Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 20:39:00 (2428)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegur forseti. Það var nú ekki ætlun mín að steinþegja þessa umræðu heldur tók ég til máls einungis til andsvara við síðasta ræðumann áður en hv. 1. þm. Austurl. talaði, þ.e. til að svara því sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur.
    Fyrst langar mig til að víkja málinu aftur að því. Mér finnst eins og skýringar mínar hafi ekki komið nægilega fram varðandi persónuafsláttinn. Þegar lög um staðgreiðsluna voru samþykkt á sínum tíma var ætlunin að lánskjaravísitalan yrði viðmiðun allt árið. Það hefði þýtt að skattbyrði einstaklinganna hefði jafnvel orðið lægri í slæmu árferði en hækkað síðan þegar árferðið breyttist. Þetta muna þeir hv. þm. sem nálægt þeirri löggjöf komu. Það var innifalið með því að tengja persónuafsláttinn við þessa vísitölu. Rétt fyrir áramót eða um svipað leyti árs og nú, fyrir þremur árum, 1988, ákvað þáv. ríkisstjórn að breyta þessari viðmiðun sem tekin er tvisvar sinnum þannig að tekið var út úr lögunum að fylgja þyrfti lánskjaravísitöluviðmiðuninni þegar ákveðið var í desember við hvað ætti að miða og það var þá hreinlega ákvörðun Alþingis við gerð fjárlaga hvernig farið yrði að. Þetta gerði það að verkum að við hrapandi tekjur reyndist skattbyrðin vera hlutfallslega hin sama á nýju ári. Með öðrum orðum, launþegar sem þurftu að bera minna úr býtum höfðu sömu skattbyrðina eftir breytinguna sem alls ekki var hugmyndin í upphafi. Það sem hér er verið að gera er einungis að fylgja þeim lögum sem sett voru haustið 1988 og allar götur síðan hefur það verið yfirlýsing ríkisstjórna að skattbyrðin yrði sú sama frá ári til árs og um það snýst þetta mál. Ef við hefðum átt að fylgja okkar forsendum út í hörgul þá hefði í raun þurft að lækka persónuafsláttinn, þ.e. auka skattbyrðina á fyrri hluta næsta árs. Það var ákveðið að gera það ekki heldur að halda honum óbreyttum og taka síðan lánskjaravísitöluna inn á næsta ári. Þetta gerist auðvitað vegna þess að í forsendum frv. er gert ráð fyrir mjög svo hrapandi verðbólgu. Ég vona að þetta skýri þetta mál.
    Um reikningana sjálfa get ég ekkert sagt. Ég reiknaði þetta ekki sjálfur, hvorki með höndum né á mína reiknivél og ég get því miður ekki sagt um það hvaða reikningsaðferð er heppilegust í þessu sambandi. En sjálf hugmyndin á bak við þetta er sú sem ég hef lýst og ég held að allir séu sammála um. Menn geta síðan deilt um það hvort sú breyting sem gerð var á sínum tíma hafi verið rétt eða röng, það er önnur saga. (Gripið fram í.) Jú, jú, fjmrh. hugsar annað slagið þó það komi kannski hv. frammíkallanda á óvart og reiknar jafnvel stundum með höfðinu þó svona sé tekið til orða, eins og sagt er. ( Gripið fram í: Hann er hættur að vera kennari.) Þá kallar einn fyrrverandi nemandi þess sem hér stendur, fram í fyrir honum en það er rétt að ýmsir af mínum nemendum, ég var stærðfræðikennari hér áður, hafa komist til manns og þar á meðal sá sem kallaði hér fram í sem er einn mesti reikningshestur Alþb. á Alþingi. Og hann er eiginlega lifandi vottur um frábæra frammistöðu mína sem kennari í reikningi, þegar hv. þm. var í gagnfræðaskóla. ( SJS: Er hann það ekki enn?) Hann er ekki enn þá í gagnfræðaskóla, nei, nei, hann komst upp úr gagnfræðaskóla fyrir löngu.
    Nú þarf ég að snúa mér til hæstv. forseta því að ég veit ekki hvort það er eðlilegt að ég mæli fyrir tillögu sem búið er að dreifa en enn þá hafa ekki verið veitt afbrigði til að taka megi tillöguna á dagskrá. Hugmynd mín var að fá að ræða aðeins efni þeirrar tillögu. ( Forseti: Ef ekki koma andmæli við því að hæstv. fjmrh. lýsi efni þessarar tillögu á þessu stigi málsins, þá tel ég ráðherranum heimilt að gera það.) Ég þakka hæstv. forseta. Það er rétt, ég hyggst flytja tillögu, henni hefur verið dreift hér á borð þingmanna og leitað verður afbrigða um að fá að taka hana til umræðu og afgreiðslu. Þessi tillaga er tvíþætt. Annars vegar fjallar hún um það að breyta fyrningarreglum 38. gr. tekju- og eignarskattslaganna þannig að þær verði sveigjanlegri og hægara sé þess vegna um vik fyrir fyrirtækin að haga afskriftum með tilliti til árferðis. Tillagan hefur að sjálfsögðu þýðingu, ekki síst eftir að sú breyting er gerð á lögum að takmarkað verður hvernig flytja megi yfirfæranlegt tap á milli ára og að yfirfæranlegt tap fyrnist á tilteknum árafjölda. Þessi hugmynd kom fram í nefndarstarfinu og hefur verið skoðuð af starfsmönnum fjmrn., fulltrúum ríkisskattstjóra og loks hjá sérfræðingum sem til þekkja og eru endurskoðendur fyrirtækja hér í bænum. Ég tel þessa tillögu til bóta og ég veit að hún tíðkast. Hugmyndin er til í lögum erlendis þannig að víða a.m.k. tíðkast að hafa þann háttinn á að leyfa fyrirtækjum sveigjanlegar afskriftir.
    Hinn þáttur brtt. á þskj. 363, ef afbrigði verða veitt fyrir að taka hana hér fyrir, er einfaldur. Brtt. fjallar um að breyta framkominni brtt. á þskj. 351 en þar er gert ráð fyrir að fjöldi daga sem veitir fullan rétt til sjómannaafsláttar verði 260 en í þessari nýju tillögu er gert ráð fyrir að dagafjöldinn breytist í 245.
     Eftir viðræður við fulltrúa sjómanna og eftir að hafa farið í gegnum reikningslíkön og skoðað dreifingu, bæði tekjudreifingu og dreifingu á lögskráningardögum á milli aðila, kom í ljós að hugsanlegt er og líklegt að þessi tala, 245 dagar, nægi til þess að ríkissjóður nái þeim tekjum sem að var stefnt, eða 180 millj. kr. Verði verulegt frávik munu þessi mál að sjálfsögðu verða tekin upp síðar en ekki er efni til að skoða þetta af neinni alvöru fyrr en á miðju ári 1993 þegar upplýsingar eftir tekjuárið 1992 liggja fyrir.
    Ég skal viðurkenna að hér er að mínu viti hallað nokkuð á ríkissjóð. En mér er kunnugt um að þetta mál er þannig vaxið að ástæða er til þess að taka tillit til útreikninga sjómannasamtakanna og í trausti þess að breyting sú sem hér er gerð verði samþykkt og leiði til farsællar niðurstöðu, hef ég ákveðið að flytja þessa tillögu.
    Hv. 1. þm. Austurl. spurðist fyrir um það hvernig stæði á því að þá tillögu sem fram kom í frv. um arð væri þar að finna. Við ræddum þetta nokkuð við 1. umr. en mér heyrist að eftir nefndarstarfið finnist mönnum eðlilegt að víkja að þessu máli aftur og krefjast frekari skýringa. Ég held að einfaldast og kannski sanngjarnast sé að segja einungis eins og er að á miklum erfiðleikatímum, þegar ríkisstjórn þarf að grípa til aðgerða til að skerða réttindi og kjör fjölmargra aðila í þjóðfélaginu, hlýtur maður að velta mjög nákvæmlega fyrir sér hvernig hægt er að skipta þessum byrðum á sem flesta. Það var gert með því að ná tekjum af sveitarfélögum sem við töldum að hefðu styrkt stöðu sína á undanförnum árum. Það var gert með því að láta fólk greiða fyrir þjónustu sem áður hafði kostað lítið sem ekkert. Það var gert með því að draga úr barnabótum þeirra sem hafa hærri tekjur en styrkja fremur hina sem hafa lægri tekjur. Það var gert með því að breyta reglum um sjómannaafslátt, í því skyni að þeir nytu fyrst og fremst afsláttar sem væru sannanlega úti á sjó, með þeim margfeldisstuðli sem menn gætu komið sér saman um og það var gert með ýmsum slíkum lagabreytingartillögum.
    Þá þótti ýmsum sem ríkisstjórnin þyrfti jafnframt að segja frá því hvernig hún hygðist haga skattlagningu fyrirtækja og ekki er óeðlilegt að að því væri spurt hvað fyrirtækin eigi að leggja að mörkum. Þess vegna var brugðið á það ráð að segja frá því nú hvaða reglur ættu að gilda í framtíðinni um arð en lögfesta nú þegar þann hluta þeirra reglna sem væru mest íþyngjandi. Það stóð hins vegar aldrei til, aldrei nokkurn tímann, að sú regla

sem lagt var til í upphafi að yrði lögfest ætti að standa ein og sér þegar til skattlagningar kæmi. Þvert á móti var gert ráð fyrir því að í frv. sem flutt yrði á vorþinginu yrði greint nákvæmlega frá hvernig ríkisstjórnin og stjórnarflokkar hygðust skattleggja arð og taka á ýmsum skattlagningarreglum fyrirtækjanna. Þar sem um er að ræða annaðhvort ívilnandi aðgerðir eða aðgerðir til þess að jafna skattheimtuna til að mynda með því að lækka hlutföll á móti ýmsum lagabreytingum þótti okkur eðlilegt að taka þetta mál sérstaklega út úr.
    Það er rétt sem hér hefur verið ýjað að að auðvitað höfðu stjórnarflokkarnir ekki jafnmikinn áhuga á þessari breytingu en það breytir hins vegar ekki því að fjmrh. sem fer með þessi mál í ríkisstjórninni ber sömu ábyrgð á því lagafrumvarpi sem flutt er um þetta efni algjörlega burtséð frá því hver það er sem á upphaflegu tillöguna um þetta tiltekna efni.
    Ég vil bæta við að þegar ég fann fyrir því að fulltrúar atvinnurekstrarins og ýmsir fleiri höfðu af því stórfelldar áhyggjur að þetta kynni að hafa afar slæm áhrif á hlutabréfamarkaðinn lagði ég mig fram um það að ná þannig niðurstöðu í þessu máli að flestir eða allir gætu sætt sig við og það er skýringin á því að bráðabirgðaákvæði er skotið inn í frv. en það er gerð breyting um það efni af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Með því ætti að vera tryggt að hlutabréfamarkaðurinn og verðbréfamarkaðurinn starfaði áfram eins og hingað til og fengi að þroskast áfram.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. að sá sem hér stendur hefur verið mikill áhugamaður um hlutabréfamarkað á Íslandi og það er rangt sem kemur fram í bréfi Vinnuveitendasambandsins að síðasta ríkisstjórn hafi breytt reglum um hlutabréfamarkaðinn eins og þar stendur því að það var gert með þingmannafrumvarpi og sá var fyrsti flm. sem hér stendur. Hins vegar var það gert í fullri samstöðu við þáv. stjórnarflokka, þar á meðal hv. 1. þm. Austurl. sem sat í fráfarandi ríkisstjórn.
    Það er hins vegar yfirlýsing núv. ríkisstjórnar og hefur margoft komið fram að hún hyggst breyta skattkerfinu á þann veg að upp verði tekinn eignatekjuskattur, þar á meðal fjármagnstekjuskattur en í staðinn verði eignarskattar lækkaðir og það er rétt enn fremur að það er ekki hugmyndin að þessar breytingar leiði til nýrra og aukinna tekna ríkissjóðs. Við teljum hins vegar eðlilegt, ekki síst vegna þess að um er að ræða ýmsa tekjuviðmiðun í lögum og skattalögum, tekjutryggingar, að allar tekjur, ekki einungis launatekjur, verði taldar með þegar tekjur eiga t.d. að hafa áhrif á bætur eins og oft hefur verið rætt um til að mynda um lífeyristryggingar. Eina ástæðan fyrir því að þetta ákvæði fór inn í lagafrv. var sú að við vildum sýna nú þegar þetta íþyngjandi ákvæði. Eitt og sér gat það aldrei staðið því að ef þetta hefði verið skilið svona eftir í lögum án þess að aðrar breytingar hefðu verið gerðar hefði þetta að sjálfsögðu þýtt að arður væri ekki einungis skattlagður einu sinni, heldur tvisvar og jafnvel oftar, þegar t.d. var um að ræða hlutabréfasjóði. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið til að mynda í ræðum hv. 1. þm. Austurl. að það er auðvitað nokkur ágalli við þetta ákvæði, að láta það standa eitt og sér. Nú hefur þessu verið breytt og vonast ég til þess að efnislega geti sem flestir verið ánægðir með niðurstöðuna enda hefur hún verið borin undir sérfræðinga í þessum málum.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi, a.m.k. að mestu leyti, komið til móts við óskir hv. 1. þm. Austurl. og reynt að svara brýnustu spurningum sem til mín var beint.