Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 20:25:00 (2426)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni fyrir það starf sem hún hefur unnið. En eina ástæðan fyrir því að ég kem hér upp og veiti andsvar er sú að fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, og hefur reyndar verið nefnt í fjárlagaumræðunni fyrr í dag, að ekki beri saman skoðun Alþýðusambandsins annars vegar og fjmrn. hins vegar varðandi persónuafslátt. Að þessu tilefni vil ég taka fram eftirtalið:
    Á þessu ári er mánaðarlegur persónuafsláttur einstaklings 23.377 kr. að meðaltali sem þýðir að meðal mánaðarlaun undir 58.750 kr. hafa verið skattfrjáls 1991. Það skal tekið fram að hér er um meðaltal að ræða en á síðari hluta ársins eru skattleysismörkin talsvert hærri eða 60.120 kr. á mánuði. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá er gengið út frá því að laun hækki um 2,5% á mann milli áranna 1991 og 1992. Eigi skattbyrði tekjuskatts að haldast óbreytt milli ára þarf að hækka skattleysismörkin samsvarandi eða um 2,5%. Miðað við fyrirliggjandi spá um þróun lánskjaravísitölu mun persónuafslátturinn hækka um 1,2% um mitt árið 1992, sem strangt til tekið þýðir að lækka þyrfti persónuafsláttinn við upphaf næsta árs eigi meðalhækkun hans milli ára að vera 2,5%. Þetta er í raun afleiðing af tæplega 5% hækkun á skattleysismörkum tekjuskatts um mitt þetta ár sem kemur fram að fullu á næsta ári. Í áætlun fjárlaga er hins vegar miðað við að persónuafsláttur haldist óbreyttur frá því sem hann hefur verið og er nú á fyrri hluta ársins 1992 en hækki síðan um mitt ár um 1,2% eins og lög mæla fyrir. Þetta þýðir að skattleysismörkin hækka um tæp 3% milli ára.
    Í árslok 1988 var lögum um tekjuskatt breytt þannig að ákvörðun persónuafsláttar fyrir fyrri hluta hvers árs var gerð að sjálfstæðri aðgerð en ekki tengd sjálfvirkt við lánskjaravísitöluna. Þetta á einungis við um ákvörðun persónuafsláttar fyrri hluta ársins. Eftir sem áður breytist persónuafsláttur í takt við lánskjaravísitölu um mitt ár.
    Við höfðum samband við Alþýðusambandið og bentum þeim á að lagabreyting þessi hefur átt sér stað og ég veit ekki betur en að þeir hafi tekið fullt tillit til þeirrar beiðni okkar að líta betur á málið og kanna þetta með tilliti til þeirra breytinga sem þá urðu á lögum.