Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:48:00 (2444)

     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
     Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við tveir þingmenn, ég og hv. þm. Ingi Björn Albertsson, ekki sammála meðnefndarmönnum okkar í nefndinni um þetta gjald og við leggjum til að þetta frv. verði fellt.
    Jöfnunargjald er í ósamræmi við fríverslunarsamninga okkar við EFTA og EB og enginn nýr efnislegur rökstuðningur hefur verið lagður fram sem réttlætir framlengingu á gjaldinu. Þjóð sem vill láta taka mark á sér í alþjóðlegum samskiptum stendur við gerða samninga.
    Framlenging á jöfnunargjaldi er afar óheppilegt innlegg í þær viðræður sem fram undan eru við EB vegna samninga um EES og tvíhliða samning um fiskveiðimál. Ríkisstjórn Íslands hefur gefið EB tilkynningu um niðurfellingu gjaldsins og þarf nú að bæta við annarri tilkynningu um framlengingu þess og verður það væntanlega ekki gott innlegg í þau mál sem þarf að ræða við þá ágætu menn.
    Framlenging á jöfnunargjaldi mun væntanlega hafa í för með sér málssókn af hálfu innlends greiðanda gjaldsins sem jafnframt gæti verið fylgt eftir af hálfu erlends þolanda við EB. Erlend fyrirtæki, sem spurst hafa fyrir um aðflutningsgjöld eftir að núgildandi lög um jöfnunargjald voru samþykkt, hafa fengið þau svör að það félli niður um næstu áramót. Innlendur greiðandi mun væntanlega láta reyna á það hvaða réttarstöðu fríverslunarsamningarnir veita og mun það verða afar áhugavert lögfræðilegt álitaefni hvort íslensk stjórnvöld geti gert alþjóðasamninga og síðan virt þá að vettugi gagnvart innlendum aðilum. Það hefur einnig komið fram eða það er eitt dæmi um það að erlent fyrirtæki hafi kvartað undan þessu gjaldi við Evrópubandalagið og þá hefur það einmitt verið einkennileg tilviljun að í framhaldi af slíkri kvörtun hefur verið fellt niður jöfnunargjald af þeim vörum sem þar eiga í hlut.
    Gjald eins og jöfnunargjald, sem leggst á innflutning, stuðlar að rangri skráningu gengis krónunnar. Íslenskur útflytjandi fær ekki alla þá upphæð sem innflytjandi greiðir til þess að fá til sín erlenda vöru. Slíkir skattar, sem gera innflutning óhagkvæmari án þess að gera útflutning jafnframt hagkvæmari, virka sem tæki til þess að viðhalda röngu gengi og lenda í raun á almenningi og útflutningsfyrirtækjum. Þennan þátt af þessu gjaldi mun ég sérstaklega ræða við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og Halldór Ásgrímsson þegar þeir fara að tala um sjávarútvegsmál og áhuga sinn á velferð þeirrar atvinnugreinar.
    Það er skoðun okkar hv. þm. Inga Björn Albertssonar og mín að þó að vissulega séu erfiðleikar í ríkisfjármálum miklir að þá muni framlenging gjaldsins stefna margföldum hagsmunum í hættu miðað við þá upphæð sem framlenging á að skila.
    Ég vil enn fremur segja það að ég öfunda ekkert hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. af því að standa í þessari gjaldtöku vegna þess að mér hefur verið fullkunnugt um skoðanir þeirra á þessu máli í gegnum tíðina og eins hef ég rætt þetta mál við mjög marga embættismenn, bæði í utanrrn. og fjmrn. og ég held að það hafi ekki verið neitt skemmtiverk fyrir þá að leggja til þessa gjaldtöku en ég er ekkert að áfellast þá sérstaklega fyrir þetta heldur fyrst og fremst er ég ósáttur við samþingmenn mína úr Sjálfstfl. og Alþfl. fyrir það að hleypa þeim áfram með þetta gjald.