Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:23:00 (2487)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ég fagna út af fyrir sig yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. hér áðan um að Fæðingarheimili Reykjavíkur muni verða rekið áfram sem fæðingarstofnun en ég verð að lýsa því yfir að ég hef efasemdir um að það muni ganga eftir þó að ég sé sannfærð um það að reykvískar konur muni að sjálfsögðu ganga eftir efndum þessara orða. Efasemdir mínar vakna vegna orða sem höfð hafa verið eftir Davíð Á. Gunnarssyni, forstjóra ríkisspítalanna, í dagblöðum að undanförnu þar sem hann hefur lýst því yfir að óvíst yrði um áframhaldandi rekstur þessa heimilis og að hugsanlega yrði það tekið til einhverra annarra nota. Ég vil geta þess að með fæðingarheimilinu munu eiga að fara um 10 millj. kr. til ríkisspítalanna en rekstur þess kostar ekki undir 50 millj. og mér segir svo hugur að þegar þurfi að fara að hagræða á ríkisspítölunum þá muni verða freistandi fyrir ríkisspítalana að leggja þessa stofnun niður. Þess vegna segi ég að sjálfsögðu já.