Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 20:12:00 (2425)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir furðu minni á því hve fáir þingmenn eru í salnum við umræður um þetta mikla og alvarlega mál sem snertir þúsundir fjölskyldna í landinu og alla sjómannastéttina auk atvinnulífsins. Ég vil fara þess á leit að hæstv. fjmrh. komi hingað í salinn. ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að ég er nú þegar að gera ráðstafanir til þess að hæstv. fjmrh. komi í salinn. Hann er í húsinu. Getur hv. þm. haldið áfram inngangi að ræðu sinni á meðan hæstv. fjmrh. er á leiðinni hingað í sal.) Nei, ég held ég verði að bíða eftir honum. Hins vegar ætla ég ekki að flytja langt mál. Ef það er ósk ríkisstjórnarinar að reyna að flýta fyrir málum þá er það lágmark að ráðherrarnir séu viðstaddir umræður. --- Velkominn í salinn.
    Virðulegi forseti. Það hefur verið afar merkileg reynsla fyrir mig sem nýja þingkonu á hinu háa Alþingi að taka þátt í vinnslu þess máls sem hér er til umræðu. Það var sérkennilegt að hlusta á fulltrúa Vinnuveitendasambandsins hella sér yfir stjórnarliða, sem sumir hverjir hafa þóst vera talsmenn atvinnurekenda, vegna illa unnins frumvarps, óþarfra ákvæða og árása á atvinnulífið. Sá góði maður, sem það gerði, gekk svo langt að segja að verið væri að lögfesta lélegan brandara. Fulltrúar samtaka launafólks voru harðorðir um þetta frv. og mótmæltu einarðlega útreikningum fjmrn. á persónuafslætti og skerðingu barnabóta. Fulltrúar sjómanna höfnuðu útreikningum fjmrn. á niðurskurði sjómannaafsláttarins og töldu ríkið vera að seilast mun dýpra í vasa sjómanna en ráðuneytið vildi viðurkenna. Sjómenn eru öflug og miklvæg stétt enda létu þeir vel í sér heyra. Það leiddi til þess að fjmrh. bakkaði en hélt þó sínum 180--200 millj. Það segir okkur að mikið var til í útreikningum sjómannasamtakanna fyrst skerðingin skilar sömu upphæð og áætlað var eftir að dregið var úr skerðingunni. Það verður þó að taka fram hér og nú að ekki eru öll kurl komin til grafar hvað varðar sjómannaafsláttinn því mótmæli eru hörð og greinilegt að sjómenn sætta sig ekki við þessa árás á kjör þeirra ofan á aflasamdrátt og skerðingu barnabóta sem þeir verða fyrir eins og aðrir.
    Virðulegi forseti, ég mun nú víkja að nokkrum þáttum þessa frv. Að undanförnu hefur verið nokkuð rætt um þau ákvæði skattalaganna sem heimila fyrirtækjum að nýta tap til skattaafsláttar svo og að fyrirtæki geti keypt tap annarra fyrirtækja og nýtt sér það til að lækka eigin skatta. Þessum ákvæðum laganna var að sjálfsögðu ætlað að taka tillit til lélegrar fjárhagsstöðu fyrirtækja svo og að stuðla að sameiningu og hagræðingu í rekstri fyrirtækja. Allnokkur dæmi eru um umdeildar aðgerðir fyrirtækja þar sem greinilega er verið að teygja heimildir skattalaganna til hins ýtrasta og því ekki að undra að reynt sé að taka á þessum ákvæðum. Við kvennalistakonur tökum undir að óeðlilegt sé að fyrirtæki geti keypt tap eða gjaldþrota fyrirtæki til þess eins að komast hjá skatti. Við styðjum þá meginhugsun sem felst í frv. um að þrengja þessi ákvæði þannig að greinilega sé um hagræðingu eða sameiningu fyrirtækja að ræða. Hins vegar kom í ljós við vinnslu málsins í nefndinni að þessi þáttur frv. er illa unninn og að ekkert samráð var haft við fulltrúa atvinnulífsins enda mótmæltu þeir harðlega. Nú er augljóst að eigendur fyrirtækja eiga mikilla hagsmuna að gæta og því eðlilegt að þeir mótmæli slíkum þrengingum. En ég verð að segja að ég tek meira mark á skattasérfræðingum og endurskoðendum sem telja þessi ákvæði of óskýr og allsendis óljóst hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa. Því tel ég eðlilegt að þessi hluti frv. verði unninn betur.
    Við 1. umr. um tekju- og eignarskattsfrumvarpið ræddi ég nokkuð um sjómannaafsláttinn og er óþarfi að endurtaka allt sem þá var sagt. Við kvennalistakonur teljum nauðsynlegt og réttlætanlegt að endurskoða gildandi lagaákvæði um sjómannaafsláttinn en það á að gerast í samráði við sjómenn. Við mótmælum því harðlega að ráðist sé einhliða á kjör sjómanna með þessum hætti því það er augljóst að þessi skerðing þýðir kjararýrnun og ekkert annað. Það er ekkert sem réttlætir slíka árás á kjör sjómanna og við fordæmum lagasetningar sem þessa.
    Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar mun kalla á hörð viðbrögð sjómanna í komandi kjarasamningum enda er sjómannaafslátturinn hluti af kjarasamningum þeirra. Nú í kvöld bárust fréttir af því að sjómannasambandið er að leita eftir verkfallsheimild og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvernig ætlar hann að bregðast við þessu?
    Þá kem ég að því máli sem í mínum huga er langsamlega stærst og alvarlegast en hefur því miður fallið í skugga annarra stórmála. Hér á ég við skerðingu barnabóta. Ríkisstjórnin ætlar að skerða barnabætur um rúmar 500 millj. og það er gert með þeim hætti að barnafólk með tæplega meðaltekjur verður fyrir skerðingu. Nú er það svo, virðulegi forseti, að það er dýrt að lifa á Íslandi og það er dýrt að ala upp börn. Meðaltekjur eru í kringum 110 þús. kr. á mánuði og ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að barnafólk með slíkar tekjur sem hugsanlega er að koma sér upp húsnæði, borga námslán og barnagæslu er ekki of sælt af slíkum tekjum.     Það er ekki annað hægt en að mótmæla harðlega þeirri stefnumörkun sem felst í þessu frv., að barnafólk, sem hefur meðaltekjur, skuli skattlagt sérstaklega með þessum hætti. Það er vægast sagt öfugsnúið að skattkerfið skuli með þessum hætti neita að taka tillit til þess kostnaðar sem fylgir því að eiga og ala upp börn. Fyrir upptöku staðgreiðslukerfisins var til staðar sérstakur frádráttur vegna barna. Þetta er barnfjandsamleg stefna, hæstv. fjmrh. og ríkisstjórninni til skammar. Í flestum þjóðfélögum Vesturlanda er stutt við bak barnafjölskyldna, sums staðar með verulegum fjárupphæðum og fremur reynt að stuðla að því að fólk eignist börn fremur en draga úr barneignum meira en orðið er. Skerðing barnabótanna er enn ein árásin á kjör almennings í landinu og bætist ofan á þá kjaraskerðingu sem felst í samdrætti, þeim þjónustugjöldum sem ríkisstjórnin er að leggja á, hækkuðum sköttum sveitarfélaga og öðru því sem ríkisstjórnin er að keyra í gegnum þingið þessa dagana. Árið 1988 voru barnabætur hækkaðar um 320 millj. kr. til að vega upp á móti hækkun matarverðs í tengslum við upptöku virðisaukaskatts. Þetta var gert til að koma til móts við aukin útgjöld barnafjölskyldna. Ef þessi upphæð er framreiknuð miðað við forsendur fjárlagafrv. þá samsvara 320 millj. kr. um 500 millj. í dag. Það er með öðrum orðum verið að taka til baka hverja einustu krónu sem fór í hækkun barnabóta árið 1988. Þeir sem stóðu að hækkuninni árið 1988 voru Sjálfstfl. og Alþfl. Þeir eru núna að taka hana alla til baka fjórum árum síðar.
    Þá kem ég að þeirri fullyrðingu verkalýðshreyfingarinnar að sá útreikningur á persónuafslætti sem birtist í þessu frv. feli í sér 1.200 millj. kr. hækkun á tekjuskatti launafólks. Þar standa orð verkalýðshreyfingarinnar gegn orðum fjmrn. En í kjölfar þessa vakna spurningar varðandi aðrar upphæðir og viðmiðanir í frv. sem reiknaðar eru upp samkvæmt vísitölu en nefndarmenn hafa ekki enn fengið botn í þetta mál hvað sem síðar verður.
    Ég minntist í upphafi á orð fulltrúa VSÍ um lögfestingu hins lélega brandara. Með þessum orðum var verið að vísa til brtt. við 18. gr. frv., þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Ákvæði b-liðar 4. gr. öðlast gildi 1. janúar 1993 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1994 vegna tekjuársins 1993 enda taki gildi frá sama tíma lög um skattskyldu fjármagnstekna og arðs af hlutafé er komi í veg fyrir tvísköttun arðs.``
    Það má öllum ljóst vera að þessi brtt. felur í sér ákveðna viljayfirlýsingu eða bókun en slík framtíðarsýn á að mínum dómi, svo og ýmissa annarra, ekki heima í lagatexta þó ég sé að sjálfsögðu sammála því að skattleggja eigi fjármagnstekjur.
    Augljóst er að Alþfl. hefur orðið að negla Sjálfstfl. niður með þessum hætti og telur ekki óhætt að treysta honum öðruvísi en að fest verði í lög að koma eigi skattlagningu fjármagnstekna á til að koma í veg fyrir tvísköttun arðs. Þetta lýsir betur en margt annað ástandinu á stjórnarheimilinu. Því er svo við að bæta að fulltrúar þeirra sem fást við sölu hlutabréfa telja að með þessum ákvæðum og fleiri sem er að finna í frv. sé verið að skapa óvissu á hlutabréfamarkaðnum og að síst af öllu muni þær lagabreytingar sem boðaðar eru ýta undir hagstæða sölu þeirra ríkisfyrirtækja sem ætlunin er að breyta í hlutafélög samkvæmt stefnu núv. ríkisstjórnar. Það gæti þýtt að 1 milljarður áætlaðra ríkistekna sé þar með fokinn ef illa tekst til.
    Virðulegi forseti. Í samningaviðræðum um þinglok nú fyrir jól, sem áttu sér stað í þinghúsinu í gær, reyndum við kvennalistakonur hvað við gátum að fá skerðingu barnabóta hnekkt. En það tókst því miður ekki. Við lýsum því ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna þeirrar árásar sem gerð er á barnafólk með þessu frv. Við mótmælum einhliða árás á kjör sjómanna og leggjum til að ákvæði sem snerta nýtingu taps fyrirtækja og skattlagningu arðs af hlutabréfum verði skoðuð betur áður en gengið verður endanlega frá þeim hliðum frv. Af framansögðu má ljóst vera, herra forseti, að við þingkonur Kvennalistans munum greiða atkvæði gegn þessu frv.