Kaup á björgunarþyrlu

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 19:02:00 (2421)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 161, sem er 150. mál þingsins og er frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Guðrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Hallvarðsson, Stefán Guðmundsson og Matthías Bjarnason.
    Í 1. gr. frv. segir eftirfarandi: ,,Ríkisstjórnin skal á árinu 1992 gera samning við framleiðendur eða seljendur um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Í 2. gr. segir: ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1992 að

fjárhæð allt að 150 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt.``
    3. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í grg. segir: ,,Frv. þetta er efnislega samhljóða ályktun sem Alþingi samþykkti sl. vor. Í 2. gr. er lánsfjárheimild fyrir fjármálaráðherra vegna málsins. Frumvarpið er flutt til þess að herða á því að vilji Alþingis í þessu máli nái fram að ganga.
    Flm. telja að löng og ítarleg greinargerð með frv. sé óþörf. Þingheimi og landsmönnum öllum á að vera ljóst hversu brýnt er að þjóðin eignist sem fullkomnasta björgunarþyrlu eins fljótt og kostur er á. Málið þolir enga bið. Flm. vona að Alþingi beri gæfu til að veita þessu frv. samþykki sem allra fyrst þannig að það geti orðið að lögum fyrir næstu áramót.``
    Héðan af getur frv. auðvitað ekki orðið að lögum fyrir næstu áramót en ég vona að hv. allshn., sem fær málið til umfjöllunar, vinni vel og hratt að málinu og skili því sem allra fyrst inn í þingið þannig að lokaafgreiðsla geti orðið með sem skjótustum hætti.
    Ég mun geyma mér alla frekari umræðu um málið til 2. umr. í ljósi þess samkomulags sem hefur verið gert. Ég vil í því sambandi þakka hæstv. forseta fyrir að heimila framsögu með málinu og að því verði vísað til nefndar. Einnig vil ég þakka hv. stjórnarandstöðu fyrir að greiða fyrir framgangi mála á þingi með því að taka þátt í því samkomulagi sem gert var að ekki yrði umræða um þetta frv. Ég veit að þeir í stjórnarandstöðu hafa margt um þetta mál að segja alveg eins og ég en við munum geyma okkur það til 2. umr.
    Hæstv. forseti. Að lokinni 1. umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.