Meðferð einkamála

58. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 00:01:00 (2463)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég vil byrja á því við lokameðferð þessa máls hér á hinu háa Alþingi að þakka hv. allshn. fyrir trausta og vandaða umfjöllun um málið, en að gefnu tilefni og til að varða áframhaldandi góða samstöðu um afgreiðslu málsins hef ég í dag tekið ákvörðun um að skrifa svohljóðandi bréf til réttarfarsnefndar:
    ,,Í frv. til laga um meðferð einkamála eru ákvæði í XIX. kafla sem er ráðgert að heimili svonefnda flýtimeðferð á einkamálum. Samkvæmt 123. gr. frv. á þetta við um mál sem rísa vegna ákvarðana eða aðgerða stjórnvalda og vegna verkfalla, verkbanna eða vinnudeilna. Hér er um nýmæli að ræða og er greint frá því í athugasemdum við frv. að þeim sé ætlað að mynda farveg til skjótrar lausnar á brýnum málum varðandi mikla hagsmuni í tilvikum þar sem ekki er tryggt að unnt sé að fá vernd réttinda með lögbannsaðgerð.
    Í ljósi þessa er hér með lagt fyrir réttarfarsnefnd að hún taki til athugunar ekki síðar en sumarið 1993 hver reynsla hafi fengist af heimildum til flýtimeðferðar. Sérstaklega er ætlast til að tekið verði til athugunar í hverjum mæli þessar heimildir verða nýttar, í hvers konar málum það hefur gerst og hvort telja megi að umrædd heimild hafi leitt til fjölgunar dómsmála sem mætti annars ætla að hefði ekki komið til ef þau hefði þurft að reka eftir almennum reglum um meðferð einkamála.
    Rökstuddar niðurstöður af þessari athugun skulu liggja fyrir ekki síðar en í lok árs 1993 ásamt tillögum nefndarinnar um breytingar á reglum um flýtimeðferð ef hún telur þeirra þörf.``