Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:23:00 (2437)

     Frsm. minni hluta fjh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Herra forseti. Ég sá að hæstv. félmrh. var kominn hér í húsið en þar sem hæstv. félmrh. er ábyrgðarmaður lífeyrissjóðanna í landinu þá vildi ég fá að leggja fyrir hæstv. félmrh. eina spurningu undir þessari umræðu. En áður en hæstv. félmrh. kemur hingað þá vildi ég segja við hæstv. fjmrh. að hann má ekki koma hér í ræðustól og tala þannig, eins og mér fannst á honum, að hann væri nánast að segja: Ég er hlutabréfamarkaðurinn og ég þakka stuðninginn, þennan nýja stuðning, þessa óvæntu stuðningsmenn. Ég vil upplýsa hæstv. fjmrh. um það að þótt ég hafi ekki tamið mér mikil ræðuhöld á Alþingi a.m.k. fram að þessu hef ég ávallt stutt íslenskt atvinnulíf og mun halda áfram að gera það. Það er e.t.v. dálítið merkilegt að stuðningsins við íslenskt atvinnulíf skuli ekki vera að leita í nægilega miklum mæli hjá hæstv. fjmrh. Það veldur mér vonbrigðum. Og þótt það sé allt rétt hjá hæstv. fjmrh. að hann hafi beitt sér mjög í stjórnarandstöðu fyrir því að lagfæra þennan hlutabréfamarkað þá er ekki nóg að hann geri það einn. Ég minni hann á að auðvitað gerði hann það ekki einn en það má vel vera að hæstv. núv. fjmrh. hafi notið þess forgangs á Alþingi að geta talað lengur en ýmsir aðrir og þar af leiðandi hafi hans málflutningur í þessu máli komist betur til skila en við hinir í hinum þögla meiri hluta stutt dyggilega við bakið á stjórnarandstæðingum. Það er ekki það sem við upplifum í dag að hæstv. núv. fjmrh. standi dyggilega að baki stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Ekki einu sinni með þögninni. Það þýðir lítið fyrir hæstv. fjmrh. að standa upp og tala eins og hann sé hlutabréfamarkaðurinn því það er allt annað, hæstv. fjmrh. Hlutabréfamarkaðurinn talar fyrir sig sjálfur. Það er ekki fjmrh. landsins sem á að tala fyrir hann. Hlutabréfamarkaðurinn hefur sagt okkur hver viðbrögðin eru með þessari tillögugerð og með þeirri óvissu sem þarna hefur verið sett út. Óvissu sem mun áreiðanlega valda meira atvinnuleysi en annars hefði þurft að vera og ég vildi spyrja hæstv. félmrh. hvort félmrh. óttast ekki aukið atvinnuleysi af þessum sökum. Hvort það gæti verið að það slys mundi gerast að tölurnar á skráningunni í félmrn. mundu hækka. Ég gæti trúað því að svo væri.
    Er hæstv. félmrh. tilbúinn að bera ábyrgð á því að atvinnuleysi muni aukast af þessum sökum? Og hæstv. fjmrh. talaði hér um samræmingu og sagði að það ætti að samræma þetta allt á fjármagnsmarkaðinum. Ég er sammála hæstv. fjmrh. í þeim efnum. En þá á samræmingin að felast í því að arðurinn og vextirnir séu skattlagðir með sambærilegum hætti. Nú leggur hæstv. fjmrh. það til að arðurinn verði ávallt skattfrjáls hjá móttakanda, en vextirnir eigi að verða skattskyldir hjá móttakanda. Er þetta samræmingin, hæstv. fjmrh.? Í þessu felst ekkert samræmi. Ég er sammála hæstv. fjmrh., það á að samræma og ef það var ætlunin að ná tekjum af þeim aðilum sem fá arð í þjóðfélaginu þá átti að sjálfsögðu að lækka skattfrjálsan arð eða þau mörk. Það hefði ég skilið, hæstv. fjmrh., ef það var hugmyndin að þeir sem njóta arðs legðu meira í þjóðarbúið þá hefði að sjálfsögðu átt að lækka þau mörk.
    En ég bendi á það, hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð á lífeyrissjóðakerfinu í landinu, a.m.k. að stórum hluta, að lífeyrissjóðirnir hafa lýst því yfir að þeir muni mjög draga að sér hendur í sambandi við kaup á hlutabréfum í íslensku atvinnulífi. Ég er viss um að þessi staðreynd mun því miður auka atvinnuleysi og það mun tefja fyrir því að lífeyrissjóðir landsmanna fjárfesti í íslensku atvinnulífi. Það er það sem við þurfum á að halda í dag.
    Fjmrh. landsins hefur staðið hér upp og sagt við Alþingi: Ég er tilbúinn að bera pólitíska ábyrgð á þessu máli, þessari dæmalausu vitleysu.
    Ég vil því spyrja hæstv. félmrh., þannig að það liggi fyrir á þessari stundu, er hæstv. félmrh. jafnframt tilbúinn að bera pólitíska ábyrgð á þessum málum í andstöðu við hlutabréfamarkaðinn og í andstöðu við lífeyrissjóðinn í landinu? ( Félmrh.: Svarið er já.) Ég ætlast til þess að hæstv. félmrh. sýni Alþingi þann sóma og þeim, sem hér eru að spyrja og stytta mál sitt eins og þeir geta, og sýni lífeyrissjóðunum og hlutabréfamarkaðinum þann sóma, því hlutabréfamarkaðurinn er ekki hæstv. fjmrh. og það er ekki nóg að tala um þetta mál við hann, að hún komi hér upp og segi frá sinni skoðun í málinu.