Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 18:08:00 (2415)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fara fram á það að hæstv. fjmrh. verði kallaður til fundarins. Það er satt að segja nokkuð sérkennilegt að fjmrh. skuli vera svo mikið í burtu frá þessari umræðu. Það hefur verið venja hér um langt árabil að fjmrh. væri viðstaddur 2. og 3. umr. fjárlaga en það virðist vera þannig að núv. hæstv. fjmrh. hafi takmarkaðan áhuga á því að vera viðstaddur umræðu um þetta frv. sitt.
    Þegar hæstv. fjmrh. kynnti fjárlagafrv. var stefið í hans ummælum að hér væri verið að leggja fram frv. til raunhæfra fjárlaga. Munurinn á þessu frv. og fyrri fjárlögum fælist í því að hér væri verið að leggja grundvöll að nýjum vinnubrögðum sem gerðu allar tölur frv. raunhæfar. Þess vegna hefðu ráðuneytin sjálf og stofnanir þeirra farið yfir framlögin til einstakra ríkisstofnana og allt væri þetta byggt á raunhæfu mati.
    Nú blasir hins vegar við að ríkisstjórnin hefur á síðustu tveimur vikum verið að tæta þetta svokallaða raunhæfa frv. í sundur. Slíkur er tætingurinn hjá hæstv. ríkisstjórn að hún neyðist til þess að láta flytja sem 45. brtt. meiri hluta fjárln. útfærslu á niðurskurði í ríkisfjármálum sem er einsdæmi í fjárlagagerðinni, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki lengur hugmynd um það hvernig hún á að ná þeim áformum í rekstrarkostnaði og launakostnaði ríkisstofnana sem stefnt er að í þessu frv. Þess vegna er alveg ljóst að þau ummæli hæstv. fjmrh., að hér væri á ferðinni raunhæft fjárlagafrv., eru nú þegar orðin hrein öfugmæli við 3. umr. frv. hvað þá heldur í ljósi þess sem gerast mun þegar frv. kemur til framkvæmda.
    Annað atriðið sem hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv., var að frv. væri hornsteinn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og grundvöllur að kjarasamningum eftir áramót. Það er alveg ljóst þegar við erum komin að 3. umr. frv. að þessi fullyrðing

hæstv. fjmrh., að fjárlagafrv. og fjárlög næsta árs yrðu grundvöllur nýrra kjarasamninga, er einnig orðin að hreinum öfugmælum. Þvert á móti er það þannig að öll samtök launafólks eru nú þegar í uppreisn gegn þessu frv. BSRB, Alþýðusambandið, sjómannasamtökin og fjöldinn allur annar af samtökum launafólks mun telja það frumkröfu í kjarasamningum eftir áramót að hrinda þeirri aðför sem gerð er að kjörum þeirra í frv. Það blasir þess vegna þegar við að þetta fjárlagafrv. mun gera kjarasamninga á nýju ári mun erfiðari en ella.
    Í þriðja lagi var það fullyrðing hæstv. fjmrh. að hér væri verið að ganga frá fjárlögum sem yrðu grundvöllur að vaxtalækkun, raunvaxtalækkun í íslenska hagkerfinu á nýju ári. Hæstv. forsrh. sagði, þegar niðurstöður næturfundar ríkisstjórnarinnar í þessum mánuði voru kynntar, að þegar í byrjun nýs árs yrði raunvaxtalækkun á grundvelli fjárlagafrv. Nú þegar er orðið ljóst að það er ekkert í þessu frv. sem mun leiða til þess að raunvaxtastigið í landinu fari lækkandi á nýju ári. Þvert á móti er ærið margt sem bendir til þess, eins og ég mun koma að eftir fáeinar mínútur, að þetta fjárlagafrv. verði ein meginorsök þess að raunvaxtastigið í íslenska hagkerfinu verði áfram hátt á næsta ári. Því miður er það þannig að allar þessar þrjár einkunnir, öll þessi þrjú markmið, sem hæstv. fjmrh. valdi sínu fyrsta fjárlagafrv., eru þegar orðin öfugmæli hér við 3. umr. frv. Markmiðið um raunhæf fjárlög sem myndu standast í fyrsta sinn, ný vinnubrögð o.s.frv. Í öðru lagi markmiðið um grundvöll kjarasamninga strax á nýju ári og í þriðja lagi grundvöllur að vaxtalækkun.
     Hæstv. fjmrh. mun því miður þurfa að upplifa það á nýju ári að hallatala þessa frv. mun ekki standast. Hæstv. fjmrh. mun því miður þurfa að upplifa það á nýju ári að glíma hans og ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins, bæði launafólk og fulltrúa atvinnulífsins, verður harðari og grimmari en ella vegna þessa frv. Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. munu því miður þurfa að glíma við þá staðreynd að fulltrúar bankakerfis og fjármálastofnana munu á nýju ári rekja það fyrir þeim að vegna þessa fjárlagafrv. verði ekki unnt að ná niður raunvaxtastiginu í íslenska hagkerfinu. Í sjálfu sér þarf ekki að segja mikið meira um þessi höfuðatriði. Reynslan mun auðvitað sanna eða afsanna hvort þessi dómur minn er réttur. Ég er alveg tilbúinn að leggja hann í fang reynslunnar og nýs árs og heilsa upp á hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. á nýju ári og skoða það með þeim hver niðurstaðan verður.
    Virðulegi forseti. Ég hef sagt það síðustu daga að raunhallinn á því fjárlagafrv., sem hér er verið að afgreiða, sé aldrei undir 7 milljörðum kr. Ég hef líka heyrt kunnáttumenn, sem síðustu daga hafa farið yfir þetta fjárlagafrv. og þær svokölluðu ,,lausnir`` sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um, komast að þeirri niðurstöðu að raunhalli þessa fjárlagafrv. sé í kringum 9 milljarðar, hæstv. forsrh. Ég ætla ekki að nefna þá tölu hér sem mína skoðun en ég get hennar hins vegar til þess að hæstv. fjmrh. hugleiði af fullri hógværð, vegna þess að hógværðin hefur ekki verið hans helsti kostur í ummælum um þetta frv. á undanförnum mánuðum. Ég bið hann að hugleiða af fullri hógværð að kannski kann reynslan að sýna það að þessir menn hafa rétt fyrir sér. Hvers vegna er raunhallinn meiri en þeir tæpu 4 milljarðar sem verið er að reikna með í frv.? Ég ætla aðeins að nefna nokkur atriði til skýringar.
    Í fyrsta lagi er alveg ljóst að tekjuáætlun frv., sérstaklega hvað snertir tekjuskatt einstaklinga og tekjur af innflutningi, er byggð á því að þessar tekjur aukist á næsta ári þrátt fyrir það að Þjóðhagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að næsta ár verði eitt mesta samdráttarár í 40 ára sögu íslenskrar hagstjórnar. Hvernig menn fá það út, jafnvel þótt þeir reikni inn í tekjuskatt einstaklinga 700 milljónir vegna sérstakra álaga á sveitarfélögin, að hið nýja ár skili auknum tekjuskatti og auknum tekjum af innflutningi frá fjárlagafrv., það

er mér óskiljanlegt. Ég minni á í því sambandi að fjárlagafrv. var byggt á þeirri forsendu að hér hæfust álversframkvæmdir á næsta ári. Nú hefur það gerst að ekki aðeins álversframkvæmdunum hefur verið slegið á frest um margra ára bil heldur hefur einnig komið fram alvarlegur aflasamdráttur þannig að þjóðfélagið hefur orðið fyrir tvöföldu áfalli í þeim skilningi. Að fara þá að bæta við teknamegin í frv. vegna veltunnar í hagkerfinu er galdraverk sem ég fæ ekki skilið enda stenst það ekki.
    Ég vil einnig nefna virðisaukaskattinn. Ég vil segja við hæstv. fjmrh.: Ég tel að það séu nokkur merki þess að við séum nú að lifa sams konar keðjuverkandi samdráttaráhrif í hagkerfinu og hér urðu sumarið og haustið 1988. Þær keðjuverkandi samdráttaraðgerðir í hagkerfinu leiddu til þess að innheimtan af stærsta veltuskattinum, sem þá var söluskatturinn en er nú virðisaukaskatturinn, hríðféll frá einum mánuði til annars. Ég óttast þess vegna --- en vonandi er sá ótti ekki á rökum reistur --- að hæstv. fjmrh. muni upplifa það á næstu mánuðum að það verði ekki bara innheimtutölur nóvembermánaðar í virðisaukaskattinum sem verða langt undir áætluðum mörkum heldur einnig innheimtutölur annarra mánaða. Ég nefni til viðbótar að í frv. er reiknað með einum milljarði í tekjur vegna sölu á ríkisfyrirtækjum. Fulltrúar atvinnulífsins og fulltrúar verðbréfafyrirtækjanna hafa fullyrt það síðustu daga að þær breytingar sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera á tekjuskatti arðgreiðslna muni hafa í för með sér algjört hrun og óstöðugleika á hinum veikburða íslenska hlutafjármarkaði. Slíkt kemur til viðbótar því hruni sem þar hefur orðið vegna efnahagsástandsins og samdráttarins almennt á síðustu mánuðum. Að ætla sér þá milljarð í tekjur af sölu ríkisfyrirtækja, sem á engan hátt er byrjað að undirbúa með raunhæfum hætti, er satt að segja draumsýn sem ég hef enga trú á að fái staðist.
    Ég nefni til viðbótar að nú er sett 1.500 millj. kr. slumptala inn í frv. sem skerðing launa og rekstrarkostnaðar í ríkiskerfinu. Hún er byggð á því að meginhluta að í skólakerfinu verði næsta haust skorið niður sem nemur tæpum hálfum milljarði í launakostnaði kennara í grunnskólunum og framhaldsskólunum. Það er alveg ljóst, og það veit núv. hæstv.menntmrh. og einnig núv. hæstv. fjmrh., að það mun aldrei koma til framkvæmda. Það leggur enginn í að gera þúsundir íslenskra barna kennaralausar á næsta hausti.
    Á sama hátt er í þessum niðurskurði reiknað með að í sjúkrahúsunum einum verði niðurskurðurinn milli 300 og 400 millj. til viðbótar við þann niðurskurð sem áætlaður er á hreinum útgjaldatölum þessara sjúkrastofnana á næsta ári. Eins og Davíð Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri ríkisspítalanna, sagði í viðtali, þá hefði hann enga trú á því að menn í alvöru meintu slíkar tölur. Ég held þess vegna að hæstv. fjmrh. megi teljast góður, svo ég noti nú það orð, ef hann nær 800--1.000 millj. af þessum 1.500 millj. sem þarna er gert ráð fyrir.
    Einnig má nefna, eins og ég vék að, að útgjöldin í sjúkrastofnunum og skólakerfinu, eins og þau birtast ein og sér, eru auðvitað með þeim hætti að afar ólíklegt er að þau dugi stofnununum út árið enda hefur það þegar komið í ljós hjá Háskóla Íslands að hann mun loka á nýja nemendur næsta haust ef þessar tölur verða látnar standa. Mun hæstv. ríkisstjórn láta Háskóla Íslands vera lokaðan næsta haust fyrir nýnemum? Ég hef enga trú á því.
    Þannig gæti ég nefnt fjölmörg dæmi sem sýna að það er lágmark, þegar skoðað er teknamegin og gjaldamegin í þessu fjárlagafrv., að það eru a.m.k. 3 milljarðar, jafnvel 4 sem ekki munu skila sér, annaðhvort vegna þess að tekjurnar nást ekki inn eða þá að útgjaldasparnaðurinn muni ekki koma til framkvæmda. Þess vegna segi ég, hæstv. fjmrh.: Hér er verið að ganga frá fjárlögum sem ekki eru raunhæf og sem nú þegar eru þannig frá gengin að hallinn á ríkisfjármálunum verður aldrei undir 7 milljörðum á næsta ári, kannski miklu meiri.

    Hvað hefur það í för með sér út frá kenningum hæstv. fjrmh. og ríkisstjórnarinnar sjálfrar? Það hefur það í för með sér að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er hrunin. Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er hrunin. Sjálfur hornsteinninn í því sem ríkisstjórnin ætlaði sér að gera er brotinn. Við siglum þess vegna inn í nýtt ár með ríkisstjórn sem hefur engan raunhæfan grundvöll fyrir efnahagsstefnu sinni, engan raunhæfan grundvöll fyrir vaxtastefnu sinni og efnahagskerfið sjálft og þjóðfélagið er í upplausn.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt það í vana minn að endursegja hér í ræðustól á Alþingi leiðara DV. Ég ætla þó að gera það í dag vegna þess að í leiðara DV í dag kemur fram, að mínum dómi, sannur en miskunnarlaus og harður dómur um þetta fjárlagafrv. Í leiðaranum segir, með leyfi virðulegs forseta, á þessa leið:
    ,,Ofbeldishneigður heilbrrh. hefnir sín á nunnum Landakots með því að skera fjárveitingatillögu sína til spítalans niður við trog milli 2. og 3. umr. um fjárlög, þannig að fyrirsjáanlegt er að loka verði spítalanum að verulegu leyti á næsta ári.
    Nunnurnar höfðu brugðið fæti fyrir snöggt frumhlaup ráðherrans um að leggja út í milljarðskostnað við að sameina tvo spítala, þótt sterk rök hafi verið leidd að því að slíkt sé óráðlegt. Þetta minnir á ofsafengnar aðgerðir ráðherrans gegn heilsuhæli í Hveragerði.
    Snögg kyrking eins spítala milli 2. og 3. umr. er gróft dæmi um handahlaupin við smíði fjárlaga, sem eru meiri en verið hafa á heilum mannsaldri. Tillögur um álögur og niðurskurð rjúka inn og út úr fjárlagafrv. eins og um vængjahurð á hóteli.
    Einn daginn á að láta sveitarfélögin taka við málefnum fatlaðra. Næsta dag eiga þau ekki að gera það heldur taka þátt í kostnaði við löggæslu. Þriðja daginn á ekki að taka þennan kostnað af útsvarinu heldur með sérstökum nefskatti á kjósendur. Þetta eru skrípalæti.
    Fundir eru haldnir kvöld- og næturlangt á Alþingi og í nefndum þess. Minni tími en nokkru sinni fyrr er gefinn til að þingmenn geti lesið hin síbreytilegu gögn, sem þeim er ætlað að afgreiða á færibandi. Aldrei hefur íslensk ríkisstjórn sýnt Alþingi aðra eins fyrirlitningu.
    Rifrildið milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga hverfur stundum í skugga rifrildis milli stjórnarsinna því að ríkisstjórnin hefur ekki gefið sér tíma til að afla sér stuðnings einstakra stjórnarþingmanna við mikilvægar tillögur um afdrifaríkar breytingar á fjárlögum.
    Stjórnarsinnar deila um skattafrádrátt af arðgreiðslum hlutafélaga, um sjómannaafslátt, um skólagjöld, um framlengingu jöfnunargjalds, um niðurskurð í jarðgangagerð, um ríkisbyggingar í Hornafirði og um skatt á hafnagjöld, svo að nokkur þekkt dæmi séu nefnd.
    Margt fer saman í því hneyksli, sem afgreiðsla fjárlaga var orðin. Í fyrsta lagi var fjárlagafrv. illa unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar voru umdeilanleg nýmæli sem ríkisstjórnin átti að vita að hún þyrfti að ræða við uppreisnarhneigða þingmenn stjórnarliðsins.
    Í öðru lagi virðist ríkisstjórnin og liðsstjórar hennar á Alþingi, svo sem forsetar og þingflokksformenn, ekki átta sig á að hefðir vinnubragða eru aðrar þar heldur en í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem án nokkurra mannasiða er valtað kerfisbundið yfir minni hlutann.
    Í þriðja lagi eru meginstoðir tekjuhliðar fjárlagafrv. marklausar með öllu. Með einu pennastriki er áætlun um tekjuskatt hækkuð um rúman milljarð milli umræðna þótt á sama tíma hafi komið í ljós að áætlanir ríkisins um skattstofninn fara lækkandi.
    Sama er að segja um áætlanir um innflutningstekjur. Ljóst er að innflutningur mun dragast saman á næsta ári í enn meiri mæli en tekjur fólks. Fjárlagafrv. ætti að endurspegla þessar breyttu forsendur en gerir það alls ekki. Forsendur þess eru marklausar.
    Ríkisstjórnin undirbýr mál sitt illa og keyrir áfram vanhugsaðar ráðagerðir með offorsi. Hún skiptir daglega um skoðun og ætlast til að þingmenn hlaupi í hring á eftir sér. Hún lætur þingið starfa nótt og dag til að afgreiða fjárlög sem byggjast á pennastrikum út í loft.
    Um langan aldur hefur engin ríkisstjórn farið um með slíkum rassaköstum og ruglingi, ofbeldi og undirbúningsleysi og sú sem nú niðurlægir þing og þjóð.``
    Tilvitnun lýkur, virðulegi forseti, í þennan leiðara DV sem ber heitið Makalaus fjárlög. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á að í leiðurum þessa blaðs var ríkisstjórninni fagnað á síðasta sumri. Í helgargreinum þessa blaðs var ríkisstjórnin lofsungin á sl. sumri og hausti. Þetta er eitt af þeim blöðum í landinu sem sagði þjóðinni í sumar og haust að miklar vonir væru bundnar við þessa ríkisstjórn.
    Sá dómur sem þarna er kveðinn upp er því miður, hæstv. fjmrh., sá dómur sem nú breiðist út um þjóðfélagið allt. Það hefur enginn trú á því, og kannski ekki hæstv. ríkisstjórn heldur, að þetta fjárlagafrv. sé undirstaða eins eða neins. Þar með er efnahagsstefnan í landinu komin út og suður. Það var alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. í haust að trúverðugleiki fjárlagafrv. var forsendan fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, forsendan fyrir vaxtalækkun og forsendan fyrir skynsamlegum kjarasamningum. Þegar þessi trúverðugleiki hefur verið brotinn í sundur, tættur í spað af stjórnarliðunum sjálfum á síðustu vikum, þá er ekkert eftir. Ég get sagt hæstv. fjmrh. það að í orðræðum stjórnarliða hér á göngum Alþingis í dag er rætt um það að ríkisstjórnin þurfi að koma með ný fjárlög inn í þingið strax í marsmánuði ef hún á að halda andliti sínu og ekki missa efnahagsstjórnina gjörsamlega úr böndunum.
    Virðulegi forseti. Í raun og veru þarf ekki að segja mikið meira. Þessi niðurstaða liggur fyrir. Hæstv. ríkisstjórn getur auðvitað knúið á um það að hér fari fram í þingsalnum fyrir jól atkvæðagreiðsla um þetta frv. Það er með hefðbundnum hætti. Það er ekki sú atkvæðagreiðsla sem ræður því hvort frv. er hornsteinn skynsamlegrar efnahagsstefnu. Það er raunveruleikinn sem ræður því. Sá raunveruleiki er ekki bakhjarl þessa frv.
    Virðulegi forseti. Ég hef kosið að flytja hér tvær litlar brtt. við þetta frv. Ég hafði ekki hugsað mér að ganga í sveit þeirra þingmanna sem flytja mikið af brtt. við fjárlagafrv. En það var hins vegar í tveimur efnum sem ég gat ekki á mér setið að flytja hér inn í þingsalinn brtt. vegna þess að mér finnst sú hugsun sem liggur að baki afgreiðslu fjárln. og ríkisstjórnarliðsins vera svo hróplega röng og ósanngjörn.
    Það fyrra snertir framlag til Neytendasamtakanna. Ef við trúum á þá kenningu að samkeppni á markaði vöru og þjónustu sé góð fyrir stöðugleika í efnahagslífi, fyrir heilbrigt efnahagsástand, þá er líka nauðsynlegt að byggja trúnaðartraust neytenda gagnvart markaðnum. Það gerist með þrennum hætti, reynslu neytandans sjálfs, með starfi skipulegra samtaka og með starfsemi opinberra aðila. Framlögin til hinna opinberu aðila eru líka skorin niður. En það hróplega gerist að í fjárlagafrv. var ákveðið að skera hina litlu upphæð, 5 millj. kr. til Neytendasamtakanna, niður í 1,5 millj. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna menn ganga úr götu sinni til slíkra verka. Fjárln. sér að vísu að þetta er óhæfa og leggur til að framlagið sé hækkað um 1 millj. Ég er hér að leggja til, ásamt hv. þm. Steingrími Hermannssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að Alþingi ákveði að Neytendasamtökin fái sömu upphæð á næsta ári og þau höfðu í ár. Það er raunlækkun, hæstv. fjmrh., þannig að Neytendasamtökin taka þátt í því að skerða sinn hlut. En ég sé ekki samhengið í því að Neytendasamtökin séu sá aðili í þessu fjárlagafrv. sem líklegast er einna mest skorinn niður. Ég hef ekki hér í þingsölum heyrt nein rök fyrir því.
    Ég vil því biðja í fullri vinsemd hæstv. fjmrh. að hugleiða það og ræða það við hæstv. viðskrh. hvort þeir vilja ekki sjá sóma sinn í því að annaðhvort beita sér fyrir því sjálfir, og þá drögum við þessa brtt. að sjálfsögðu til baka, eða þá að styðja þessa tillögu

þannig að þingið lýsi þeirri afstöðu sinni til frjálsrar starfsemi Neytendasamtakanna að hún fái óbreyttar þær litlu 5 millj. sem samtökin hafa fengið á undanförnum árum.
    Í öðru lagi hef ég ásamt Steingrími J. Sigfússyni flutt þá tillögu að framlagið til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði hækkað um tæpar 40 millj. Framlag Íslands til málefna hinna fátæku ríkja suðursins hefur lengi verið hneyksli. Við leituðumst við í síðustu ríkisstjórn að hækka það á ýmsum liðum smátt og smátt. Ég hef orðið var við að menn hafa tekið eftir því erlendis, í alþjóðlegum stofnunum, að slíkt gerðist. Menn vita þar af því að framlag Íslands hefur verið lítið og ómerkilegt í ljósi þess að okkar hlutur í daglegu lífi er með því besta sem tíðkast í veröldinni. Mér finnst að þegar kreppir að hjá okkur eigum við ekki að láta það koma niður á því hróplega litla framlagi sem við leggjum til fátækra ríkja þar sem tugþúsundir barna deyja á hverjum sólarhring vegna þess að þau hafa ekki hreint vatn og fá ekki einfaldasta bóluefni sem við teljum sjálfsagðan hlut. Ég vil þess vegna biðja ríkisstjórnarmeirihlutann að hugleiða í alvöru hvort ekki er rétt að sýna það siðferðilega merki að fara ekki að lækka framlagið til Þróunarstofnunarinnar þrátt fyrir erfiðleikana hjá okkur sjálfum.
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan óska eftir því að formaður fjárln. yrði viðstaddur það sem ég ætla næst að víkja að. Formaður fjárln. vék að því í sinni ræðu að í tíð þáv. landbrh. hefði verið staðið að kaupum á fasteignum á ríkisjörð með þeim hætti að óeðlilegt væri og lýsti því yfir að það væri hans persónulega skoðun að slíkt væri lögbrot. Það eru ansi stór orð, virðulegi forseti, að form. fjárln. lýsi slíku yfir í ræðustóli á Alþingi. Nú vill svo til að mér hefur borist í hendur minnisblað sem sent hefur verið til landbrh. vegna fyrirspurnar um fordæmi slíkra gerninga á vettvangi Stjórnarráðs Íslands. Þar kemur fram að fjölmörg fordæmi eru fyrir því að slíkt hefur verið gert. Það er athyglisvert að Ríkisendurskoðun hefur aldrei gert neina athugasemd við slíkt.
    Ég vil nefna sem dæmi að árið 1986 voru fjárhús og hlaða keypt á jörðinni Stóraheiði í Vestur-Skaftafellssýslu. Ég vil nefna að árið 1987 voru íbúðarhús og hesthús keypt á Aðalbóli í Suður-Þingeyjarsýslu. Ég vil nefna að árið 1988 voru fjárhús, hlaða og aðrar byggingar keypt á Hraunsmúla í Snæfellssýslu. Og ég vil nefna að árið 1988 var hlaða keypt á Neðri-Þverá í Vestur-Húnavatnssýslu og fleiri dæmi mætti nefna. Öll þessi dæmi eru frá þeim árum þegar annar maður gegndi embætti landbrh.
    Ég vil einnig geta þess, virðulegi forseti, að margt bendir til þess að í landbúnaðarráðherratíð hv. þm. Pálma Jónssonar hafi einnig verið staðið að kaupum með þessum hætti. Samt sem áður á núv. þingmaður Pálmi Jónsson sæti í fjárln. þar sem menn eru að fjalla um málin með þessum hætti. 1987 voru slík kaup gerð varðandi jörð á Vestfjörðum. Það er þess vegna alveg ljóst að ef litið er til reynslunnar og sögunnar eru fjölmörg dæmi þess að að kaupum á húseignum á ríkisjörðum hafi verið staðið með þessum hætti. Það er auðvitað mjög vont að hv. formaður fjárln. skuli ekki sjá sér fært að vera í þingsalnum og hlýða á staðreyndir máls í þessum efnum. ( Forseti: Forseti vill geta þess að hann hefur gert ráðstafanir til að hv. þm. Karl Steinar Guðnason verði hér í þingsalnum.) Enn fremur er rétt að það komi fram, og ég vil nefna það vegna þess að á sínum tíma gegndi ég embætti fjmrh., að slík kaup voru hluti af heildarráðstöfunum vegna loðdýraræktar í landinu. Það fór hér fram gífurleg umræða á þinginu og í ríkisstjórn á þeim tíma hvernig ætti að bregðast við til aðstoðar í þeim erfiðleikum sem ríktu í málefnum loðdýrabænda. Ég vil einnig nefna að Jarðasjóður er sjóður með sjálfstæðan fjárhag í vörslu landbrn. og hefur ákveðna fjárveitingu. Í öllum tilvikum hefur verið reynt að tryggja að sjóðurinn réði við þær skuldbindingar sem hann tæki á sig innan ramma þeirra fjárveitinga sem hann fær í sinn hlut. Ég tel einnig rétt að geta þess að það liggur fyrir frá Stofnlánadeild landbúnaðarins í bréfum, sem send voru í janúarmánuði árið 1991, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hvetur eindregið til þess að til slíkra aðgerða verði gripið. Þar er lagt til sem fyrsti liður í formlegu bréfi frá Stofnlánadeild landbúnaðarins til landbrh. að ríkissjóður kaupi loðdýramannvirki á ríkisjörðum án þess jafnvel að um ábúðarslit sé að ræða. Þessi skoðun er síðan ítrekuð í bréfi frá Stofnlánadeild landbúnaðarins 4. mars 1991 þar sem fram kemur að stjórn deildarinnar lítur svo á að ríkið muni tryggja greiðslur á áhvílandi lánum við Stofnlánadeildina annaðhvort með kaupum á loðdýramannvirkjum og yfirtöku lána eða á annan hátt, eins og kemur fram í bréfi landbrn., svo ég vitni orðrétt í bréfið frá Stofnlánadeild landbúnaðaðarins 4. mars 1991.
    Þannig gæti ég, virðulegur forseti, rakið fjölmörg gögn í þessu máli bæði frá landbúnaðarráðherratíð hv. þm. Jóns Helgasonar og einnig frá landbúnaðarráðherratíð hv. þm. Pálma Jónssonar. Aldrei fyrr hefur ástæða verið talin til að gera við það athugasemd hvað þá heldur að formaður fjárln. gengi svo langt að lýsa þeirri persónulegu skoðun sinni að hann teldi slíkt vera lögbrot. Ég tel þá skoðun ekki rétta, ekki byggða á raunhæfum gögnum og alls ekki á þeirri athugun sem óhjákvæmilegt hefði verið fyrir fjárln. að framkvæma ef hún ætlaði að fella dóm af þessu tagi.
    Ég vil fagna því að hv. þm. Karl Steinar Guðnason er kominn hér í salinn. Ég ætla hins vegar ekki að eyða tíma þingsins með því að endurtaka allt sem ég sagði. En ég vil hins vegar í viðurvist hv. þm. rekja í örstuttu máli það sem ég hef hér lýst mjög ítarlega. Ég harmaði það að hv. þm. skyldi ganga svo langt að nota embætti sitt sem formaður fjárln. til að lýsa yfir lögbroti í tengslum við ákveðið embættisverk fráfarandi landbrh. Ég rakti það að ég hef hér í höndum minnisblað til núv. landbrh. frá landbrn. þar sem rakin eru fjölmörg dæmi þess frá liðnum árum, frá árunum 1986, 1987 og 1988 að fasteignir hafi verið keyptar á jörðum með nákvæmlega sama hætti. Ég rakti einnig, hv. þm., að í landbúnaðarráðherratíð Pálma Jónssonar, sem situr í fjárln., hefðu fasteignir á jörðum verið keyptar með sama hætti og ábúandinn þó jafnframt fengið að búa áfram á jörðinni. Og ég rakti einnig, hv. þm., ítarlega bréf frá Stofnlánadeild landbúnaðarins þar sem fram koma eindregnar óskir stjórnar Stofnlánadeildarinnar um að málin séu framkvæmd með þessum hætti. Það er þess vegna alveg ljóst að innan íslenska stjórnkerfisins er víðtækur og langvarandi praxís að fara með mál með þessum hætti. Ef það væri skoðun einhverra manna í fjárln. að nú allt í einu skuli slíkt teljast lögbrot þá hefði verið rétt að gera það með þeim hætti að fara yfir alla söguna frá liðnum árum. Fara yfir allan málflutning og bréfaskriftir og óskir opinberra stofnana eins og Stofnlánadeildar landbúnaðarins en taka ekki eitt dæmi út úr og gera það sérstætt.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera þetta að meira umfjöllunarefni. Út af fyrir sig gat formaður fjárln. vakið athygli á að æskilegt væri að gera þessi mál með öðrum hætti, það var allt annað, en eins og sagt var í mínu ungdæmi: það er stórt orð Hákot og að kveða upp úr með að slíkt sé lögbrot er auðvitað sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að við förum nú ekki með dómsvaldið hér á Alþingi hvorki í fjárln. né í ræðustóli í þessum sal. Með allri virðingu fyrir ríkislögmanni þá fer hann ekki með dómsvaldið heldur. Hann hefur stundum haft rangt fyrir sér og það þekki ég vel. Þannig að hann er heldur ekki neinn ,,hæstiréttur`` í þessu máli sá ágæti maður. Jafnvel þótt ríkislögmaður hafi komist að einhverri niðurstöðu þá lærði ég það fljótt í fjmrn. að það er ekki mikill sannleikur í því. Hann t.d. sagði við mig og fyrirrennara minn að ríkið mundi örugglega vinna ákveðið viðkvæmt mál í undirrétti. Það reyndist vera alrangt mat, ríkið tapaði málinu. Þannig að ríkislögmaður reyndist í þeim efnum hafa rangt fyrir sér. Oft hefur hann hins vegar rétt fyrir sér en það er bara engin sönnun hvort um lögbrot sé að ræða eða ekki þótt ríkislögmaður hafi skilað einhverju bréfi um tiltekið efni. Og við megum alls ekki fara að halda þannig á málum, ágæti þingmaður Karl Steinar Guðnason, að þótt einhver lögfræðingur í

Stjórnarráðinu úrskurði eitthvað lögbrot þá sé það þar með orðið lögbrot. Það eru sérstakar stofnanir í okkar lýðræðisríki sem ákveða það hvað er lögbrot og hvað ekki. Við megum ekki víkja út frá þeim grundvallaratriðum íslenskrar stjórnskipunar í ræðustól hér á Alþingi, sérstaklega ekki þegar menn eru að mæla fyrir málum fyrir hönd fjárln. Alþingis.
    Virðulegi forseti. Ég hefði ætlað mér að gera kannski nokkuð mál úr því að í 56. tölul. brtt. 302, frá meiri hluta fjárln., lið 6.22, er lagt til að ráðherrum sé veitt einstakt ráðstöfunarvald yfir fjármunum íslenska ríkisins. Þar er í fyrsta sinni farið inn á þá braut að ráðherrar fá sjálfdæmi um að ráðstafa hundruðum milljóna í launa- og rekstrarkostnað innan sinna ráðuneyta. Það er alveg sama þó þar standi ,,í samráði við fjárlaganefnd`` vegna þess að það liggur ekkert fyrir um það samráð. Og við skulum alveg vera viss um að meðhöndlun þeirra mála verður ekki með þeim hætti að hvert og eitt tilvik verði borið upp formlega í fjárln. nema formaður fjárln. ætli að fara að lýsa því yfir hér að hvert og eitt tilvik þess hvernig þessum fjármunum verður ráðstafað verði borið upp í fjárln. og jafnvel þótt svo væri þá er fjárln. ekki fjárveitingavald. Ég veit að sumir fjárlaganefndarmenn tala stundum eins og fjárln. sé fjárveitingavaldið en það er ekki þannig, það er Alþingi Íslendinga sem er fjárveitingavaldið.
    Ég gagnrýndi þetta mjög harðlega hér við 2. umr. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu hér en ég vil bara segja að ég tel þetta stór og alvarleg mistök, mjög alvarleg mistök. Hér sé farið inn á hættulegar brautir og rangar brautir. Það kemur mér á óvart að það er gert af mönnum sem ég hélt að væru samherjar mínir í því að koma á nýrri skipan, nútímalegri skipan í ríkisfjármálum á Íslandi. Þetta er afturhvarf til fortíðar. Það er kannski of vægt til orða tekið að segja afturhvarf til fortíðar. Vegna þess að í fortíðinni er ekki heldur hægt að finna neitt dæmi um slíkt sjálfsákvörðunarvald ráðherra til ráðstöfunar á fjármunum. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi muni læra þá lexíu af þessari ráðstöfun að þetta verði aldrei gert aftur. Ég vona að menn fari ekki, með því að samþykkja þessa tillögur, inn á þá braut að í næstu fjárlögum fái ráðherra sjálfdæmi um mörghundruð millj. kr. í sínum ráðuneytum. Þetta er röng stefna. Þetta er hættuleg stefna. Það liggur við að ég segi: Þetta er siðlaus stefna í nútíma lýðræðisríki. Því það verður ekkert eftirlit með því hvernig ráðherrann fer með þessa peninga, hann ræður því einn. Hann getur kúgað stofnanir, hann getur beitt valdi, hann getur farið að refsa stofnunum og fjölmargt annað sem er ekki í samræmi við nútímalýðræði.
    Virðulegi forseti. Þessi fjárlög verða ekki hornsteinn stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Þessi fjárlög verða ekki grundvöllur lækkunar raunvaxta á næsta ári. Þessi fjárlög verða ekki grundvöllur að nýjum kjarasamningum. Þessi fjárlög eru ekki nýtt skref til endurbóta í ríkisfjármálum íslenska lýðveldisins, því miður. Þetta eru fjárlög sem fela í sér áframhaldandi háa raunvexti. Þetta eru fjárlög sem fela í sér óstöðugleika í hagstjórn. Þetta eru fjárlög sem fela í sér óróleika á vinnumarkaði. Þetta eru fjárlög sem fela í sér brot á mörgum þeim eðlilegu grundvallarreglum nútímaríkisfjármála sem ég hafði haldið að menn meintu eitthvað með þegar menn sögðu hér á Alþingi á liðnu kjörtímabili að við ættum öll að sameinast um að halda í heiðri. Því miður er það þannig að stjórnarmeirihutinn á Alþingi er með þessu fjárlagafrv. að brjóta flest öll þau grundvallarmarkmið sem hann setti sér í upphafi.