Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:02:00 (2431)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að standa frammi fyrir þessum staðreyndum, það skil ég vel. En staðreyndin er sú að með því að lögfesta þessi ákvæði þá er ákveðið að arðurinn skuli ekki lengur vera frádráttarbær í fyrirtækjunum. Og það mun hafa þau áhrif að íslensku lífeyrissjóðirnir kaupa ekki í sama mæli hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum. Þetta er aðalatriðið. Og svo kemur hæstv. fjmrh. hér upp og talar um að auðvitað þurfi að auka eigið fé fyrirtækja en leggur allt annað til í reynd. Það er ekki hægt að taka þetta alvarlega, hæstv. fjmrh. Þetta er í slíkri mótsögn við allt sem stendur í ykkar plöggum að það er alveg eins og því hafi bara verið gleymt. Og ég trúi því ekki að hver

einasti fylgismaður þessarar ríkisstjórnar taki þessa áhættu. Því hvað svo sem líður viðræðum hæstv. fjmrh. við þá aðila sem starfa á þessum markaði þá trúi ég því ekki að þeir hafi skipt um skoðun með jafnskjótum hætti og núv. ríkisstjórn. Þetta eru staðfastir menn, ég er ekki að segja að allir séu þeim sammála, þetta eru kapítalistar eins og þeir gerast bestir hér á Íslandi og þeir eru vanir að standa á sinni skoðun og ég er viss um að þeir hafa ekki breytt þarna um skoðun. Því miður er ekki hægt að eyða þessari óvissu, hæstv. fjmrh., nema fella þessa vitlausu tillögu.