Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:21:00 (2486)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan leiðrétta þann misskilning að hér sé um það að ræða að leggja eigi niður Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun. Það er ekki rétt. Það er gert ráð fyrir því að starfrækja heimilið áfram sem fæðingarstofnun. Það hefur hins vegar orðið að samkomulagi milli stjórnenda Borgarspítalans og stjórnenda ríkisspítala, þ.e. Landspítalans, að rekstur Fæðingarheimilisins verði fluttur frá Borgarspítala til ríkisspítalanna. Ríkisspítalarnir munu reka áfram Fæðingarheimili Reykjavíkur sem fæðingarstofnun undir sama nafni en stjórnendurnir munu að sjálfsögðu gera ráð fyrir hagræðingu á milli fæðingardeildarinnar og Fæðingarheimilisins um þann rekstur sem verður sameiginlega á vegum ríkisspítalanna. Ég segi nei.