi fyrir því öngþveiti sem hefur verið þessa daga í þinginu og ekki sér fyrir endann á enn þá.
    Mig langar til þess að ræða nokkuð um upphaf ferils ríkisstjórnarinnar áður en ég held lengra vegna þess að ég tel að í upphafinu sé framhaldið fólgið. Ég held að eftir að menn komu í land úr Viðey á sínum tíma hafi smám saman verið að skýrast fyrir landslýð hvað hafi farið þar fram í samræðum stjórnmálaflokkanna sem eiga aðild að þessari ríkisstjórn. Þar hefur farið fram undirbúningur að þeim aðgerðum sem við höfum séð líta dagsins ljós. En ekki hefur verið þrautalaust fyrir þessa formenn að koma aðgerðunum í gegnum sína flokka. Þar hefur verið við andstöðu að etja og þeir hafa þurft að fara til baka með margt af því sem þeim hefur dottið í hug og margt hefur reyndar breyst sem betur fer og skánað í meðförum þingmanna stjórnarflokkanna og vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar. Auðvitað er hægt að nefna fjölmörg dæmi um það hvernig mál hafa komið inn fyrst og hvernig þau hafa svo breyst í tímans rás og eru orðin mun skárri núna en þau voru þegar þau voru fyrst kynnt. Þó er ekki hægt að segja annað en það að margar af þeim stóru breytingum sem ríkisstjórnin hefur ætlað að færast í fang við gerð fjárlaganna er út af fyrir sig fáránlegt að reyna með svo stuttum fyrirvara sem verið hefur. T.d. er um að ræða verulegar breytingar á málefnum sem snúa að sveitarfélögunum. Við höfum séð hvernig þau hafa tekið nýjar og nýjar stefnur á hverjum degi. Nú er auðvitað fyrir fram vitað ef menn ætla sér í breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eða skiptingu kostnaðar á þeim þáttum sem unnir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum að það þarf að

ætla sér til þess mjög langan tíma í umræðu og kynningu á málunum fyrir sveitarstjórnarmönnum og til rökræðna um hvort þetta séu skynsamlegar ráðstafanir sem menn ætli sér í. Það út af fyrir sig útilokar alfarið að menn geti tekið ákvarðanir með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum vikum. Lágmarkið er a.m.k. að aðstandendur ríkisstjórnarinnar læri af þeim mistökum sem þeir hafa gert. Ég segi það til að ljúka þeim þætti að eina ráðið til þess að bæta fyrir þetta er að setja málin í biðstöðu og ætla sér tíma til umræðu við sveitarfélögin á næsta ári til þess að reyna að lenda málum gagnvart þeim þannig að ekki verði óbrúanlegt bil til framtíðar við sveitarfélögin. Ég var á fundi fyrir nokkrum dögum með þingmönnum Vesturlands og fulltrúum sveitarstjórna þaðan og þar kom mjög vel fram hvernig sveitarstjórnarmenn líta á þessi mál og hvað þeir eru slegnir og raunverulega vonsviknir yfir því hvernig að þeim hefur verið staðið. Kannski er ástæðulaust lesa hér upp mótmælaorðsendingar og annan pappír sem við höfum fengið frá ýmsum sveitarstjórnum allt í kringum landið þar sem menn hafa mótmælt þessum aðferðum.
    Þetta er bara einn af hópunum sem ríkisstjórnin hefur snúið sér að í aðdraganda þessa fjárlagafrv. Aðrir hópar eru t.d. launþegar, sjómenn, sjúklingar, nemendur og skólafólk. Þar vil ég segja að eitt af því allra alvarlegasta sem við okkur blasir í þeim fyrirætlunum sem fyrir liggja er niðurskurðurinn í skólamálum vegna þess að ekki er hægt að benda á neina áætlun. Menn vita raunverulega ekki neitt um hvað er verið að tala og þeir skólamenn sem ég hef rætt við um þessi mál segjast ekki sjá fyrir sér að það sé nokkur einasti möguleiki að verða við hugmyndunum um niðurskurð í skólamálum. Ég ætla satt að segja að vona að þegar menn eru komnir út úr þeirri vitleysu sem er að ganga yfir okkur hér með gerð þessa fjárlagafrv. beri menn gæfu til þess að endurskoða hugmyndir sínar um niðurskurð í skólakerfinu og ekki verði gert neitt þar nema að vel yfirlögðu ráði með miklu og löngu samráði við þá sem þar eiga hlut að máli, því að erfitt er að bæta það sem skemmt er í sambandi við skólamál í landinu.
    Eitt er það sem ég vil ræða vegna þess að ég hef ekki komið að gerð fjárlagafrv. áður. Ég hef að vísu komið að gerð margra fjárhagsáætlana fyrir bæjarfélag og þar eru þau vinnubrögð viðhöfð að þegar fjárhagsáætlun er lögð fram þá er hún tilbúin. Þá eru menn tilbúnir til að ræða öll atriði. Það er eitt plagg. Hún er rædd í einu lagi. Mér finnst það óskaplegur galli á því sem við erum að framkvæma hér að við 2. umr. skuli ekki liggja fyrir allar tillögur og að það skuli ekki vera rætt í einu lagi um fyrirbrigðið, þ.e. fjárlagafrv. og öll þau tengdu frv. sem eiga að fylgja með. Ég tel að til þess að menn geti tekið heildstætt á þessum málum sé auðvitað langeðlilegast að þau séu rædd í einu lagi og raunverulega ætti fjárlagafrv. ekki að vera tilbúið til 2. umr. fyrr en öll fylgifrv. eru tilbúin til umræðu þannig að hægt sé að ræða málið í heildstæðu formi og þingmenn geti áttað sig á því. Hér höfum við staðið frammi fyrir því að fram á síðustu klukkustundir eru að koma inn breytingar og ég ætla að vona að ég sé sá eini sem á erfitt með að átta mig á því hvernig málin standa í heild þegar þeim er hrúgað svona að eins og gert er við þessa vinnu sem við höfum séð fara fram í haust.
    Einn af hlutum þessa fjárlagafrv. er sá pakki sem menn kalla ráðstafanir í ríkisfjármálum og sumir kalla bandorm. Mér finnst það hálfóviðkunnanlegt orð, ég held það ætti að reyna að finna eitthvað annað, langhali væri t.d. nýyrði sem gæti gengið. Mig langar að nefna þetta, þennan hluta fjárlagafrv. eða fylgifisk vegna þess að í umræðunni um hann bar á góma mörg af markmiðum ríkisstjórnarinnar. Sérstaklega langar mig að ræða um það markmið ríkisstjórnarinnar að einkavæða stofnanir. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., hann lagði málin fram með nokkuð skýrari hætti þar en ég hafði heyrt áður. Það var að vísu í samstarfssamningi eða svokallaðri hvítri bók ríkisstjórnarinnar talað um einkavæðingu og nefnd hafa verið fyrirtæki í eigu ríkisins í því sambandi. Í ræðu sinni, þegar frv.

um ráðstafanir í ríkisfjármálum var lagt fram, sagði hæstv. forsrh. nokkru nánar frá því að hverju ríkisstjórnin stefndi að þessu leyti. Þar kemur mjög skýrt fram að hugmyndin sé að selja á næsta ári ríkisfyrirtæki. Þar segir hæstv. forsrh.: ,,Undirbúin verður sala á hlut ríkisins í Ferðaskrifstofu Íslands, Bifreiðaskoðun Íslands, Endurvinnslunni hf., Gutenberg hf. og Sementsverksmiðjunni. Búnaðarbanka Íslands verður breytt í hlutafélag í upphafi næsta árs og hafin sala á hlut ríkisins í honum.`` Þarna eru málin sögð með alveg skýrum hætti og mig langar til að fjalla dálítið um tvö eða þrjú af þessum málum.
    Í fyrsta lagi Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Í umræðunum um Sementsverksmiðjuna og það að gera hana að hlutafélagi kom fram, eins og það var kynnt fyrir þeim sem eiga hlut að máli t.d. uppi á Akranesi og víðar, að ekki væri hugmyndin að selja Sementsverksmiðjuna. Það stóð í því plaggi og stendur að ríkið eigi að eiga öll hlutabréfin og það þurfi sérstaklega að gera samþykkt á Alþingi til að selja megi það hlutafélag. Hér stendur skýrum stöfum í ræðu forsrh. að selja eigi fyrirtækið. Ég tel að menn hafi verið blekktir með aðdraganda málsins þar sem mönnum var sagt að ekki stæði til að selja fyrirtækið. Ég hef áður sett fram mína skoðun á því hvers vegna ekki eigi að selja einmitt Sementsverksmiðju ríkisins og ætla ekki að endurtaka það hér en vil vekja athygli á því hvernig menn hafa breytt þar sinni skoðun.
    En það var annað fyrirtæki sem mig langar að fjalla hér um sem talað er um að selja. Það er Bifreiðaskoðun Íslands. Mig langar að ræða það mál einfaldlega vegna þess að ég tel að ekki fari hjá því, í framhaldi af því að ríkið ákveði að selja Bifreiðaskoðun Íslands, að þá muni landsmenn fara yfir það mál og skoða aðdragandann að því öllu. Vegna þess að þegar ríkið ásamt öðrum aðilum ákvað á sínum tíma að stofna þetta hlutafélag var það kynnt þannig að þetta ætti að vera óskaplega hagkvæmt fyrirtæki og það ætti að verða ódýrara fyrir bifreiðaeigendur þegar fram í sækti að láta skoða bílana sína hjá þessu fyrirtæki. Settar voru upp skoðunarstöðvar, keyptar færanlegar skoðunarstöðvar og gjaldskrár allar hækkaðar mjög. Þegar menn fóru að gagnrýna þessa hluti var þeim svarað með þeim hætti að það væri eðlilegt og það væri hagkvæmt fyrir viðskiptavini Bifreiðaskoðunar Íslands að greiða niður stofnkostnað vegna stöðvarinnar því að þegar það væri búið mundu viðskiptavinirnir fara að njóta þess í gjöldum. ( Gripið fram í: Það er satt og rétt.) Það er allt satt og rétt. En hvað er að gerast? Sá aðili, sem getur haft áhrif á það hvaða gjöld eru tekin fyrir þessa þjónustu, forsrh., lætur það í ljós hér að selja eigi þetta fyrirtæki núna. Helst sem allra fyrst, upp í milljarðinn á næsta ári. Og hvað eru menn að segja með því? Menn eru að segja að þeir bjóði fólki til sölu hlutabréf í Bifreiðaskoðun Íslands. Auðvitað kaupir enginn maður þar hlutabréf nema hann ætlist til og eigi rétt á arði. Um leið og búið er að selja þarna hlutabréf eru menn búnir að kveðja þann möguleika að þeir, sem hafa verið að borga allt of há gjöld fyrir þjónustu Bifreiðaskoðunar Íslands, fái það til baka. Ástæðan er sú að eigendur Bifreiðaskoðunar Íslands eru búnir að mynda sér 100% eigið fé á líklegast þremur árum, ef fer sem horfir. Þeir eru búnir að mynda sér eigið fé í fyrirtækinu á svo stuttum tíma og munu auðvitað heimta arð af því öllu saman.
    Þannig er staðið að einkavæðingu fyrirtækja á Íslandi. Ég tel þetta ekki vera til fyrirmyndar þegar ríkið leiðir þróun eins og þessa. Ég vil vara menn við því að það verði framhald á slíkum aðferðum við einkavæðingu. Ég held að full ástæða sé til að óttast það, bæði með tilliti til þess hvernig þetta mál hefur gengið fram og með tilliti til þess sem hefur komið fram frá hendi hæstv. fjmrh. í sambandi við annað fyrirtæki sem talað er um að selja og það er Búnaðarbanki Íslands. Hann taldi sem sagt að það kæmi til greina að selja hann með einhvers konar afföllum, fyrir hálfvirði eða eitthvað svoleiðis. Ég segi bara eins og er að þegar menn eru farnir að trúa með slíkum hætti á einkavæðinguna, sem virðist koma fram í svona tali, eins og því að selja fyrirtæki ríkisins fyrir hálfvirði, þá er ekki von

á góðu. Þá er full ástæða til að menn haldi vöku sinni og reyni að koma í veg fyrir að slíkar gerðir fari fram átölulaust.
    Auðvitað var margt annað sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í sambandi við þennan bandorm sem menn kalla. Ég ætla ekki að fara að tíunda það allt saman en ég lét það vera að taka til máls við þá umræðu vegna þess að ég taldi að þar hefði verið nóg talað. En segi það samt að þar var æðimargt sem ég hefði gjarnan viljað segja mínar skoðanir um. Nú fer að styttast mjög til jóla og möguleiki þingmanna til að halda langar ræður fer minnkandi. Ég mun ekki halda mjög langa ræðu hér. Mig langar þó til að koma að fáeinum atriðum í sambandi við þetta fjárlagafrv. Þá er það fyrst undirbúningurinn að því að öðru leyti en því sem ég hef rætt fyrr. Þessi undirbúningur sem ég vil meina að hafi farið fram af hendi ríkisstjórnarinnar frá því í sumar með því að vera smám saman að innprenta þjóðinni svartsýni og koma henni í skilning um að allt sé hér að fara til fjandans. Ég tel að raunveruleikinn, sem búið er að búa til, sé falskur á margan hátt. Við erum komnir í einhvers konar kreppuástand sem hefur myndast vegna þess að fólkið í landinu og sérfræðingarnir eru búnir að meðtaka þennan boðskap um móðuharðindin. En hverjar eru svo áþreifanlegu ástæðurnar fyrir þessum móðuharðindum sem við eigum að eiga fram undan? Þær eru samdráttur í þorskveiðum sem við höfum ákveðið að taka á okkur á næsta ári. Það er mikið áfall en ekki nálægt því svo stórt að það eigi að leiða af sér slíkrar hörmungar sem menn hafa reiknað út. Það er langt því frá. Það væri nánast hægt að bæta sjávarútveginum í landinu upp allt tapið sem hann verður fyrir vegna minnkandi þorskafla ef hægt væri að ná tökum á vaxtaskrúfunni. Spádómar um samdrátt í þjóðartekjum og á öllum sviðum þjóðfélagsins hafa smám saman verið að versna. Menn hafa verið að taka inn afleiðingarnar af hugmyndum og ráðagerðum ríkisvaldsins um næsta ár. Þannig hefur útreikningurinn, sem sýnir að samdrátturinn aukist meir og meir, vafið utan á sig. Ég tel að það sé full ástæða til að fara yfir þessi mál aftur og ég er alveg sannfærður um að þjóðin getur farið miklu betur út úr næsta ári en menn eru að gera sér í hugarlund núna. Ég ætla satt að segja að vona að menn vakni upp eftir áramótin svolítið bjartsýnni en þeir eru þessa dagana. Það kann ekki góðri lukku að stýra að menn sjái ekki neitt fram undan nema svartnætti og að hér sé tóm afturför í sambandi við afkomu þjóðarinnar.
    Eitt af allra stærstu atriðunum í hlutverki ríkisstjórnarinnar að mínu viti er að halda friði í þjóðfélaginu, friði á vinnumarkaðnum, friði við þá aðila sem eiga viðskipti við ríkið og ríkisstofnanir. Í þeim efnum finnst mér að ríkisstjórnin hafi illa brugðist. Mér finnst, þegar við berum saman það sem stjórnmálamenn sögðu í aðdraganda alþingiskosninganna og það sem hefur gerst síðan, að menn hljóti að verða að viðurkenna að þar sé æðimargt sem hafi breyst og breyst býsna mikið. Stöndum við ekki frammi fyrir því núna að ríkisstjórnin telur að ekki eigi að hækka persónuafslátt um áramótin? Það þýðir að mati verkalýðsfélaganna raunverulega lækkun upp á líklega 3--4%, ég man nú ekki töluna á þessum afslætti. Ekki veit ég til þess að nokkur stjórnmálaflokkur hafi sagt annað í kosningabaráttunni í vor en að það ætti að hækka persónuafsláttinn. Það var eitt aðalinntakið í ræðum fjölmargra stjórnmálamanna, að það væri engin spurning, allir voru sammála um þetta. Það er nú liðin tíð.
    Ég tel að hver ríkisstjórn eigi að hafa stefnu í launamálum og kjaramálum. Það eigi að vera hluti af stefnu ríkisstjórnar. Ég tel að stjórnin sem sat á undan þessari hafi lent í ógöngum, sem hún hefði ekki þurft að lenda í, ef unnið hefði verið betur við upphaf ríkisstjórnarinnar að því að mynda stefnu í launa- og kjaramálum. Ég hef ekki séð stefnu þessarar ríkisstjórnar í launa- og kjaramálum. Ég get ekki dæmt um hver hún er. Ég verð að dæma það mál eftir því sem frambjóðendur stjórnmálaflokkanna sem standa að ríkisstjórninni sögðu í kosningabaráttunni í vor. Ef það er stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum, sem þá var kynnt, held ég að hún hafi breyst æðimikið frá þeim tíma. Það er ekki gott þegar menn tala tungum tveim. Það sem hefur breyst, eins og ég kom að áðan, er auðvitað það að við ætlum að veiða minna af þorski. En nú stefnir í það að við getum veitt meira af loðnu. Ekki má gleyma stóra efnahagsáfallinu, sem menn tala um sem efnahagaáfall, en það er bygging álvers. Það er búið að vera árlegt efnahagsáfall í fjölmörg ár að við höfum ekki getað byggt álver. Það hafa verið jafnmikil rök fyrir því að færa það á reikning sem efnahagsáfall næsta haust eins og þetta haustið. Ég get ekki tekið mark á því þegar menn kalla það efnahagsáfall að fá ekki að byggja álver vegna þess, eins og ég segi, að það er búið að vera þannig undanfarin ár.
    Persónuafsláttur átti að hækka um 3,4% um þessi áramót og það verður ekki af því samkvæmt því sem haft er eftir ráðamönnum í þessari ríkisstjórn. Mér finnst að ríkisstjórn, sem hefur verið mynduð, þurfi að hafa stefnu í þessum málum, hún þurfi að koma sér niður á það með hvaða hætti hún ætlar að standa að samningamálum af því að á þetta hefur skort mjög á undanförnum árum. Ég hef sjálfur tekið þátt í fjölmörgum samningum og ríkið hefur gengið á undan í samningamálum með þeim hætti að það hefur oft valdið verulegum vandamálum í samningum annarra aðila í þjóðfélaginu. Mér finnst að eitt af því sem ætti að vera hluti af launa- og kjarastefnu ríkisstjórna er að ríkið hlýtur að vera, vegna þess hve stór aðili það er á vinnumarkaðinum, leiðandi aðili í samningum við aðila vinnumarkaðarins. Ríkið á aldrei að semja um hluti við ríkisstarfsmenn sem ekki er hægt að semja um á almennum vinnumarkaði. Þetta prinsipp hefur ríkið brotið í fjölmörgum atriðum í sínum samningum með alls kyns samningum við aðila um hluti sem ekki er hægt að semja um á almennum vinnumarkaði. Ég skal bara taka eitt dæmi. Það er dæmi um það að menn semji um að þeir geti fengið frí á fullum launum í heilt ár. Hvaða aðilar á vinnumarkaðinum geta gert svona samninga? Getur maður sem rekur verslun og er með tvo til þrjá í vinnu samið upp á þetta? Svo ég nefni nú bara eitt dæmi. Ég tel að ríkið hafi og reyndar bæjarfélögin líka gert samninga sem eru fráleitir. Ef við tökum annað dæmi, t.d. samningana um lífeyrissjóðina, sem ríkið og bæjarfélögin hafa gert þá eru þeir einmitt dæmi um þetta sem ekki hefur verið hægt að gera á almennum vinnumarkaði og hefur valdið þeim miklu vandamálum sem við sitjum uppi með þ.e. mismun á réttindum fólks til lífeyris. Þetta er mál sem menn verða að taka á og geta ekki vikið sér undan lengur, að ríkið verður að ganga þar á undan og gera breytingar. Þær verða sárar og erfiðar og það verður við erfiða andstæðinga að etja sem eru lífeyrissjóðirnir sem eru orðnir mjög sterkir og hafa í fyrirsvari það fólk sem ræður verkalýðsfélögunum. Mín skoðun er sú að það sé ekki hægt að víkja sér undan þessu einfaldlega vegna þess að ríki og sveitarfélög bera langmesta ábyrgð á því hvernig komið er. Þau verða að ganga á undan.
    Ég tel að ríkja eigi það grundvallarmarkmið að opinberir aðilar sjái til þess að lífeyrisréttur fólks sé til, lágmarkslífeyrisréttur sem sé tryggður af hinu opinbera. Hann sé það góður að fólk geti lifað af honum og þar fyrir utan geti menn myndað sér lífeyri til viðbótar. Ég hef stundum sagt það og vil segja það hér að ef við setjum málin einfalt upp þá þyrftum við að taka 6% sem atvinnurekendur greiða í lífeyrissjóðinn og greiða út sem rennslislífeyri til þeirra sem komnir eru á eftirlaun og láta þá sem eiga lífeyrissjóðina svo um að halda áfram með þá ef þeir vilja en bjóða þeim annars þann kost að leggja inn í sameiginlegan lífeyrissjóð allra landsmanna. Því ekki getum við gert þessa fjármuni upptæka, það mundi aldrei vera liðið í þjóðfélaginu. Hins vegar held ég að það yrði liðið ef ríkið mundi höggva á þennan hnút sem vissulega er vegna þess að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu eiga ekki nægileg lífeyrisréttindi þrátt fyrir að við séum búin að vera með almenna lífeyrissjóði í 30 ár eða a.m.k. 25 ár flesta þeirra. Þessi réttindi þarf að tryggja þeim.

    Eitt af því sem menn hafa tekist á um hér í þinginu undanfarna daga er sú hugmynd ríkisstjórnarinnar að skerða sjómannafrádráttinn og mig langar að segja fáein orð um það mál. Þar er um það að ræða, eftir því sem okkur er sagt, að ríkisstjórnin hugsi sér að ná þarna í eitthvað í kringum 200--230 millj. kr. samkvæmt þeim hugmyndum sem okkur var sagt frá. Sjómannasamtökin hafa sagt að það væri um að ræða miklu stærri upphæð. Síðan hafa menn verið að basla við að breyta þessu, aðallega hafa farið fram samningar á milli stjórnarliða um það með hvaða hætti væri hægt að breyta þessum hlutum. Hér var fyrir tveimur dögum kynnt að komin væri um þetta full sátt. Það kom fram í fjölmiðlum að menn teldu að þeir hefðu náð sáttum við forustumenn sjómannasamtakanna. Það var borið til baka af öðrum forustumönnum sjómannasamtakanna í fjölmiðlum, bæði í sjónvarpi, útvarpi og blöðum. Nú sýnist mér að sé hver höndin upp á móti annarri hjá sjómönnum. Það er illt mál, finnst mér, ef búið er að reka fleyg í samstöðu sjómanna gagnvart þessu hagsmunamáli þeirra. Þarna er eitt dæmið um að ríkisstjórnin hefur ekki gefið sér tíma til að vinna mál. Það er ádeiluvert. Mál eins og þetta hefði að mínu viti þurft að taka til umræðu í kjarasamningum vegna þess að ef ríkið hvarflar frá því að veita mönnum sjómannaafslátt, hvort sem þeir hafa róið á sjó eða ekki, ef þeir hafa bara fengið sjómannaafslátt vegna þess kerfis sem hefur verið í gangi, þá er ekki eðlilegt að taka af þeim þennan rétt nema í samhengi við aðra samninga þeirra. Þá er hægt að takast á um það í samningum hvort atvinnurekendur eigi ekki að taka, sem eðlilegt er, að sér þær greiðslur vegna þess að vitanlega ráða menn sig í vinnu með tilliti til heildararðs af því sem þeir ætla að fara að gera. Þeir sem hafa verið að beita línu eða verið á sjó hafa auðvitað litið á öll kjörin, ekki bara hvað fæst útborgað hjá viðkomandi útgerðarmanni, heldur öll kjörin, líka sjómannaafsláttinn. Þegar honum er svo kippt til baka virðist manni fráleitt annað en það sé gert í samningum þannig að aðilar fái tækifæri til þess að takast á um hvernig eigi að skipta byrðunum sem ríkið léttir af sér.
    Við getum haldið áfram með fjölmörg önnur atriði sem þessi ríkisstjórn hefur verið að fást við. Allt hefur þetta verið gert í miklum flýti og þó er ekki eins og hún hafi verið að taka við fyrir nokkrum vikum. Hún hefur haft allt sumarið, alveg frá því í vor hefur hún haft tíma til þess að undirbúa sín mál. Það hefur ekki verið nógu langur tími og það verð ég þó að viðurkenna að þótt sá tími hefði verið notaður vel eru mörg af þeim málum sem hún hefur vaðið fram í þannig gerð að ekki er hægt að leysa þau á svo stuttum tíma. Menn verða að gefa sér mjög langan tíma til undirbúnings breytinga í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu og í samningum við aðila vinnumarkaðarins. Ef menn ætla að gera breytingar þá verða þeir að taka sér tíma til þess. Það verður að vera hægt að fara í gegnum málin með þeim aðilum sem eiga hlut að þeim. Það er þessi ríkisstjórn vonandi að læra í aðdraganda þessarar umræðu, að svona er ekki hægt að haga sér.
    Þessi svokallaði lögregluskattur sem við erum búin að vera að kynnast hér í nokkra daga er eitt dæmið. Þetta snjallræði var fundið upp í staðinn fyrir það að henda í sveitarfélögin að sjá um fatlaða, þá ákváðu menn að það skyldi heita greiðsla vegna löggæslu. Þetta átti að vera nefskattur, að vísu mismunandi hár, tvær upphæðir voru ákveðnar og auðvitað kæmi þetta mjög misjafnlega niður á sveitarfélögunum. Þessi einfalda hugsun var ákaflega fáránleg vegna þeirra afleiðinga sem þetta hefði. Svo ég taki dæmi, vegna mismunarins á þessum upphæðum, mig minnir að þetta hafi verið 2.700--2.800 kr. á sum sveitarfélög og annars staðar líklega 1.700--1.800 kr., að eitt af ríkustu sveitarfélögum hér í nágrenninu sem tekur ekki nema 3% í útsvar, hefði þurft að borga 1.700 kr. en fátækustu sveitarfélögin eiga kannski að borga 2.800 kr. Auðvitað er engin röksemd fyrir því að hafa þetta misjafnlega hátt vegna þess að ef greiða á mismikið ætti það að koma fram í þjónustunni. Það er ekki aldeilis þannig að gerður sé sá munur á upphæðinni, eins og tillagan var, að hún sé miðuð við þá þjónustu sem er veitt. Svo við tökum dæmi, þá er fjöldi íbúa á lögreglumann allt frá því að vera líklegast 410 og upp í 1.200 manns á lögregluþjón. Þannig er upphæðin ekki fundin út frá því hver þjónustan er. Auðvitað vitum við það að í ýmsar fámennar sveitir koma lögregluþjónar yfirleitt aldrei og það er fáránlegt að láta menn borga mismunandi hátt gjald, eins og þarna var fundið upp á, vegna þessara mála.
    Mig langar að koma að einu atriði vegna nefndar sem ég á sæti í, samgn. Það eru framlögin til vegamála. Þau hafa verið skert mjög mikið frá fyrra ári og geysileg skerðing hefur orðið á framlögum til vegamála frá þeirri vegáætlun sem var í gildi á síðasta vori. Þá var í gildi áætlun þar sem var gert ráð fyrir að heildartekjur til vegamála yrðu 6 milljarðar 318 millj. en núna er gert ráð fyrir því að heildardæmið verði 5 milljarðar 565 millj. kr. Þarna er um lækkun að ræða í kringum milljarð. Það verður þó að taka fram að það er ekki rétt að nota orðið niðurskurður um alla upphæðina vegna þess að orðið hafa breytingar á tekjum sem hafa komið inn í dæmið líka. Ætli við getum ekki talað um líklegast 765 millj. kr. niðurskurð á framkvæmdum miðað við það sem áður var reiknað með. Það er auðvitað geysilegur niðurskurður vegna þess að hann kemur allur fram á nýframkvæmdum vegagerðar í landinu.
    Búið var að gera samning á sínum tíma um Vestfjarðagöng og í tengslum við þann samning var ákveðið að það ætti að taka að láni fé til Vestfjarðaganga með það fyrir augum að dreifa þessum kostnaði á fjögur ár. Ríkisstjórnin ákvað að hverfa frá þessu. Þetta var gert í tengslum við það að þessum framkvæmdum yrði flýtt um eitt ár. Ríkisstjórnin ákvað að halda sig við það að þessu yrði flýtt um eitt ár en að fjárhæðin yrði tekin af vegafénu. Þetta var auðvitað aðgerð sem var, að mínu viti, óþörf, óskynsamleg og ekki til neins annars en að vekja tortryggni og kannski öfund á milli svæða í landinu vegna þess að þegar ákveðið var að flýta jarðgöngum á Vestfjörðum var um það mjög góð samstaða allt í kringum landið. Nú kemur það að jarðgöngunum var flýtt út sem niðurskurður á framlögum til vegamála í öðrum byggðarlögum sem ekki átti að verða. Það gerist á sama tíma og ríkisstjórnin ákveður að skera niður framkvæmdir miklu meira en bara þetta. Það eru yfir 500 millj. í viðbót við þá upphæð sem tekin var inn í vegafé vegna Vestfjarðaganganna. Örugglega verður lítið um framkvæmdir víða úti um land í vegamálum og þetta mun valda tortryggni á milli manna. Menn verða ekki jafnfúsir til að ræða um að flýta framkvæmdum á einum stað ef það kæmi upp svipað mál, eins og við erum að tala um hér, þ.e. jarðgöng á Vestfjörðum.
    Ég gleymdi því áðan, en mig langar að koma að því aftur, að til þess að sýna dæmi um það hvernig aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma við einstök byggðarlög þá hef ég hér í höndunum plagg sem ég fékk frá Akranesi um það hvernig bæjarstjórnin á Akranesi telur að þessar aðgerðir komi við fjármál bæjarins. Þá er þar fyrst til að taka að löggæsluskatturinn sem ég ræddi hér áðan, sem er 2.850 kr. á íbúa, yrði á Akranesi tæpar 15 millj. kr. Breyting á lögum vegna ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota, sem eru 0,2%, yrðu 420 þús. Breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem sveitarfélögum er gert að greiða 3,5% sem framlag til hverrar félagslegrar íbúðar sem keypt er. Miðað við meðalverð íbúða og meðalfjölda sem hefur verið keyptur á undanförnum árum á Akranesi gætum við verið að tala um tæpar 2,4 millj. Samtals er þetta tæplega 18 millj. tekjutap fyrir Akraneskaupstað. En sveitarfélögin í landinu verða fyrir tekjutapi líka, eins og ríkið, vegna almenns samdráttar. Þeir á Akranesi reikna þennan samdrátt á sama hátt og gert er hér á vegum opinberra aðila gagnvart ríkinu og telja að tekjurnar á næsta ári muni rýrna um 12,4 millj. kr. Þeir telja að áhrif verðlagsbreytinga muni verða 6% til hækkunar á næsta ári og aukning vegna rekstrar í sveitarfélaginu verði 8 millj. Þannig að lakari staða sveitarfélagsins á Akranesi yrði upp á 60 millj. Þar til viðbótar kemur skerðing á framlagi Jöfnunarsjóðs til Akraneskaupstaðar. Akranes hefur fengið framlag á undanförnum árum og fékk í fyrra í kringum 50 millj. Skerðingin verður líklegast ekki undir 15 millj. ef fram fer sem horfir. Nú hafa sveitarfélög, bæði Mosfellsbær og Hafnarfjörður, ákveðið að hækka útsvar sitt upp í 7,5% sem þýðir að þessi sveitarfélög geta fengið úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og eiga fullan rétt á því. Það mun gera það að verkum að 30% skerðing mun verða á framlögum til sveitarfélaganna sem hafa fengið framlög á undanförnum árum úr Jöfnunarsjóðnum. Þetta er mjög alvarlegt mál og fyrir fátækustu sveitarfélögin er þetta alvarlegast því það kemur auðvitað verst við þau.
    Ég ætla nú að fara að ljúka máli mínu. Ég var að vona fyrir nokkrum klukkutímum síðan að hægt yrði að ljúka umræðum um fjárlög og þau frv. sem nauðsynlegast væri að koma í gegn fyrir jól en sú von virðist vera að bregðast. Mér finnst það miður en ég tel að stjórnarandstaðan hafi gert það sem hún hefur getað. Hún getur ekki skilið við málin í þinginu án umræðu. Hún hefur rækt sitt hlutverk að mínu viti eðlilega við þessar erfiðu aðstæður sem nú eru. Ríkisstjórnin hefur boðið upp á mjög erfiðar aðstæður við undirbúning fjárlaga. Ég tel að það eina sem er jákvætt við þennan aðdraganda og hvernig þetta hefur gengið sé að við getum vonað að ríkisstjórnin og hennar stuðningsaðilar læri eitthvað af málinu.