Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 01:40:00 (2467)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Á þskj. 312 eru brtt. við 4. gr. og varða þær sértekjur háskólanna og framhaldsskólanna. Áður en atkvæðagreiðsla hefst og til þess að enginn misskilningur verði vil ég taka þetta fram:
    Ríkisstjórnin hefur fallið frá fyrri áformum um hækkun skólagjalda á framhaldsskólastigi. Tillaga er á þskj. 302, 3. liður, um að sá liður falli brott, þ.e. 128 millj. kr. í skólagjöldum til framhaldsskólanna. Samsvarandi upphæð er hins vegar inni á skólunum. Eftir standa hins vegar tillögur um hækkun þessara gjalda á háskólastigi og varðandi öldungadeildir framhaldsskólanna.
    Tillaga hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, Valgerðar Sverrisdóttur, Hjörleifs Guttormssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar þýðir að ekki skuli innheimt hærri gjöld til háskólastigsins og öldungadeildanna en skólarnir sjálfir höfðu sett í sínar fjárhagsáætlanir, þ.e. mismunurinn falli brott, hækkun verði engin. Þetta vildi ég taka fram svo enginn væri í vafa um leið og ég lýsi andstöðu minni við þessar brtt.